19.5.2018 | 20:28
Meira af Hawaiieldum
Ekkert lát er eldsumbrotunum á austustu og eldvirkustu eyju Hawaii eyjaklasans og úr því maður er byrjaður skrifa um atburðina þá er ekki um annað að ræða en að bæta við enn einni færslunni, nú þegar allt er í gangi. Raunar er varla hægt að segja að eitthvað upphaf séu á þessu gosi og endir er varla í sjónmáli, enda er hér um að ræða eina virkustu eldstöð jarðar þar sem næstum er alltaf eitthvað að gerast. Í þeim stuttaralegu fréttum sem við fáum af atburðunum í fjölmiðlum skortir nokkuð upp á heildarsýnina. Kortið hér neðan ætti að gefa betri yfirsýn en þar legg ég áherslu á þá tvo staði sem leika aðalhlutverkið í atburðarásinni. Annars vegar er það gígurinn á Kilauea elddyngjunni sem fóðrar kerfið af kviku og svo er það svæðið niðri í byggðinni 40 kílómetrum frá gígnum þar sem hraunsprungur hafa opnast og kvikan kemur upp.
Það sem þarna á sér stað minnir dálítið það sem gjarnan gerist hér á landi. Kvika leitar út úr megineldstöð og kemur upp sem sprungugos tugum kílómetrum fjarri. Bárðarbunga og Holuhraun er nærtækt dæmi. Ísland og Hawaii eiga það sameiginlegt að vera yfir mjög virkum möttulstrókum. Þó er sá grundvallarmunur að Hawaii-eyjar tengjast ekki flekaskilum eins og Ísland gerir. Sprungugos eru þannig mjög algeng á Íslandi enda eru megineldstöðvarnar okkar og hriplekar vegna gliðnunar landsins. Gosin leita því gjarnar út í sprungukerfin og hindra að stórar eldkeilur myndast innan gliðnunarbeltisins. Öræfajökull er náttúrulega utan gliðnunarsvæðisins og hefur því fengið að vaxa og dafna í friði.
Eyjan þar sem eldgosin eru, gjarnan nefnd Big Island, er á stærð við Vestfjarðakjálkann og rís hátt upp af hafsbotninum. Hæstu eldfjöllin á eyjunni, Mauna Loa og Mauna Kea, eru yfir 4000 metra há og stundum sagt að eyjan sé í heild sinni stærsta og hæsta fjall jarðar frá hafsbotni talið. Kilauea dyngjan er reyndar ekki nema um 1000 metra há en á framtíðina fyrir sér, þar sem eldvirknin þróast með tímanum í suðausturátt. Eitthvað veldur þó sprungumyndun, en eins og ég sé þetta þá virkar kvikuuppstreymið undir Kilauea eins og þegar nagli er rekinn í gegnum trékubb - of nálægt brúninni - þannig að klofningur myndast út frá naglanum. Þannig háttar allavega til þarna á eyjunni að sprungukerfi eru til sitt hvorrar áttar frá kvikuuppstreyminu sem gefur færi á flutningi kviku til beggja átta. Vonum bara að flísinn stóra losni ekki í heilu lagi og steypist í sjó fram.
Sprungureinin til suðvestur frá gígnum hefur verið til friðs un langan tíma en hinsvegar hefur kvika leitað ótt og títt á austursvæðið (East Rift Zone). Í langa gosinu frá janúar 1983 til apríl 2018 náði kvikan þó ekki nema hálfa leið í austur og kom upp við gíginn Puu Oo og rann hraun þaðan til sjávar. Með nýrri innspýtingu frá iðrum jarðar nú vor, náði kvikan að valda þenslu og sprengja sér leið lengra í austur og koma upp á þeim svæðum sem nú gjósa.
Sprungugosin í byggðinni hafa sótt mjög í sig veðrið undanfarna daga eftir að hafa legið niðri þegar ég skrifaði síðasta pistil fyrir viku síðan. Hraunflæði hefur einnig aukist en þau flæða þó sem betur fer að mestu um óbyggð svæði í átt til sjávar. Auk hraunsins þá veldur gasmengun miklum óþægindum en gasuppstreymi hefur haldið áfram þótt sprungur hafi hætt að spúa út úr sér kviku. Öll byggðu svæðin þarna austast á eyjunni eru sennilega áfram í hættu enda ómögulegt að segja hvað úr verður. Þarna getur gosið lengi og hraunrennsli gæti enn átt eftir að færast í aukanna. Á kortinu hér að ofan frá U.S. Geological Survey sést staða mála á svæðinu þann 18. maí. Á kortinu má einnig sjá merkt inn víðáttumeiri hraun frá árunum 1960, 1955 og 1840 enda er hraunsrennsli ekkert nýtt fyrirbæri á svæðinu.
Sprengivirkni í Kilauea öskjunni, eða í Halemaumua gígnum svokallaða, var talsverð í vikunni eins og búist hafði verið við. Þó kannski ekki eins mikil og óttast var og olli ekki teljandi skaða. Þann 16. maí gekk mikið á, en sem betur fer stóð vindur frá mestu byggðinni. Fólk veigraði sér ekki við að spila golf og njóta útsýnisins á golfvelli skammt frá gígnum við Kilauea. Mesta sprengingin var svo skömmu fyrir dögun morguninn eftir, en síðan þá hefur svæðið róast mjög. Hvort allt púðrið þar sé búið í bili vita menn ekki svo gjörla en hættuástand er enn ríkjandi. Askjan þar sem gígurinn er í hefur eitthvað verið að síga og er það til marks upp að kvika færist úr kerfinu ekki ólíkt því sem var í Bárðarbungu á meðan gaus utan jökuls.
- - -
Annars gerist fátt í náttúrunni sem ekki hefur gerst áður. Myndin hér að neðan hefur birst víða og er frá svipuðum stað og sú að ofan. Árið 1924 var einnig líf og fjör í Kilauea eldstöðinni með töluverðri sprengivirkni og öskufalli. Prúðbúið fólk létt sér þó ekki bregða og var mætt til að horfa á herlegheitin úr hæfilega lítilli fjarlægð með tilliti til vindáttar.
- - -
Heimildir: USGS, U.S. Geological Survey og Honululu Star Adviser Einnig má benda ítarleg skrif og umræður á vefnum: Volcano Café
Fyrri pistlar um gosið á Hawaii:
12. maí: Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii
6. maí: Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta.
![]() |
Íbúum bjargað frá glóandi hrauni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 21.5.2018 kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2018 | 18:30
Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii
Þegar þú lesandi góður lest þetta þá gæti vel verið að atburðir þeir sem hér er fjallað um verði með öllu yfirstaðnir. En allavega, þegar þetta er skrifað, Eurovision-laugardaginn 12. maí, er fastlega búist við því að á næstu sólarhringum verði grundvallar fasabreyting á gosinu lífseiga sem staðið hefur á Hawaii allt frá því í janúar 1983. Í síðasta pistli fyrir viku tók ég stöðuna svona almennt á því sem er að gerast þarna, en þá höfðu litlar gossprungur opnast í byggðu svæði, um 60 kílómetrum frá Kilauea elddyngjunni sem er skammt frá risavöxnum nágranna sínum Mauna Loa á stærstu og eldvirkustu eyju Hawaii-eyjaklasans og birti þá meðal annars þetta google-map-kort þar sem ég bætti við helstu atriðum til skýringar en þar eru hæg heimatökin fyrir mig, grafíska hönnuðinn. Jarðfræðingur er ég hinsvegar ekki og þurfti að fletta upp hvað nákvæmlega átt er við með Freatóplínísku gosi, eins og minnst er á í fyrirsögn.
Til átta sig á hvað er að gerast hverju sinni þarna á Hawaii, verður maður helst að leggjast í eigin upplýsingaöflun og þá er auðvitað best í þessu tilfelli að leita beint til jarðfræðimiðstöðvar Bandaríkjanna (USGS, U.S. Geological Survey). Í íslenskum fjölmiðlum er lýsing á atburðunum og staðháttum mjög óljósir og misvísandi, rétt eins og þegar erlendir fjölmiðlar skrifa um jarðelda og afleiðingar þeirra hér á Íslandi. Dæmi um slíkt er hér í viðtengdri frétt þar sem segir meðal annars: "Vísindamenn telja að möguleiki sé á meiri háttar eldgosi úr Kilauea-eldfjallinu á Hawaii. Fjallið hóf að gjósa fyrir um viku og hefur hraun runnið í stríðum straumum frá því síðan" Hér verður að hafa í huga að fjallið Kilauea hefur í raun ekkert verið að gjósa upp á síðkastið og frá því hefur ekki runnið neitt hraun, að minnsta kosti ekki á yfirborðinu.
Kilauea er varla hægt að kalla fjall í venjulegum skilningi en það má kalla það dyngju með lítilli öskju og í þeirri öskju sannkallað Ginnungagap með kviku sem á upptök sín djúpt í iðrum jarðar og tengist möttulstróknum þarna undir austustu eyjunni. Á þeim áratugum sem liðnir eru frá upphafi gossins 1983 hefur kvikan frá Kilauea leitað neðanjarðar til gígsins Puu Oo og þaðan hefur víðáttumikið hraun runnið í átt til sjávar. En svo gerðist það vegna gliðnunar lands af völdum þrýstingsbreytinga að kvika frá öllu kerfinu fann sér leið neðanjarðar lengra austur í átt að byggðum svæðum. Örlítið brot af þeirri kviku hefur leitað til yfirborðs í formi smárra sprungugosa inn á milli húsanna. Hver þessara gossprungna (15 talsins) hefur einungis verið virk í nokkrar klukkustundir og því hefur hraunrennsli verið mjög lítið, en þó auðvitað gert sinn usla.
Með færslu kvikunnar í austur þornaði fyrst gígurinn Puu Oo alveg upp og eftir stóð djúpt gat ofan í jörðina þar sem áður var myndarleg hrauntjörn. Sama er núna að gerast með stóra megingíginn í Kilauea. Fyrir um mánuði náði hrauntjörnin alveg upp að gígbrún og flæddi jafnvel upp úr. Á síðustu dögum hefur hrauntjörnin og kvikan fallið mjög í gígnum samfara tilfærslu kvikunnar í austur og ef svo heldur áfram er hætta á ferðum. Ef kvikuyfirborðið fellur nógu langt niður getur gígrásin stíflast vegna grjóthruns að ofan og þegar kvikan kemst í snertingu við grunnvatn skapast aðstæður fyrir þessa miklu sprengingu sem talað er um, eða hinu svokallaða Freatóplínstu þeytigosi.
Gos nákvæmlega af þessari gerð eru ekki algeng því sérstakar aðstæður þarf til. Hér er það ekki ákaft uppstreymi kviku sem veldur, enda er kvikan frekar á leiðinni niður heldur en upp, áður en sprengingin á sér stað. Vatn og kvika er hins vegar öflug blanda eins og við þekkjum hér á landi þegar gos brýst upp úr jökli þótt þau séu ekki alveg að þessari gerð. Sprengingin mikla sem varð í Öskju árið 1875 er hinsvegar nefnt í bókinni Náttúruvá á Íslandi þar sem segir á bls. 94: "Upphaf gossins var þurr og lágplínítískur en breyttist svo í freatóplínískan fasa."
Ef spár ganga eftir með þessa sprengingu þá verður örugglega ekki um neitt smá fret að ræða en þó alls óvíst að stærðin verði í líkingu við Öskjugosið 1875. Víst er þó að stór björg munu þeytast í loft upp án þess þó að ógna byggðum svæðum. Öskufall gæti hinsvegar orðið talsvert á eyjunni og gosmökkur náð allnokkra kílómetra í loftið á þeim stutta tíma sem atburðurinn varir. Allt er þetta þó hlaðið óvissu og ekki einu sinni víst að nokkuð verði úr.
Framhaldið á hraunflæði niðri í byggðinni er líka alveg óvíst. Eins og er þá hefur engin gossprunga verið virk síðustu tvo sólarhringa og alveg mögulegt að ekkert gerist þar frekar. Vísindamenn eru þó ekki alveg svo bjartsýnir enda hefur mikil tilfærsla kviku átt sér stað sem mögulega gæti komið upp í stríðari strumi en hingað til. Þetta er ekki ósvipað því sem átti sér stað þegar kvikan hljóp frá Bárðarbungu og gaus upp lengst í burtu í Holuhrauni nema að hraunmagnið yrði aldrei sambærilegt. Óneitanlega er þó sérstakt að fá sprungugos í bakgarðinum hjá sér og ekki skemmtilegt ef heimilið fuðrar upp í ofanálag. Hér kemur í lokin samsett yfirlitsmynd frá USGS sem sýnir hvernig hraun hefur runnið í byggðinni. Ljósu skellurnar á dökka hlutanum eru gossprungur og hraun og er hver gossprunga merkt númerum. Langmesta hraunið kom úr einni sprungu sem er nr. 8 á kortinu.
- - -
Heimildir:
USGS, U.S. Geological Survey og Honululu Star Adviser
![]() |
Telja líkur á sprengigosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 13.5.2018 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.5.2018 | 01:54
Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta
Fréttir af eldsumbrotum á Hawaii-eyjum eru áhugaverðar fyrir okkur sem búum hér á landi enda eigum við íslendingar við sömu náttúruógnina að etja og aðstæður að ýmsu leyti sambærilegar. Hér ætla ég að skauta aðeins yfir hvernig þetta lítur út þarna hjá þeim með aðstoð korta frá google þar sem ég hef föndrað inn ýmislegt. Þetta er bæði gert mér sjálfum til glöggvunar og kannski einhverjum fleirum. Fyrst er heildarkort af eyjaklasanum:
Hawaii eyjar eru eyjaklasi sem raðast eftir 2.400 km langri línu á Kyrrahafinu. Þær eiga tilurð sína að þakka öflugum möttulstrók sem er staðsettur undir austustu eyjunni enda er það eina eldvirka eyjan nú á dögum en eldvirkni á öðrum eyjum er útkulnuð. Þessi eyja heitir Hawaii-eyja en er oft nefnd Big Island og er hún stærsta eyjan og jafnframt sú yngsta. Stóra málið hér er að Kyrrahafsflekinn færist hægt og rólega í norðvestur yfir möttulstróknum sem er alltaf á sínum stað og á rætur sínar djúpt í jörðinni. Elstu eyjarnar eru þær sem eru fjærst möttulstróknum í norðvestri og eru þær að mestu eyddar og margar alveg horfnar af yfirborðinu. Yngsta og eldvirkasta eyjan er alltaf sú sem er lengst í suðaustri yfir möttulstróknum hverju sinni. Næsta eyja mun síðan óhjákvæmilega myndast í framtíðinni þar suðaustur af vegna færslu Kyrrahafsflekans yfir stróknum. Á næstu mynd eru við komin á þessa eldvirku eyju þar sem hlutirnir eru að gerast:
Hér á kortinu má sjá suðausturhluta Big Island. Frægasta er þar að telja Mauna Loa, elddyngjuna miklu sem er eitt af kunnustu eldfjöllum jarðar. Þar er allt með friði og spekt núna. Kilauea eldstöðin hefur hinsvegar verið mjög virk alla síðustu öld og fram til þessa. Út frá Kilauea liggur sprungurein sem nær til austasta odda eyjarinnar. Árið 1983 hófst hið lífseiga gos sem stendur enn þann dag í dag og eru atburðir síðustu daga í raun hluti af þeirri atburðarrás. Kvikan er ættuð djúpt úr jörðu undir Kilauea þótt sjálft gosið undanfarna áratugi hafi ekki átt sér stað þar. Kvikan hefur hinsvegar náð til yfirborðs við gíginn Puu Oo, eða þar um kring með mjög lítilli gosvirkni en þunnfljótandi hraunið runnið hægt og rólega til sjávar enda hefur þetta yfirleitt verið einstaklega hæglátt gos og túristavænt. Næsta mynd sýnir svæðið í meiri nærmynd.
Hér sjást aðstæður betur. Svæðið suður af Puu Oo gígnum er nánast alþakið helluhraunum sem runnið hafa hvert af öðru niður hlíðarnar síðustu 35 ár og gjöreitt mörgum mannvirkjum og fjölda heimila. Stundum hafa hraunin náð að renna út í sjó og þykir það ágætis sjónarspil. Árið 2014 gerðist það hinsvegar að hraunið fann sér leið eftir sprungukerfum í austurátt og tók að ógna þorpinu Pahoa og eyddi fáeinum húsum. Mun betur fór þó en á horfðist. Núna um mánaðarmótin apríl-maí gerðist það svo í kjölfar jarðskjálfta að kvika, sem nánast barmafyllti gíginn Puu Oo, fann sér leið neðanjarðar með sprungureininni í austur þannig að eftir sat galtómur gígurinn. Sú kvika, eða einhver hluti hennar, hefur síðan verið að koma upp aftur í Leilani-íbúðahverfinu nánast í bakgarðinum hjá fólki sem örsmá sprungugos, miðað við það sem við þekkjum.
Hér kemur svo nærmynd af Leilani hverfinu þar sem ýmsar smásprungur hafa opnast með hraunslettum en mjög takmörkuðu hraunrennsli enn sem komið er. Talað hefur verið um hraunstróka upp á allt að 30 metra og er þá fullmikið sagt því af myndum af dæma nær sjálfur eldurinn varla yfir trjágróðurinn þótt einhverjar slettur nái hærra. Virkni í hverri sprungu virðist ekki standa lengi yfir en þegar þetta er skrifað hefur verið talað um að alls hafi 8 gossprungur opnast og einhverjar af þeim enn virkar.
Vandinn við þetta gos er ekki krafturinn heldur það að ómögulegt er að segja til um hvar og hvernig þetta endar - eða hvort það endi yfirleitt. Mögulega gæti gosið þarna í byggðinni um langa hríð þannig að stór eða lítil hraundyngja myndist yfir byggðinni en kannski verður þetta bara lítill atburður þarna í byggðinni sem hættir þegar hráefnið sem kom úr Puu Oo gígnum dugar ekki lengur til. Virknin gæti líka færst upp eftir á sinn stað að nýju nær höfuðstöðvunum við gíginn þar sem gosið hefur haldið sig lengst af. Stóri skjálftinn upp á 6,9 stig sem varð þarna þann 4. maí veldur þó sennilega einhverjum áhyggjum. Hvað framtíðina varðar þá er allt þetta svæði þarna yfir möttulstróknum á suðausturhluta austustu eyjarinnar mjög ótryggt því í ljósi þess sem ég minntist á hér í upphafi þá er þróunin í eldvirkni öll í þá átt að þarna byggist upp næsta stóra eldstöð á eyjunum.
- - - -
Viðbót 6. maí: Ekkert lát er á gosinu morguninn eftir að færslan er skrifuð og virðist virkni færast í aukana. Hér er mynd af nýrri gossprungu sem sendir gosstróka upp í 70 metra hæð með auknu hraunrennsli í byggðinni.
- - - -
Myndir, heimildir og stöðu mála má finna hér: https://volcanoes.usgs.gov/volcanoes/kilauea/multimedia_chronology.html
Fyrri bloggfærslur tengdar gosinu á Hawaii:
23.2.2013 Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii
25.10.2014 Hraun ógnar byggð á Hawaii
12.11.2014 Hraunfoss við sorpflokkunarstöð
12.2.207 Sérkennilegur hraunfoss á Hawaii
![]() |
Hraunkvika spýtist 30 metra upp í loft |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)