Um daginn og veginn - aðallega þó veður og umhverfi

Svo við snúum okkur fyrst að veðrinu þá gætum við verið að upplifa hér í Reykjavík, fyrsta almennilega rigningarsumarið síðan árið 1984. Kannski er ég full svartsýn á þessum rigningardegi en fram að þessu hefur allavega verið frekar sólarlítið og blautt í borginni og spáin ekki góð svo langt sem séð verður. Þeim mun betra gæti þá orðið fyrir norðan og austan. Talandi um það, þá datt mér í hug í tilraunaskyni að skrá niður veðrið á Akureyri þennan mánuð með sama hætti og ég hef gert fyrir Reykjavík árum saman. Vefur Veðurstofunnar dugar vel til þess að fylgjast með veðrinu fyrir norðan þó ég sé ekki á staðnum. Samanburðinn má svo birta í bloggpistli eftir næstu mánaðarmót. Fram að landsynningsslagviðrinu í dag, 5. júní, hefur Reykjavík reyndar tekið góða forystu í veðurgæðum hvað svo sem verður.

Ég veit ekki hvort ég muni skrifa lúpínupistil þetta sumar eins og ég hef stundum gert. Ég skrifaði þó í athugasemd um daginn hjá útivistarbloggaranum SigSig að ég væri bæði á móti lúpínu og skógrækt. Ég vissi að búast mætti við neikvæðum viðbrögðum við svona viðhorfum enda kallaði einhver mig blómafasista og taldi mig ekki vilja sjá neitt nema eyðisanda. Almennt er ég á því að það sé ekki okkar hlutverk að reyna að fegra náttúruna auk þess sem náttúruleg fagurfræði er æði afstæð. Íslensk náttúra eins og hún er, án lúpínu og tilbúinna skóga, þykir afar sérstök og er óneytanlega eftirsóknarverð meðal erlendra ferðamanna.

Auðvitað verður þó ekki lifað í þessu landi öðruvísi en að raska náttúrunni hér og þar. Það þarf jú að byggja hús og leggja vegi. Við framleiðum rafmagn með því að virkja náttúruöflunin og því rafmagni þarf að koma til skila. Þrjú stór álver hafa verið reist og þau gera sitt fyrir þjóðarbúið en spurning er hvenær nóg er komið. Ekki síst ef hagnaðurinn verður að miklu leyti til utan okkar hagkerfis. Sjálfum finnst mér þrjú álver alveg rúmlega nóg en til þess að bæta því fjórða við þarf feiknamikið rask á náttúrunni og næstum gjörnýtingu á þeirri virkjanlegu orku sem hægt er að afla, með sæmilegu móti. Nokkuð sérstakt er hvernig Hengilssvæðið var virkjað og stórlega raskað án umræðu á sínum tíma og sér ekki fyrir endann á neinu þar.

Hugmyndir hafa verið kynntar sem snúast um það að skapa "wá-móment" með tilheyrandi raski á náttúrunni. Annarsvegar er það göng ofaní Þríhnjúkagíg sem hingað til hefur verið dulmagnað og nánast ófært ginningargap og magnað sem slíkt. Ef þetta á að verða 100 þúsund-manna ferðamannastaður er um allt annað að ræða. Fólk kæmi þarna í mörgum bílum og rútum, því er holað ofan í jörðina svo það geti sagt wá í smástund og svo aftur upp í rútu. Svipað og eiginlega öllu verra gæti átt sér stað í Esjunni ef þar á koma kláfur alla leið upp sem er auðvitað heilmikið mannvirki. Þangað upp er meiningin að lyfta upp öðrum 100 þúsundum árlega ef ekki fleirum. Sjálfsagt langar mörgum að komast upp á Esju en geta það alls ekki. Með útsýnismannvirki og jafnvel veitingastað ofaná Esju væri verið að skerða mjög upplifun þeirra sem ganga á fjallið á eigin fótum. Aðalmálið er þó að þarna er verið að bæta við einhverju aðskotadóti í náttúruna bara svo að fólk geti sagt wá! - og farið svo niður aftur. Reyndar ekki víst að allir segi wá! í þokunni sem gjarnan er upp á Esju. Spurning hinsvegar hversu margir ákveði að fara á flakk á Esjutoppi bara til að láta bjarga sér rammvilltum eða í sjálfheldu eins og gerist nógu oft nú þegar.

Erfitt getur verið að verða sér úti um gott brauð í stórmörkuðum. Flest álitlegu brauðin eru svo fínlega niðurskorin að maður verður af þeirri ánægju að geta skorið sjálfur og smurt sér væna þykka sneið með góðri ostsneið ofaná. Þau sem hinsvegar eru óskorin eru gjarnan mjög svo aflöng og gefa bara af sér einhverjar smásneiðar eða að þau eru nánast hnöttótt og gefa af sér risavaxnar sneiðar um miðbikið. Já það getur stundum verið vandlifað.

Hraun - álver

Einn góðan veðurdag sunnan Hafnarfjarðar.


Hversu gott eða slæmt var veðrið í júní?

Eins og ég gaf í skyn í síðustu færslu þá ætla ég nú að skoða veðurfarslega einkunn nýliðins júnímánaðar sem fengin er út úr veðurskráningarkerfi mínu og bera saman við fyrri ár. Fyrir þá sem enn ekki vita þá hef ég haldið úti linnulausum veðurdagbókarskráningum frá því í júní 1986 og nota til þess mínar eigin skráningaraðferð sem á að lýsa hinu dæmigerða veðri í Reykjavík á hverjum degi. Aðferðin byggist á því að skipta veðrinu í fjóra þætti: sól, úrkomu, vind og hita og getur hver þáttur verið neikvæður, í meðallagi eða jákvæður. Út frá þessu gef ég svo hverjum degi einkunn á skalanum 0-8. Núll stig fær dagur sem hefur alla þættina neikvæða en átta stiga dagurinn hefur alla þættina jákvæða. Hvort tveggja er að vísu sjaldgæft. Þegar allir dagar mánaðarins hafa fengið sína einkunn er lítið mál að að finna meðaleinkunn mánaðarins sem verður þá auðvitað veðureinkunn mánaðarins.

Nýliðinn júnímánuður fékk samkvæmt þessu kerfi einkunnina: 4,4 sem eiginlega er ekki nógu gott því meðaleinkunn allra skráðra júnímánaða er 4,7. Þetta er samt nokkuð frá því versta því lélegasta júní-einkunnin er 3,6 frá árinu 1988. Allra besta einkunnin fékkst hins vegar árið 2012 í fyrra, 5,9 stig, sem kannski hljómar ekki mikið en á þessum kvarða er það alveg rosalega gott.

Að þessu sinni fékk aðeins einn dagur 7 í einkunn en það var síðasti dagur mánaðarins, 30 júní. Út á hann var ekkert að setja nema goluna sem þýddi að vind-þátturinn var í meðallagi en hinir þrír voru jákvæðir, eða: 1+2+2+2=7. Enginn dagur fékk þó núll eða eitt stig en tveir fengu tvö stig. Það voru 1. og 27. júní sem báðir fengu sín stig fyrir að úrkoman var ekki óþægilega mikil og vindurinn ekki bagalegur. Annað var hinsvegar neikvætt. Einungis þrír dagar fengu sex stig en til þess að sumarmánuður nái sér á strik þarf sú góða einkunn að koma upp mun oftar. Flestir dagar mánaðarins voru því að dóla sér í kringum meðallagið eða þar undir.

Aðrar og hefðbundnari veðurgreiningar læt ég aðra um en hér kemur súlurit yfir veðureinkunnir allra skráðra júnímánaða 1986-2013. Undir því er lauflétt útlistun á því helsta sem einkenndi mánuðina í Reykjavík - hafi eitthvað yfirhöfuð einkennt þá.

Júní einkunnir 1986-2013

1986 4,0  Svalt og afar sólarlítið. Úrkomusamt framan af.
1987 5,1  Sólríkur og þurr mánuður.
1988 3,6  Sólarminnsti júní frá upphafi mælinga. Oft kaldar og hvassar sunnan- og suðvestanáttir.
1989 4,4  Kalt í byrjun þegar Páfinn kom. Síðan hvasst en sólríkt í lokin.
1990 4,5  Þungbúið framan af en sólríkt og gott eftir 17. júní.
1991 5,3  Mjög sólríkt og þurrt. Norðanáttir eða hafgola ríkjandi.
1992 4,0  Kaldur mánuður. Jónsmessuhretið skall á fyrir norðan 23.-24. júní.
1993 4,6  Nokkuð tíðindalítið.
1994 4,5  Nokkuð kalt. Lýðveldishátíðin haldin á Þingvallavegi.
1995 4,3  Frekar tíðindalítið en heldur dapurt í heildina.
1996 4,6  Nokkuð tíðindalítið.
1997 5,1  Sólríkt, þurrt og hægviðrasamt en ekki hlýtt.
1998 5,3  Sólríkt, þurrt og hægviðrasamt með hlýjum dögum seinni partinn.
1999 4,4  Nokkuð tíðindalítið en frekar dapurt í heildina.
2000 4,6  Frægastur er mánuðurinn fyrir Suðurlandsskjálftana.
2001 4,6  Svalt framan af en betra þegar á leið. Sól og þokubakkar síðustu vikuna.
2002 4,9  Óvenju hlýtt lengst af og mesti hiti sem mælst hefur í júní: 22 stig þann 11.
2003 4,6  Hæsti meðalhiti í júní fram að þessu. Annars fremur sólarlítið og blautt.
2004 4,9  Yfirleitt hlýtt og gott
2005 5,0  Aftur yfirleitt hlýtt og gott
2006 4,1  Úrkomusamt og almennt frekar dapurt
2007 5,0  Byrjaði illa en stórbætti sig með sól, þurrki og hlýindum þegar á leið.
2008 5,3  Hlýtt, mjög sólríkt og þurrt en frekar vindasamt framanaf
2009 4,9  Nokkuð breytilegt en þó hægviðrasamt
2010 5,2  Góður og mjög hlýr mánuður sem bætti meðalhitametið frá 2003.
2011 4,9  Svalt framan af en hlýnaði síðan ágætlega. Slæmt norðaustanlands.
2012 5,9  Allt við það allra besta. Hlýtt, sólríkt, þurrt og hægviðrasamt. Toppmánuður!
2013 4,4  Sólarlítið og almennt síðra en undanfarin ár. Þó ekki kalt.

 


mbl.is Sviknir um 90 sólskinsstundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Esjuskaflar

Snjóskaflar í Esjunni eru sígilt viðfangsefni á þessari síðu. Að þessu sinni ætla ég að gera dálítinn samanburð á snjóalögum Esjunnar með aðstoð tveggja mynda. Sú fyrri er tekin frá Öskjuhlíð fimmtudaginn 20. júní 2013 en sú síðari er tekin frá sama stað 19. júní 2011, eða tveimur árum og einum degi fyrr (úr séríunni 365 Reykjavík). Ástæðan fyrir þessum samanburði er sú að mig grunaði að öllu stærri og fleiri snjóskaflar væru núna í Esjunni en verið hefur á sama tíma undanfarin ár. Svo virðist líka vera ef þessar myndir eru bornar saman.

Esja júní 2013

Esja júní 2011

Á efri myndinni frá því núna í ár má sjá talsvert stóra skafla í giljunum neðan Gunnlaugsskarðs (til hægri á myndinni), einnig vestan Þverfellshorns (fyrir miðju) auk ýmissa smáskafla hér og þar sem ekki eru á neðri myndinni. Ástand Esjuskafla sumarið 2011 var þó ekkert óvenju bágborið miðað við önnur ár þessarar aldar og reyndar var það eina árið á þessari öld sem síðasti skaflinn í Gunnlaugsskarði rétt náði að tóra áður en vetrarsjórinn lagðist yfir. Miðað við það ættu að vera talsverðar líkur á að síðasti skaflinn, eða skaflarnir, í Gunnlaugsskarði lifi sumarið af. Það þarf þó alls ekki að vera því auðvitað skiptir veðrið máli. Sumarið 2011 var t.d. mjög þurrt sem sennilega hefur hjálpað sköflunum að lifa lengur það sumar þrátt fyrir góð hlýindi.

Út frá skaflastærð mætti halda að kaldara hafi verið það sem af er þessu ári heldur en 2011. En svo er ekki, 2013 hefur nefnilega verið hlýrra og meira að segja líka júnímánuður. Hinsvegar var vorið í öllu kaldara nú í ár, sérstaklega aprílmánuður sem reyndist vera kaldari en bæði janúar og febrúar enda bætti frekar í snjóinn heldur en hitt í apríl. Samanburðurinn milli þessara ára var enda allt öðruvísi í vorbyrjun eins kemur fram í bloggfærslunni Hvernig kemur Esjan undan vetri? frá því snemma í apríl.

Það er sem sagt alltaf eitthvað til að fylgjast með. Margir hafa orðið fyrir vonbrigðum með veðrið í Reykjavík í júní en síðustu sólardagar hafa þó eitthvað bjargað málum. Í lok mánaðarins held ég að sé tilvalið að skoða veðurfarslega einkunnagjöf júnímánaðar samkvæmt skráningarkerfinu mínu og bera saman við fyrri ár. Eitt er víst að þar á þessi mánuður engan séns í júní í fyrra.
 


Hafísbráðnun sumarsins höktir af stað

Yfir sumartímann fara hlutirnir að gerast á Norður-Íshafinu því þá fer bráðnun hafíssins í gang fyrir alvöru uns hinu árlega lágmarki verður náð í september. Að þessu sinni verður spennandi að sjá hvort bráðnunin verður eins mikil og í fyrrasumar þegar nýtt lágmarksmet í útbreiðslu var sett. Það er þó ekki endilega hægt að búast við nýju meti strax því þótt hafísbreiðunni á norðurslóðum fari mjög hnignandi er ekki þar með sagt að ástandið versni á hverju ári, enda liðu fimm ár frá lágmarksmetinu mikla árið 2007 þar til það var slegið í fyrra. En hver er staðan nú? Verður algert hrun að þessu sinni eða skyldi hafísbreiðan ætla að braggast eitthvað á ný.
Línuritið hér að neðan fengið af vef dönsku veðurstofunnar og eins og skýrt má sjá stendur svarta línan fyrir árið 2013 en síðustu ár eru til viðmiðunnar ásamt meðalgildi áranna 1979-2000.

Hafíslínurit 11. júní 2013
Samkvæmt þessu línuriti og öðrum sambærilegum er greinilegt hlutirnir fara nokkuð hægt af stað að þessu sinni. Útbreiðslan nú er meiri en á sama tíma undanfarin sumur sem hljóta að vera slæmar fréttir fyrir einlæga bráðnunarsinna og að sama skapi frábærar fréttir fyrir ýmsa aðra, enda er ástand íssins á norðurslóðum eitt af hitamálunum í loftslagsumræðunni.
En eitthvað hlýtur að liggja þarna að baki og til að reyna finna að finna út úr því koma hér kort ættuð frá Bremenháskóla sem sýna útbreiðslu og þéttleika íssins. Kortið til vinstri er frá 13. júní 2012 og kortið til hægri frá sama tíma nú í ár.

Hafís 13. júní 2012 og 2013

Munurinn á útbreiðslu íssins milli ára er nokkuð greinilegur enda var ísinn á þessum tíma í fyrra farinn að hörfa vel undan norðurströndum Alaska og Kanada og auk þess orðinn gisinn á þeim slóðum eins og guli liturinn ber með sér á meðan sjálft norðurpólssvæðið var lagt þéttum ís. Hinsvegar er allt annað uppi á teningnum í ár því nú ber svo við að guli liturinn, sem táknar minni þéttleika, er ríkjandi á stórum svæðum nálægt sjálfum norðurpólnum Rússlandsmegin. Þetta er ekki lítið atriði og getur haft mikið að segja um framhaldið í sumar því þessi veika staða svona nálægt sjálfum pólnum er vísbending um að þróunin í ár gæti verið með óvenjulegri hætti en verið hefur áður. Jafnvel þannig að við gætum séð opið íslaust haf á sjálfum Norðurpólnum sem væri mikil nýjung frá því menn fóru að fylgjast með.
En hvernig stendur á því að ísinn nú er gisinn í miðjunni en þéttari nálægt ströndum? Hefur veðrið eitthvað með þetta að gera? Þá er bara að skoða fleiri kort:

Lægð og ísrek júní 2013

Á veðurkortinu til vinstri sem gildir þann 6. júní síðastliðinn sést hvar myndarleg lægð hefur lagt undir sig svæðið við norðurpólinn. Auk vorkulda í Alaska sem tafið hefur bráðnun á þeim slóðum hefur þessi kalda lægð verið mjög þrálát það sem af er sumri og náð að endurnýja sig í sífellu (eftir því sem ég hef fylgst með). Á ísrekskortinu hægra megin sést hvernig ísinn hrekst undan vindum af völdum lægðargangsins sem er einmitt skýringin á því hversu gisinn ísinn er nálægt miðju ísbreiðunnar. Ríkjandi vindáttir og hvassviðri brýtur ísinn upp og hrekur hann frá miðju og nær ströndum meginlandanna eða út úr íshafinu eins og hver önnur þeytivinda. Þetta er gerólíkt ástandinu í júní í fyrra þegar allt var með kyrrari kjörum og hæðarsvæði með tilheyrandi vindáttum sá til þess að ísinn hörfaði frá meginlöndunum, bráðnaði í sólinni og gisnaði á jaðarsvæðum. Síðar gerði svo ágústlægðin mikla mikinn usla í hálfbráðnaðri ísbreiðunni og átti sinn þátt í metlágmarkinu 2012.

Nú er bara spurning með framhaldið. Bræðsluvertíðin á eftir að standa fram í september og nú hefur ísinn hrakist til suðlægari svæða íshafsins, þar sem sólin er hærra á lofti og hlýtt loft frá meginlöndunum skammt undan. Framhaldið gæti orðið athyglisvert. Hugsanlega myndast stórt gat þarna í ísbreiðunni allra nyrst og ef suðlægari svæðin bráðna einnig er alveg möguleiki á óviðjafnanlegu hruni ísbreiðunnar síðar í sumar, þó ég ætla ekki að lofa því - kannski er sumarið einfaldlega of stutt. Bíðum bara og sjáum til, útbreiðslan akkúrat núna segir ekki allt, hafísinn er þynnri en fyrir nokkrum árum og viðkvæmari á alla kanta.

Rétt til glöggvunar í lokin kemur svo hér mynd af metlágmarkinu í fyrra, til að sjá hvað við er að eiga.

Lágmark 2012

 


Art Deco - millistríðsárastíllinn

Tíska og stílbrögð endurspegla tíðaranda hvers tíma. Uppgangstímar einkennast að framfarasinnuðum og framtíðarlegum tíðaranda en þegar upp koma efasemdir um hvort gengið sé til góðs, sprettur rómantíkin fram og með henni ýmis fortíðarþrá og nostalgía. Þegar búið var að skakka leikinn með fyrri heimstyrjöldinni var kominn tími á að kveðja gömlu dagana með einhverju alveg nýju og flottu sem hæfði vel þeim vélvæddu uppgangstímum sem þá tóku við. Art Deco stíllinn féll vel að þessum nýja tíðaranda en upphaf hans er oftast rakið til heimsýningarinnar í París 1925 (Exposition internationale des arts décoratifs et industriels modernes) þar sem hinn nýi skreytistíll, Art Deco, var kynntur til sögunnar og náði hann til allra þátta hönnunar og þá sérstaklega til byggingarlistar og innréttinga allskonar.

Með Art Deco var horfið frá hinum lífrænu og skrautlegu formum Art Nouveau stílsins sem mjög var í tísku upp úr aldamótunum 1900. Það sem við tók var öllu formhreinna og umfram allt tignarlegra. Horn þurftu þó ekki endilega að vera hornrétt og rúnnuð horn gátu alveg gengið á réttum stöðum. Klassísk miðjusetning, eða symmetría, er líka eitt af einkennum Art Deco ásamt lóðréttum línum, enda er þetta upphafinn stíll, ekki ósvipað gömlu klassíkinni. Að þessu leyti er Art Deco ólíkur fúnkí-stílnum sem var mun strangari og bannaði allt skraut, og miðjusetta upphafningu.
Art Deco
Art Deco stílinn má alveg sérstaklega tengja við uppgangstímana í Bandaríkjunum enda urðu menn þar stöðugt ríkari og mikið þurfti að byggja, ekki síst upp í loftið. Chrysler byggingin sem reis á árunum 1928-1930 er fræg fyrir turnspíru sína í ekta Art Deco stíl. Styttan hennar Nínu Sæmundsdóttur fyrir utan Waldorf Astoria hótelið í New York er líka alveg í þessum anda, þannig að við eigum okkar fulltrúa. Tamara de Lempicka er ekki alþekkt nafn en málverk hennar sjást oft og víða og sýna þau á hálf-kúbískan, glamúrlegan hátt, velkjólaðar glæsikonur og menn í fínum frökkum. Við sjáum líka fyrir fyrir okkur fínheitin í Hollywood þar sem kvikmyndaiðnaðurinn blómstraði undir Art Deco stílnum og einnig villurnar og hótelin meðfram litríkum strandgötunum í Flórída. En eins og gengur þá fer tíska úr tísku og ný tíska tekur við. Art Deco fínheitin lifðu af nokkurn vegin kreppuárin en voru dálítið farin að blandast þjóðernisrómantíkum stefnum og ungmennafélagsandanum sem einkenndi árin fyrir seinna stríð, en að því stríði loknu var aftur kominn nýr heimur sem kallaði á nýtt framsækið „lúkk“.

ArtDeco Reykjavík
Art Deco stíllinn barst auðvitað til Íslands og arkitektar, hönnuðir og listamenn urðu fyrir sínum áhrifum meðvitað og ómeðvitað. Innréttingarnar í Hótel Borg hafa nýlega verið endurnýjaðar og færðar til fyrra horfs í ekta Art Deco stíl. Eina húsið í Reykjavík sem algerlega er sagt vera í Art Deco stíl er stóra húsið við Hlemm sem meðal annars hýsti hér áður Útvegsbanka og Náttúrugripasafnið. Byggingin, sem annars hefur lítið fengið að njóta sín, er alveg symmetrísk með rúnnuðum hornum, marglitum glerskreytingum á svölum og lóðréttum stuðlum sem allt er mjög í anda Art Deco. Á ljósmynd sem ég tók af húsinu úr fjarlægð má einnig sjá turn Þjóðleikhússins og ekki annað að sjá en að talsverður útlitslegur skyldleiki sé þar á milli. Guðjón Samúelsson og stuðlabergsstíllinn hans er þannig greinilega undir áhrifum af þessum innflutta stíl. Þetta má einnig sjá af fleiri byggingum Guðjóns eins og Laugarneskirkju, Háskólanum og jafnvel Hallgrímskirkju. Þannig er það nú með alþjóðlegar tískusveiflur - þær eiga það til að smeygja sér víða.


Sumarsól í Reykjavík og á Akureyri 1973-2012

Hvernig verður sumarið? Fáum við enn eitt sólarsumarið hér í Reykjavík eða er komið að rigningarsumri? Er kannski komið að Norðlensku gæðasumri eins og þau gerast best - eða ætlar Austurlandið að taka þetta í ár? Ekki veit ég mikið um það, en hitt veit ég að nú hef ég tekið saman sólskinsstundir síðustu 40 sumra hér í Reykjavík og á Akureyri og sett upp í sitthvort súluritið. Miðað er við sumarmánuðina júní-ágúst og eru upplýsingar fengnar af vef Veðurstofunnar. Fyrst kemur hér Reykjavíkursólin en undir myndinni eru bollaleggingar:
Sumarsól Reykjavík 1973-2012Eins og sjá má hafa undanfarin sumur verið aldeilis sólrík hér í Reykjavík. Sólarsumar mætti kannski miða við 600 klst. markið en samkvæmt því hafa þau verið 6 á síðustu 9 árum. Sumarið 2012 gerði það best á tímabilinu og er eini mánuðurinn sem nær 700 klst. línunni. Júní lagði þar mest af mörkum með 320 klst., sem er það næst mesta sem mælst hefur í Reykjavík. Á fyrri árum leið lengra á milli sólarsumra og samkvæmt skilgreiningunni náðust þau með herkjum árin 1974, 1985 og 1991. Svo eru þarna líka hin annáluðu sólarsnauðu rigningarsumur 1983 og 1984, sitt hvoru megin við 300 klst. línuna. Þessi tvö leiðindasumur í röð voru ekki góð auglýsing fyrir sumarveður í Reykjavík en úr því var bætt árið eftir og eiginlega hefur ekki komið almennilegt rigningarsumar í Reykjavík eftir 1984. En þá er það Akureyrarsólin:
Sumarsól Akureyri 1973-2012Súluritið fyrir sólskinsstundir á Akureyri sýnir heldur meiri stöðugleika en í Reykjavík. Áberandi er þó að þar er sumarið í fyrra einnig á toppnum og það nokkuð afgerandi. Það er enda ekkert lögmál að sólarsumar fyrir sunnan sé ávísun á sólarleysissumar fyrir norðan - og öfugt. Sambandið þarna á milli er nefnilega nokkuð órætt eins og kemur í ljós þegar einstök sumur eru borin saman. Sumrin 1983 og 1984 eru til dæmis ekki í neinum sérflokki á Akureyri hvað sólskin varðar þótt lítið hafi sést til sólar í Reykjavík. Annars hef ég ekki mikið um Akureyrarsól að segja, nema að auk sumarsins 2012 þá kemur sumarið 2000 vel út ásamt sumrinu 2004. Þau sólarnauðustu eru hinsvegar sumrin 1979 og 1993.

Þá er bara að sjá til hvernig sumarið 2013 kemur út. Miðað við veðurspár virðist norður- og austurhluti landsins ætla að taka sólarforystuna til að byrja með, enda suðvestanáttum spáð. Ef sú vindátt verður ríkjandi í sumar þá yrði þetta sumar með öðru sniði en undanfarin ár. En þetta er nú bara rétt byrjunin og veðurfar er illreiknanlegt vikur og mánuði fram í tímann.

 


Evrópukeppnin

Keppnir eru hið besta mál. Sjálfur fylgist ég með ýmsum keppnum hvort sem er í íþróttum og öðru og þar er Eurovision söngvakeppnin engin undantekning. Sumu hefur maður þó engan áhuga á eins og til dæmis hestamótum og keppni í samkvæmisdönsum. Pólitík er líka keppni þar sem menn halda með sumum en öðrum ekki og fagna sigrum yfir andstæðingum, en svo eru líka allskonar keppnir sem eru sífellt í gangi og engin verðlaun í boði eins og hvort einhver mánuður sé heitari eða kaldari en annar eða setji ný og glæsileg veðurmet að einhverju tagi.

En nú er Eurovison mál málanna. Hver meikar það að þessu sinni? Verður það Egilshöll á næsta ári? Hluti að keppnum er að spá í stöðuna og reyna að finna út væntanlegan sigurvegara. Að þessu sinni virðast Norðurlöndin ætla að gera það gott. Ég er á því eins og fleiri að Danmörk og Noregur séu bæði með afskaplega sigurvænleg atriði og það kæmi mér á óvart ef sigurinn lenti annarstaðar. Kannski tökum við þá bara þriðja sætið en það er sjálfsagt dálítil bjartsýni. Sumir fíla Sænska lagið en ég er ekki í þeim hópi. Hvít-Rússar hafa afskaplega mikið langað til að vinna eftir að nágrannarnir í Úkraínu sigruðu með henni Ruslönu hér um árið. Þeir gætu reyndar tekið sigurinn núna með glæsipíu í grísk-ættuðum takti. Grikkirnir sjálfir eru reyndar alltaf álitlegir, að þessu sinni með skoppandi stuttbuxnakarla. Hollendingar og Ungverjar sjá um artý- og krúttlegheitin og standa sig vel í því. Hvað með Bonnie Tyler? Mér finnst hún bara ekkert síðri en í gamla daga og með alveg þokkalegt lag. Meðan fólk getur sungið skiptir aldur og fyrri störf ekki máli. Í tilfinninga- og kraftballöðugeiranum finnst mér Moldavía standa upp úr. Söngkonan rís líka himinhátt á sviðinu með þvílíku sjónarspili að hætt er við að fæstir skynji flottheit lagsins sem hún syngur.

Moldavía eru annars dæmi um land sem maður þekkir ekkert nema í gegnum Eurovision keppnina. Moldavía er greinilega ekki bara mold. Eitt af uppáhaldsatriðum mínum í keppnum síðustu ára er einmitt framlag Moldava árið 2011. Þar eru á ferð hinir miklu stuðmenn í ZDOB ȘI ZDUB flokknum sem keppt hafa tvisvar. Í fyrra skiptið voru þeir með ömmuna í ruggustólnum eins og frægt var en lagið fyrir tveimur árum finnst mér betra. Stelpan á einhjólinu sem þykist spila eða ekki spila á lúður, skemmir ekki fyrir.


 


Loftslag og stóra færibandið

Í loftslagsmálum velta menn því nú fyrir sér hvers vegna lítið sem ekkert hafi hlýnað á jörðinni undanfarin 10-15 ár, á sama tíma og magn gróðurhúsalofttegunda eykst stöðugt. Er virkilega hætt að hlýna og ef svo er - hvers vegna? Ég skal ekki segja, en það sem ég ætla að velta fyrir mér hér og nú, er með hvað hætti sjórinn gæti verið að spila inn í og hvort mögulegt sé að aukinn kraftur í hinu stóra færibandi heimshafanna gæti verið að draga úr hlýnun tímabundið en um leið að valda aukinni bráðnun heimskautaíssins á norðurhveli. Menn ráða hvort þeir taka mark á þessum skrifum enda eru þetta áhugamannapælingar um hluti sem eru örugglega mun flóknari en hér er gefið til kynna.

Fyrst kemur hér súlurit frá Bandarísku veðurstofunni sem sýnir hnattrænan hita frá 1950 en þar sést vel að síðustu 10 ár hafa öll verið mjög hlý en þó í nokkuð góðu jafnvægi, þ.e. hitinn helst hár en hækkar ekki. Svo eru þarna mislitar súlur. Þær rauðu þýða að þá hafi hið hlýja El Nino ástand verið ríkjandi á miðbaugssvæðum Kyrrahafsins, en þær bláu þýða að hin kalda La Nina hafi ráðið ríkjum. Athyglisvert er að frá árinu 1999 er bara ein rauð súla á móti átta bláum. Aukið uppstreymi af köldum djúpsjó á La Nina árum og ýmsar veðurbreytingar samfara því virðist hafa sín áhrif á hnattrænan hita á sama hátt og El Nino árin hafa áhrif til hlýnunar, en þá berst einmitt minna af köldum djúpsjó upp til yfirborðs Kyrrahafsins. Spurningin er síðan af hverju hefur La Nina árum fjölgað á kostnað El Nino?

Hiti jarðar súlurit

Næsta mynd er heimatilbúin og sýnir einhverskonar vatnsgeymi sem mætti heimfæra að hluta á heimshöfin. Í fyrri myndinni er mikil lagskipting í hita þar sem heitt vatn flýtur ofan á mun kaldara og þar með þyngra vatni. Heita yfirborðið ætti við þessar aðstæður að stuðla að ágætum lofthita fyrir ofan sig. Seinni myndin sýnir hins vegar aðstæður þegar búið er að blanda öllu saman, meðalhiti vatnsins er sá sami en yfirborðið hefur kólnað og er því mun líklegra til að hafa kælandi áhrif á lofthita - sé hann á annað borð hærri en þessar 13 gráður. Úthöfin eru einmitt lagskipt í hita. Djúpsjórinn er ekki nema um 3 gráður hvar sem er á jörðinni á meðan yfirborðshitinn fer yfir 20 gráður þar sem hlýjast er. Talsverðu máli hlýtur því að skipta hvort kaldi sjórinn nái upp til að kæla yfirborð sjávar þar sem sjórinn er heitastur við miðbaug, þótt blöndunin verði aldrei nálægt svona mikil enda eru hreyfingar á færibandi heimshafanna í afar miklum hægagangi.

Vatnstankur hiti

Út frá þessari einföldu mynd er hægt að draga þá einföldu ályktun að aukið hringstreymi og aukin lóðrétt blöndun í heimshöfunum geti stuðlað að lægri yfirborðshita sjávar með kælandi áhrifum á loftið fyrir ofan. Stóra færiband heimshafanna er vel þekkt fyrirbæri. Heitur yfirborðssjórinn er léttari í sér og sekkur ekki niður nema þar sem hann nær að kólna nálægt pólasvæðunum. Þannig myndast kaldur djúpsjór sem flæðir með botninum en sogast upp á stöku stað vegna áhrifa vindknúinna strauma. 

Færibandið

Aðal niðurstreymissvæðið á norðurhveli er hér í Norður-Atlantshafi og Íshafinu. Atlantshafssjórinn er talsvert saltur og þar með eðilsþyngri en ferskari sjór og sekkur því auðveldlega þegar hann kólnar og mætir ferskari og kaldari yfirborðsjó úr norðri. Það hversu langt hlýji sjórinn nær norður áður en hann sekkur er auðvitað mjög mikilvægt atriði fyrir loftslag hér á okkar slóðum, en einnig hversu mikill að magni þessi aðkomni hlýsjór er. Ef krafturinn eykst í kerfinu ætti því að hlýna hér (sem hefur gerst) og jafnfræmt ætti hafísinn að minnka í Norður-Íshafi (sem er líka að gerast).
Í Kyrrahafinu er að finna mikilvægasta uppstreymissvæðið í heimshöfunum og aftur komum við að því að ef krafturinn í stóra færibandinu eykst, þá ætti meira magn af köldum djúpsjó að berast upp til yfirborðs, sem einmitt gerist þegar hin kalda La Nina er við völd eins og reyndin hefur verið frá aldamótum. Kyrrahafið er ekki nærri því eins salt Atlantshafið og ræður það sennilega því að djúpsjór myndast ekki í norðurhluta Kyrrahafs.

Umhverfis Suðurskautslandið er sjórinn á stöðugri réttsælis hringferð bæði í efri og neðri lögum og þar myndast kaldur djúpsjór eins og hér norður í Ballarhafi. Aðstæður þarna suðurfrá er þó allt aðrar en hér fyrir norðan. Hafísinn hefur heldur aukist á suðurhveli sem samkvæmt nýlegri rannsókn stafar af breytingum á vindum umhverfis Suðurskautslandið sem ber ísinn lengra norður að vetrarlagi.

Að þessu sögðu þá kemur hér hitafarskort fyrir yfirborðshita sjávar eins og aðstæður voru undir lok árs 2007 þegar eitt af þessum La Nina fyrirbærum hafði komið upp í Kyrrahafi. Á bláu svæðunum í Kyrrahfinu er yfirborðssjórinn kaldari en venjulega enda mikið kalt uppstreymi í gangi undan vesturströndum Ameríku. Hinsvegar er rauði liturinn ríkjandi nyrst í Atlantshafi eins og verið hefur síðustu ár. Allt rímar þetta við mögulegan aukinn kraft stóra færibandsins.

Sjavarhiti nov. 2007

Nú er spurningin hvort menn sætta sig við hröðun stóra færibandsins sem skýringu á því að skort hefur á hlýnun jarðar frá aldamótum á sama tíma og hlýsjór ríkir á Norður-Atlantshafi og Norður-Íshafinu. Margt fleira getur spilað inn í og kannski er ekki hægt að fullyrða að heimshöfin virki bara eins og eitthvað einfalt færiband sem fer mishratt og samtenging Kyrrahafsins og Atlantshafsins er kannski ekki eins mikil og ég hef gefið í skin. En þetta er þó allavega umhugsunaratriði.
Hvernig þetta tengist svo hlýnun jarðar er síðan annað mál. Ef aukinn kraftur færist í lóðrétta blöndun sjávar til lengri eða skemmri tíma, ætti djúpsjórinn að hlýna smám saman og því væri hægt að segja að hlýnun jarðar fari í það um þessar mundir að bræða norðurpólsísinn og hita djúpsjóinn frekar en yfirborðið. Ef svo er og verður eitthvað áfram, gæti það líka frestað þeirri óðahlýnun lofthjúpsins sem áður hafði verið auglýst svo kröftuglega. Hlýnunin mikla gæti þó skilað sér að lokum en á lengri tíma en áður var talið og að sama skapi með langvinnari afleiðingum.

- - -
Þetta var nú frekar langur pistill sem lengi hefur verið í bígerð og hann gæti alveg verið lengri. Textinn er allur frumsaminn en eins og yfirleitt hjá mér eru heimildir héðan og þaðan og sumar þeirra týndar. Ég "bookmarkaði" þó á sínum tíma gestapistil Williams Kininmonth á bloggsíðunni hennar JoNovu, sem reyndar flokkast sem "skeptíkisti", en mér er sama hvaðan gott kemur. The deep oceans drive the atmosphere.

Höfin hafa annars verið að fá aukna athygli undanfarið samanber nýbirta rannsókn Balmaseta, Trenberth og Kallen sem virðast hafa fundið eftirlýsta hlýnun jarðar ofan í hafdjúpunum. Um það má lesa hér: Deep ocean warming helps prove climate change is accelerating.


mbl.is Koltvísýringur í sögulegu hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra snjódagamyndin, 1986-2013

Hér í Reykjavík hafa menn ekki þurft að kvarta yfir snjóþyngslum á liðnum vetri ólíkt því sem verið hefur Norðanlands. Það snjóaði vissulega endrum og sinnum hér í borginni en þó varla neitt til að tala um, fyrir utan kannski ófærðarmorguninn 6. mars. Sá snjór dugði reyndar stutt og var horfinn tveimur dögum síðar. Langoftast var jörð alauð enda voru hávetrarmánuðirnir janúar/febrúar óvenju hlýir og snjóléttir eftir því.

Þetta má meðal annars sjá á stóru snjódagamyndinni sem nú hefur verið uppfærð og sýnir hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík á miðnætti allt aftur til október 1986. Myndin er unnin upp úr mínum eigin athugunum og geta því verið einhver frávik frá opinberum athugunum sem gerðar eru Veðurstofutúni að morgni til. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki, enda stundum aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl eða misflekkótta snjóhulu í mismikilli afturför.

Snjódagar 1986-2013
Samkvæmt þessum athugunum mínum eru snjódagar liðins vetrar aðeins 24 talsins og hafa ekki verið færri frá upphafi skráninga. Fyrra snjóleysismetið voru 32 dagar hlýindaveturinn 2002-2003 og svo voru 33 dagar veturinn 2009-2010, þannig að þetta er nokkuð afgerandi óopinbert met.

Í hinn endann er veturinn 1994-1995 sá hvítasti með 129 daga. Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki eins mikill að magni. Langvinnir snjóakaflar hafa ekki verið tíðir hin síðari ár nema reyndar þarna frá nóvember 2011 til janúar 2012 þegar við fengum einn alhvítasta desember sem um getur.

Nú er bara að vona að vorið hrökkvi almennilega í gang. Einnig að garðsláttuvélar hrökkvi liðlega í gang því stutt er í að grasið fari að spretta í görðum borgarbúa. Á heimskautasvæðum Norðanlands vonumst við líka til að klakabrynjan hörfi sem fyrst af túnum og fótboltavöllum.


Jafn kalt á Íslandi og á norðurpólnum?

Sumarið er komið á Íslandi samkvæmt almanakinu þótt sumarhitar bíði betri tíma og einhver bið sé á því að grundirnar fari að gróa. En þótt kalt sé á Íslandi þarf það ekki að þýða að kalt sé allstaðar samanber kortið sem hér fylgir og sýnir hita á norðurhveli í tveggja metra hæð kl. 12 (GMT) á föstudag. Á kortið hef ég sett inn rauðan punkt við norðurpóllinn og er ekki annað að sjá en hitinn þar sé nokkuð svipaður og á Íslandi, eða nálægt frostmarki miðað við hvar frostmarkslínan liggur. Að vísu má ekki tæpara standa þarna norðurfrá því stutt er í 30 stiga heimskautagaddinn sem hækkandi sólin hefur ekki enn náð að vinna bug á.

Wetter NH 25. apríl
Ég geri ráð fyrir að hiti upp undir frostmark á sjálfum norðurpólnum sé ekki beint venjan í apríl en auðvitað fer hitastig hverju sinni ekki bara eftir breiddargráðum. Kannski er hægt að tala um hitabylgju þarna á norðurpólnum enda streymir þangað hlýtt loft sunnan úr Atlantshafi. Til mótvægis gerir kalda loftið gagnárásir til suðurs, meðal annars til Íslands og veldur einhverskonar kuldakasti hér, sem þó gæti verið mun verra ef hafísinn væri ekki víðsfjarri - ólíkt því sem gjarnan gerðist í gamla daga.

Auðvitað er það mikil klisja að segja að sumarið verði gott ef sumar og vetur frjósa saman eins og víðast gerðist hér að þessu sinni. Veðurfræðingar gera fæstir mikið úr þessari bábilju og segja helst sem minnst um komandi sumar. Á einhverjum tímapunkti  þarf þó sumarið að byrja ef menn vilja halda upp á formlega árstíðaskiptingu. Það að hinn fyrsti Íslenski sumardagur sé í raun tímasettur snemma að vorlagi er til marks um að hér á landi voru lengst af bara tvær árstíðir: vetur og sumar. Aftur á móti er haustið og vorið bara seinni tíma innflutt hugtök eins og hver annar ósiður sem tekinn er upp frá útlöndum.

 


mbl.is Vetur og sumar frusu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að flokka flokka

Stjórnmálaflokkar eiga sér hugmyndafræðilegan bakgrunn og beita sér fyrir framgangi þeirra mála á þann hátt sem fellur best að þeirra heimsmynd og skoðunum. Oft er talað um hið pólitíska litróf sem línulegt samband sem nær frá hinu rauða vinstri til hins bláa hægri með viðkomu í grænni miðju. En auðvitað er þetta flóknara er svo, eins og hefur sýnt í íslenskri pólitík. Á dögunum gekk á netinu spurningalisti á vegum Áttavitans sem staðsetti þátttakendur og stjórnmálaflokka í tveggja ása hnitakerfi. Þannig var lárétti ásinn látinn tákna hið dæmigerðu vinstri / hægri eða réttara sagt Félagshyggju / Markaðshyggju á meðan lóðrétti ásinn táknaði Frjálslyndi / Forsjárhyggju.

áttaviti hnitakerfiÞetta má sjá á meðfylgjandi mynd en þar lenda hægri flokkar hægra megin en vinstri flokkar vinstra megin. Besti flokkurinn er akkúrat á miðjunni og hinir anarkísku Píratar lenda efstir í frjálslyndinu samkvæmt þessu. Vinstri grænir og aðrir félagshyggjuflokkar eru víðs fjarri Sjálfstæðisflokknum og Hægri grænum en Samfylking er ekki fjarri Framsókn rétt neðan við miðju. Þetta er sjálfsagt ágæt skipting þótt deila megi um hvort Forsjárhyggja sé ekki full gildishlaðið orð á neikvæða vísu miðað við Frjálslyndið. Látum það liggja á milli hluta.

 

En dugar þessi mynd til að endurspegla hinn íslenska pólitíska veruleika? Fyrir þremur árum gerði ég tilraun til að flokka flokka á svipaðan hátt og teiknaði upp myndina hér að neðan. Þarna má einnig sjá tvo ása en munurinn er sá að í stað hins lóðrétta Frjálslyndis/Forsjárhyggju-áss er ég með lóðréttan ás sem gengur út á Alþjóðahyggju gagnvart Þjóðernishyggju (sem sumir vildu kannski frekar kalla Þjóðfrelsishyggju vegna neikvæðra skírskotana). Myndina kallaði ég Fimmflokkakerfið og dægurflugur og er hún tilraun til flokkamyndunar út frá þessum skilgreiningum en sýnir þó ekki endilega flokkakerfið eins og það er í raun.

Fimmflokkakerfið

Þarna má sjá tvo vinstri flokka Samfylkingu og Vinstri Græna en það sem aðgreinir þá er misjöfn afstaða til að tengjast stærri ríkjabandalögum sem er mjög stórt mál í dag. Í Ríkisstjórninni sem þessir flokkar mynduðu þurfti annar að gefa eftir í Evrópumálum að hluta, með slæmum afleiðingum fyrir flokkinn og fylgið. Hægra megin við miðju hefur Sjálfstæðisflokkurinn löngum verið allsráðandi. Sá flokkur hefur komið sér fyrir neðan miðju, gegn alþjóðahyggjunni en á í vissum vandræðum því hluti flokksmanna er á öndverðri skoðun. Þess vegna ættu í raun að vera þarna tveir hægri flokkar eins og ég sýni þarna og kalla Sjálfstæðisflokk 1 og 2. Framsóknarflokkurinn er merkilegt og misgagnlegt fyrirbæri í Íslenskri pólitík. Hann er á miðjunni en getur þanist út eða minnkað, stokkið til allra hliða og tengst hverjum sem er, enda aldrei langt að fara.

Allskonar önnur framboð koma fram fyrir hverjar kosningar. Sum þeirra eru ekkert nema dægurflugur sem slá í gegn tímabundið en mörg þeirra eiga aldrei neina von. Ég kalla hér allt slíkt Fluguframboð en í kosningunum nú er eiginlega um heilt flugnager að ræða. Þessi flokkar geta verið gagnlegir til að leggja áherslu á ákveðin málefni en raska ekki mikið fjórflokkakerfinu til lengri tíma.

Hvað kemur upp úr kössunum um næstu helgi á eftir að koma í ljós en möguleikar flokka til að vinna saman er ýmsum annmörkum háð því til þess þarf að gefa eftir hluta af sínum grunnsjónarmiðum. Tengingar milli flokka geta þó verið á ýmsa vegu. Þar snúast hlutirnir ekki bara um hægri og vinstri pólitík. Kannski mun baráttan að þessu sinni snúast um að tengjast miðjunni sem er fyrirferðamikil um þessar mundir.

 


Snjóleysi á Vestur-Grænlandi

Við skulum byrja á því að líta á gervihnattamynd sem var tekin í dag - eins og stundum er sagt í veðurfréttunum. Ísland er í horninu niðri til hægri en svo er Grænland þarna í öllu sínu veldi. Það hefur vakið athygli mína í öllum vetrarharðindunum sem ríkt hafa beggja vegna Atlantshafsins að á austurströnd Grænlands er sáralítinn snjó að finna þar til komið er sjálfri jökulröndinni. Þetta á sérstaklega við um svæðið innan hringsins sem ég hef dregið upp en þar er jökulröndin afar skýrt mörkuð. Svæðið er norðan heimskautsbaugs suður af Diskoflóa og ætti að mínu viti að vera á kafi í snjó nú undir lok vetrar. En er þetta eðlilegt?

Grænland 13. apríl

Þessi vetur sem senn er á enda hefur verið óvenjulegur að mörgu leyti. Vetrarhörkur hafa verið talsverðar í Norður-Evrópu og víða í Bandaríkjunum. Hér á landi hefur snjónum verið mjög misskipt á milli landshluta. Á suðvesturlandi hefur verið mjög snjólétt en á norður- og austurlandi hefur meira og minna verið hvítt í allan vetur, ef undan er skilinn hlýindakaflinn í febrúar. Austanáttir hafa lengst af verið ríkjandi hér á landi í vetur en suðvestanáttin algerlega heillum horfinn og þar með einnig éljagangurinn hér á suðvesturhorninu.

Á Grænlandi er sjálfsagt eitthvað óvenjulegt á ferðinni líka. Allavega hefur verið hlýtt þar á vesturströndinni og miðað við þessa loftmynd hefur einnig verið þurrt því varla eru það rigningar sem valda snjóleysi svona norðarlega til fjalla á Grænlandi. Væntanlega mun þetta snjóleysi hafa sín áhrif á jöklabúskap þessa mikla jökulhvels því gera má ráð fyrir að lítið hafi safnast fyrir þarna vestanmegin í vetur, hvað sem segja má um ástandið okkar megin.

Í heiðríkjunni vestan Grænlands sést að hafísinn heldur sig fjarri Grænlandsströndum vestanverðum en þar er reyndar ekki mikinn ís að finna alla jafna. Það sést hinsvegar grilla í Austur-Grænlandsísinn fyrir norðan Ísland sem heldur sig sem betur fer fjarri okkar ströndum. Ísinn er þó kominn suður fyrir Hvarf þarna allra syðst á Grænlandi þaðan sem hann er farinn að berast með straumum vestur- og norður fyrir eins og lög gera ráð fyrir.

Best að enda þetta á hitafarsmynd frá NASA þar sem sést hvar hitar og kuldar héldu sig um miðjan mars síðastliðinn á norðurhveli. Já það er ekki um að villast hvar hlýindin voru á þeim tíma og líklega má segja að þetta sé nokkuð dæmigert fyrir veturinn.

Hiti NASA mars 2013

Myndin er fengin frá NASA Earth Observatory á slóðinni: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=80804. Þar má líka lesa um ástæður þessara óvenjulegheita.

Efri myndin er einnig frá NASA: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

 


Örlagafrúin Thatcher

Margaret Thatcher var mjög ákveðin kona. Á síðustu mánuðum valdatíma hennar árið 1990, þegar Írakar réðust inn í Kúwait, vissi þáverandi Bandaríkjaforseti, Georg Bush eldri, ekki alveg hvernig ætti að bregðast við, fyrr en hann hitti járnfrúna Margaret Thatcher. Eftir það voru miklar hernaðaraðgerðir skipulagðar og Írakar hraktir á brott í Persaflóastríðinu sem hófst í janúar 1991. Í framhaldinu voru Írakar lagðar í einelti af Alþjóðasamfélaginu, sett á þá alþjóðlegt viðskiptabann auk ýmissa annarra þvingana. Umsátrinu lauk með innrásinni í Írak árið 2003 undir forystu Bandaríkjaforseta Georg Bush yngri.
En Thatcher var líka mikill örlagavaldur í íslenskri pólitík því eftir að hún lét af embætti, heimsótti hana nýráðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddson, sem meðtók frá henni þann boðskap að Íslendingar ættu ekkert erindi í Evrópusambandið. Síðan hefur það verið stefna Sjálfstæðisflokksins að Íslandi gangi ekki í Evrópusambandið og ekki vel séð að imprað sé á slíku.

Þannig man ég þetta allavega.


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Esjan skipar heiðursess á þessari bloggsíðu eins og glögglega má sjá á toppmyndinni. Þetta á ekki síst við í byrjun apríl þegar kemur að því að bera saman snjóalög í Esjunni milli ára með myndum sem teknar eru frá bensínstöðinni Klöpp við Sæbraut. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar átta talsins. Með hverri mynd læt ég fylgja hvenær Esjan varð alveg snjólaus frá Reykjavík séð. Spurningin er hvað verður upp á teningnum í ár. Er vorið komið? - eða farið? Nánar hér neðan mynda:

Esja april 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006
Snjóalög í Esjunni nú undir lok vetrar eru heldur minni en á sama tíma í fyrra, allavega miðað við þann góðvirðisdag sem mynd þessa árs var tekin en síðan þá hefur kólnað á ný og dálítið snjóað til fjalla. Minnstur var snjórinn árið 2010 og hvarf hann allur það ár um miðjan júlí, sem er mjög snemmt. Grunnurinn að núverandi snjósköflum er sennilega það sem lifði af hlýindakaflann mikla í febrúar en fyrri hluta vetrar hafði talsverð snjósöfnun verið í fjallinu. Spáð er kólnandi veðri næstu daga og bakslagi á þeirri vorblíðu sem hér var fyrstu dagana í apríl. Þó hlýtur að teljast líklegt miðað við fyrri ár að Esjan nái að hreinsa af sér allan snjó fyrir næsta haust en á þessari öld hefur það gerst á hverju ári, nema að sennilega vantaði herslumuninn árið 2011.

Eins og kemur fram þá skrái ég Esjuna snjólausa 18. september árið 2012 - í fyrra. Þá vildi reyndar svo til að síðasti skaflinn til að hverfa var ekki í Gunnlaugsskarði eins og venjan er. Sá skafl hvarf 4. september en litli lífseigi skaflinn vestur undir Kerhólakambi lifði hinsvegar til 18. september. Til að flækja málin þá snjóaði í Esjuna 10. september í fyrra en sá snjór hvarf aftur þann 21. september samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Ég læt þó dagsetninguna 18. september standa sem daginn sem snjór fyrri vetrar hvarf.

- - - - -

Til upprifjunar þá bendi ég á eldri bloggfærslu um skaflaleiðangur á Esjuna þann 9. ágúst í fyrra. http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1253901/

Einnig nota ég tækifærið til að minna á myndaseríu mína Reykjavík alla daga ársins sem tekin var árið 2011 en það var einmitt árið sem Esjunni tókst ekki alveg að verða snjólaus eftir hryssingslegt vor en þó ágætis sumar. http://www.365reykjavik.is


Vetrarhitasúlur

Nú, þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki, er komið að súluritinu sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins en sá dæmigerði hiti liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Nánari útlistun á vetrarhitafarinu, sem hefur verið óvenjulegt á sinn hátt að venju, er undir myndinni.

Vetrarsúlur 2012-13
Eins og sést á myndinni þá hefur hitafar vetrarins verið dálítið öfugsnúið og lítið fylgt meðalhita hvers mánaðar. Jafnvel má segja að það hafi meira og minna farið hlýnandi í vetur þangað til kuldakastið skall á snemma í mars. Allavega þá var febrúar hlýjasti vetrarmánuðurinn og sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1965 samkvæmt opinberum gögnum. Janúar var líka mjög hlýr og samanlagt eru þetta næst hlýjustu tveir fyrstu mánuðir ársins í borginni en aðeins jan-feb 1964 voru hlýrri. Hinsvegar voru þetta hlýjustu tveir fyrstu mánuðirnir í Stykkishólmi.
Aðrir mánuðir eru eðlilegri í hita. Marsmánuður gerði sig lengi líklegan til að verða almennilega kaldur en kuldinn mátti sín lítils á daginn eftir því sem sólin fór að hækka á lofti en það er ekki síst dægursveiflan sem skýrir þessar háu rauðu súlur seinni hluta marsmánaðar.
Ég er með tvo daga sem ég skrái sem 9 stig sem er alveg ágætt. Eitthvað var talað um að hitamet hafi verið slegið fyrir janúar í Reykjavík þann 4. þegar hitinn náði mest 10,7 stigum. Frosthörkurnar hafa hinsvegar ekki verið neitt sérstakar en yfirleitt má búast við að allra köldustu vetrardagarnir séu nær 10 stigum í borginni. Kaldasti dagurinn er 5. mars eftir að hitastigið hafði verið í frjálsu falli. Daginn þar á eftir kom hríðarveðrið með ófærðinni og svo öskufokið með hinni óvenju þrálátu austanátt sem meira og minna hefur ríkt í allan vetur.

Eins og með önnur sambærileg veðurgröf þá fer vetrarhitasúluritið í myndaalbúmið Veðurgrafík sem er hérna til hliðar. Ýmislegt skrautlegt er það að finna. Í lokin er svo Esjutoppsmynd þar sem horft er til Reykjavíkur á köldum degi þann 17. mars. Væntanlega verður horft frá hinni áttinni í næstu bloggfærslu um næstu helgi.

Á Esju 17. mars 2013


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband