Færsluflokkur: Tónlist
27.5.2017 | 20:35
Lifandi og látnir popparar
Öðru hvoru berast fréttir utan úr heimi að einhver af stórmennum poppsögunar falli frá. Sumir þeirra yfirgefa heiminn fyrir aldur fram á meðan aðrir ná að tóra fram á gamals aldur. Eins og gengur. Á síðasta ári var heldur meira brottfall í þessum hópi en í meðalári og má þar nefna menn eins og David Bowie, Prince, George Michael að ógleymdum Leonard Cohen. Allt náungar sem eru vel þekktir og hafa meira að segja tveir þeirra troðið upp í sjálfri Laugardalshöll. En það er önnur saga. Það sem ég vildi hinsvegar gera hér er að að taka saman hverjir af hinum frægu eru lífs og hverjir eru liðnir. Eru margir eftir? Jú þeir eru ýmsir þótt vissulega sé margir farnir. Hér kemur fyrst upptalning á helstu, poppurum, rokkurum, pönkurum, röppurum o.fl sem ég tel vera meðal þeirra helstu og eru enn á lífi. Alls 80 aðilar, raðaðir eftir fæðingarári í sviga. Auðvitað eru ýmsir ónefndir þótt frægir séu og verður bara að hafa það. Það komast ekki allir í höllina. Sumir eru líka of ungir. Sá yngsti fær að vera með að því hann er svo mikill Íslandsvinur.
Lifandi:
Fats Domino (1928), Little Richard (1932), Willie Nelson (1933), Jerry Lee Lewis (1935), Dusty Springfield (1939), Tina Turner (1939), Dionne Warwick (1940), Ringo Starr (1940), Joan Baez (1941), Bob Dylan (1941), Joan Baez (1941), Paul Simon (1941), Aretha Franklin (1942), Barbra Streisand (1942), Brian Wilson (1942), Paul McCartney (1942), Mick Jagger (1943), Keith Richards (1943), Diana Ross (1944), Jon Anderson (1944), Ray Davis (1944), Brian Ferry (1945), Neil Young (1945), Debbie Harry (1945), Eric Clapton (1945), Ian Gillan (1945), Rod Steward (1945), Van Morrison (1945), Barry Gibb (1946), ABBA (1945, 1945, 1946, 1950), David Gilmore (1946), Patty Smith (1946), Syd Barret (1946), Elton John (1947), Carlos Santana (1947), Jeff Lynne (1947), Cat Stevens (1948), Robert Plant (1948), Donna Summer (1948), Ozzy Osborne (1948), Billy Joel (1949), Bruce Springsteen (1949), Mark Knopfler (1949), Tom Waits (1949), Peter Gabriel (1950), Stevie Wonder (1950), Phil Collins (1951), Sting (1951), David Byrne (1952), Elvis Costello (1954), David Le Roth (1954), Johnny Rotten (1956), Bruce Dickinsson (1958), Simon Le Bon (1958), Madonna (1958), Morrissey (1959), Bono (1960), Axl Rose (1962), Jon Bon Jovi (1962), Lenny Kravitz (1964), Celine Dion (1968), Thom York (1968), Jay Z (1969), Mariah Carrey (1969 eða 1970), Snoop Dogg (1971), Eminem (1972), Liam Gallagher (1972), Robbie Williams (1974), 50 Cent (1975), Britney Spears (1981), Beyonce (1981), Justin Timberlake (1981), Justin Bieber (1994).
- - - -
Hér á eftir koma svo þeir helstu sem eru ekki lengur á meðal vor en lifa áfram í sínum verkum. Alls 40 aðilar. Talan á eftir sviga segir til um aldurinn er þeir létust. Meðalaldurinn er kannski ekki hár en aldurstalan sem kemur afgerandi oftast fyrir er 27, sem þykir sérstakt.
Látnir:
Woody Guthrie (1912-1967) 55, Billy Holiday (1915-1959) 44, Frank Sinatra (1915-1998) 83, Dean Martin (1917-1995) 78, Nat King Cole (1919-1965) 45, Hank Williams (1923-1953) 29, Bill Haley (1925-1981) 56, B.B. King (1925-2015) 90, Chuck Berry (1927-2017) 90, Serge Gainsbourg (1928-1991) 63, Ray Charles (1930-2004) 73, Johnny Cash (1932-2003) 71, James Brown (1933-2006) 73, Leonard Cohen (1934-2016) 82, Elvis Presley (1935-1977) 42, Buddy Holly (1936-1959) 23, Roy Orbison (1936-1988) 52, Marvin Gaye (1939-1984) 44, Dusty Springfield (1939-1999) 59, John Lennon (1940-1980) 40, Frank Zappa (1940-1993) 53, Otis Redding (1941-1967) 26, Jimi Hendrix (1942-1970) 27, Lou Reed (1942-2013) 71, Janis Joplin (1943-1970) 27, Jim Morrison (1943-1971) 27, George Harrison (1943-2001) 58, Bob Marley (1945-1981) 36, Freddy Mercury (1946-1991) 45, David Bowie (1947-2016) 69, Maurice Gibb (1949-2003) 53, Robin Gibb (1949-2012) 62, Joe Strummer (1952-2002) 50, Michael Jackson (1958-2009) 50, Prince (1958-2016) 57, George Michael (1963-2016) 53, Whitney Houston (1963-2012) 48, Chris Cornell (1964-2017) 52, Kurt Cobain (1967-1994) 27, Amy Winehouse (1983-2011) 27.
- - - -
Á eftir þessu öllu saman er ekki hægt annað en að fá almennilega Músík. Fyrir valinu er tónleikasýnishorn frá árinu 1976 með Bruce Springsteen sem þarna er alveg sprelllifandi eins og í dag. Með honum á sviði er hið stórgóða E-Street band með mörgum snillingum innanborðs þótt þeir komist ekki í flokk hinna allra frægustu. Ég nefni þar sérstaklega saxófónleikarann Clarence Clemons sem því miður er fallinn frá. Sá náungi setti sterkan svip á bandið og var mikill vinur Bruce sem kallaði hann ávallt "The Big Man". Það má tileinka honum þetta sýnishorn. Lagið er klassískt, Twist and Shout, sem ýmsir hafa spreytt sig á, en upphaflega var lagið vinsælt með The Isley Brothers árið 1962. Mikið rokk, en þó með hægum "Slow Rocking" millikafla. Mjög gott.
Tónlist | Breytt 28.5.2017 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2015 | 10:10
Hví er ég?
Vísindin, trúarbrögðin og heimspekin hafa glímt við hin erfiðustu mál en samt er stóru spurningunum enn ósvarað eins og þeim sem snúast um hvað heimurinn sé í raun og veru. En þótt fátt sé um svör þá búum við okkur til einhverja heimsmynd sem við reyndar getum ekki hugsað alveg til enda. Fjarlægu og stóru viðfangsefni skipta reyndar ekki svo miklu máli í okkar daglega amstri og ættu ekki að valda okkur neinu hugarangri. Þetta er bara annað hvort svona eða hinsegin.
Aðeins öðru máli gegnir um spurninguna um okkur sjálf og það sem stendur okkur allra næst. Hver erum við og þá sérstaklega: Hver er ég? Af hverju er ég ég? Ég veit það allavega ekki. Hver tillaga að svari sem stungið er upp á, vekur upp aðrar enn erfiðari spurningar. Annars er aldrei að vita nema maður sjálfur sé sá eini í heiminum sem veit eitthvað af sér. Aðrir eru bara einhverjir sálarlausir statistar. Eða þá að heimurinn sé bara til sem ímyndun í kollinum á mér. Sennilega er það samt ekki þannig og reyndar næstum örugglega ekki þannig. Öll erum við einhver, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. En hvað ræður því hver er hver? Hví er ég, ég en ekki þú? Þó ég viti það ekki svo ofboðslega gjörla þá er hitt víst, að í einhverju fínasta atriði í íslenskri tónlistarsögu, er einmitt þessari spurningu velt upp.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.5.2015 | 21:53
Grafísk Eurovision
Á hverju ári stendur ein þjóð uppi sem sigurvegari í Evrópsku söngvakeppninni. Þjóðirnar sem taka þátt hafa verið mis sigursælar í 60 ára sögu keppninnar en af einhverjum orsökum erum við meðal þeirra þjóða sem enn hafa ekki fagnað sigri. Það mun ekki breytast í ár en eins og með margar Austur-Evrópuþjóðir þá höfum við þá afsökum að hafa ekki verið með frá byrjun.
Kortið hér að ofan er úr teiknismiðju bloggarans og sýnir hvaða þjóðir hafa unnið söngvakeppnin allt frá því fyrsta kepnnin fór fram í Sviss árið 1956 sem lauk með sigri heimamanna. Fyrstu árin var það ekki föst regla að keppnin færi fram í landi sigurvegara síðasta árs en allt frá árinu 1981 hefur það verið raunin. Árið 1969 var keppnin haldin á Spáni en þá voru fjögur lönd sem unnu kepnnina. Á teikningunni læt ég ferilinn fara til Hollands þar sem næsta keppni fór fram.
Ekki voru þátttökuþjóðirnar margar í fyrstu keppninni í Sviss árið 1956 þegar einungis 7 þjóðir kepptu, en hver þeirra fékk þó að flytja tvö lög. Á upphafsárunum komu þátttakendur aðallega frá Vestur-Evrópu en Luxemburg, Frakkland og Holland voru lang sigursælust framan af. Norðurlandaþjóðirnar týndust svo fljótlega inn og fyrsti Norðulandasigurinn vannst árið árið 1963 þegar Danir fluttu sína "Dansevise". Sigursælastir hafa verir Írar en þeir unnu fyrst með henni Dönu "All Kinds of Everything" en á tímabili virtist alveg sama hvaða þeir komu með - alltaf unnu Írarnir, þ.e. þrjú ár í röð 1992-94 og svo enn einu sinni 1996. Austur-Evrópuþjóðirnar hrúguðust svo inn á tíunda áratugnum og fjölgaði enn meir eftir því sem gömlu alþýðuveldin klofnuðu. Austurhlutinn tók keppninni af mikilli alvöru og stal senunni hvað eftir annað á fyrstu árum aldarinnar. Norðurlandaþjóðirnar hafa þó gert það gott á síðustu árum á meðan gömlu virðulegu nýlenduveldin og herraþjóðirnar í vestrinu hafa hvað eftir annað setið í súpunni.
Hvað gerist í ár og hvar verður keppnin næst? Allavega ekki í Egilshöll - okkar tími er enn ekki kominn. Nú lágu Danir loks í því og ekki átti finnskt sambýlispönk upp á pallborðið meðal fjöldans. Það var þó mun skemmtilegra atriði en t.d það Sænska sem þó gæti verið sigurstranglegt. Nema að Norðmenn taki þetta, þeir eru sterkir í ár. Svo er verið að tala um Ítalina sem bjóða upp á mikla tenóra-orgíu. Mitt uppáhald er reyndar Eistland að þessu sinni. Einnig er ég mjög sáttur við Ungverjaland og Slóveníu. Ég veit ekki með Ástralíu sem fá að vera með sem gestir að þessu sinni. Ég fíla það lag allavega ekki auk þess sem Ástralskur sigur væri svolítið mikið út úr kortinu.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2015 | 22:09
Tvö bestu íslensku dægurlög 21. aldar
Það má alveg leyfa sér smá fullyrðingasemi í fyrirsögnum en samkvæmt mínum eigin dómsúrskurði eru það tvö íslensk dægurlög sem ég vil nefna sem þau bestu sem út hafa komið það sem af er 21. öldinni. Þetta þarf þó ekki að vera endanlegt mat hjá mér. Kannski verð ég á annarri skoðun á morgun og sjálfsagt og vonandi eiga jafn góð eða betri dægurlög eftir að dúkka upp síðar. Dægurlög eru líka bara dægurlög sem eiga að létta manni lífið innan um dægurþrasið. Nóg er annars af þrasinu, ekki síst í bloggheimum og ekki viljum við eintómt tuð, það þarf líka að vera stuð, líka smá sveifla og góður fílingur. En vindum okkur þá í músikkina.
Fyrra lagið sem ég kynni til sögunnar er lagið Glúmur með hljómsveitinni Sprengihöllinni sem sló heldur betur í gegn árið 2007 með hverri snilldinni á eftir annarri. Höfundur lagsins er RíóTríó sonurinn Snorri Helgason sem jafnframt syngur lagið og er skrifaður fyrir textanum ásamt Bergi Ebba Benediktssyni, sem uppskar íslensku tónlistarverðlaunin fyrir textagerð í kjölfar útgáfu fyrstu plötunnar þar sem umrætt lag er að finna. Glúmur er svo sem enginn gleðivísa. Þetta er harmrænt kaldhæðið rokklag en um leið grátbroslegt lag um mann sem fittaði ekki alveg inn í samfélagið en fór víða. Mann sem drakk í sig lífið eins og segir í textanum og kynntist bæði Geirfinni og Ciesielski var með þeim báðum í Breiðuvík. Glúmur þessi er þó sjálfsagt uppskálduð persóna sem og annað sem viðkemur textanum. Við eigum álíka sönglög frá fyrri tíð um undirmálsmenn eins og Minning um mann og Gvend á Eyrinni en hér er þó allt af tragikómískara taginu. Harmræn söngrödd Snorra Helga hæfir tilefninu. Stutt er þó í léttleika og spilagleði sem skilaði sér vel beinni útsendingu í Kastljósinu, þaðan sem upptakan er fengin.
Þá er það seinna lagið sem er með hinni geðþekku og mannmörgu hljómsveit Ojba Rasta. Það er þó ekkert ojbarasta við lagið sem ber nafnið Baldursbrá en þar er meðal annars minnst á fiðrildi í hvirfilbyl og ást á almættið. Höfundur lags og texta er Arnljótur Sigurðsson sem jafnframt sér um sönginn í þessu lagi. Eins og sjálfsagt aðrir í hljómsveitinni er hann fjölhæfur tónlistamaður sem hefur auk þess áhuga á vísindum og skák, eftir því sem heimildir herma. Hljómsveitin Ojba Rasta er að vísu ekki til lengur en hún fiktaði mjög við Raggí-taktinn með góðum árangri eins og reyndar fleiri. Nafn hljómsveitarinnar er vísun í Rastafari hreyfinguna sem er grundvöllur Raggie-menningarinnar á Jamaica og þar tilbáðu menn keisarann og ljón Afríku, Haile Selassie sem ríkti í Eþíópíu á fyrri öld. Til að hlýða á lagið hef ég kosið að spila lagið eins og það kemur af skepnunni en það má einnig finna læf í upptöku úr Kastljósinu ef einhver vill. Hinsvegar er plötuumslagið skemmtilegt þar sem maður með ljónshöfuð situr á íslenskum hesti. Takið einnig eftir fjöllunum sem ættuð eru frá Hornafirði og frumskóginum sem gjörður er úr spergilkáli.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2014 | 23:15
Allir í pollagallana
Ég endaði síðustu bloggfærslu á því að auglýsa að næsta færsla skyldi fjalla um Eurovision og skal nú staðið við það með ánægju. Og hvað skal segja? Auðvitað var virkilega flott að strákarnir okkar - eða pollarnir okkar - skulu hafa náð í gegn og það áttu þeir líka skilið. Ég er á því að þetta sé eitt það besta sem við höfum sent í þessa keppni frá upphafi, allavega það skemmtilegasta. Spilagleðina vantar ekki, þetta er gleðirokk, litríkt og já, með boðskap, sem mér finnst nú reyndar vera aukaatriði í þessu öllu saman. Hver er ekki sammála því að allir skuli vera góðir við alla?
Úrslit í þessum fyrri undanúrslitunum voru flest eftir bókinni en það voru eiginlega smáríkin tvö Ísland og San Marínó sem komu á óvart. Sjálfur get ég sagt að ég hafði 9 af löndum 10 rétt í stöðumati áður en úrslitin voru tilkynnt. Átti reyndar von á að Portúgal kæmist loksins áfram og færi inn í stað San Marínó. En Portúgal á fáa nágranna og það eru fáir sem dansa í takt við þá. En nú er bara að drífa sig í pollagallana og fylgjast með sigurgöngu okkar manna. Sú leið verður grýtt áfram. Í aðalkeppninni á laugardagskvöld munum við keppa við stórar örlagaballöður með tilkomumiklum háum-C-um. Þar fara Svíar fremstir í flokki og eru ávallt sigurstranglegir enda gera Svíar alltaf allt rétt allstaðar. Við höfum hinsvegar leikgleðina að vopni í atriði sem er óformúlulegt, vitlaust og barnalegt en umfram allt í góðum fílingi.
Jæja, mér dettur svo sem ekkert meira í hug en til heiðurs Portúgölum kemur hér atriði þeirra tekið upp á heimavelli sem virðist vera sjónvarpssalur Portúgalska ríkissjónvarpsins. Greinilega eru ekki allir búnir að dressa sig upp, mannskapurinn að mestu ómálaður og ýmsir bara ennþá á hlýrabolunum. Allir gera þó sitt besta og takturinn er á sínum stað - ekki síst hjá táknmálstúlkinum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2014 | 18:48
Pollapönk og svikið kosningaloforð í Söngvakeppninni.
Það virðist fáu vera að treysta í þessum heimi og allra síst kosningaloforðum. Nú hefur verið ákveðið að Eurovisonframlag Íslendinga í ár verður flutt á ensku eins og svo oft áður. Þetta er dálítið sérstakt því þegar kosið var á milli þeirra tveggja laga sem náðu lengst í keppninni, var skýrt og greinilega tekið fram að þau yrðu þá sungin á því tungumáli sem þau yrðu flutt á í sjálfri keppninni í Danmörku. Þessi nýbreytni var gerð með það í huga að kjósendur gætu valið á milli tveggja síðustu lagana í sem endanlegustu mynd og þá alveg sérstaklega hvað varðar tungumálið.
Pollapönkslagið, Enga fordóma, var flutt á íslensku þarna fyrir lokakosninguna, nema lokahluti lagsins sem var sunginn á ensku. Þetta fannst mér ágætt fyrirkomulag og ég kaus lagið í þeirri góðri trú að Evrópubúar fengju nú að heyra framlag okkar sungið á hinu ylhýra forna tungumáli en enskan tekin í lokin svo allir skilji innihaldið. Einnig fannst mér íslenski textinn fara laginu afskaplega vel, burt séð frá innihaldinu. Burtu með fordóma og annan eins ósóma, verum öll samtaka þið verðið að meðtaka
o.s.frv. Þetta smellpassaði við taktinn í laginu en þegar kom að enska hlutanum flattist lagið út og varð venjulegra. Predjudice yfirtók fordóma. Það var Bandaríski söngvarinn og Íslandsvinurinn mikli John Grant sem mun hafa snarað textann yfir á ensku. Sennilega telst það gott til afspurnar enda er John Grant fínn tónlistarmaður og heimsfrægur á Íslandi.
En nú hefur sem sagt verið ákveðið að lagið skuli aldeilis ekki neitt flutt á íslensku heldur bara á ensku og það er Sjónvarpið sem ræður því. Þetta verður því ekki eins lofað var fyrir kosningar. Svikið kosningaloforð - ekkert flóknara en það. Í Fréttablaðinu var fjallað um þetta á dögunum og vitnað í Heru Ólafsdóttur framkvæmdastjóra keppninnar og sé rétt haft eftir segir hún: Það er auðvitað almenningur sem kýs lagið en við höfum alltaf vald til að breyta. Þessi orð eru afskaplega áhugaverð og lýsa í raun hvernig lýðræðið virkar. þ.e.: Þið kjósið útfrá því sem við lofum en við ákveðum svo hvernig hlutirnir verða. Þessi ágæta kona gæti kannski gert það gott í Framsóknarflokknum.
Ég er þó áfram mjög sáttur við framlag okkar að þessu sinni jafnvel þó það sé eingöngu flutt á ensku. Kannski bara eitt það allra besta. Er þó bara dálítið spældur og hissa á svona hringlandahætti og að ekki skuli staðið við það sem sagt er. Lagið er þó áfram skemmtilegt, gott bít og stuð á sviðinu. Fyrstu viðbrögð útlendinga við laginu á You-Tube voru frekar neikvæð. Fáir skildu hvað við vorum að pæla með svona vitleysu. Eða eins og einn segir: I just can't believe that you think that this is gonna do great on Eurovision! First time Im dissapointed of icelandics... Þetta virðist þó hafa breyst nokkuð hjá álitsgjöfum eftir því sem þeir heyra lagið oftar nema að enska útgáfan geri gæfumuninn þrátt fyrir allt - eða eins og einn segir: Im actually starting to like this.... what is wrong with me?
Hér er vídeóið af laginu sem gert var fyrir keppnina. Miklir leikrænir tilburðir eru þarna á ferð sem eiga að undirstrika boðskap lagsins. Það vekur athygli mína hér að hvergi er söngvarinn sýndur syngja, sem endurspeglar væntanlega hringlandann með tungumálið. Meira er hinsvegar af nærmyndum af hljóðfæraleikurum og öðrum leikaraskap og veikir það áhrifamátt tónlistarinnar sjálfrar og gerir boðskapinn að aðalatriðinu í staðinn. Sem er ekki slæmt í sjálfu sér.
Ein pæling áður en ég hætti og á kannski við ef okkur mun ganga afleitlega. Persónulegar vinsældir og óvinsældir flytjenda skipta gjarnan máli við val okkar á keppendum í Eurovision. Símakosning ræður mestu um hverja við sendum og má gera ráð fyrir að krakkar og aðrir pollar séu duglegir við að hringja, jafnvel hvað eftir annað á meðan eldri og heldri borgarar láta sér nægja kannski eitt símtal úr gamla heimilissímanum, ef þeir þá kjósa á annað borð. Væri kannski sniðugt að virkja nýbúa þessa lands frá Evrópu sem mikið úrval er af hér á landi? Fólk sem þekkir ekki muninn á Bubba og Bjögga er líklegra til að velja fyrst og fremst lag en ekki flytjendur og það alveg án nokkurra fordóma.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.10.2013 | 22:34
Big Country - The Crossing
Ég hef stundum brugðið út af vananum og fjallað um hljómsveitir eða grammófónsplötur sem skiptu máli í mínu tónlistaruppeldi. Þegar maður var á menntaskólaaldri var ekkert sjálfsagt mál að fjárfesta í heilli hljómplötu enda var slík ákvörðun iðulega vel ígrunduð. Maður var alltaf opinn fyrir einhverju nýju og spennandi í músíkinni hvort sem það var í gegnum plötudóma í blöðunum, eða með áhorfi á Skonrokkið í Sjónvarpinu.
Það hefur þó sennilega verið í útvarpsþætti á Rás2 árið 1984 að ég heyrði fyrst talað um skosku hljómsveitina Big Country þar sem hljómsveitin var til umfjöllunar ásamt hinni írskættuðu U2, sem einnig var að kveða sér hljóðs á þessum árum. Fremstur í flokki Big Country var söngvari og aðallaghöfundur hljómsveitarinnar, Stuart Adamson - mikið gítarséní sem gat meðal annars látið rafmagnsgítarinn hljóma eins og sekkjarpípur og fleira í þeim dúr og gaf þannig hljómsveitinni ákveðinn etnískan tón.
Þetta hljómaði allt mjög áhugavert og fyrr en varði var ég búinn að eignast fyrstu breiðskífu sveitarinnar, The Crossing og varð ekki fyrir vonbrigðum enda eðalgripur á ferð. Umslagið var sterkt og stílhreint þar sem lógó sveitarinnar var silfurþrykkt á bláan bláan flöt. Textablaðið var skreytt pennateikningum í anda Enid Blyton-bókanna en textarnir tengdust ýmis konar raunum sem erfitt er að fást við. Þetta var ekki létt plata. Best naut platan sín á háum styrk í heyrnatólum og eftir hverja hlustun sat eitthvað eftir sem varð til þess að hún rataði alltaf aftur á fóninn - hafi hún á annað borð farið þaðan.
Big Country er ekki stórt nafn í tónlistarsögunni í dag, sem er annað en hægt er að segja um kollega þeirra í U2 sem átti aldeilis glæsilegan feril framundan. Það heyrist sjaldan í þeim á útvarpsstöðvunum nú til dags en gerist þó stöku sinnum. Þekktasta lagið af The Crossing er sennilega fyrsta lag plötunnar, In a Big Country sem annaðhvort dregur nafn sitt af hljómsveitinni eða öfugt en upphaflega mun The Big Country hafa verið nafn á Amerískri kúrekamynd.
Það er þó ekki mikill kúrekabragur á hljómsveitinni, kannski frekar skoskur hálandabragur með dálitlu "eightís" yfirbragði. Kannski var þetta eightís yfirbragð einmitt vandi Big Country-manna þegar á leið - þeir þróuðust ekki áfram í tíðarandann sem tók við með hljómsveitum á borð við Nirvana og Metallica að ógleymdum hinum tilraunaglöðu U2. Þeir vildu þó gera meira og verða stærra nafn t.d. í Bandaríkjunum en raunin varð á og eru reyndar ekki einir um það. Ég keypti einnig aðra breiðskífu sveitarinnar, Steeltown. Sú er mjög góð á köflum en ekki eins góð í heildina finnst mér. Frá Big Country komu líka tvö mjög frambærileg smáskífulög sem rötuðu ekki á breiðskífur. Það eru lögin Wonderland og Look away sem eru meðal þeirra þekktustu laga.
Big Country hætti á tímabili en er þó starfandi með hléum í dag með nýjum söngvara (ekki góðum). Því miður fór ekki vel fyrir Stuart Adamson því eftir talsverða óreglu tók hann sitt eigin líf árið 2001 og er hans sárt saknað af mörgum en með fráfalli hans hefur hljómsveitin öðlast vissan ódauðlegan sess ef svo má að orði komast.
Það er nauðsynlegt að enda tónlistarpistil með tónlist og fyrir valinu er lokalag plötunnar The Crossing, Porrohman - í lifandi flutningi frá eldri tíð. Þetta er mikið lag, sjö og hálf mínúta. Glæsilegur hrynjandi og rafmagnsgítarspil sem lítið er truflað af söng fyrstu 5 mínúturnar og með sýnishorni á þriðju mínútu hvernig á að láta gítar hljóma eins og sekkjarpípur. Það er þó spurning hvort seinasti hluti lagsins standi alveg undir væntingum eftir þetta mikla og glæsilega forspil. Það er þó alveg þess virði að setja heyrnatólin á sig og hækka vel í græjunum, hlusta svo aftur á morgun og líka daginn þar á eftir.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2013 | 16:28
Evrópukeppnin
Keppnir eru hið besta mál. Sjálfur fylgist ég með ýmsum keppnum hvort sem er í íþróttum og öðru og þar er Eurovision söngvakeppnin engin undantekning. Sumu hefur maður þó engan áhuga á eins og til dæmis hestamótum og keppni í samkvæmisdönsum. Pólitík er líka keppni þar sem menn halda með sumum en öðrum ekki og fagna sigrum yfir andstæðingum, en svo eru líka allskonar keppnir sem eru sífellt í gangi og engin verðlaun í boði eins og hvort einhver mánuður sé heitari eða kaldari en annar eða setji ný og glæsileg veðurmet að einhverju tagi.
En nú er Eurovison mál málanna. Hver meikar það að þessu sinni? Verður það Egilshöll á næsta ári? Hluti að keppnum er að spá í stöðuna og reyna að finna út væntanlegan sigurvegara. Að þessu sinni virðast Norðurlöndin ætla að gera það gott. Ég er á því eins og fleiri að Danmörk og Noregur séu bæði með afskaplega sigurvænleg atriði og það kæmi mér á óvart ef sigurinn lenti annarstaðar. Kannski tökum við þá bara þriðja sætið en það er sjálfsagt dálítil bjartsýni. Sumir fíla Sænska lagið en ég er ekki í þeim hópi. Hvít-Rússar hafa afskaplega mikið langað til að vinna eftir að nágrannarnir í Úkraínu sigruðu með henni Ruslönu hér um árið. Þeir gætu reyndar tekið sigurinn núna með glæsipíu í grísk-ættuðum takti. Grikkirnir sjálfir eru reyndar alltaf álitlegir, að þessu sinni með skoppandi stuttbuxnakarla. Hollendingar og Ungverjar sjá um artý- og krúttlegheitin og standa sig vel í því. Hvað með Bonnie Tyler? Mér finnst hún bara ekkert síðri en í gamla daga og með alveg þokkalegt lag. Meðan fólk getur sungið skiptir aldur og fyrri störf ekki máli. Í tilfinninga- og kraftballöðugeiranum finnst mér Moldavía standa upp úr. Söngkonan rís líka himinhátt á sviðinu með þvílíku sjónarspili að hætt er við að fæstir skynji flottheit lagsins sem hún syngur.
Moldavía eru annars dæmi um land sem maður þekkir ekkert nema í gegnum Eurovision keppnina. Moldavía er greinilega ekki bara mold. Eitt af uppáhaldsatriðum mínum í keppnum síðustu ára er einmitt framlag Moldava árið 2011. Þar eru á ferð hinir miklu stuðmenn í ZDOB ȘI ZDUB flokknum sem keppt hafa tvisvar. Í fyrra skiptið voru þeir með ömmuna í ruggustólnum eins og frægt var en lagið fyrir tveimur árum finnst mér betra. Stelpan á einhjólinu sem þykist spila eða ekki spila á lúður, skemmir ekki fyrir.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2012 | 18:21
Íslensku Eurovisionlögin samkvæmt mínum smekk
- Sókrates - Stebbi og Sverrir Stormsker - 1989 - 16. sæti
- Nína - Stebbi og Eyfi - 1991 - 15. sæti
- Tell me - Einar Ágúst og Telma - 2000 - 12. sæti
- Coming home - Vinir Sjonna - 2011 - 20. sæti
- Eitt lag enn - Sigga og Grétar - 1990 - 4. sæti
- All out of luck - Selma - 1999 - 2. sæti
- Is it true - Jóhanna Guðrún - 2010 - 2. sæti
- Open your heart - Birgitta - 2003 - 9. sæti
- Þá veistu svarið - Ingibjörg Stefáns - 1993 - 13. sæti
- Sjúbídú - Anna Mjöll - 1996 - 13. sæti
- Hægt og hljótt - Halla Margrét - 1987 - 16. sæti
- Mundu eftir mér - Gréta og Jónsi - 2012 - ?? sæti
- Gleðibankinn - ICY-hópurinn - 1986 - 16. sæti
- If I had your Love - Selma - 2005 - 16. sæti í undanúrslitum
- Nei eða já - Sigga og Sigrún - 7. sæti
- Minn hinsti dans - Páll Óskar - 1997 - 20. sæti
- Valentine lost - Eiki Hauks - 2007 - 13. sæti í undanúrslitum
- Núna - Bjöggi - 1995 - 15. sæti
- Nætur - Sigga Beinteins - 1994 - 12. sæti
- Það sem enginn sér - Daníel Ágúst - 1989 - 22. sæti
- Til hamingju Ísland - Silvia Nótt - 2006 - 13. sæti í undanúrslitum
- Heaven - Jónsi - 2004 - 19. sæti
- Angel - Two Tricky - 2001 - 22. sæti
- Je ne sais quoi - Hera - 2009 - 19. sæti
- This is my live - Eurobandið - 2010 - 14. sæti
Það er reyndar ekki auðvelt að gera nákvæmlega upp á milli einstakra laga. Röð efstu þriggja lagana vafðist til dæmis dálítið fyrir mér, en það eru alþekkt gæðalög sem ég setti í fyrstu tvö sætin. Í þriðja sæti er lagið Tell me sem er heyrist ekki mjög oft og er sjaldan nefnt. Á myndbandi með laginu sem hér fylgir sést að það hefur ekki verið lagt svo ýkja mikið í sviðsframkomuna og atriðið gæti allt eins verið úr söngvakeppni framhaldsskólanna. Það breytir því þó ekki að þetta er eitt af því besta sem við höfum sent í keppnina - að mínu áliti. Lagið í ár, Mundu eftir mér, hef ég í 12. sæti en spurning er hvar það endar. Það virðist þó vera að gera það gott og gæti hæglega náð mjög langt þótt ég sé ekki mesti aðdáandinn. En hér koma Einar Ágúst og Telma (með finnskum undirtexta):
Ummæli af YouTube:
Best song ever on eurovision!!! :)
Finally I found it!!! :))))))
Thnx for video :)
MaryGreenPeace‬ fyrir 4 árum
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2012 | 21:08
Silfurtónar og Ferry
Það þykir stundum sniðugt að villa á sér heimildir. Ein tegund af slíku er þegar framsæknir tónlistarmenn taka upp á því að hæðast að smekk fjöldans með ákveðnum hætti sem mætti kalla íróníska nálgun í póstmódernískum anda. Ég veit ekki alveg hvenær svona lagað hófst í menningarsögunni en mig grunar að þetta hafi ekki tíðkast mikið fyrr en seint á síðust öld.
Svona kúvendingar takast misvel og ekki alltaf víst að allir fatti djókið. Eitt svona dæmi er þegar hin metnaðarfulla djasshljómsveit Ljósin í bænum komu fram með lagið Diskó Friskó en það var hugsað sem háðsádeila á diskóið. Lagið sló í gegn og er eitt af frægustu diskósmellum íslensku tónlistarsögunnar, en fæstir kannast hinsvegar nokkuð við þá tónlist sem þau gáfu sig annars út fyrir að leika. Sykurmolarnir ætluðu upphaflega að herja á smekkleysuna með sykursætuna að vopni og afhendu smekkleysuverðlaun þeim sem þá þóttu skara fram úr í smekkleysu. Hemmi Gunn var meðal þeirra sem hlutu þau vafasömu heiðurverðlaun.
Af svipuðum rótum og Sykurmolarnir er hlómsveitin Silfurtónar sem hafði á að skipa strákum úr pönk- og nýbylgjugeiranum en þekktastur er sennilega annar söngvari sveitarinnar, Magnús Jónsson, leikari og fyrrum GusGus meðlimur. Það kannast sjálfsagt margir við lagið Töfrar sem er algerlega sykursætt glassúrpopp og bara nokkuð gott sem slíkt en ekki er þó víst að allir hafi áttað sig á djókinu þegar lagið hljómaði á útvarpsstöðvum fyrir um 15-20 árum síðan.
Meiri músik. Bryan Ferry er heldur ekki allur sem hann er séður og kemur sjaldnast til dyranna eins og hann er klæddur. Snemma tók hann að sér hlutverk hins heimsborgaralega sjarmörs og kvennaflagara sem var nokkuð úr takti við þá sem vildu taka sig alvarlega. Myndabandið sem fylgir er frá 1976. Bryan er í sínum hvíta smóking og greinilega ekki staddur í sama tíðaranda og undirleikararnir. Glæsikvendið Jerry Hall lætur þó heillast og á þarna aldeilis fína innkomu þegar líður á lagið.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)