Færsluflokkur: Veður
7.9.2010 | 16:34
Hlýtt loft úr suðaustri
Hér að neðan er kort úr minni smiðju sem ég teiknaði fyrir hér fyrir bloggið fyrir löngu síðan og sýnir þessa hitavænlegu stöðu á einfaldari hátt.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.9.2010 | 21:48
Sumarveðurgæði
Nú eru aðal-sumarmánuðirnir að baki og eins oft áður ættu flestir landsmenn að geta verið vel sáttir við sitt sumarveður. Nú er það svo að eftir því sem árunum sem maður upplifir fjölgar vilja liðin sumur gjarnan renna saman í minningunni og erfitt getur verið að muna og meta hvort eitt sumar hafi verið betra en annað. Sumarið 1986 fór ég að skrá niður veður daglega og get því borið saman einstök ár veðurfarslega séð. Þar að auki hef ég komið mér upp sérstöku einkunnakerfi til að meta veðurgæði. Það geri ég með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur samkvæmt því getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Þannig get ég gefið hverjum mánuði meðaleinkunn og svo líka hverju sumri einkunn. Þetta hef ég útskýrt áður, en sýnishorn af veðurskráningu má t.d. sjá hér.
Útfrá þessu veðureinkunnakerfi hef ég svo teiknað þessa mynd sem sýnir veðureinkunn síðustu 20 sumra í Reykjavík, eða árin 1991-2010. Þarna sést að sumarið í sumar fær einkunnina 5,13 sem er mjög góð einkunn og sú sama og árin 2004 og 2007 fengu. Bestu einkunnina fékk sumarið í fyrra 5,36. Lökustu sumrin þarna eru hinsvegar árin 1992 og 1995. Þau voru þó ekki nærri eins slæm og verstu rigningarsumrin í Reykjavík fyrir nokkrum áratugum.
Lýsing á sumrum:
Hér kemur mjög stuttaraleg lýsingu á öllum sumrum frá árinu 1991. Ekki alveg tæmandi lýsing, en aðallega er miðað við mitt heimapláss, Reykjavík.
1991 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.
1992 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá komst hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 Sumarið var þungbúið suðvestanlands framan af en rættist úr því seinni hlutann.
2007 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7 stig.
2009 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands og þá sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 Eitt hlýjasta sumar sem hefur komið í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst var með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.
- - - -
Útfrá þessari lýsingu og einnig myndinni má sjá það sem flestir ættu að geta verið sammála um að sumrin hafa almennt farið batnandi undanfarin ár í Reykjavík. Eitt er víst að hitinn hefur aukist, nokkur síðustu sumur hafa líka verið sólrík og svo hefur vindinn eitthvað lægt.
Veður | Breytt 2.9.2010 kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.8.2010 | 20:05
Um hitabylgjur og hnattræna hlýnun
Á meðfylgjandi mynd frá Nasa sést vel hversu öflug hitabylgjan í Rússlandi hefur verið en rauðu og bláu litirnir á kortinu sýna hitann sem frávik frá meðalhita dagana 20-27. júlí. Fyrir utan öll þau hitamet sem slegin hafa verið er þessi hitabylgja ekki síst merkileg vegna þess hve lengi hún hefur staðið.
En það er ekki allstaðar svona hlýtt eins og sést þarna á myndinni. Það undirstrikar einmitt að svona hitabylgjur eru veðurfarslegs eðlis veðurkerfin hafa stillt sér upp þannig að hlýir vindar hafa blásið norður til Rússlands í meira mæli en venjulega og í staðinn hafa kaldari loftmassar lagst yfir önnur svæði þannig að í heildina jafnast hitinn út. Í Pakistan súpa menn t.d. seyðið af þessari stöðu því kalt loft hefur leitað þangað suður og magnað upp monsúnregnið.
Frávik frá meðalhita uppá 12°C eða jafnvel meir á svona stóru svæði er auðvitað miklu meira frávik heldur en það sem nemur hlýnun jarðar, en það er í reynd ekki nema 0,7 gráður síðustu 100 árin. Það mætti því hugsa sér að ef engin hnattræn hlýnun hefði átt sér stað þá væri ekki 39 stigi hita á tilteknum stað í Rússlandi heldur 38,3 stig sem er ekki mikið skárra. Hitabylgjur hafa líka skollið á fyrr á árum þótt meðalhiti jarðar hafi verið lægri enn í dag. Sama á við um staðbundin kuldaköst, þau koma og fara nokkurn veginn óháð hnattrænni hlýnun, nema kannski á svæðum eins og hjá okkur þar sem hafís hefur verið viðloðandi fyrrum. Því er spáð að hitabylgjum muni fjölga vegna hlýnunar jarðar, sem er eðlilegt. En það breytir því þó ekki að mikið staðbundið og tímabundið frávik í hita kemur alltaf niður á öðrum svæðum þar sem óhjákvæmilega mun kólna á sama tíma. Hiti rýkur ekki bara upp á einum stað óháð því sem gerist annarstaðar.
Ef þetta er svona og ef rétt er að hitabylgjur muni aukast með hlýnun jarðar, þá ætti það ekki síst að vera vegna þess að meiri lýkur eru á því að veðurkerfin fari úr skorðum frekar en að svo afskaplega mikill aukahiti verði til staðar. En auðvitað er alltaf best að veðurkerfin haldi sig nokkurn veginn á mottunni svona yfirleitt þótt alltaf sé gaman af smá óvenjulegheitum í veðri.
Uppruni myndar: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=45069
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.8.2010 | 22:42
Meðalhitametið jafnað í Reykjavík
Þá er það orðið ljóst að nýliðnum júlí tókst að jafna mánaðarmetið frá 1991 sem er 13,0 stig. Þegar þetta er skrifað hefur Veðurstofan að vísu ekki birt sitt yfirlit en fylgjast mátti með þessari metjöfnun í beinni útsendingu á bloggsíðu Sigurðar Þórs. Þessi metjöfnun er auðvitað merkilegt í ljósi þess að júní var metmánuður hér í Reykjavík þannig að nú stefnir allt í langhlýjasta sumar sem hér hefur mælst. Það er eiginlega svo komið að það telst varla til tíðinda lengur að hitamet séu slegin í Reykjavík að sumarlagi því fyrir utan þessi met þá eru ekki nema sjö ár síðan mánaðarmetið fyrir ágúst var slegið og hámarkshitinn í Reykjavík hefur verið tvíbættur frá aldamótum. Allnokkrir sumarmánuðir hafa síðan verið mjög nálægt metum undanfarin ár.
Júlí 1991
Þessi hlýindi eru allt annað en það sem gerðist síðustu áratugi síðustu aldar. Júlí 1991 með sinn 13 stiga meðalhita er t.d. alls ekki dæmigerður fyrir hitafar síns tíma enda voru þá liðin 31 ár frá því einhver mánuður náði 12 stiga meðalhita í Reykjavík. Hinsvegar hafa sjö mánuðir náð 12 stigum hér í Reykjavík frá aldamótum. Júlí 1991 var enda sérstakur því þá gekk yfir landið óvenjuöflug hitabylgja sem skildi eftir sig slóð hitameta víða um land. Í dag þarf ekki öfluga hitabylgju ættaða langt sunnan úr löndum til að slá met, engu líkara er að hitinn sé búinn að koma sér hér fyrir og virðist búa bæði í loftinu og sjónum.
Júlí 1936
En það var líka hlýtt hér í gamladaga. Hin rómuðu hlýindi á fjórða til sjötta áratug síðustu aldar standa alveg undir nafni. Margir sumarmánuðir á því tímabili jafnast nánast á við þá hlýjustu frá núverandi hlýindaskeiði þó að meðaltali sé heldur hlýrra nú en þá.
Á hlýja tímabilinu 1930-1965 voru hlýindin ekki eins stöðug og þau eru í dag og það hefur auðvitað áhrif á meðalhitann. Annars getur verið vandamál að bera saman mælingar frá því fyrr á tímum því mæliaðstæður og mælitæki eru ekki þau sömu. Þannig mældist t.d. í Reykjavík 13,2 stiga meðalhiti í júlí blíðusumarið 1936 og auglýstur þannig sem metmánuður eins og kemur fram hér í gamalli frétt í Morgunblaðinu. Þessi mánuður frá 1936 er í rauninni ennþá metmánuður því ekki hefur mælst hærri mánaðarhiti í Reykjavík, en hitamælingar voru þá gerðar á þaki Landsímahússins við Austurvöll. Júlí 1936 er þó ekki talinn sá heitasti þegar búið er að leiðrétta hann miðað við vandaðri mælingar sem gerðar eru í dag uppá Veðurstofuhálendinu við Bústaðaveg. Eftir þá leiðréttingu er hann skráður uppá 12,8 stig í meðalhita, en hvort það sé akkúrat rétt tala er ómögulegt að segja.
Nú er bara spurning hvort núverandi hlýindi séu komin til að vera. Sennilega verður hlýtt áfram næstu árin en hæpið er að gera ráð fyrir að kaldari tíð tilheyri alveg fortíðinni. Kannski að maður spái dálítið í það næst.
Einkunnagjöf
Að lokum má svo nefna að samkvæmt mínu vísindalega veðurgæðamati þá fékk nýliðinn júlímánuður 5,2 stig sem er góð einkunn en júlí 1991 fékk 5,1 stig. Þetta er samt ekkert miðað við einkunnina sem júlí fékk í fyrra, 5,8 stig en það var besta einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði. Nánar um veðurskráningar og júlí í fyrra er hér: Hversu gott var góðviðrið í júlí?
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.7.2010 | 01:02
Síðustu skaflarnir í Esjunni
Þeir eru orðnir lítilfjörlegir snjóskaflarnir í Esjunni eins og sjálfsagt margir hafa tekið eftir. Eftir þurran, snjóléttan vetur og hlýindi það sem af er sumri er það nú bara dagaspursmál hvenær Esjan verður alveg snjólaus séð frá Reykjavík. Það er svo sem ekkert stórmál hvort þessir skaflar hverfi eða ekki, en hinsvegar er engin ástæða til að gera lítið úr þessu því svona skaflar eru ágætis tíðarfarsmælir og endurspegla snjóalög, úrkomu og hitafar í þónokkuð víðu samhengi. Myndin að ofan er tekin þriðjudaginn 6. júlí 2010.
Mögulega erum við að sjá fram á að skaflarnir hverfi fyrr á þessu ári en gerst hefur í marga áratugi að minnta kosti. Frá árinu 2001 hefur snjó alltaf tekið upp í Esjunni, sem er lengsta tímabil af því tagi sem þekkt er. Yfirleitt hefur snjóinn tekið upp síðsumars í ágúst eða september og jafnvel ekki fyrr en í október. Árið 2003 þótti snjórinn hverfa óvenju snemma en þá hef ég punktað niður hjá mér dagsetninguna 30. júlí eða þar um bil. Við getum verið alveg örugg að snjórinn hverfi fyrir þann tíma.
Í fyrra var það alveg með herkjum að snjórinn næði að hverfa því þann 26. september snjóaði í Esjuna daginn eftir að allur snjórinn hvarf. Sá snjór hélst, og ef til vill á sá septembersnjór hlut í þeim smásköflum sem eftir eru núna í Gunnlaugsskarði í Esjunni.
Til að fá samanburð milli ára þá kemur hér önnur mynd sem ég tók í fyrra svo seint sem þann 9. ágúst og er horft til Esjunnar frá sama stað, eða frá Laugarnesi. Eins og sjá má er nokkuð mikill munur á milli ára, jafnvel þótt myndin í fyrra sé tekin rúmum mánuði seinna að sumrinu.
Í framhaldi af þessu má benda á bloggfærsluna frá apríl þar sem ég bar saman hvernig Esjan hefur komið undan vetri hin síðustu ár:
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Veður | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.7.2010 | 20:29
Mánaðarmetin í Reykjavík
Í tilefni af nýju Reykjavíkurmeti meðalhitans í júní er við hæfi að fara yfir stöðu annarra mánaðarmeta fyrir borgina. Þótt síðustu 10 ár hafi verið þau hlýjustu í borginni og á landinu í heild síðan mælingar hófust, eru metin samt sem áður frá öllum tímum og ekkert sérstaklega líklegt að þau verði öll slegin í bráð.
Reykjavík á ekki eins langa og samfellda veðurathuganasögu og Stykkishólmur. Ég ætla ekki að fara út í þá sögu, en í nýju tíðarfarsyfirliti veðurstofunnar fyrir júní er sagt að mælt hafi verið í Reykjavík frá 1871. Þó eru til tölur sem ná ósamfellt lengra aftur. Allavega náðist að mæla hin óvenjulegu vetrarhlýindi árið 1847 eins og kemur fram hér að neðan.
Til samanburðar við veðurmetin er ég með meðalhita áranna 2000-2009 eins og ég hef reiknað þau. Að auki gróf ég upp af vef Veðurstofunnar upplýsingar um hita hvers mánaðar en þær ná ekki lengra aftur en til janúar 1931. Þeim fer fækkandi sem muna veður fyrir þann tíma og læt ég því þessi ár eftir 1930 duga í upptalningu á öðrum hitakærum mánuðum. Veðurstofan mætti þó alveg demba inn eldri upplýsingum fyrir okkur grúskarana. Ég get ekki lofað að þessi samantekt sé villulaus en það er þó aldrei að vita að svo sé.
Mánaðarmet hitans fyrir Reykjavík
Janúar 1847: 3,9°C (Meðalhiti 2000-2009: 0,7°C)
Það hefur greinilega verið mjög hlýtt akkúrat þarna um miðbik 19. aldar ef marka má þessa tölu sem sýnir að ekki var samfelld kuldatíð á 19. öldinni. Þessi tala gæti alveg verið nærri lagi því mjög hlýtt mældist einnig í Stykkishólmi. Eftir 1930 hafa janúarmánuðir aðeins þrisvar farið yfir 3 stigin, það var árin 1947: 3,3 stig, 1964: 3,5 og 1987: 3,1 stig. Á þessu ári var meðalhitinn í janúar 2,4 stig sem er hlýjasti janúar frá aldamótum.
Febrúar 1932: 5,0°C (Meðalhiti 2000-2009: 0,4°C)
Mjög flott hitamet sem enginn annar febrúarmánuður hefur komist í námunda við eftir 1930. Árið 1965 var meðalhitinn 4,0 stig og 1964 var hann 3,5 stig. Af þeim nýjustu var meðalhitinn í febrúar 2006: 3,3 stig.
Mars 1847: 6,4°C (Meðalhiti 2000-2009: 1,6°C)
Aftur kemur árið 1847 við sögu með óviðjafnanlegt met sem meira að segja er hærra en aprílmetið. Eftir 1930 er það hinsvegar sjöundi áratugurinn sem stendur sig best. Fyrst árið 1963 þegar meðalhitinn var 4,6 stig og svo 1964 með mjög fínan 5,7 stiga meðalhita enn og aftur. Þó nokkuð hlýir marsmánuðir hafa komið síðustu árin en engin hefur þó náð 4 stigum. Árið 2002 var meðalhitinn 3,9 stig.
Apríl 1974: 6,3°C (Meðalhiti 2000-2009: 4,1°C)
Litlu munaði að þetta met frá þjóðhátíðarárinu yrði slegið 2003 en þá var meðalhitinn 6,2 stig. Það er mikill munur á því og 2,8 stiga meðalhitanum sem var í apríl á þessu ári.
Maí 1935: 8,9°C (Meðalhiti 2000-2009: 6,8°C)
Eftir að þetta met var sett árið 1935 er það maí 1960 sem hefur staðið sig best með 8,7 stig. Eftir langa pásu í hlýjum maímánuðum kom loksins almennilega hlýr maí árið 2008 með 8,6 stig. Á þessu ári stóð maí sig alveg prýðilega og náði 8,2 stigum.
Júní 2010: 11,4°C (Meðalhiti 2000-2009: 10,2°C)
Að þessu sinni var júní þessa árs metmánuður og náði að slá út 7 ára gamalt met frá 2003 þegar meðalhitinn var 11,3 stig. Annars var júníhitinn 11,1 stig árið 1941 en fyrir utan þessi ár hefur júní ekki náð 11 stigum eftir 1930. Nokkrir aðrir mánuðir hafa þó komist nokkuð nálægt því á síðustu árum.
Júlí 1991: 13,0°C (Meðalhiti 2000-2009: 11,8°C)
Mikla hitabylgju gerði fyrri hlutann í júlí 1991 og mánuðurinn er ennþá hlýjasti mánuður sem mælst hefur í Reykjavík. Atlögur voru gerðar að þessu meti árin 2007 og 2009 en þau ár náði meðalhitinn 12,8 stigum. Árið 1936 var hitinn einnig 12,8 stig. Fleiri mánuðir á því tímaskeiði gerðu það líka gott svo sem 1939 og 1944, báðir með 12,6 stig.
Ágúst 2003: 12,8°C (Meðalhiti 2000-2009: 11,3°C)
Árið 2003 er hlýjasta mælda árið í Reykjavík og státar af hlýjasta ágústmánuðinum. Sumarið eftir, eða ágúst árið 2004 gerði svo síðsumars-hitabylgjuna miklu sem dugði þó ekki til að slá metið frá árinu áður, mánuðurinn náði bara öðru sæti með 12,6 stig. Með metinu 2003 var slegið 123 ára met frá árinu 1880 þegar meðalhitinn var 12.4 stig.
September 1939 og 1958: 11,4°C (Meðalhiti 2000-2009: 8,7°C)
Hér eru tveir mánuðir fremstir og jafnir, báðir frá hlýindaskeiðinu á miðri síðustu öld. Í öðru sæti er svo september 1941 með 11,1 stig. Hin síðari ár hefur meðalhitinn mestur verið 10,5 stig árið 2006.
Október 1915: 7,9°C (Meðalhiti 2000-2009: 4,7°C)
Þó stutt væri í frostaveturinn mikla 1918 bauð október þetta ár upp á óvenjumikil hlýindi. Eftir 1930 eru bæði október 1946 og 1959 nokkuð nálægt metinu með 7,7 stig. Það er kominn tími á afburðahlýjan október því það mesta á þessari öld er 6,2 stig árið 2001.
Nóvember 1945: 6,1°C (Meðalhiti 2000-2009: 2,4°C)
Þessi mánuður er svo afgerandi hlýjastur að varla tekur því að nefna aðra. Árið 1956 var meðalhitinn 5,0 stig og 4,7 stig þótti bara mjög gott árið 2002.
Desember 2002: 4,5°C (Meðalhiti 2000-2009: 1,5°C)
Ólíkt styttra er í desembermetið heldur en í öðrum vetrarmánuðum. Næstum því eins hlýtt var árið 1933 þegar meðalhitinn var 4,4 stig. Gott dæmi um hvað svona vetrarhlýindi eru sjaldgæf er sú staðreynd að eftir 1933 komst meðalhitinn ekki yfir 3 stig fyrr en árið 1987 þegar meðalhitinn vippaði sér léttilega upp í 4,2 stig.
- - - -
Út frá þessu má velta fyrir sé dreifingu mánaðarmetanna. Meðalhiti í Reykjavík síðustu 10 ár er rúmlega 1°C fyrir ofan meðalhita áranna 1961-1990. Hlýnun hvers mánaðar er yfirleitt þar nálægt, nema október sem hefur bara hlýnað um 0,3°C og febrúar sem hefur nánast ekki hlýnað neitt.
Mjög hlýir vetrarmánuðir virðast geta komið þrátt fyrir kaldari veðráttu á langtímaskala. Uppskriftin að hlýjum vetrarmánuðum er eiginlega bara eindregin sunnanátt og þá skiptir kannski litlu máli hvort hafís sé fyrir norðan land eða ekki.
Greinilegt er að með þeim hlýindum sem hafa verið frá aldamótum, eru það helst sumarmánuðirnir sem hafa verið að slá metin. Kannski er stutt í að 13 stiga hitametið frá í júlí 1991 verði bætt, blábyrjunin á þessum mánuði lofar allavega góðu. Sum metin virðast ansi erfið til að bæta, en ef óvenjuleg hlýindi hafa komið áður, þá hljóta þau að endurtaka sig fyrir rest, ef rétt er að við lifum á hlýnandi tímum.
- - - -
Upplýsingar um hitametin nálgaðist ég á bloggsíðu Sigurðar Þórs Guðjónssonar, Allra veðra von: Veðurmet í Reykjavík.
Upplýsingar frá Veðurstofunni yfir hitann í Reykjavík er hægt að finna hér:Veðurfarsupplýsingar frá 1949 og hér: Meðalhiti mánaða frá 1931-2000
Hitametin féllu víða um land í júní | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.6.2010 | 22:42
Hvað varð um rokið í Reykjavík?
Þegar þetta er skrifað er hægur vestan-andvari hér í Reykjavík. Það er svo sem ekkert óvenjulegt, svona var þetta líka í gær og svona verður þetta jafnvel næstu daga ef mark er takandi á veðurspám. Jafnvel hér í Vesturbænum hreyfast varla laufin á trjánum en Vesturbærinn er í hugum margra frekar vindasamur staður miðað við önnur hverfi í borginni. En svona hefur þetta ekki alltaf verið því þegar ég var að alast upp var öldin önnur. Þá gnauðaði vindurinn árið um kring og á veturna mátti varla almennileg lægð koma upp að landinu öðruvísi en að þakplötur tækust á loft og flugu jafnvel inn um stofuglugga hjá saklausu fólki sem sat kannski inni hjá sér við kertaljós eftir að rafmagnskerfi borgarinnar var slegið út af laginu.
En af öllum léttleika slepptum þá virðist það vera staðreynd að meðalvindhraði í Reykjavík hefur mjög farið minnkandi síðustu áratugi. Til að skoða þetta almennilega þá teiknaði ég upp línurit út frá gögnum Veðurstofunnar þar sem ég ber saman meðalvindhraða í Reykjavík, Akureyri og á Keflavíkurflugvelli frá árinu 1961.
Á línuritinu má sjá að í upphafi tímabilsins var vindurinn í Reykjavík á sama róli og suður á Keflavíkurflugvelli eða um og yfir 6 metrum á sekúndu sem nær því að vera 4 vindstig á gamla skalanum eða stinningsgola. Síðan skiljast leiðir því á sama tíma og vindur helst að mestu óbreyttur suður á velli þá hægist vindur í Reykjavík smám saman, ekki síst eftir aldamótin og er nú svo komið að meðalvindhraðinn í Reykjavík er ekki nema rétt rúmlega 4 metrar á sekúndu sem gera þrjú vindstig eða golu. Þess má geta að árið 2009 var meðalvindhraði í Reykjavík 3,9 m/s.
4 metrar á sekúndu er álíka mikill vindur og hefur verið að meðaltali á hægviðrisstaðnum Akureyri á tímabilinu og má því segja að vindurinn í Reykjavík hafi þróast frá því að vera á pari við Keflavíkurflugvöll um 1961 og niður í það sem tíðkast á Akureyri. Að vísu hefur vindurinn á Akureyri einnig verið mjög hægur allra síðustu árin, en á tímabilinu í heild er ekki að sjá þar sömu þróun og í Reykjavík.
Miðað við að vindur á Keflavíkurflugvelli hefur ekki minnkað frá 1961 þá hljóta það að vera lókalaðstæður hér í Reykjavík sem valda hægari vindi. Auðvelt er að giska á að aukin byggð og aukinn trjávöxtur í borginni hafi þarna mest áhrif. Veðurstofan hefur verið á sömu hæðinni fyrir ofan Bústaðaveg frá árinu 1973 en frá þeim tíma hefur allt umhverfi borgarinnar þróast talsvert.
Merkilegt er samt hvað meðalvindhraðinn fellur á árunum 1999-2001 og hefur verið hægur síðan. Árið 1999 var hætt að miða við gamla vindstigakerfið og metra á sekúndukerfið tekið upp. Kannski var þá bara settur upp splunkunýr metra á sekúndumælir sem aldrei hefur náð sér á strik. Varla getur það annars verið. Reyndar ættu flestir borgarbúar að vera sammála því að öll ár þessarar aldar hafa bara verið nokkuð góð veðurfarslega séð í Reykjavík, og eins og annarstaðar á landinu hafa þau ekki síst verið hlý.
Veður | Breytt 23.6.2010 kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
7.4.2010 | 00:01
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Hér er komið að einum af hinum föstu árlegu og ómissandi liðum á þessari bloggsíðu. Á fyrsta bjarta deginum í apríl hin síðustu ár hef ég beint myndavélinni að Esjunni til að fá samanburð á snjóalögum á milli ára undir lok vetrar. Að þessu sinni þurfti ég ekki að bíða lengi og tók aprílmynd ársins á fyrsta degi mánaðarins. Eins og sést þá var ekki miklum miklum snjó fyrir að fara, enda var hann með allra minnsta móti miðað við fyrri ár í þessum samanburði, sem nær aftur til ársins 2006.
Að vísu setur það dálítið strik í reikninginn að tvívegis hefur snjóað í Esjuna eftir að síðasta myndin var tekin. Ég læt þó 1. apríl myndina standa enda er þessi nýfallni snjór ekki nema þunn föl sem mun hverfa fljótt og vel næstu daga og mun litlu breyta um ástand hinna raunverulega vetrarskafla sem eftir eru í fjallinu.
Öll þessi ár frá 2006 hefur snjórinn í Esjunni náð að bráðna á sumrin og reyndar hefur snjórinn bráðnað öll sumur frá árinu 2001. Miðað við snjóalög nú er nánast hægt að slá því föstu að slíkt mun einnig gerast þetta sumar þannig að þá fáum við heilan og hreinan áratug þar sem snjórinn lifir ekki sumarið, en það mun ekki hafa gerst áður svo vitað sé. Minnstu munaði þó í fyrra því þá skall veturinn á þann 26. september, daginn eftir að Esjan varð snjólaus. Til samanburðar þá hvarf snjórinn 24. ágúst árið 2006 og 30. júlí árið 2003. Dæmi eru um að snjórinn hafi horfið enn fyrr á heitustu árum síðustu aldar.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.4.2010 | 18:58
Vetrarhitasúlur
Myndin hér líkist kannski gosstrókum en hún hefur ekkert með eldgos að gera enda komið nóg af því hér í bili. Hinsvegar sýnir þetta súlurit hvernig hitinn í Reykjavík var frá degi til dags mánuðina nóvember til mars nú í vetur. Það eru tölur úr mínum eigin veðurskráningum sem liggja þarna að baki en hver súla á að sýna dæmigerðan hita yfir hádaginn í Reykjavík sem liggur einhverstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins.
Það er greinilegt á myndinni að þetta var yfirleitt hlýr vetur í Reykjavík, algengt að hitinn væri á bilinu 3-7 stig og stundum meira. En það voru miklar hitaandstæður því inn á milli komu nokkuð eindregnir kuldakaflar og þá sérstaklega um og fyrir hver mánaðarmót, líkt og núna. Lengsti kuldakaflinn var seinni hluta desember og fyrstu dagana í janúar. Í þessum kuldaköstum var yfirleitt bjart og þurrt, enda fylgdi þeim lítil snjókoma.
Þótt þetta hafi verið svona hlýr vetur þá sýnist mér eftir snöggan samanburð að þessir mánuðir séu í 8. sæti miðað við sömu mánuði frá aldamótum 1900, samkvæmt opinberum athugunum. Talsvert hlýrra var t.d. þessa mánuði veturinn 2002-'03 (3,2 stig) miðað við 1,9 stig nú. Annars lýtur samanburðurinn svona út, og sést að það er ekki bara á þessari öld sem við höfum fengið hlýja vetur:
2002-03: 3.2°C
1928-29: 2.9°C
1963-64: 2.7°C
1945-46: 2.7°C
1941-42: 2.3°C
1933-34: 2.1°C
2005-06: 2.0°C
2009-10: 1.9°C
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2010 | 21:10
Hitinn á jörðinni í janúar
Það hljómaði dálítið sérkennilega þegar fréttir bárust af því að nýliðinn janúarmánuður hafi verið sá heitasti sem mælst hefur á jörðinni, ekki síst vegna óvenjumikilla vetrarkulda beggja vegna Atlantshafsins á sama tíma. Þær upplýsingar sem núna liggja fyrir um meðalhitann í janúar eru fengnar með gervihnattamælingum á hita lofthjúpsins. Það verður svo í seinni hluta mánaðarins sem fréttir munu berast af hita jarðarinnar þar sem stuðst er við hefðbundnar veðurathuganir á jörðu. Væntanlega verður ekki mikill munur á niðurstöðunum en þó er tæplega hægt að lofa fyrirfram hitameti samkvæmt þeim gögnum.
Myndin hér að ofan sýnir hvað var að gerast í hitafari jarðar í janúar samkvæmt gervihnattamælingum frá RSS (Remote Sensing System) og er engu líkara en jörðin sé alveg rauðglóandi á köflum. Annars sýna litirnir frávik frá meðalhita og koma þarna vel fram þær hitafarslegu öfgar sem áttu sér stað janúar. Kalt belti hringar sig nánast um norðurhvelið í gegnum Bandaríkin og Evrópu og áfram til Síberíu þar sem kuldarnir virðast hafa verið mestir. Mesta jákvæða hitafrávikið er við Kanada og Grænland og njótum við góðs að því hér á landi. Mjög hlýtt svæði er einnig í Norður-Afríku og áfram inn í Asíu. Við miðbaug og á suðurhveli eru öfgarnar minni en þó yfirleitt hlýtt.
Hitafrávik þessa mánaðar frá janúar-meðaltali áranna 1979-1998 mældist +0,64 °C, samkvæmt RSS og hefur ekki mælst meira í janúar frá upphafi gervitunglaathuganna árið 1979. Fyrra metið var frá 1998, sem er eitt heitasta árið sem mælst hefur og gefur þetta því vísbendingar um að árið 2010 geti mögulega orðið enn heitara. Eins og gerðist árið 1998 er það aðallega hinn hlýji El Nino straumur í Kyrrahafi sem er talinn bera ábyrgðina á þessu hitafari, að viðbættri þeirri hægfara undirliggjandi hlýnun sem á sér stað vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Sá El Nino sem nú veður uppi er þó ekki enn talinn eins öflugur og varð árið 1998 en sá hefur stundum hefur verið kallaður Super-El Nino.
Það sem kemur kannski á óvart, er að norðurhvelið hefur lagt meira af mörkunum til þessa óvenjulegu hita á jörðinni, en þrátt fyrir frost og snjókomur í mörgum af fínustu höfuðborgum vesturlanda var hitinn á norðurhveli nefnilega 0,80 °C yfir meðallagi, á meðan hitinn á suðurhveli var ekki nema 0,47°C yfir meðallaginu. Grænlendingum ætti þó ekki að koma þetta á óvart þar sem hitinn hefur sumstaðar verið 4-5 gráðum ofan meðallags og ekki er menn hressir í rigningunni í Vancouver þar sem á að halda vetrarólympíuleika. Við hér í Reykjavík sættum okkur hinsvegar alveg við þær 2,9 gráður sem voru umfram meðalhita áranna 1961-90, nema kannski einstaka skíðamaður.
- - - - -
Myndin sem fylgir er fenginn af heimasíðu Remote Sensing System: http://www.remss.com/msu/msu_data_monthly.html?channel=tlt
Velja þarf Anomaly á viðeigandi stað til að fá þessa mynd upp.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)