Kassalaga letur

kassaletur

Í þessum leturpistli ætla ég að að fjalla um tvær nokkuð vinsælar og töffaralegar leturgerðir sem gjarna eru látnar standa fyrir staðfestu, völd, tækni og peninga, sem allt eru nokkuð karlmannleg gildi. Hér er um að ræða letrin Eurostile og Bank Gothic sem bæði voru teiknuð á síðustu öld. Galdurinn á bak við þessi letur er sá að í stað hringlaga forma í stöfum eins og O, G og C eru notuð rúnnuð kassalaga form. Sveigðar línur í stöfum eins og S og R eru einnig þvingaðar í þessa kassalögun þannig að útkoman er letur með sterkum einsleitum einkennum og nútímalegum blæ. Þessi letur eru ekki hugsuð sem lestrarletur í löngum textum en eru hinsvegar mikið notuð uppsláttarletur í kvikmyndaplakötum, bókarkápum, umbúðum, lógóum og þess háttar þar sem menn vilja umfram annað vera kúl en ekki mjög hip.

BankGothic

Bank Gothic er teiknað árið 1930 og er því nokkuð gamalt miðað hvað það er nútímalegt. Upphaflega var það bara teiknað sem hástafaletur en síðar bættust lágstafirnir við - þeir sjást að vísu mjög sjaldan. Tvö smáatriði einkenna þetta letur umfram önnur svipuð: Rúnnuðu hornin eru bara á ytra byrðinu sem þýðir að gatið í O-inu er alveg kassalaga. Lóðréttir strikendar í er skáskornir í stöfum eins og S, J og G, þetta sést betur í bold útgáfunni en í grennri regular gerðinni. 

Eurostile
Eurostile er öllu yngra eða frá árinu 1962. Rétt eins og Bank Gothic var það upphaflega hugsað sem hástafaletur en lágstafirnir bættust þó fljótlega við. Þetta er eitt af frægustu leturgerðum sem komu fram á seinni hluta 20. aldar og fellur vel að moderne hönnun. Eurostile fjölskyldan er nokkuð stór því til eru þunnar útgáfur og feitar, togaðar, þjappaðar og hallandi. Notkunarmöguleikarnir eru því miklir.

Það er auðvelt að finna dæmi þar sem þessi letur koma fyrir. Bank Gothic kom reyndar frekar lítið við sögu þar til grafíski geirinn tók það upp á sína arma undir lok 20. aldar. KB-banki / Kaupþing notaði t.d. Bank Gothic og kannski tilviljun að það var einnig notað í hrunmyndinni Maybe I should have. Science fiction geirinn keppist við að nota þessi letur í sínum kvikmyndaplakötum og bókarkápum. Eurostile er vinsælt hjá löggunni víða um heim og er t.d. áberandi á breskum löggubílum. Veðurfréttir Sjónvarpsins státa af Eurostile, sem er reyndar ekki mjög heppilegt því erfitt getur verið að greina á milli tölustafana 6, 8 og 9. Fleira mætti týna til og ekki endilega í sama dúr. Þeir sem eiga smábörn kannast sjálfsagt við Stoðmjólkina frá MS en þar er eingöngu notað Eurostile og Bank Gothic (hugsanlega á bloggarinn sjálfur þar einhvern hlut að máli)

EuroBank

 

- - - - -

Ég hef á þessu ári skrifað nokkra pistla um letur og rakið í stuttu máli sögu leturgerða á okkar menningarsvæði síðustu 2000 árin. Hér eru linkar á fyrri leturpistla:

TRAJAN leturgerðin

Hið forneskjulega Únsíal letur 

Gotnesk letur

Fornaletur og Garamond bókaletrið 

Frá Versölum til villta vestursins

Steinskriftin kemur til sögunnar 

Bara Helvetica 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband