Er að spá í hvað ég á að kjósa

Þegar þetta er skrifað er runninn upp  mikill kosningadagur sem gæti orðið sögulegur. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég á að kjósa en ólíkt mörgum finnst mér ýmislegt boðlegt í boði. Á maður að taka grínið á þetta eða láta alvöruna ráða hvernig ég greiði atkvæði?

Sjálfur er ég nokkuð hrifinn af léttu gríni og gæti vel hugsað mér að kjósa rússneska lagið sem er mjög harmrænn og fallegur tregasöngur en það þarf að hlusta á það með húmorinn í huga. Skemmtilegustu lögin duttu þó út í forkeppninni að mínu viti, Hollenska Geirmundarsveiflan hefði alveg mátt vera með og líka Slóvenska lagið sem blandaði saman þjóðlagahefð og gallabuxnarokki og virkaði bara stórskemmtilega á mig. Finnsku harmoníkustelpurnar voru líka bara skemmtilegar og hefðu gjarnan mátt vera með. Króatísku þokkadísirnar duttu óvænt út en þær voru með flott lag eins og sú sænska, kannski vantaði einhvern afgerandi kraft í þessi atriði þegar á sviðið var komið. Slóvakíska skógardísin náði því miður ekki að halda lagi í undankeppninni og varð því lítt ágengt.

Annars er athyglisvert hvað vönduð lög koma frá Kákasuslöndunum og þeim framandi slóðum, miklar og flottar skvísur með alveg hörkulög, ekki síst sú fyrsta sem stígur á svið en það er hin Azerbajdaníska Safura sem drip droppar með miklum tilþrifum. Frakkarnir eru alltaf flottir í Eurovision og nú er það hin blakki Jessi Matador sem ætlar að trylla lýðinn með miklu „Ola Ole“-stuði. Þýskaland teflir fram líflegri stelpu sem syngur með sérstökum „kokney“-enskuhreim“. Grikkir eru að venju með ógurlega flugeldasýningu og drumsbuslátt til heiðurs Grikkjanum Zorba og eru alltaf sigurstranglegir.

Ýmis önnur lönd mætti telja upp sem gætu hugsanlega unnið keppnina þó framlög þeirra höfði ekki öll til mín. Við verður svo að gera okkur grein fyrir því að Íslenska eldfjallið - Hera Björk, gæti stolið senunni með þeim afleiðingum að við vinnum keppnina. Það eru meiri líkur á því nú í ár en í fyrra því þá var alltaf vitað að norska lagið myndi vinna, sem það og gerði.

Hvað ég kýs verður bara að ráðast í kvöld. Í dag mun ég hinsvegar taka þátt í öðrum kosningum þar sem málið snýst um að kjósa í borgarstjórn. Sumir virðast þó misskilja þær kosningar - telja að þar eigi að kjósa það sem er skemmtilegast, svona eins og það sé verið að kjósa í skemmtinefnd.

 


Lækjargata 2 og eldheitir borgarstjórar

Þessa dagana má sjá að uppbygging er loksins komin á fullt skrið á horni Lækjargötu og Austurstrætis þar sem gamla húsið hans Sigfúsar Eymundssonar brann fyrir þremur árum. Búið er að steypa upp fyrstu hæðina en ofan á hana á að endurbyggja húsið í heild og því má segja að húsið hækki um eina hæð neðanfrá. Mér hefur alltaf fundist þetta sjálfsögð lausn því húsið er fallegt, það má þó vel við því að hækka enda fæst þannig meira hæðarjafnvægi milli húsanna á þessum stað. Ég tók mynd af Lækjargötuhúsinu nýbrunnu vorið 2007 og í framhaldinu dundaði ég mér við að fótósjoppa húsið einni hæð hærra. Myndina birti ég hér á blogginu haustið eftir, eða stuttu eftir að ég byrjaði á þessu bloggveseni, en þá voru einmitt komnar fram hugmyndir um að hækka húsið.

Lækjargata 2
Þegar brann þarna vorið 2007 var þáverandi borgarstjóri Villi Þ. auðvitað mættur á svæðið og var fljótur að lýsa því yfir að húsið yrði endurbyggt þannig að sómi yrði af fyrir borgarbúa. Sumum fannst þetta full glannaleg yfirlýsing í miðri atburðarásinni, en hann má eiga það að í þessu einstaka máli var ég ánægður með borgarstjórann fyrrverandi.

Framundan eru hugsanlega enn ein borgarstjóraskipti hér í Reykjavík. Einn þeirra sem þar koma til greina er Jón Gnarr sem sagðist í Kastljóssviðtali ætla að verða svona borgarstjóri sem hefur frekar lítið fyrir hlutunum en mætir kannski í bæinn til að vinka fólkinu, ekki síst þegar það er að brenna einhverstaðar - svona í stíl við Bastían bæjarfógeta. Ef Jón Gnarr hefði verið borgarstjóri vorið 2007 hefði hann samkvæmt þessu auðvitað mætt í bæinn til að stappa stálinu í borgarbúa og jafnvel gefið slökkviliðinu góð ráð.

En hvort hann hefði lofað endurbyggingu húsanna í sinni gömlu mynd og einni hæð til viðbótar er önnur saga. Í hinum svokallaða Besta flokki er stefnan ekki endilega sú að halda upp á gömul hús ef marka má það sem frambjóðandinn Páll Hjaltason sérfræðingur flokksins í skipulagsmálum, segir á heimasíðu flokksins:
„Uppgjöf borgarinnar gagnvart öfgafriðunum voru greinileg í kaupum hennar á Laugaveg 4-6 og klisjukenndri uppbyggingu á brunareitnum á horni Lækjartorgs. Hvað á svo að vera í þessum húsum? Fleiri öldurhús og ferðamannabúðir?“
 
Þarna finnst mér koma fram frekar leiðinlegt sjónarmið gagnvart þeirri gömlu húsagerð sem gefa miðbænum sinn sérstaka svip, burt séð frá því hvort í þeim húsum sé eitthvað skemmtilegt eða ekki. Margir arkitektar vilja auðvitað helst byggja nútímaleg hús í stað þess að endurskapa eitthvað gamalt enda eru þeir til þess menntaðir. Nútímaleg hús eru sjálfsögð t.d. í nýjum borgarhlutum, en á þessum stað á horni Lækjargötu og Austurstrætis er ég ekki viss um að við værum bættari með nútímalegt gler/steinhús. Allavega ekki miðað við nokkur slík sem hafa risið miðsvæðis undanfarið. Það má mín vegna kalla uppbyggingu á gömlum húsum „klisjuennda“ en mér finnst hún alveg í fínu lagi í miðbænum. Húrra fyrir Villa.

Goslokaskýrsla II

Eyjafjallajökull 17. apríl

Eftir að gosinu á Fimmvörðuhálsi lauk þann 12. apríl skrifaði ég goslokaskýrslu sem ég þurfti skömmu síðar að kalla Goslokaskýrslu nr. I þegar ljóst var að annað og meira eldgos var hafið á sömu slóðum. Hér kemur því Goslokaskýrsla II, en ómögulegt er þó að segja hvort þær eigi eftir að verða fleiri.

Gosið í Eyjafjallajökli þótti ekki vera gott gos, allavega ekki í samanburði við smágosið á Fimmvörðuhálsi. Þessi tvö gos voru auðvitað mjög ólík enda aðstæður ólíkar. Á Fimmvörðuhálsi var um að ræða sprungugos utan toppgígsins með hraunrennsli og nánast engu öskufalli, síðan kom sprengigos í toppgíg eldstöðvarinnar með miklu öskufalli og hlutfallslega litlu hraunrennsli. Þetta er í fullu samræmi við það að sprengi- og gjóskugos verða gjarnan í toppgígum megineldstöðva en sprungugos með hraunrennsli í útjöðrum. Sprungugosin geta jafnvel verið víðsfjarri megineldstöðinni og orðið mjög stór samanber Skaftárelda þar sem kvikan var ættuð frá megineldstöðinni í Grímsvötnum.

Eins og ég skil þetta með sprungugos með hraunrennsli eða sprengigos með öskufalli þá snýst málið sumpart um að kvikan úr toppgígum kemur beint upp úr efri hluta kvikuþróa þar sem kvikan hefur þróast í að vera súr og þar með sprengvirkari. Hinsvegar er kvikan sem leitar til útjaðra sem sprungugos ættuð neðar í eldstöðinni og því frumstæðari og basískari sem aftur þýðir minni sprengivirkni og meira hraunflæði. Súr sprengigos geta hinsvegar þróast yfir í basískari hraungos eftir því sem líður á gosið þegar nýrri og ferskari kvika nær upp. Svo koma til hlutir eins og gasinnihald og afgösun kvikunnar sem er meiri í súru kvikunni heldur en þeirri basísku. Nánar þori ég ekki út í þessi fræði en vissulega flækir það málið að kvikuþróarkerfi Eyjafjallajökuls er ekki vel þekkt. Þar virðist ekki vera ein allsherjar kvikuþró eins og undir Kötlu.

Öskufallið í gosinu var út af fyrir sig ekki óvænt en gerð öskunnar og afleiðingar hennar virtist koma öllum í opna skjöldu. Þetta var fínleg aska sem sáldraðist niður og fauk um sveitir og haga. Verst var þó hvað hún hélst lengi í loftinu og ferðaðist víða. Þessi víðförula aska olli mikilli röskun á flugi víða um lönd með miklum óþægindum fyrir víðförula heimsborgara og það sem verra er, þetta var ein versta landkynning sem Ísland hefur hlotið og gerði landið enn frægara af endemum en þegar var orðið.

Askan á jöklinum hylur snjóinn að mestu en þykkast ætti öskulagið að vera suður- og austur af toppgígnum. Öskulagið ver því snjóinn fyrir sólbráð í sumar en ný snjóalög munu svo bætast ofaná næsta vetur. Askan hlýtur þó að verða sjáanleg áfram í mörg ár sem svartir rákir á víð og dreif eftir því sem jökullinn skríður og bráðnar á sumrin. Svartur jökull í sumar getur hinsvegar haft jákvæð áhrif á hitafar í sveitunum undir jökli því á sama hátt og askan ver jökulinn fyrir sólarljósi þá kemur askan einnig í veg fyrir kælingu loftsins af völdum jökulsins.

Gígjökull hefur mátt þola miklar árásir af völdum bræðsluvatns og hraunrennslis. Þessi skriðjökull sem rennur ofan úr sjálfum toppgígnum hefur hörfað mikið á síðustu árum og mátti því ekki við miklu. Það er í raun merkilegt hvað jökulsporðurinn hefur þó þraukað í þessum hamförum en á næstu árum ættu afleiðingarnar gossins á jökulsporðinn þó að koma betur í ljós. Söfnunarsvæði jökulsins í toppgígnum sjálfum er orðið minna en áður því gígurinn hefur að hluta til fyllst af gosefnum, einnig mun framskriðið í jöklinum að miklu leyti fara í að græða sárið eða hraungjána sem liggur langleiðina niður eftir skriðjöklinum. Semsagt Gígjökull á eftir að styttast talsvert á komandi árum nema eitthvert ógnar kuldakast hellist yfir okkur.

Framhaldið er svo alveg óvíst. Sagan segir að gos í Eyjafjallajökli eigi það til að taka sig upp að nýju eins og gosið snemma á 19. öld sem stóð með hléum í 15 mánuði. Sjálfur trúi ég því að það mesta sé búið en aldrei að vita nema einhver eftirpúst eigi eftir að gera vart við sig. Djúpir jarðskjálftar geta gefið vísbendingar um framhaldið þannig að ef skjálftar verða á um 20 km dýpi má væntanlega eiga von á nýrri sendingu úr því neðra. Allt virðist þó rólegt á þeim slóðum.

Látum þetta duga, því öllu meira þykist ég ekki hafa vit á málum.

Eyjafjallajökull 8. maí

Séð til gosstöðvanna frá Þórólfsfelli þann 8. maí.

Á efri myndinni er horft frá Hvolsvelli í upphafsfasa gossins þann 17.apríl. (Ljósmyndir EHV)

 


mbl.is Gos liggur enn niðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimmflokkakerfið og dægurflugur

Nú ætla ég að hella mér út í pólitíkina og veitir ekki af. Ég ætla þó að forðast að taka pólitíska afstöðu enda er það ekki vaninn hér. Það er hins vegar flokkakerfið sem mig langar að velta fyrir mér og það sem mér finnst pólitík snúast um svona almennt séð og ekki endilega hugsað sem innlegg í Borgarstjórnarkosningarnar.
Að hætti hússins hef ég teiknað upp mynd til nánari útskýringar til að spara mér flóknar útskýringar en þarna sést hvernig ég sé fyrir mér fimmflokkakerfið sem hlýtur að vera enn betra en fjórflokkakerfið. Flugan sem er þarna stendur svo fyrir ýmis framboð sem mætti kalla fluguframboð - eða dægurflugur.

Fimmflokkakerfið

Það eru aðallega tvö atriði sem mér finnst pólitík snúast um. Annars vegar er það þessi sígilda vinstri - hægri pólitík, þ.e. félagshyggjan á móti einstaklingshyggju, ríkisrekstur á móti einkavæðingu. Einnig fylgir umhverfispólitíkin þessum ási, þ.e. hvort að eigi að nýta eða njóta náttúrunnar. Hinsvegar snýst pólitík um þjóðfrelsismál, þ.e. stöðu ríkisins í alþjóðasamfélaginu og snertir sjálfstæðismál þjóðarinnar og afstöðu til þátttöku í ríkjabandalögum. Það má kalla þetta þjóðernishyggju á móti alþjóðahyggju, en orð eru oft svo gildishlaðin að það þarf að fara varlega í orðanotkun. Afstaða til aðildar að Evrópusambandinu endurspeglast algerlega þessari pólitík.
Atriði eins og persónutöfrar, húmor, uppgjör við fortíðina, spillingarmál, heiðarleiki, kjörþokki og margt fleira er ekki pólitík enda eru flestir sammála um þessi atriði nema hvað stjórnmálamönnum og flokkum tekst misvel að höndla þau.

Af þessu leiðir að sjálfsagt er að skipta pólitíkinni í fjóra hluta sem eignaðir eru hverjum stjórnmálaflokki, einn flokkur má svo vera í miðjunni en þannig fæ ég út fimmflokkakerfið. Fjórflokkakerfið sem við búum við skiptist nokkurn veginn svona í dag, nema hvað hægri vængurinn er óskiptur í sinni hægri pólitík sem veldur því að flokkurinn getur ómögulega komið sér saman hvernig á að haga Evrópumálum, þótt þjóðfrelsispólitíkin sé ofaná þessa stundina.

Dægurfluguframboðin hafa verið fjölmörg í gegnum tíðina og heitið ýmsum nöfnum. Sum þeirra hafa auðvitað barist fyrir göfugum málefnum. Þau hafa þó verið mis-lífseig og mis-fyrirferðamikil og komið fram af ýmsum ástæðum. Þessir fluguflokkar hafa gjarnan gefið upp öndina vegna þess að þau hafa ekki átt sér neinn samastað í hinu pólitíska landslagi - sumir hafa bara komist í tísku og farið úr tísku eða verið þægileg leið fyrir borgarana að forðast að taka pólitíska afstöðu í pólitískum kosningum.


Fornaletur og Garamond bókaletrið

Claude Garamond

Áfram skal haldið með letursögu. Í þeim bókum sem við lesum í dag er nokkuð líklegt að meginmálsletrið sem þar er notað eigi sér fyrirmynd í þeim leturgerðum sem komu fram í frumbernsku prentlistarinnar á 15. og 16. öld. Með prenttækninni var hver stafur handskorinn og steyptur í blý sem aftur þýddi að ásýnd leturs í bókum var ekki lengur háð takmörkunum rithandarinnar og fjaðurpennans.

Eitt af fínustu og algengustu bókaletrum nútímans eru Garamond letrin sem eiga ættir að rekja til franska leturgerðarmeistarans Claude Garamond sem uppi var ca. 1480-1561 og er meðal dáðustu listamönnum á sínu sviði. Hann átti stóran þátt í að þróa áfram og fínisera hið svokallaða fornaletur (Littera antiqua) sem er heiti á því bókaletri sem að lokum varð ofaná í hinum vestræna heimi.

Fornaletur er annars helst notað til aðgreiningar frá gotneskum leturgerðum sem komu fram á síðmiðöldum og héldu víða velli langt fram eftir öldum. Fornaletur er eignað ítölskum húmanistum á 15. öld sem vildu endurvekja klassíska fagurfræði og menntir að hætti endurreisnarinnar. Fyrirmyndin af skriftarletri ítalskra handrita þess tíma var karlungaletrið frá því um 800 sem er eldra en gotneska letrið en hástafirnir voru af Rómverskri fyrirmynd. Þegar prentlistin barst til Ítalíu fóru þeir svo strax í að þróa þessar leturgerðir áfram og steypa í blý og útkoman voru leturgerðir sem mjög líkjast því bókaletri sem við notum enn í dag. 

Leturgerðir
Þegar hugsunarháttur í anda endurreisnar breiddist út um Evrópu jukust að sama skapi vinsældir fornaleturs og ýmsir leturgerðarmeistarar komu fram sem þróuðu fornaletrið áfram. Þá er ég aftur kominn að franska leturgrafaranum Claude Garamond. Fyrstu letur hans komu fram um 1530 og urðu fljótlega mjög útbreidd. Garamond letrin þykja vera fáguð og hafa yfir sér létt yfirbragð. Meðal nýjunga sem hann kom með voru skáletursútgáfur af hástöfum sem full þörf var á en fram að þessu hafði ekki tíðkast að blanda saman skáletri og beinu letrið í samfelldum texta.

Fótaletur
Algengt íslenskt heiti á fornaletri er annars fótaletur (serif fonts) og fjölmargar gerðir af þeim áttu eftir að koma fram t.d. Palatino og Times sem bæði eru mjög algeng í dag. Með nýjum leturgerðum fór Garamond letrið smám saman úr tísku þar til það var enduruppgötvað eiginlega fyrir misskilning. Árið 1825 fannst letursett sem ranglega var eignað Claude Garamond og var það fyrirmyndin af ýmsum seinni tíma Garamondum sem urðu vinsæl. Það var svo ekki fyrr en 100 árum síðar sem það uppgötvaðist að fyrirmyndin var 17. aldar verk leturgrafarans Jean Jannons. Sú útgáfa Garamondleturs sem mest er notað í dag var teiknuð árið 1989, það kallast Adobe Garamond og á að sjálfsögðu sína fyrirmynd frá meistaranum sjálfum.

 
Bókartexti

Dæmi um Garamond letur úr bókinni ÍSLANDSFÖRIN eftir Guðmund Andra Thorsson.

- - - - -

Helsta heimild: Þættir úr letursögu, eftir Þorstein Þorsteinsson. 

Eldri bloggfærslur í þessum flokki:

TRAJAN leturgerðin

Hið forneskjulega Únsíal letur

Gotnesk letur


Öskuskýið sést á veðursjánni

öskuský

Á veðursjá veðurstofunnar hefur öskuskýið verið mjög greinilegt í dag og eins og sést þá eru það Vestmannaeyingar sem sitja í súpunni þarna kl. 15:15. Fram að þessu hefur öskuskýið ekki verið svona áberandi á veðursjánni en hún er staðsett við Keflavíkurflugvöll. Veðursjáin greinir betur ský og bólstra eftir því sem fjarlægðin er minni og hæðin meiri og má finna á slóðinni: http://www.vedur.is/vedur/athuganir/vedurradar

Hér er mynd úr vefmyndavél í Eyjum frá því um miðjan dag. Þarna rifjast kannski upp það sem gerðist árið 1973 þótt ekki sé alveg um sambærilegan atburð að ræða.

Vestm. vefmyndavél

Sjá hér: http://www.tolvun.is/images/vefmyndavel.asp (ef hún virkar) 

Að lokum er nýyrði dagsins: „Vestmannaeyjaeyjafjallajökulsöskufall“


mbl.is Öskufall í Vestmannaeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðalhiti jarðar í hæstu hæðum

Öllum mælingum ber saman um að hitinn á jörðinni sé nú með allra hæsta móti og hefur verið það allt þetta ár. Það er jafnvel líklegt að þetta ár verði það hlýjasta sem komið hefur eftir að mælingar hófust. Til að varpa ljósi á þetta, kemur hér mynd sem sýnir hvernig hiti jarðar hefur þróast frá miðju ári 1998. Hver litur táknar hita hvers árs fyrir sig og hvíti ramminn sýnir hvar við erum í dag. Gögnin eru fengin með gervihnattamælingum í 4,4 km hæð og sýna því hita í neðri hluta lofthjúpsins. Árið 2010 er hér sýnt með grænni línu og eins og sjá má liggur hún ofar öllum öðrum línum nánast allt árið. Þessi glæsilegi árangur er ekki síst athyglisverður vegna þess að síðasti áratugur er talin sá hlýjasti á jörðinni síðan einhvertíma í óljósri fortíð.

Globalhiti 1998-2010

Myndin er fengin héðan: http://discover.itsc.uah.edu/amsutemps/ og teiknast með gagnvirkum hætti.

Hvað með árið 1998?
Hér verður að taka fram að ferlarnir á myndinni ná því miður bara aftur til seinni hluta ársins 1998. Það hefði verið fróðlegt að bera saman með þessum hætti, hitann í ár og fyrri hluta ársins 1998 þegar hitinn á jörðinni og í neðri lofthjúp fór nánast úr böndunum, miðað við það sem áður hafði mælst. Meginskýringin á þessum hitatoppi í ár er sú að El Ninjo hefur verið virkur í Kyrrahafinu og það er einnig skýring á hitatoppnum árið 1998. El Ninjo ársins í ár er þó ekki nærri eins öflugur og árið 1998 enda hefur sá stundum verið flokkaður sem „super El Ninjo“.

UAH_Apr10

Uppruni myndar: http://www.drroyspencer.com/latest-global-temperatures/ 

Á línuritinu sem sýnir hita neðri-lofthjúpsins aftur til 1979 sést að hitatoppurinn 1998 var aðeins hærri en sá sem nú er. Marsmánuður í ár var þó hlýrri nú en 1998. Bakslag kom strax í kjölfarið þegar hin kalda La Ninja tók við á Kyrrahafinu seinni hluta ársins 1998 og fram eftir ári 1999. Slíkt bakslag gæti einnig tekið við af núverandi uppsveiflu. Á myndina er einnig merkt inn kólnun vegna Pinatubo eldgossins.

Nasa-Giss
Af gögnum Nasa-Giss sem notast við hefðbundnar athuganir á jörðu ásamt gervihnattamælingum yfir hafssvæðum er það að frétta að síðustu 12 mánuði (apr'09-mars'10) hefur hitinn mælst hærri en nokkru sinni áður í 130 ára sögu gagnaraðarinnar (tölur fyrir apríl í ár eru rétt ókomnar). Nasa-Giss fær reyndar út aðra röðun á hlýjustu árunum því þar er árið 1998 ekki nema í 4.-5. sæti ásamt árinu 2002. Þessi munur skýrist af annarri aðferðarfræði (þótt hörðustu efasemdarmenn vilji meina að James Hansen sé með puttana í þessum gögnum enda aðalmaðurinn hjá GISS (Goddard Institute for Space Studies)). Í 2-3. sæti eru svo árin 2009 og 2007 en árið 2005 er hlýjast. Hvar árið 2010 endar að lokum kemur svo bara í ljós en byrjunin lofar góðu - eða slæmu, eftir því hvernig á það er litið. Sú langtímahlýnun sem er í gangi mun síðan áfram truflast af náttúrulegum sveiflum og þá annaðhvort til enn meiri hlýnunar eða tímabundinnar kólnunar.

Sjá hér: http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata/GLB.Ts+dSST.txt


Hækkar Eyjafjallajökull?

Það má alveg velta fyrir sér hvort nýr hátindur eigi eftir að myndast á Eyjafjallajökli. Núverandi toppur, Hámundur, er sunnan aðalgígsins og er samkvæmt nýjustu mælingum 1651 metra hár. Gosvirknin á sér stað ofan í stóra gígnum og þar hlaðast gosefnin smám saman upp en samkvæmt fréttum vantar núna lítið upp á að gosgígurinn nái upp fyrir brún sigketilsins sem myndaðist í gosinu.

Eyjafjallajökull er meðal hæstu fjalla landsins utan Vatnajökulsvæðisins. Hann er aðeins lægri en Herðubreið og Eiríksjökull en með smá viðbót gæti hann slegið þessum fjöllum við í hæð. Ég er ekki endilega að spá því að það gerist. En hver veit?

Hér kemur dálítill samanburður á hæð hæstu fjalla landsins samkvæmt hæðartölum sem gefnar eru upp í ÍSLANDSATLAS Eddu útgáfunnar. Nokkrir hátindar hafa með nýjustu tækni verið endurmældir undanfarin ár með þeim árangri að Öræfajökull lækkaði um 9 metra og varð þar með lægri en hæsti tindur Svíþjóðar, sem er auðvitað hið versta mál. Eyjafjallajökull er samkvæmt þessu sýndur hér 1651 metri en var áður talinn 1666 metrar. Kannski nær hann eftir allt að endurheimta þá hæð eða fara jafnvel upp í 1700 metra.

Hæstu fjöll


Svartur Eyjafjallajökull og gosið 1821-1823

Það er eiginlega ekki sjón að sjá Eyjafjallajökul þessa dagana með sinn svarta mökk og hvítan jökullinn hulinn dökku öskulagi. Á gamalli vatnslitamynd sem máluð var af Erik Bruun sést nokkuð kunnugleg sjón. Þar getur að líta svartan Eyjafjallajökul og gos í fullum gangi. Dökkur bólsturinn sem stígur upp af toppgígnum er ekki ósvipaður því sem við höfum séð í núverandi gosi og þá eins og nú leggur gosmökkinn í suður eða suðaustur af jöklinum. Líklegast sýnir myndin Eyjafjallajökul eins og hann leit út sumarið 1822, því þarna eru hvítar opnar jökulsprungur sem ekki sjást á vorin. Þessi mynd birtist í bókinni Íslandseldar eftir Ara Trausta og nú síðast í Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson. 

Eyjafjallajökull 1822

Síðasta gos í Eyjafjallajökli hófst að kvöldi 19. desember 1821. Dökkan mökk lagði frá fjallinu næstu daga og féll aska í V-Eyjafjöllum og A-Landeyjum auk þess sem vatnavextir urðu í Markárfljóti þegar hlaup komu úr Gígjökli. Þessi fyrsta goslota stóð frekar stutt því um áramótin var allt fjör úr gosinu en flóð komu þó áfram í Markárfljót öðru hvoru. Þann 26. júní 1822, sumarið eftir upphófst gosið á ný með öllu meiri krafti en áður og fylgdi því fíngerð aska sem barst um Eyjafjallasveit og allt fram Seltjarnarnes samkvæmt heimildum. Öflugast hefur gosið svo líklega verið 20.-27. júlí en þá er sagt frá því að sjö gosop hafi verið virk í jöklinum. Dimman mökk lagði þá í vestur svo hálfdimmt varð um tíma á Suðurlandi. Eftir júlí-hrinuna virðist virknin hafa minnkað á ný en þó er sagt frá áframhaldandi öskufalli í nálægum sveitum. Árið 1823 var virknin orðin mjög lítil og ekkert er getið um öskufall. Gufubólstrar munu þó hafa staðið upp úr jöklinum allt þar til Katla tók við þann 26. júní. Það Kötlugös stóð í fjórar vikur og þykir ekki hafa verið verið stórt miðað við mörg önnur.

Nú vitum við ekki hvernig gosið í Eyjafjallajökli mun þróast en miðað við gosið snemma á 19. öld þá ætti ekkert að koma á óvart að gosið sæki í sig veðrið eftir því sem lengra líður og ekkert víst að það versta sé búið. Sennilega mun líka svört ásýnd Eyjafjallajökuls vera viðvarandi meira og minna í allt sumar, jafnvel þótt öskugosið hætti fljótlega. Það snjóar sjálfsagt eitthvað á jökulinn fram eftir vori á milli þess sem askan fellur. Sumarsólin mun hinsvegar ekki vinna á öskunni eins hún gerir á snjónum og því verður einhver bið á því að fannhvítur Eyjafjallajökullinn birtist okkur á ný.

Ljúkum þessu miðvikubloggi með Mílu-mynd af svörtum Eyjafjallajökli frá 4. maí og upphafslínum Gunnarshólma eftir Jónas Hall

 Míla 4.maí Hvolsvöllur

Skein yfir landi sól á sumarvegi
og silfurbláan Eyjafjallatind
gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
í himinblámans fagurtærri lind.


- - - -
Varðandi heimildir þá vísa ég í Öldina sem leið 1801-1860

 


mbl.is Ekkert lát á eldgosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öskuland á gervitunglamynd

Á gervitunglamynd NASA frá því í dag, þann 1. maí, má enn sjá greinilegt öskuský stefna í suðaustur frá landinu. Þetta er sjálfsagt ekki eins mikið og þegar mest var enda mun stöðug hraunframleiðsla samtímis vera í gangi.
Ísland er nú að verða frægt fyrir sína öskuframleiðslu og ef henni linnir ekki gæti verið stutt í að landið verði kallað Ashland. Hver vill ekki fara þangað? Við sem hér búum förum þó vonandi ekki úr öskunni í eldinn.

Aska 1.maí


mbl.is Askan getur enn truflað flug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband