18.8.2010 | 20:13
Steinskriftin kemur til sögunnar
Það má skipta letri í ýmsa flokka eftir útliti, en þó má segja að þrír meginflokkar séu í boði: fótaletur, steinskrift og skriftarletur. Ef við undanskiljum skriftarletur þá datt fáum í hug fram að 20. öld í hug að sleppa þverendum í letri, það þótti bara ekki nógu fallegt. Fótalaus letur voru þó einstaka sinnum notuð í hástöfum, t.d. þegar letur var höggið í stein og því eru þau t.d. hér á landi kölluð steinskrift. Á 19. öld þegar þörfin jókst fyrir sterk og ákveðin letur í auglýsingaplakötum fór æ oftar að sjást fótalaus letur en þau voru þá oftast notuð í bland við aðrar skrautlegri og klassískari leturgerðir.
Fótalaus letur voru á 19. öld gjarnan kölluð Grotesque enda þótt þau vera klossuð og grótesk í útliti, einnig voru þau stundum kölluð Gothic. Í dag eru letrin erlendis almennt kölluð Sans Serifs eða án þverenda og Serifs eru þá þau letur kölluð sem heita fótaletur upp á íslensku. Fyrsta steinskriftin sem teiknuð var fyrir prent og innihélt bæði lágstafi og hástafi kom fram árið 1832 og var einfaldlega kölluð Grotesque.
Fyrstu steinskriftarletrin sem hinsvegar náðu almennilegri útbreiðslu voru teiknuð nálægt aldamótunum 1900. Af þeim er elst Akzidenz-Grotesk letrið sem kom fram 1898. Það er mjög nútímalegt og venjulegt að sjá og lýkist mjög þeim steinskriftarletrum sem margir þekkja sem Helveticu og Arial en þau hafa einmitt þessi elstu steinskriftarletur sem fyrirmynd. Þessi letur þykja gjarnan vera karakterlaus enda má segja að þau séu eins laus við stæla og hugsast getur, en það þarf þó ekki að vera neikvætt því stundum er einmitt þörf fyrir slíkt.
Steinskriftarletrin fór ekki að njóta almennilegrar virðingar fyrr en hinn móderníski stíll kom til sögunnar á 3. og 4. áratug 19. aldar. Þar hafði kannski mest áhrif hinar framúrstefnulegu hugmyndir sem kenndar hafa verið við Bauhaus skólann í Þýskalandi. Þar dásömuðu menn hin hreinu form svo sem hring og ferning. Allt átti að vera hreint og beint og umfram allt laust við óþarfa skraut og prjál.
Útfrá þessum hugmyndum urðu til letur sem kalla má geómetríska steinskrift. Frægast þeirra er sjálfsagt Futura letrið og ber það líka nafn með rentu en það var hannað í Þýskalandi 1928. Það einkennist af því sem næst hreinum hringformum þar sem því er viðkomið. Futura er mjög algengt letur enn í dag og er til í ýmsum þykktum allt frá örfínu upp í ofurþykkt en auk eru samanþjappar útgáfur nokkuð algengar.
Annað letur mjög algengt frá þessum tíma er Gill Sans letrið frá árinu 1929. Það á reyndar uppruna sinn í eldra letri sem teiknað var árið 1913 fyrir neðanjarðarlestarkerfi Lundúna. Þar sáu menn einmitt þörfina fyrir einfalt letur sem hægt væri að lesa með hraði eða úr góðri fjarlægð. Líkt og í Futuru einkennist Gill Sans af hreinum hringformum í hástöfum eins og O og G en annars þykir Gill letrið falla undir flokk húmanískrar steinskriftar sem þýðir og formin eru mannlegri og ekki eins afdráttarlaus. Gill Sans er eitt af þessum letrum sem má finna víða í dag en það má þó segja að Skandínavar og Bretar hafi haft sérstakt dálæti á því.
Eiginlega má segja að með steinskriftinni hafi leturþróun náð vissum endapunkti þar sem ekki var hægt að ganga lengra í einföldun leturs án þess að það komi niður á læsileikanum. Það hefur þó aldrei orðið neitt lát á útkomu nýrra leturgerða þar sem tískan og tíðarandinn kallar sífellt á nýjungar. Þetta þarf því ekki að vera síðasti letursögupistillin. Fyrri leturpistla má finna hér á síðunni undir flokknum LETUR.
LETUR | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2010 | 20:05
Um hitabylgjur og hnattræna hlýnun
Á meðfylgjandi mynd frá Nasa sést vel hversu öflug hitabylgjan í Rússlandi hefur verið en rauðu og bláu litirnir á kortinu sýna hitann sem frávik frá meðalhita dagana 20-27. júlí. Fyrir utan öll þau hitamet sem slegin hafa verið er þessi hitabylgja ekki síst merkileg vegna þess hve lengi hún hefur staðið.
En það er ekki allstaðar svona hlýtt eins og sést þarna á myndinni. Það undirstrikar einmitt að svona hitabylgjur eru veðurfarslegs eðlis veðurkerfin hafa stillt sér upp þannig að hlýir vindar hafa blásið norður til Rússlands í meira mæli en venjulega og í staðinn hafa kaldari loftmassar lagst yfir önnur svæði þannig að í heildina jafnast hitinn út. Í Pakistan súpa menn t.d. seyðið af þessari stöðu því kalt loft hefur leitað þangað suður og magnað upp monsúnregnið.
Frávik frá meðalhita uppá 12°C eða jafnvel meir á svona stóru svæði er auðvitað miklu meira frávik heldur en það sem nemur hlýnun jarðar, en það er í reynd ekki nema 0,7 gráður síðustu 100 árin. Það mætti því hugsa sér að ef engin hnattræn hlýnun hefði átt sér stað þá væri ekki 39 stigi hita á tilteknum stað í Rússlandi heldur 38,3 stig sem er ekki mikið skárra. Hitabylgjur hafa líka skollið á fyrr á árum þótt meðalhiti jarðar hafi verið lægri enn í dag. Sama á við um staðbundin kuldaköst, þau koma og fara nokkurn veginn óháð hnattrænni hlýnun, nema kannski á svæðum eins og hjá okkur þar sem hafís hefur verið viðloðandi fyrrum. Því er spáð að hitabylgjum muni fjölga vegna hlýnunar jarðar, sem er eðlilegt. En það breytir því þó ekki að mikið staðbundið og tímabundið frávik í hita kemur alltaf niður á öðrum svæðum þar sem óhjákvæmilega mun kólna á sama tíma. Hiti rýkur ekki bara upp á einum stað óháð því sem gerist annarstaðar.
Ef þetta er svona og ef rétt er að hitabylgjur muni aukast með hlýnun jarðar, þá ætti það ekki síst að vera vegna þess að meiri lýkur eru á því að veðurkerfin fari úr skorðum frekar en að svo afskaplega mikill aukahiti verði til staðar. En auðvitað er alltaf best að veðurkerfin haldi sig nokkurn veginn á mottunni svona yfirleitt þótt alltaf sé gaman af smá óvenjulegheitum í veðri.
Uppruni myndar: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=45069
11.8.2010 | 18:24
Bloggfærslur bókfærðar
Hvað skal gera við allt það sem maður hefur skrifað hér á blogginu? Kannski þarf ekki að gera neitt enda er gjarnan sagt að það sem einu sinni hefur verið sett á netið verði þar áfram um aldur og ævi. Ég efast um að margir prenti út það sem þeir skrifa, ég byrjaði á því eitt sinn en hætti því þó fljótlega því mér fannst það ekki gera sig almennilega. Hinsvegar hófst ég handa fyrir nokkrum mánuðum að setja upp allar mínar bloggfærslur í umbrotsforriti þannig að hægt væri að útbúa einskonar bloggrit fyrir hvert bloggár sem mætti fletta fram og til baka. Þessi uppsetningarvinna er frekar seinleg en þegar hér er komið við sögu er ég búinn að setja upp árin 2007 og 2008 og er að hefjast handa við árið 2009. Núna er ég svo búinn að fá prentuð tvö eintök af árinu 2007, frágengnum á 48 síður með stífari kápu þannig að útkoman er hin fínasta bloggbók. Hvað bækurnar verða margar að lokum kemur svo í ljós, það gæti allt eins verið að bloggbók ársins 2010 verði síðasta bindið.
Þetta fyrsta bloggár 2007, hófst reyndar ekki fyrr en í september og því er ritið ekki stærra, auk þess voru margar af mínum fyrstu bloggfærslum frekar stuttaralegar og sluppu oft í gegnum bloggheima án nokkurra athugasemda sérstaklega framan af. Bloggbók ársins 2008 fer svo í prentun þegar ég læt verða að því. Það rit fer nokkuð yfir 200 síður, en með bloggfærslunum læt ég fylgja allar myndir og athugasemdir ásamt athugasemdum við athugasemdir. Þessi bókfærsla er fyrst og fremst ætluð mér sjálfum en ef svo ólíklega vill til að einhver myndi vilja eiga svona líka, þá má kannski bjarga því.
Hér má sjá hvernig þetta lítur út að utan sem innan. Sjálfum þykir mér hér sannast hin forna speki öldungsins að þótt veraldarvefurinn sé ágætur þá er bókin er alltaf best.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.8.2010 | 00:47
Góðar og slæmar fréttir af berjasprettu
Það virðist ekki ætla að verða mikið mál að krækja sér í nokkur krækiber þetta sumarið. Það er allavega verið að tala um að víða á Suður- og Vesturlandi sé berjaspretta með eindæmum enda hefur þar verið hlýtt og bjart í sumar. Þessi fínu fullsprottnu krækiber sá ég þann 8. ágúst í uppsveitum Suðurlands, nánar tiltekið við Brúarárskörð hjá Högnhöfða og er bara lítið dæmi um það sem þar fá finna. Berin eiga síðan auðvitað eftir að stækka enn meir mörgum til mikillar ánægju og yndisauka. Þetta voru góðu fréttirnar.
Slæmu fréttirnar eru hinsvegar af bláberjalynginu.
Vegna þess einmitt hvað síðustu sumur hafa verið hlý og þurr á Vesturlandi, er nú svo komið að bláberjalyngið er þar víða alveg heillum horfið vegna svartrar lirfutegundar sem á það herjar. Þetta munu vera lirfur fiðrildategundarinnar Birkifeta sem háma í sig græna vefi laufblaðanna svo bláberjalyngið verður rauðbrúnt og lífvana að sjá og þroska í framhaldi af því ekki almennileg bláber. Myndin hér er tekin á sama stað og sú fyrri þannig að þessi óværa er greinilega einnig farin að herja á bláberjalyng í uppsveitum Suðurlands.
Samkvæmt því sem ég hef fundið um þetta þá mun lyngið ná sér á ný næsta sumar nema þessi plága verði viðvarandi vandamál á næstu árum. En þá verður þessum góðu sumrum líka að fara að linna.
Annars var ég ekki þarna á ferðinni til að skoða ber, Brúarárskörðin eru afar tilkomumikil náttúrusmíð og munu vera dýpstu gljúfur Suðurlands. Ég var þarna mættur til að skoða þau í fyrsta sinn og varð ekki fyrir vonbrigðum.
4.8.2010 | 18:57
Náttúrulegur breytileiki og hlýindin á Íslandi
Þau hlýindi sem hafa verið á Íslandi undanfarin ár eru mjög eindregin. Veðurgæðum á sumrin hefur kannski verið eitthvað misskipt en veturnir hafa hinsvegar allstaðar verið mildir og snjóléttir miðað við það sem gjarnan var áður. Það eru sjálfsagt ýmsar ástæður fyrir því hversvegna svo mikið hefur hlýnað hér en algengast er auðvitað að nefna almenna hlýnun jarðar sem er vissulega staðreynd. En náttúrulegar staðbundnar aðstæður skipta hér einnig máli.
Á myndinni hér að ofan sem ættuð er frá NASA, má sjá yfirborðshita hafsins sem frávik af meðalhita. Hér í Norður-Atlantshafi er rauður litur ríkjandi sem þýðir að efri lög hafsins eru hlýrri en venja er. Annarstaðar eru höfin ýmist kaldari en venjulega, jafnhlý eða hlýrri. Þessi hlýi sjór á okkar slóðum hefur reyndar verið hér viðloðandi í allnokkur ár og á vafalaust sinn þátt í mildari tíð hjá okkur. Sjávarlífið hefur ekki farið varhluta af þessu og sjófuglalífið í framhaldi af því.
Ef maður veltir fyrir sér hvort þessi hlýsjór sé kominn til að vera, er ágætt að hafa í huga fyrirbæri sem kallast Atlantic Multidecatal Oscillation (AMO) og er lýst þannig á vefsíðu Bandaríku haf- og veðurstofnunarinnar NOAA:
The AMO is an ongoing series of long-duration changes in the sea surface temperature of the North Atlantic Ocean, with cool and warm phases that may last for 20-40 years at a time and a difference of about 1°F between extremes. These changes are natural and have been occurring for at least the last 1,000 years.
Í nánari útskýringum er tekið fram að nú sé hlýr fasi í gangi sem passar ágætlega við okkar upplifun. AMO-sveiflan mun hafa snúist nokkuð eindregið til þessa hlýja fasa um árið 1995 og haldist þannig síðan. Kaldur fasi var hinsvegar uppi á árunum ca. 1965-1995 en á því tímabili kólnaði á Íslandi, hafísinn lét þá sjá sig, jöklar snéru vörn í sókn og á sama tíma hrundu síldveiðar við Ísland. Hlýindaskeið var svo á tímabilnu ca. 1925-1964 þegar AMO var í hlýjum fasa eins og nú. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.
Á neðra línuritinu ber ég hitann í Stykkishólmi saman við hlýja og kalda fasa AMO-sveiflunnar. Frá aldamótunum 1900 og til okkar dags er fylgnin nokkuð greinileg hlýju árin eru þegar AMO er hlýr og öfugt. Á 19. öldinni virðist þetta þó ekki fara saman en þá var litla ísöldin enn í gangi með almennt kaldari sjó hjá okkur og árvissum hafískomum.
Verði þetta samband áfram til staðar og yfirborðshitastig sjávar mun halda áfram að sveiflast á áratugaskala þá er ekki hægt að álíta annað en að kaldari tíð mun taka við á Íslandi eftir einhver misseri. Núverandi hlýja tímabil hefur þó ekki staðið lengi og því ættum við að geta fagnað hlýindum áfram hér á landi næstu árin. Ekki virðist þó vera hægt að spá fyrir hvenær næstu umskipti verða enda mun lengd tímabilana ekki vera regluleg.
Aðrar langtímasveiflur svipaðar þessari munu einnig eiga sér stað. Ein sú mest umtalaða er í Norður-Kyrrahafi og nefnist PDO (Pacific Decatal Oscillation) Sú sveifla uppgötvaðist ekki fyrr en um síðustu aldamót þegar kaldi fasinn tók þar við, en síðan hefur tekist að rekja PDO sveiflurnar allmarga áratugi aftur í tímann. Eins og sjá má á fyrstu myndinni er blár litur einkennandi núna við Kyrrahafsstrendur Norður-Ameríku.
Tengslin við hnattræna hlýnun.Vegna þessara hitasveiflna í hafinu er erfiðara að meta hversu stór hluti hlýnunar jarðar er vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þegar AMO og PDO hafa verið í hlýjum fasa á sama tíma hefur hlýnun jarðar verið mjög mikil. Við verðum samt að líta á hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa á jörðinni sem viðbót ofaná náttúrulegar sveiflur. Staðbundnar sveiflur munu auðvitað einnig halda áfram og því getum við ekki treyst á að kaldari tíð tilheyri algerlega fortíðinni hér á landi. Það er samt aldrei að vita nema hlýnandi jörð geti raskað þessu munstri, en einfaldast er að líta svo á að almenn hlýnun jarðar geri köldu tímabilin mildari og mildu tímabilin hlýrri.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.8.2010 | 22:42
Meðalhitametið jafnað í Reykjavík
Þá er það orðið ljóst að nýliðnum júlí tókst að jafna mánaðarmetið frá 1991 sem er 13,0 stig. Þegar þetta er skrifað hefur Veðurstofan að vísu ekki birt sitt yfirlit en fylgjast mátti með þessari metjöfnun í beinni útsendingu á bloggsíðu Sigurðar Þórs. Þessi metjöfnun er auðvitað merkilegt í ljósi þess að júní var metmánuður hér í Reykjavík þannig að nú stefnir allt í langhlýjasta sumar sem hér hefur mælst. Það er eiginlega svo komið að það telst varla til tíðinda lengur að hitamet séu slegin í Reykjavík að sumarlagi því fyrir utan þessi met þá eru ekki nema sjö ár síðan mánaðarmetið fyrir ágúst var slegið og hámarkshitinn í Reykjavík hefur verið tvíbættur frá aldamótum. Allnokkrir sumarmánuðir hafa síðan verið mjög nálægt metum undanfarin ár.
Júlí 1991
Þessi hlýindi eru allt annað en það sem gerðist síðustu áratugi síðustu aldar. Júlí 1991 með sinn 13 stiga meðalhita er t.d. alls ekki dæmigerður fyrir hitafar síns tíma enda voru þá liðin 31 ár frá því einhver mánuður náði 12 stiga meðalhita í Reykjavík. Hinsvegar hafa sjö mánuðir náð 12 stigum hér í Reykjavík frá aldamótum. Júlí 1991 var enda sérstakur því þá gekk yfir landið óvenjuöflug hitabylgja sem skildi eftir sig slóð hitameta víða um land. Í dag þarf ekki öfluga hitabylgju ættaða langt sunnan úr löndum til að slá met, engu líkara er að hitinn sé búinn að koma sér hér fyrir og virðist búa bæði í loftinu og sjónum.
Júlí 1936
En það var líka hlýtt hér í gamladaga. Hin rómuðu hlýindi á fjórða til sjötta áratug síðustu aldar standa alveg undir nafni. Margir sumarmánuðir á því tímabili jafnast nánast á við þá hlýjustu frá núverandi hlýindaskeiði þó að meðaltali sé heldur hlýrra nú en þá.
Á hlýja tímabilinu 1930-1965 voru hlýindin ekki eins stöðug og þau eru í dag og það hefur auðvitað áhrif á meðalhitann. Annars getur verið vandamál að bera saman mælingar frá því fyrr á tímum því mæliaðstæður og mælitæki eru ekki þau sömu. Þannig mældist t.d. í Reykjavík 13,2 stiga meðalhiti í júlí blíðusumarið 1936 og auglýstur þannig sem metmánuður eins og kemur fram hér í gamalli frétt í Morgunblaðinu. Þessi mánuður frá 1936 er í rauninni ennþá metmánuður því ekki hefur mælst hærri mánaðarhiti í Reykjavík, en hitamælingar voru þá gerðar á þaki Landsímahússins við Austurvöll. Júlí 1936 er þó ekki talinn sá heitasti þegar búið er að leiðrétta hann miðað við vandaðri mælingar sem gerðar eru í dag uppá Veðurstofuhálendinu við Bústaðaveg. Eftir þá leiðréttingu er hann skráður uppá 12,8 stig í meðalhita, en hvort það sé akkúrat rétt tala er ómögulegt að segja.
Nú er bara spurning hvort núverandi hlýindi séu komin til að vera. Sennilega verður hlýtt áfram næstu árin en hæpið er að gera ráð fyrir að kaldari tíð tilheyri alveg fortíðinni. Kannski að maður spái dálítið í það næst.
Einkunnagjöf
Að lokum má svo nefna að samkvæmt mínu vísindalega veðurgæðamati þá fékk nýliðinn júlímánuður 5,2 stig sem er góð einkunn en júlí 1991 fékk 5,1 stig. Þetta er samt ekkert miðað við einkunnina sem júlí fékk í fyrra, 5,8 stig en það var besta einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði. Nánar um veðurskráningar og júlí í fyrra er hér: Hversu gott var góðviðrið í júlí?
28.7.2010 | 18:59
Frá Versölum til villta vestursins
Þau letur sem algengust eru í dag eiga sér mislanga sögu. Klassísk bókaletur eiga gjarnan sínar fyrirmyndir frá upphafsöldum prentlistarinnar þar sem stíllinn byggist á skrift með breiðpenna og því eru línur misþykkar eftir því hvernig strikunum hallar. Þverendar á endum leggjanna þóttu ómissandi fegurðarauki en notkun þeirra má að minnsta kosti rekja aftur til Rómverska hástafaletursins. Minniháttar stílþróun áttu sér alltaf stað en þegar auglýsingaletrin komu fram á 19. öldinni má segja að allt hafi fari úr böndunum.Prentletur Loðvíks 14
Árið 1692 var ákveðið að franska vísindaakademían skildi hanna nýtt og nútímalegt letur fyrir prentsmiðju konungs. Við þessa leturhönnun var ákveðið að taka ekki eins mikið mið af skriftarpennanum og áður hafði tíðkast enda engin þörf á því þar sem prentletur þurftu ekki að miða fagurfræðina við annmarka skriftarpennans. Hver stafur fékk sitt útlit eftir vísindalegum flatarmálsaðferðum og teiknaður útfrá neti sem samanstóð af 2304 ferningum. Þetta letur var aðeins ætlað til konunglegrar notkunar og harðbannað að stæla það á nokkurn hátt. Hinsvegar þótt það svo vel heppnað að leturhönnuðum héldu engin bönd enda var sem mönnum opnuðust nýjar víddir í bókaletri og vinsæl letur eins og Baskerville komu fram. Þessi letur eru stundum köllum milliantíkva og eru nútímalegri en eldri letur eins og Garamond. Helstu einkenni milliantíkvu eru aðallega tvenn:
- Meiri munur á breidd láréttra og lóðréttra strika
- Mesta breidd á bogadregnum línum er ekki lengur hallandi
Samanburður á eldri-antíkvu (Garamond) og milliantíkvu (Baskerville):
Baskerville letrið komfram um 1750 og er eitt af algengustu bókaletrum sem notuð eru í dag. Letrið er nefnt eftir skapara sínum John Baskerville sem var virtur enskur leturgrafari og prentari. Hann gerði ýmsar tilraunir til að þróa prentaðferðir en þær höfðu ekki breyst mikið frá dögum Gutenbergs. Ekki veitti heldur af ef prenttæknin átti að halda í við sífellt fínlegri letur. Bækur þær sem Baskerville átti heiðurinn af þóttu reyndar svo vel prentaðar, á svo hvítan og sléttan pappír og með svo skýru og fínlegu letri að sumir óttuðust lestur á bókum hans gætu haft slæm áhrif á sjónina. Didonar
Þær breytingar sem komu fram í letri Loðvíks 14 og síðar Baskerville voru eiginlega fullkomnaðar seint á 18. öld þegar franski leturgrafarinn Firmin Didot kom fram með afar fíngert og fágað letur sem nefnt er eftir honum og reyndar leturflokkurinn í heild, Dídonar. Helstu einkenni þessara leturgerða eru þeir sömu og í milliantíkvunni nema að þar er gengið lengra, róttækasta breytingin er hinsvegar að láréttir þverendarnir tengjast ekki háleggnum með bogalínum heldur mynda beint strik. Lóðréttir þverendar eins og á E og T tengdust þó áfram með boga.
Frægasta og mest notaða letur í þessari ætt kom fram undir sterkum áhrifum Didots. Það eru Bodoni letrið, nefnt eftir höfundi sínum hinum ítalska Giambattista Bodoni en það er oft talið með fegurstu letrum sem komið hafa fram og er til í mörgum útgáfum.
Bodoni letrið er ekki alveg eins fínlegt og Didot letrið og hentar betur sem bókaletur. Þessi letur, Bodoni og Didot ofl. eru víða notuð í dag en óvenju áberandi eru þau á snyrtivörum og tískublöðum fyrir konur enda mjög stílhrein og fögur.
Auglýsingaletrin koma fram
Á tímum iðnvæðingar og aukinnar sölumennsku þurfti ný og sterk letur til að grípa athyglina. Því tíðkaðist mjög að teygja letrið upp í hæstu hæðir eða fita úr öllu valdi og útkoman ekki alltaf sú smekklegasta. Bodoni Poster letrið er til dæmis til mjög feitt en einnig er til útgáfa sem er öll á háveginn sú nefnist Bodoni Poster Compressed og hefur verið í mismikilli tísku í gegnum tíðina, nú síðast á 9. áratug síðustu aldar eighties-áratugnum. Þessi letur má ásamt fleirum sjá hér neðar.
Brátt fóru menn að ganga enn lengra í leturhönnun í þeim tilgangi að gera letur enn sterkari. Það leiddi til þess að nýr leturflokkur kom fram sem gjarnan kallast Egyptar. Einkenni þeirra er að allar þykktir letursins er sú sama en ekki misbreiðar eins og á eldri leturgerðum. Beinu þverendarnir halda sér áfram en eru eiginlega orðnir kassalaga. Þessi letur voru líka teygð og toguð í allar áttir og alltaf virtust geta komið fram feitari og öflugri útgáfur.
Þegar letrið voru teygð urðu lárétt og lóðrétt strik gjarnan misbreið og því gátu þverendarnir orðið talsvert sverari en leggirnir. Stundum voru þverendarnir jafnvel togaðir upp sérstaklega og báru letrið nánast ofurliði. Þarna er komið þetta sígilda kúrekaletur og ber þess merki að letur voru orðin villtari en áður og langt frá þeim elegans sem einkennt höfðu fyrstu Dídónana.
Allskonar skrautleg og flúruð auglýsingaletur voru þannig áberandi í lok 19. aldar í bland við ofurþykka leturhlemma. Smám saman urðu þó áberandi hin einföldustu letur af öllum einföldum. Það má sjá á myndinni hér að neðan. Skiltið er á verslun í New York. SAGA er annað tveggja orða sem íslenskan hefur lagt til alþjóðamála og er ritað með Bodoni Poster Compressed letrinu. Þar undir má sjá leturstíl þann sem varð ofaná á 20. öldinni - steinskrift. Það má taka fyrir í næsta leturpistli.
- - - - -
Helstu heimildir:Þættir úr letursögu eftir Þorstein Þorsteinsson.
Type: The secret history of letters. eftir Simon Loxley.
Aðrar bloggfærslur um letur má finna hér á síðunni undir flokknum: LETUR
LETUR | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2010 | 16:46
Trjágróður vex upp umhverfis borgina
Greinilegt er að allt umhverfis höfuðborgarsvæðið er gróður í mikill sókn. Þetta á ekki bara við um blessuðu lúpínuna sem var mikið til umræðu í síðasta pistli mínum, heldur ekki síður trjágróðurinn. Stundum er talað um að Reykjavík sé stærsti skógur landsins sem er kannski rétt útfrá einhverjum skilgreiningum. Heilmikið hefur verið plantað af trjám t.d. í Heiðmörk, Hólmsheiði og víðar en aðaltrjágróðurinn er raunar í görðum og opnum svæðum borgarbúa. Mikið fræmagn er því á ferðinni sem berst með vindum á svæði umhverfis borgina sem lengi hafa verið lítt gróin. Það verður því ekki betur séð að þegar fram líða stundir verði allt höfuðborgarsvæðið umkringt skógi sem er að stórum hluta sjálfsáður án nokkurrar aðstoðar mannana. Tegundirnar sem eru að vaxa hér upp að sjálfu sér virðast vera af ýmsum tegundum, ekki bara birki heldur einnig víðitegundir og annað sem fólk ræktar í sínum prívatgörðum.
Þetta má sjá allt í kringum borgina nema á gróðurvana svæði umhverfis Álverið. Sumstaðar hefur lúpína lagt undir sig heilu holtin eins og svo áberandi er, hún nær þó ekki að kæfa þau tré sem komið hafa þar á undan en spurningin er hvað mun taka við af lúpínunni þar. Þegar frá líður er ekki ósennilegt að trjágróðurinn muni verða ofaná að lokum. Holt þýðir reyndar upphaflega skógur en ekki gróðursnauð eða grýtt hæð eins og merkingin hefur þróast í hér á landi eftir að upphaflegi birkiskógurinn hvarf.
Gamli lágvaxni lynggróðurinn er víða smám saman á undanhaldi hér umhverfis borgina. Þar sem lúpínan nær sér á strik í stórum breiðum er vitanlega ekki mikil fjölbreytni á ferð. Á myndinni hér að neðan má sjá lúpínujurt sem hefur stungið sér niður í krækiberjalyng sem á sér ekki mikla framtíðarvon. Nú ætla ég ekki að vera neikvæður út í eitt eða neinn, svona er náttúran. En hvað um það ég get þó ekki séð að lúpína sé forsenda þess að gróður nái sér á strik næst borginni.
21.7.2010 | 19:45
Hin lúpínulausa fegurð
Ég hef komist að því að undanförnu að mörgum Íslendingum virðist finnast landið okkar ekkert sérlega fallegt. Jafnvel er ég farinn halda að sumum finnist landið svo ljótt að róttækra lítaaðgerða sé þörf hið snarasta. Lítaaðgerðin felst þá í því samkvæmt umræðunni að dreifa lúpínu um alla sanda hóla og hæðir og jafnvel yfir hraunin og fjöllin. Þannig gætu heilu blómabeðin þakið sveitirnar og landið fengið á sig bláan blómaljóma. Ég sá til dæmis í Fréttablaðinu um daginn grein eftir konu Lúpínufár sem vildi sjá lúpínunbreiður á öllum auðnum á Íslandi og fjöllunum einnig, þannig að með sanni mætti syngja: eitt sumar á landinu bláa.
Ég veit vel að lúpínan getur verið öflug landgræðslujurt og nýtist vel til að stöðva sandfok. Ágúst H. Bjarnason hefur verið duglegur að skrifa bloggfærslur um lúpínu sem ræktuð hefur verið í landgræðsluskini á Haukadalsheiði. Það eru sjálfsagt rök fyrir því að nýta megi lúpínuna á vissum svæðum þar sem mikill upplástur er í gangi og notadrjúg er hún vissulega til að koma í veg fyrir sandfok t.d. á Mýrdalssandi og auðvitað eykur hún frjósemi landsins með því að framleiða sjálf það köfnunarefni sem hún þarf.
Ég hef semsagt ekkert út á notagildið að setja, þekki það alveg. Það er hinsvegar þetta viðhorf að landið verði endilega fallegra þótt blómabreiður dreifi úr sér um landið. Lúpínan er falleg planta sem slík og sómir sér vel í görðum og í smáum stíl innan um annan gróskumikinn gróður. En landið okkar eins og það er, finnst mér vera fallegt, hreinir gróðursnauðir eyðisandar hálendisins hafa sína eigin fegurð rétt eins og hraunin og jöklarnir. Þetta er vissulega annað viðhorf en bændur höfðu hér áður fyrr sem sögðu að land væri ekki fallegt nema það sé nýtilegt. Listmálarinn Kjarval var reyndar einn sá fyrsti sem sá fegurðina í auðninni. Auðnin og hið opna landslag er eitt af sérkennum Íslenskrar náttúru og þannig er hún seld ferðamönnum sem koma hingað til að njóta hennar.
Það er dálítið merkilegt að viðhorf fólks til lúpínunnar virðast tengjast stjórnmálaskoðunum. Ég sá að Loftur Altice vill að lúpínan verði gerð að þjóðarblómi og tákn fyrir Hægri-Græna stjórnmálahreyfingu, hvað sem það nú er. Ég vildi frekar kalla þetta Hægri-Fjólubláa hreyfingu. Jón Magnússon nefndi í umræðum hjá Ágústi H. að hann hefði dreift lúpínufræjum í gönguferðum á Esjuna og Skarðsheiði, til að auka gróður og fegurð fjallanna. Einn benti líka á í umræðum að lúpínan geti vaxið upp á nýju hrauni (væntanlega þá storknuðu). Menn mega því varla sjá nýtt og fersk hraun öðruvísi en að vilja drita á það skrautblómum ja hérna segi ég nú bara, þvílík náttúruvernd. Eins gott að rósarunnar þrífist ekki á Íslandi, hvað sem síðar verður.
Hin sanna náttúruvernd, góðir hálsar, snýst um það að láta náttúruna eiga sig, í staðin fyrir að vera sífellt að fikta í henni. Marga dreymir auðvitað um að landið endurheimti þau landgæði sem voru hér áður en búseta hófst á landnámsöld þegar landið var vaxið birki milli fjalls og fjöru. Ef þau landgæði eiga að endurheimtast þá verður bara að sýna þolimæði og nota aðrar aðferðir þannig að landið grói upp í rólegheitum á eigin forsendum með náttúrulegum gróðri landsins en ekki endilega með inngripi mannsins með því að dreifa um landið þessari öflugu jurt sem komin er úr allt öðru og gróskumeira vistkerfi.
En umfram allt, lærum að meta fegurð auðnarinnar og hins fíngerða fjallagróðurs.
- - - -
Á myndinni sem fylgir er horft til Heklu af suðurhálendinu.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (50)
18.7.2010 | 14:49
Á Neskaupstað
Á ferðalagi um landið í síðustu viku kom ég við á Neskaupstað. Fyrir mig svona persónulega var þetta nokkuð stór stund því að Neskaupstaður var eini stóri þéttbýlisstaðurinn á Íslandi sem ég hafði ekki heimsótt áður. Staðurinn er heldur ekki í neinni alfaraleið en til að komast þangað þarf fyrst að fara í gegnum Reyðarfjörð, síðan Eskifjörð, þaðan upp svimandi háan fjallveg og í gegnum lítil og þröng göng í Oddskarði. Sömu leið þarf síðan til að komast til baka. Þetta ferðalag er þó vel þess virði enda landslagið stórbrotið, ekki síst þegar síðdegissólin keppir við austfjarðarþokuna um völdin.
Þegar komið var til Neskaupstaðar fannst mér fara vel á því að setja upp Kúbuhattinn góða sem ég er þó alla jafna ekki með á höfðinu. Neskaupstaður hafði lengi vel mikla sérstöðu meðal annarra þéttbýlisstaða því þar horfðu menn jú í austur í leit að pólitískum lausnum enda staðurinn oft kallaður Litla-Moskva. Á meðan Neskaupstaður var sjálfstætt sveitarfélag fór Alþýðubandalagið með völdin og menn skömmuðust sín ekkert fyrir sinn sósíalisma. Kannski skiptir þarna máli að Neskaupstaður er austasti þéttbýliskjarni landsins og þar með lengst frá Ameríku. Þessu er hinsvegar öfugt farið vestur í Keflavík þar sem Ameríkuáhrifin hafa verið allsráðandi.
Neskaupstaður er nú hluti af hinu sameinaða sveitarfélagi Fjarðabyggð. Staðurinn getur því ekki lengur státað af sinni pólitísku sérstöðu og kannski vilja íbúar lítið kannast við sína pólitísku fortíð. Kannski voru það áldraumarnir sem fór með hugsjónirnar. Allavega virðast tímarnir breyttir og kannski hefur menningarástandinu hnignað eitthvað í leiðinni, en staðurinn er eiginlega þekktastur í dag meðal yngra fólks fyrir sína árlegu þungarokkshátíð Eistnaflug.
Annars veit ég ekki mikið meira um þennan stað en man þó eftir snjóflóðinu mikla á áttunda áratugnum. Hinsvegar veit ég að á landbyggðinni er ég alltaf aðkomumaður og á eiginlega aldrei erindi út fyrir borgina nema sem ferðamaður. Ég get varla sagt að ég hafi stuðlað að framgangi neinna mála á landsbyggðinni með vinnuframlagi, allavega ekki þannig að ég hafi þurft að mæta á staðinn. Á Neskaupstað var ég þó mættur sem ferðamaður og sem slíkur gerði ég vonandi eitthvað gagn.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.7.2010 | 16:23
Selir á flugsundi við Jökulsárlón
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er einn að þeim stöðum við hringveginn þar sem varla er hægt annað en að stoppa og stíga út úr bílnum enda er þar eiginlega alltaf eitthvað nýtt að sjá. Vegna sjávarfalla er mismikill straumur í ánni og í háflæði getur áin í raun runnið afturábak og inn í lónið. Þangað berst því eitthvað af söltum sjó og eitthvað af fiski svo sem loðnu og síld, hver veit nema makríllin sé að þvælast þarna líka eins og víðar að undanförnu. Selirnir elta svo góðmetið inn í lónið og má því oft sjá einstaka selhaus skjótast upp öðru hvoru í lóninu.
Þegar ég kom þarna mánudaginn 12. júlí var mjög mikill straumþungi úr lóninu, sérstaklega í kringum stóra jaka sem voru strandaðir nokkru fyrir ofan brúnna þannig að eiginlegar flúðir mynduðust. Þarna var mikið líf því selirnir voru staðráðnir í því að láta ekki straumþungann stöðva sig og tóku á öllu sínu í von um smáfiskaveislu í sjálfu lóninu. Þegar selirnir stukku minntu þeir helst á höfrunga eða laxfiska, en allavega fannst mér nýtt að sjá seli í svona alvöru aksjón.
Að sjálfsögðu var reynt að mynda þessi selastökk, en erfitt var að sjá út hvar og hvenær næsta stökk færi fram. Þó tókst mér að ná einum á fluginu og er hann bara nokkuð sportlegur að sjá og hefur greinilega náð góðum tökum á flugsundinu enda syndur sem selur.
10.7.2010 | 13:32
Skrikkjótt hegðun hafíssins á Norður-Íshafinu
Ég fylgist nokkuð náið með þróun hafíssútbreiðslunnar á Norður-Íshafinu. Það línurit sem mér finnst sýna þróunina sem næst rauntíma er að finna á íshafssíðum dönsku veðurstofunnar en þar má sjá útbreiðsluþróun hafíssins á þessu ári í samanburði við 5 síðustu ár. Það sem af er þessu ári hefur útbreiðslumynstrið verið dálítið sérstakt því eftir óvenjuöflugt vetrarhámark tók við mjög hröð bráðnun sem varð til þess að útbreiðslan í júní var sú minnsta en verið hefur áður, eða a.m.k. frá því nákvæmar mælingar hófust árið 1979. Þetta varð auðvitað til þess hinir og þessir voru jafnvel farnir að sjá fram á að útbreiðslan í haust yrði jafnvel minni en hún endaði haustið 2007, en það ár var algert metár.
Nú er hins vegar komið babb í bátinn því svo virðist sem útbreiðslan hafi ekkert dregist saman í nokkra daga og útbreiðslan komin yfir það sem hún var á sama tíma árið 2007 og farin að nálgast meðallag síðustu ára. Þetta sýnir kannski best hvað erfitt getur verið að spá fyrir um útbreiðsluþróun hafíssins til skemmri tíma. Þarna er líka svo margt sem spilar inní, lofthitinn segir t.d. ekki allt því vindar hafi þarna mjög mikil áhrif ásamt skýjafari.
Fram eftir þessu sumri gekk bráðnun hafíssins nokkuð fljótt fyrir sig, ekki síst á slóðum Hudson flóans við Kanada enda hafði veturinn þar verið frekar hlýr og það gæti skýrt að hluta hvers vegna heildarútbreiðslan minnkaði svona snemma framan af sumri. Nú er hinsvegar komið að því bræða hafssvæðin á sjálfu Norður- Íshafinu og virðist það ganga eitthvað skrykkjótt þessa dagana. Vindarnir virðast vera með þeim hætti að þeir blása ísnum aðallega umhverfis pólinn eða þannig að útbreiðslan eykst með einskonar skopparakringlu- áhrifum eða miðflóttaafli. Þetta virðist hinsvegar ekki verða til þess að ísinn sleppi í stórum stíl út um sundið milli Grænlands og Svalbarða en það er helsta útgönguleið hafíssins. Þeim hafís sem þar sleppur í gegn býður ekki annað en bráðnun þegar hann berst áfram suður eftir Grænlandi. Þessi áhrif voru mjög öflug sumarið 2007.
Ég mun auðvitað fylgjast áfram með þessu spennandi máli og skelli sjálfsagt inn fréttum af stöðu mála síðar í mánuðinum. Þetta hik sem er núna þarf ekki að vera til merkis um afdrifaríkan umsnúning. Það er t.d. alveg spurning hvort það hlýja loft sem núna er yfir Evrópu muni hafa áhrif alla leið norður að Íshafinu.
Kortið hér að ofan er frá Bandarísku hafísmiðstöðinni NSIDC og sýnir stöðuna þann 8. júlí.
7.7.2010 | 01:02
Síðustu skaflarnir í Esjunni
Þeir eru orðnir lítilfjörlegir snjóskaflarnir í Esjunni eins og sjálfsagt margir hafa tekið eftir. Eftir þurran, snjóléttan vetur og hlýindi það sem af er sumri er það nú bara dagaspursmál hvenær Esjan verður alveg snjólaus séð frá Reykjavík. Það er svo sem ekkert stórmál hvort þessir skaflar hverfi eða ekki, en hinsvegar er engin ástæða til að gera lítið úr þessu því svona skaflar eru ágætis tíðarfarsmælir og endurspegla snjóalög, úrkomu og hitafar í þónokkuð víðu samhengi. Myndin að ofan er tekin þriðjudaginn 6. júlí 2010.
Mögulega erum við að sjá fram á að skaflarnir hverfi fyrr á þessu ári en gerst hefur í marga áratugi að minnta kosti. Frá árinu 2001 hefur snjó alltaf tekið upp í Esjunni, sem er lengsta tímabil af því tagi sem þekkt er. Yfirleitt hefur snjóinn tekið upp síðsumars í ágúst eða september og jafnvel ekki fyrr en í október. Árið 2003 þótti snjórinn hverfa óvenju snemma en þá hef ég punktað niður hjá mér dagsetninguna 30. júlí eða þar um bil. Við getum verið alveg örugg að snjórinn hverfi fyrir þann tíma.
Í fyrra var það alveg með herkjum að snjórinn næði að hverfa því þann 26. september snjóaði í Esjuna daginn eftir að allur snjórinn hvarf. Sá snjór hélst, og ef til vill á sá septembersnjór hlut í þeim smásköflum sem eftir eru núna í Gunnlaugsskarði í Esjunni.
Til að fá samanburð milli ára þá kemur hér önnur mynd sem ég tók í fyrra svo seint sem þann 9. ágúst og er horft til Esjunnar frá sama stað, eða frá Laugarnesi. Eins og sjá má er nokkuð mikill munur á milli ára, jafnvel þótt myndin í fyrra sé tekin rúmum mánuði seinna að sumrinu.
Í framhaldi af þessu má benda á bloggfærsluna frá apríl þar sem ég bar saman hvernig Esjan hefur komið undan vetri hin síðustu ár:
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.7.2010 | 20:29
Mánaðarmetin í Reykjavík
Í tilefni af nýju Reykjavíkurmeti meðalhitans í júní er við hæfi að fara yfir stöðu annarra mánaðarmeta fyrir borgina. Þótt síðustu 10 ár hafi verið þau hlýjustu í borginni og á landinu í heild síðan mælingar hófust, eru metin samt sem áður frá öllum tímum og ekkert sérstaklega líklegt að þau verði öll slegin í bráð.
Reykjavík á ekki eins langa og samfellda veðurathuganasögu og Stykkishólmur. Ég ætla ekki að fara út í þá sögu, en í nýju tíðarfarsyfirliti veðurstofunnar fyrir júní er sagt að mælt hafi verið í Reykjavík frá 1871. Þó eru til tölur sem ná ósamfellt lengra aftur. Allavega náðist að mæla hin óvenjulegu vetrarhlýindi árið 1847 eins og kemur fram hér að neðan.
Til samanburðar við veðurmetin er ég með meðalhita áranna 2000-2009 eins og ég hef reiknað þau. Að auki gróf ég upp af vef Veðurstofunnar upplýsingar um hita hvers mánaðar en þær ná ekki lengra aftur en til janúar 1931. Þeim fer fækkandi sem muna veður fyrir þann tíma og læt ég því þessi ár eftir 1930 duga í upptalningu á öðrum hitakærum mánuðum. Veðurstofan mætti þó alveg demba inn eldri upplýsingum fyrir okkur grúskarana. Ég get ekki lofað að þessi samantekt sé villulaus en það er þó aldrei að vita að svo sé.
Mánaðarmet hitans fyrir Reykjavík
Janúar 1847: 3,9°C (Meðalhiti 2000-2009: 0,7°C)
Það hefur greinilega verið mjög hlýtt akkúrat þarna um miðbik 19. aldar ef marka má þessa tölu sem sýnir að ekki var samfelld kuldatíð á 19. öldinni. Þessi tala gæti alveg verið nærri lagi því mjög hlýtt mældist einnig í Stykkishólmi. Eftir 1930 hafa janúarmánuðir aðeins þrisvar farið yfir 3 stigin, það var árin 1947: 3,3 stig, 1964: 3,5 og 1987: 3,1 stig. Á þessu ári var meðalhitinn í janúar 2,4 stig sem er hlýjasti janúar frá aldamótum.
Febrúar 1932: 5,0°C (Meðalhiti 2000-2009: 0,4°C)
Mjög flott hitamet sem enginn annar febrúarmánuður hefur komist í námunda við eftir 1930. Árið 1965 var meðalhitinn 4,0 stig og 1964 var hann 3,5 stig. Af þeim nýjustu var meðalhitinn í febrúar 2006: 3,3 stig.
Mars 1847: 6,4°C (Meðalhiti 2000-2009: 1,6°C)
Aftur kemur árið 1847 við sögu með óviðjafnanlegt met sem meira að segja er hærra en aprílmetið. Eftir 1930 er það hinsvegar sjöundi áratugurinn sem stendur sig best. Fyrst árið 1963 þegar meðalhitinn var 4,6 stig og svo 1964 með mjög fínan 5,7 stiga meðalhita enn og aftur. Þó nokkuð hlýir marsmánuðir hafa komið síðustu árin en engin hefur þó náð 4 stigum. Árið 2002 var meðalhitinn 3,9 stig.
Apríl 1974: 6,3°C (Meðalhiti 2000-2009: 4,1°C)
Litlu munaði að þetta met frá þjóðhátíðarárinu yrði slegið 2003 en þá var meðalhitinn 6,2 stig. Það er mikill munur á því og 2,8 stiga meðalhitanum sem var í apríl á þessu ári.
Maí 1935: 8,9°C (Meðalhiti 2000-2009: 6,8°C)
Eftir að þetta met var sett árið 1935 er það maí 1960 sem hefur staðið sig best með 8,7 stig. Eftir langa pásu í hlýjum maímánuðum kom loksins almennilega hlýr maí árið 2008 með 8,6 stig. Á þessu ári stóð maí sig alveg prýðilega og náði 8,2 stigum.
Júní 2010: 11,4°C (Meðalhiti 2000-2009: 10,2°C)
Að þessu sinni var júní þessa árs metmánuður og náði að slá út 7 ára gamalt met frá 2003 þegar meðalhitinn var 11,3 stig. Annars var júníhitinn 11,1 stig árið 1941 en fyrir utan þessi ár hefur júní ekki náð 11 stigum eftir 1930. Nokkrir aðrir mánuðir hafa þó komist nokkuð nálægt því á síðustu árum.
Júlí 1991: 13,0°C (Meðalhiti 2000-2009: 11,8°C)
Mikla hitabylgju gerði fyrri hlutann í júlí 1991 og mánuðurinn er ennþá hlýjasti mánuður sem mælst hefur í Reykjavík. Atlögur voru gerðar að þessu meti árin 2007 og 2009 en þau ár náði meðalhitinn 12,8 stigum. Árið 1936 var hitinn einnig 12,8 stig. Fleiri mánuðir á því tímaskeiði gerðu það líka gott svo sem 1939 og 1944, báðir með 12,6 stig.
Ágúst 2003: 12,8°C (Meðalhiti 2000-2009: 11,3°C)
Árið 2003 er hlýjasta mælda árið í Reykjavík og státar af hlýjasta ágústmánuðinum. Sumarið eftir, eða ágúst árið 2004 gerði svo síðsumars-hitabylgjuna miklu sem dugði þó ekki til að slá metið frá árinu áður, mánuðurinn náði bara öðru sæti með 12,6 stig. Með metinu 2003 var slegið 123 ára met frá árinu 1880 þegar meðalhitinn var 12.4 stig.
September 1939 og 1958: 11,4°C (Meðalhiti 2000-2009: 8,7°C)
Hér eru tveir mánuðir fremstir og jafnir, báðir frá hlýindaskeiðinu á miðri síðustu öld. Í öðru sæti er svo september 1941 með 11,1 stig. Hin síðari ár hefur meðalhitinn mestur verið 10,5 stig árið 2006.
Október 1915: 7,9°C (Meðalhiti 2000-2009: 4,7°C)
Þó stutt væri í frostaveturinn mikla 1918 bauð október þetta ár upp á óvenjumikil hlýindi. Eftir 1930 eru bæði október 1946 og 1959 nokkuð nálægt metinu með 7,7 stig. Það er kominn tími á afburðahlýjan október því það mesta á þessari öld er 6,2 stig árið 2001.
Nóvember 1945: 6,1°C (Meðalhiti 2000-2009: 2,4°C)
Þessi mánuður er svo afgerandi hlýjastur að varla tekur því að nefna aðra. Árið 1956 var meðalhitinn 5,0 stig og 4,7 stig þótti bara mjög gott árið 2002.
Desember 2002: 4,5°C (Meðalhiti 2000-2009: 1,5°C)
Ólíkt styttra er í desembermetið heldur en í öðrum vetrarmánuðum. Næstum því eins hlýtt var árið 1933 þegar meðalhitinn var 4,4 stig. Gott dæmi um hvað svona vetrarhlýindi eru sjaldgæf er sú staðreynd að eftir 1933 komst meðalhitinn ekki yfir 3 stig fyrr en árið 1987 þegar meðalhitinn vippaði sér léttilega upp í 4,2 stig.
- - - -
Út frá þessu má velta fyrir sé dreifingu mánaðarmetanna. Meðalhiti í Reykjavík síðustu 10 ár er rúmlega 1°C fyrir ofan meðalhita áranna 1961-1990. Hlýnun hvers mánaðar er yfirleitt þar nálægt, nema október sem hefur bara hlýnað um 0,3°C og febrúar sem hefur nánast ekki hlýnað neitt.
Mjög hlýir vetrarmánuðir virðast geta komið þrátt fyrir kaldari veðráttu á langtímaskala. Uppskriftin að hlýjum vetrarmánuðum er eiginlega bara eindregin sunnanátt og þá skiptir kannski litlu máli hvort hafís sé fyrir norðan land eða ekki.
Greinilegt er að með þeim hlýindum sem hafa verið frá aldamótum, eru það helst sumarmánuðirnir sem hafa verið að slá metin. Kannski er stutt í að 13 stiga hitametið frá í júlí 1991 verði bætt, blábyrjunin á þessum mánuði lofar allavega góðu. Sum metin virðast ansi erfið til að bæta, en ef óvenjuleg hlýindi hafa komið áður, þá hljóta þau að endurtaka sig fyrir rest, ef rétt er að við lifum á hlýnandi tímum.
- - - -
Upplýsingar um hitametin nálgaðist ég á bloggsíðu Sigurðar Þórs Guðjónssonar, Allra veðra von: Veðurmet í Reykjavík.
Upplýsingar frá Veðurstofunni yfir hitann í Reykjavík er hægt að finna hér:Veðurfarsupplýsingar frá 1949 og hér: Meðalhiti mánaða frá 1931-2000
![]() |
Hitametin féllu víða um land í júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.6.2010 | 01:00
Hafís nálægt landinu
Á þessari fínu MODIS-gervitunglamynd sem tekin er 27. júní sést vel hvað stutt er í hafísinn út af Vestfjörðum. Þetta mun víst vera heldur í meira lagi miðað við árstíma enda dálítið sérstakt að sjá hafís þetta nálægt nú um hásumarið. Sjálfsagt þurfum við þó ekkert að óttast að þessi hafís berist að landi á næstunni því af veðurspám að dæma mun nokkuð góð lægð koma upp að landinu í vikunni með stífum norðaustan- og austlægum áttum. Það er líka athyglisvert að sjá þennan blágræna lit á sjónum við Breiðafjörð, þetta er einhver þörungablómi sem tíðkast mjög þarna á þessum árstíma.
Hafísinn sem liðast svona fagurlega á sjávarfletinum eins og reykjarslæða, er að stórum hluta kominn alla leið frá Norður-Íshafinu en stærri brotinn hafa sennilega slitið sig frá landföstum vetrarísnum við Grænlandsstrendur. Inn á milli geta svo verið einstaka borgarísjakar sem brotnað hafa frá skriðjöklum Grænlands þar sem þeir ná í sjó fram.
Eitthvað af þessu geta líka verið ísbirnir. Kannski eru þeir á leiðinni hingað á flótta undan ört bráðnandi hafís á Norður-Íshafinu - okkur til skemmtunar og ánægju. Kannski er það ekki svo, en hitt er víst að mikill hafís núna við Íslandsstrendur er alls engin vísbending um að hafís sé að aukast í heildina á norðurslóðum. Svo vill reyndar til að útbreiðsla hafíss á norðurhveli er í heildina minni en mælst hefur áður á þessum árstíma, en þá er átt við gervitunglamælingar sem ná aftur til 1979. Svo geta menn rifist um hversu langt aftur fyrir þann tíma þarf að fara til að finna annað eins.
Á þessu línuriti frá Dönsku veðurstofunni má sjá samanburð á útbreiðslu hafíssins á norðurhveli miðað við síðustu ár. Þetta línurit miðast við stöðuna þann 27. júní, sama dag og loftmyndin að ofan er tekin.
- - - - -
En vel á minnst. Ég get líka bent á, svona ef einhver kynni að hafa áhuga, að ég var með gestapistil á loftslag.is þar sem má lesa einhverjar óábyrgar vangaveltur um hafísinn. Sjá hér: Íshafsbráðnun og siglingaleiðir.