1.11.2010 | 20:26
Spáð í árshitann í Reykjavík
Nú þegar októberhitinn liggur fyrir ætla ég aðeins að spá í hvert stefnir varðandi meðalhita ársins í Reykjavík. Opinber ársmeðalhiti í Reykjavík er ekki nema 4,3°C, en þá er miðað við árin 1961-1990 sem var frekar kalt tímabil. Síðustu 9 ár eða öll ár þessarar aldar hefur meðalhitinn hinsvegar alltaf verið yfir 5 gráðum að meðaltali 5,5°C. Hlýjast var árið 2003 þegar meðalhitinn náði 6,1°C. Nokkur spenna er nú í gangi því fyrstu 10 mánuðir ársins 2010 eru nánast jafn hlýir og sömu mánuðir ársins 2003 þannig að ýmislegt getur gerst en það veltur á frammistöðu síðustu tveggja mánaðanna. Hér mun ég velta mér nánar upp úr því:
Ef nóvember og desember verða mjög kaldir, eða í stíl við það sem gerðist nokkrum sinnum á kalda tímabilinu 1965-1995 og segjum að meðalhitinn það sem eftir er árs verði -2°C, þá verður meðalhiti ársins 5,5°C. Það er samt sem áður prýðilegur ársmeðalhiti og í meðallagi miðað við síðustu 10 ár.
Raunhæfara er að segja að meðalhiti nóvember og desember verði 0,45°C, eða í meðallagi miðað við viðmiðunartímabilið 1961-1990. Reyndar eru meira en 10 ár síðan þessir mánuðir hafa verið svo svalir, en ef það verður raunin þá endar ármeðalhitinn í 5,9°C og árið samt með allra hlýjustu árum sem mælst hafa.
Raunhæfast af öllu hlýtur þó að miða við reynslu síðustu 10 ára þar sem meðalhiti nóvember og desember hefur verið 1,95°C. Ef svo er þá mun árið 2010 enda í 6,1°C og jafna þar með árshitametið frá 2003.
Útfrá því er ljóst að til að ná nýju árshitameti þá þarf meðalhiti það sem eftir er ársins að vera yfir meðalhita síðustu 10 ára. Ævintýralegast væri svo ef hin miklu hlýindi nóvember og desembermánaða ársins 2002 skyldu endurtaka sig, en þá tvo mánuði var meðalhitinn 4,6°C. Með slíkum hlýindum endaði árið 2010 í 6,5°C sem væri meira en tveimur gráðum yfir opinberum ársmeðalhita.
- - - - -
Útfrá þessu má segja að árshitinn 2010 verði varla lægri en 5,5 stig og varla meiri en 6,5 stig. Miðað við svipaðan hita og síðustu 10 ár þá stefnir árið 2010 hraðbyri í mettöluna 6,1°C. Lítið þarf hinsvegar til að slá metið og því óhætt að segja ógnarspenna verði í loftinu næstu tvo mánuði nema nóvember taki upp á því að detta í kuldaköst.
Til frekari glöggvunar kemur hér svo línurit yfir meðalhitann í Reykjavík frá 1931. Græna línan sýnir hver meðalhitinn hefur verið á tímabilinu 1931-2009 (4,7°). Bleika sporaskjan lengst til hægri á svo að tákna hvar meðalhitinn 2010 mun líklegast enda.
![]() |
Hiti yfir meðaltali í október |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.10.2010 | 00:14
30 ára kuldaskeiðinu lauk með snjóflóðinu á Flateyri
Í upphafi árs 1965 kom talsverður hafís að landinu og lá í framhaldinu úti fyrir norðurlandi fram eftir vetri með tilheyrandi kuldum á norðurhelmingi landsins. Þetta var sennilega fyrsta merki um það sem í vændum var því næstu árin fór hafísinn að gerast mun nærgöngulli en tíðkast hafði lengi og við tók kalt tímabil sem stóð yfir meira og minna næstu þrjá áratugina, með smá hléum á milli þó. Á tímabilinu 1965-1995 var meðalhitinn á árunum í Reykjavík 4,2 stig, sem er 0,7 gráðum lægra en 30 árin þar á undan og rúmlega einni gráðu kaldari en meðalhiti síðustu 10 ára. Það munar um minna.
Hámark þessa kuldaskeiðs, sem ég hef áður kallað pínulitlu ísöldina, má segja að hafi verið á árunum 1979-1983 og uppfrá því fór veðurlag eitthvað að mildast. Síðasti virkilega harði veturinn hér á landi var veturinn 1994-95 sem einkenndist af miklum snjóalögum Norðanlands og í einu illviðrinu þann vetur féll snjóflóðið mikla í Súðavík. Veturinn þar áður féll einnig gríðarlega stórt snjóflóð niður í Tungudal skammt frá Ísafjarðarkaupstað sem kostaði eitt mannslíf.
Óhugur í Vestfirðingum haustið 1995Það var engin furða að óhugur væri í Vestfirðingum haustið 1995 þegar stórhríðir byrjuðu af fullum krafti seint í október. Um það fjallaði athyglisverð DV-frétt sem ég klippti út á sínum tíma og birtist daginn fyrir snjóflóðið á Flateyri undir fyrirsögninni: Komandi vetur sker úr um búsetuna. Þar segir Súðvíkingur meðal annars: Þessi vetur sem nú er greinilega genginn í garð, sker úr um hvort hér verður einhver búseta í framtíðinni. Það er óhugur í fólki; það er kvíðið og útlitið ekki björgulegt eins og núna blæs. Síðan er haft eftir íbúa á Flateyri: Menn eru orðnir verulega hvekktir á þessu. Ef til vill er þessi landshluti kominn norður fyrir mörk hins byggilega heims
(Til að lesa fréttina má stækka hana upp með því að smella nokkrum sinnum)
Daginn eftir að fréttin birtist eða um morguninn þann 26. október féll svo hið mannskæða snjóflóð á Flateyri með þeim afleiðingum að 20 manns fórust. Þetta hörmulega snjóflóð var nokkurskonar endurtekning á þeim atburðum sem áttu sér stað í Súðavík í upphafi sama árs. En þó ekki alveg, því ólíkt því sem gerðist eftir Súðavíkurflóðið þá gerði skaplegt veður strax eftir snjóflóðið á Flateyri sem gerði aðstæður bærilegri en annars hefðu orðið. Góð vetrartíð hélt áfram næstu misserin og skemmst er frá því að segja að sú góða veðurtíð hefur haldist meira og minna síðan með nokkrum hléum þó. Það má því segja að 30 ára kuldaskeiðið 19651995 hafi byrjað með hafískomunni í upphafi árs 1965 og endað með dramatískum hætti með snjóflóðinu á Flateyri þann 26. október árið 1995. Enn er blómleg byggð við lýði á Vestfjörðum og ekki lengur talað um að sá landshluti sé kominn norður fyrir mörk hins byggilega heims. Allavega er það varla veðrinu að kenna ef fólk hefur flutt þaðan burt.
Þótt vetrarveðrátta sé hafin á landinu er ekki þar með sagt að langvarandi harðindi og vetrarhörkur séu framundan. Í því sambandi má nefna það sem Einar okkar Sveinbjörnsson nefnir í lokDV greinarinnar að varasamt er að draga ályktanir af einstökumatburðum, eins og kom í ljós með óveðrið í októberlok 1995. Hinsvegar má örugglega líka hafa í huga að tíðarfar síðustu ára er ekki endilega vísbending um tíðarfar næstu ára.
Veðurspá fyrir landið þann 25. október 1995, samkvæmt DV þann 24. október.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.10.2010 | 01:19
Bara Helvetica
Allar leturgerðir hafa sinn karakter. Sum letur eru flippuð eða flúruð og önnur eru fáguð og virðuleg. Sum letur eru framúrstefnuleg á meðan önnur eru forn eða klassísk. Svo eru til letur sem eru svo hógvær að þau falla í fjöldann án þess að nokkur veiti þeim sérstaka athygli. Eitt þeirra er hið stílhreina letur Helvetica en það er svo venjulegt á að líta, að ósjálfrátt segja menn gjarnan bara Helvetica ef það ber á góma. Þó er það eitt dáðasta og mest notaða steinskriftarletur letur sem komið hefur fram.
Helvetica letrið er ættað frá Sviss og nefnt eftir fornu latnesku heiti landsins Confderatio Helvetica. Hönnuður letursins Max Miedingar er að sjálfsögðu svissneskur en letrið kom upphaflega fram undir heitinu Neau Haas Grotesk árið 1957. Stundum er talað um Svissneska skólann í grafískri hönnun en sá stíll einkennist af miklum hreinleika og formfestu og þykir mjög vitsmunalegur. Helvetican féll mjög vel að þessum hreina stíl enda hvert smáatriði þaulhugsað og vandlega frágengið þannig að næstum má tala um fullkomnun í formum.En auðvitað hefur Helvetica sinn karakter. Þetta er steinskriftarletur eins og þau letur eru kölluð sem eru án þverenda en slík letur fóru ekki að vera algeng fyrr en eftir aldamótin 1900. Ef til vill má líta á Helveticu nú orðið sem grunnletur allra steinskriftarletra líkt og Times letrið er á meðal fótaletra. Helvetica er mjög læsilegt letur og er því mikið notað samfelldum texta og þykir hentugt í allskonar smáaletursútskýringar auk misskemmtilegra eyðublaðatexta. Helvetican nýtur sín þó vel í meiri stærðum þar sem hin stílhreina teikning í hverjum staf kemur vel fram. Það er enda ekki að ástæðulausu að Helvetica, og þá sérstaklega Bold útgáfan, er notuð í fjöldamörgum merkjum stórfyrirtækja um allan heim.
Oft hefur notkun Helveticu ekki þótt standa fyrir miklu dirfsku og frumlegheit í grafískri hönnun. Á hippaárunum þótti Helvetican til dæmis alltof stíf og leiðinleg og á níunda áratugnum var hún ekki nógu fríkuð og framúrstefnuleg. Á síðustu 10-15 árum hefur Helvetican hinsvegar fengið einskonar uppreisn æru á sama hátt og eðalhönnun sjötta áratugarins, ekki ósvipað og stólarnir hans Arne Jakobsen.
Til eru nokkur letur sem eru mjög svipuð Helveticu, t.d. Univers og skrifstofuletrið Arial. Ef einhver vill þekkja Helveticu frá þessum letrum og öðrum er ágætt að miða við nokkur atriði
- Hver stafaendi er skorinn beint lárétt eða lóðrétt. Þetta sést vel í bold útgáfunum.
- Skáleggurinn í stóra R er sveigður. (Atriði 1 og 2 eiga einnig við Univers)
- Í tölustafnum 1 myndast rétt horn þar sem litla strikið er.
- Bókstafurinn stóra G er með lóðrétt strik í endann auk lárétta striksins.
- Litla a í light og regular letrinu endar í greinilegu sveigðu skotti.
- - - - - -
Að lokum má svo nefna að Helvetica er meðal örfárra leturheita sem fallbeygjast í íslensku (Helvetica um Helveticu o.s.frv.) og er jafnvel notuð með greini eins og kemur fyrir hér í pistlinum.
LETUR | Breytt 17.10.2010 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.10.2010 | 21:21
Kólnunin mikla í Norður-Atlantshafi
Það er stundum um að gera að vera nógu dramatískur í fyrirsögn. Kannski er ástæða að þessu sinni og kannski ekki. En áður en ég kem að því vil ég nefna tvær furðufréttir sem báðar snúast um meinta dramatíska kólnun sem gæti átt sér stað á næstunni í Evrópu og á hafsvæðinu hér í kring.
Á mbl.is is á þriðjudag birtist frétt sem var síðan fljótlega kippt í burtu og hefur ekki sést þar aftur. Þar kom fram að samkvæmt pólskum vísindamönnum gæti komandi vetur í Evrópu orðið sá kaldasti í heil 1.000 ár vegna þess að Golfstraumurinn væri við það lognast út af. Afleiðingin gæti orðið langvarandi kuldaskeið og allt að því ísaldarástand í Norður-Evrópu. Við nánari skoðun virðist þetta hafa verið hysteríufrétt sem fáir taka undir, ættuð úr erlendum fréttamiðlum.Þessi meinta harðindafrétt hefur sennilega verið afbökuð túlkun á orðum ítalsks eðlisfræðings Dr. Gianluigi Zangari, um að vegna olíumengunarinnar í Mexíkóflóa hefði komið ákveðið hik á sjávarhringrásir þar sem Golfstraumurinn á uppruna sinn sem gætu þýtt verulega röskun á streymi hlýsjávar út á Norður-Atlantshaf. Frétt tengd þessu birtist á Pressunni í síðasta mánuði og varað við að algert hrun gæti orðið á fiskistofnum vegna olíumengunar ásamt því að golfstraumurinn myndi stöðvast. Nokkrum dögum síðar var svo á Pressunni haft eftir íslenskum haffræðingi að þessi frétt væri óttalegt rugl eins og aðrar dómsdagsspár og auk þess erfitt að fá út að olíumengun berist hingað á sama tíma og Golfstraumurinn væri horfinn.
Sjálfsagt er engin ástæða til að óttast að Golfstraumurinn sé að stöðvast. Reyndar hefur norðurhluti Norður-Atlantshafs verið allra hlýjasta móti um nokkurt skeið og ekkert bendir til þess að Golfstraumurinn hafi veikst enda upplifum við nú eindæma hlýindi hér á landi. Hlýindum er líka spáð áfram næstu mánuði og í Reykjavík er góður möguleiki á hlýjasta árinu frá upphafi mælinga.
En hvað?
Fyrir nokkrum vikum sá ég fyrir tilviljun sjávarhitaspá frá Japönsku JAMSTEC stofnuninni (Japan Agency for Marine-Earth-Science and Technology) sem sjá má hér að neðan. Þar kemur fram að þegar líður á veturinn muni taka að kólna verulega á hafsvæðinu suður af Grænlandi og Íslandi. Þetta má sjá á hér á myndinni sem ég setti saman úr þremur spákortum sem gilda þrjá mánuði í senn fyrir komandi vetur. Hvað boðar þetta? Er kannski Golfstraumurinn að gefa sig eftir allt?
Hvað sem er hér á ferðinni þá finnst mér þetta athyglisverð spá, því ef hún gengur eftir gæti það þýtt talsvert bakslag í hitanum hér hjá okkur jafnvel næstu árin því svona kuldafrávik hefur sennilega ekki verið á Íslandsmiðum árum eða áratugum saman. Hvað býr að baki þessari Japönsku sjávarhitaspá er svo spurning. Tengist þetta olíumenguninni í Mexíkóflóa eða er þetta náttúrulegt bakslag, eða tengist þetta jafnvel minnkandi sólvirkni á einhvern hátt?
Kannski er svo bara ekkert að marka þessa langtímaspá og kannski er ég ekki að lesa rétt úr þessu. Mér finnst þetta samt vera ágæt áminning um að hvenær sem er getur komið bakslag í það mikla hlýviðraskeið sem við höfum upplifað hér á slóðum. Sjávarhitinn og heilbrigði Golfstraumsins skiptir miklu máli fyrir okkur því þótt það sé almennt að hlýna í heiminum til langs tíma litið, geta miklar sveiflur orðið á sjávarhita og hitafari á okkar slóðum eins og átti sér í kringum 1970.
Þetta er ágætt að hafa í huga á þessum hlýju októberdögum því hugsanlega erum við að upplifa síðustu góðærisdagana til sjávar og sveita að sinni allavega hvað veðrið varðar.
- - -
Ath. Undirstrikuð orð eru linkar á aðrar síður.
2.10.2010 | 12:36
Stóra sumarhitamyndin
Nú þegar heitasta sumar sem mælst hefur í Reykjavík er að baki er tilvalið að birta heilmikla mynd og dálitla samantekt sem ég hef undanfarið unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum. Þarna er um að ræða grafíska mynd af hitafari allra daga í Reykjavík frá maí til september síðustu 20 ár þ.e. árin 1991-2010. Hver láréttur borði er eitt sumar, ártalið er vinstra megin og meðalhiti sömu mánaða samkvæmt gögnum Veðurstofunnar hægra megin. Að vísu telst maí ekki til sumarmánaða hjá Veðurstofunni en ég hef hann samt með hér. Hver dagur fær sinn lit samkvæmt hitakvarðanum undir myndinni en í mínum veðurskráningum fær hver dagur hitatölu sem ég tel lýsa best hitanum yfir daginn algengt er að sú tala sé 1-2 gráðum undir hámarkshita dagsins. Með svona mósaíkmynd er auðvelt að sjá í fljótu bragði hvernig hitastig hefur þróast hvert sumar og einnig er gott að bera saman hitafar einstakra sumra. Undir myndinni hef ég svo gert lauflétta samantekt.
Lauflétt samantekt um helstu hita- og kuldauppákomur:
Hitabylgjur og hitamet
Tímabilið sem myndin nær til er hefst á hinu eftirminnilega sumri 1991 þegar geysiöflug hitabylgja gekk yfir landið fyrri hlutann í júlí. Sá mánuður reyndist sá hlýjasti frá upphafi í Reykjavík og víðar um land og mörg hitamet slegin. Þessi júlímánuður var eiginlega alveg úr takti við sína samtíð og er í anda bestu sumarmánaða sem við höfum upplifað hin síðari ár og einnig nokkurra mánaða frá hlýviðraskeiðinu um miðja síðustu öld.
Næsti almennilegi hitaatburður varð þann 11. júní 2002 þegar júní-hitametið var slegið í Reykjavík, 22,4 stig og stendur það enn. Auk lofthitans var annars mikið hitamál þessa daga hinir viðsjárverðu Falun Gong liðar sem streymdu til landsins til að hrella Kínaforseta.
Árið 2003 varð ágústmánuður sá hlýjasti sem mælst hafði í Reykjavík, 12,8 stig. Þetta var á sama tíma og mannskæð hitabylgja gekk yfir Evrópu og smitaðist sá hiti að hluta til hingað til lands án þess þó að hægt hafi verið að tala um alvöru hitabylgju hér.
Í ágúst 2004 kom hinsvegar hitabylgja svo um munaði hér á landi og var meðal annars sett nýtt hitamet í Reykjavík, 24,8 stig þann 11. ágúst, en hlýjast varð á Egilsstöðum þar sem hitinn náði rúmum 29 stigum. Mánuðurinn sló þó ekki út meðalhitamet ágústmánaðar í Reykjavík frá fyrra ári því meðalhiti mánaðarins var 12,6 stig sem þó er afar gott.
Hitametið í Reykjavík frá árinu 2004 var svo slegið á ný síðdegis í júlí 2008 þegar hitinn fór í 25,7 stig. Það voru fleiri heitir dagar þarna og þjóðin full bjartsýni og eftirvæntingar enda stutt í Ólympíuleika þar sem handboltastrákarnir ætluðu sér stóra hluti.
Nýliðið sumar reyndist svo vera það heitasta frá upphafi mælinga eins og komið hefur fram. Við fengum heitasta júnímánuð í Reykjavík, 11,4 stig og júlí jafnaði meðalhitametið frá árinu 1991. September stóð sig líka vel en mest munaði um mjög hlýja daga framan af mánuðinum og svo núna í lokin.
Kuldaköst og hret
Eitt mesta kuldakast síðari ára að sumri til var Jónsmessuhretið árið 1992. Það hret sker sig að vísu ekki mikið úr myndinni sem hér fylgir enda náði sólin að hita loftið yfir hádaginn hér í Reykjavík. Hretið var mest afgerandi á Norðurlandi þar sem ullar- og fiðurfénaður fékk illa að kenna á snjókomunni.
Snemma í júní 1997 kom mjög snarpt norðanhret sem má kalla Smáþjóðaleikahretið þar sem glæstir fulltrúar Evrópskra smáþjóða ýmist börðust áfram eða fuku undan norðannepjunni á Laugardalsvellinum. Kaldast var þann 7. júní í Reykjavík þegar hitinn fór vart yfir 4 stig. Sjálfur var ég þá staddur fyrir norðan í orlofshúsi á Illugastöðum þar sem hnoðaður var myndarlegur snjókarl.
Litlu hlýlegra var á Laugardalsvellinum kvöldið 1. júní árið 2000 þegar hinn heimsfrægi Elton John tróð upp og endaði með norðvestan snjóélin beint í fangið. Elton John-hretið er því kannski við hæfi sem nafngift.
20.-25. maí 2006 var mjög kalt á landinu með tilheyrandi snjókomu á Norðurlandi. Þessa daga var þjóðin mjög með hugann við Eurovision og vel mætti kalla þetta Silvíu Nætur-hretið.
Mikil kuldaköst hafa ekki verið áberandi síðsumars en þó er ástæða til að nefna köldu dagana eftir miðjan júlí árið 2009 þegar kartöflugrösin hríðféllu í næturfrosti Þykkvabæ. Kartöflukuldinn má því kannski kalla þetta kuldakast sem annars var algerlega úr takti við veðurlag þessa hlýja mánaðar.
Að lokum má rifja upp sérstaka hitasveiflu sem varð snemma í júlí 1995. Þann 3. júlí komst hitinn í Reykjavík í 20,5 stig og hafði þá ekki farið yfir 20 stig síðan sumarið 1991. Aðeins þremur dögum síðar var komið norðanáhlaup og þá skrái ég dagshita upp á 7 stig í Reykjavík, sem er eini blái dagurinn júlímánuði.
- - - -
Núna þegar þessi pistill er frágengin er kominn 2. október og 13 stiga sumarhiti í borginni. Það stefnir því allt í að þetta verði gulur haustdagur nema hitinn rjúki upp enn meir.
Vísindi og fræði | Breytt 2.11.2018 kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2010 | 00:34
Rólegri tímar boðaðir
Þann 21. september síðastliðinn var ég búinn að blogga í nákvæmlega þrjú ár og frá þeim degi hafa komið 364 bloggfærslur með þessari hér. Þetta þýðir að ég hef að meðaltali skrifað bloggfærslu nánast þriðja hvern dag á þessum þremur árum. Næstum aldrei hefur liðið heil vika án bloggfærslu, yfirleitt hafa þær aldrei verið fleiri en fjórar í viku, sjaldan tvo daga í röð og aldrei tvær saman daginn. Þetta hefur því verið nokkuð jafnt og þétt en þó ekki of þétt en samkvæmt meðaltalinu hafa komið út hjá mér 2,3 bloggfærslur í viku.
Nú bregður hins vegar svo við að ég er að hugsa um að fara mér hægar í sakir. Þetta bloggstarf er fyrir löngu orðið miklu meira en mér hafði dottið í hug í upphafi og satt að segja finnst mér ég vera búinn að skrifa um allt sem mig langar að skrifa um og jafnvel um allt sem ég veit. Ég hef eiginlega ekkert tekið að mér að vera þjóðfélagsrýnir en ég væri í þeim bransa þá væru bloggviðfangsefni auðvitað aldrei á þrotum. Ýmislegt af því sem ég hef skrifað um vissi ég þó lítið um áður og því hefur þetta verið ágætis fróðleiksuppgröftur fyrir sjálfan mig.
En ég er samt ekkert alveg hættur að blogga og ekki hættur að grúska. Sumar af mínum bloggfærslum eru árvissar og verða uppfærðar áfram. Svo verða örugglega einhverjar uppákomur sem ég mundi vilja deila með öðrum. Annars veit ég þetta ekki, þetta mun bara ráðast, kannski hættir maður aldrei alveg að blogga. Ég er reyndar ekki mikið fyrir það að hætta því sem ég er búinn að koma mér útí. Sumarið 1986 ákvað ég til dæmis að punkta niður hvernig veðrið yrði það sumar. Þær veðurskráningar standa enn 24 árum síðar og nokkrum mánuðum betur. Veðurskráningarnar hafa reyndar verið uppspretta ýmissa samantekta um veðrið hér á síðunni. Einni slíkri var ég búinn að lofa núna eftir næstu mánaðarmót og verður auðvitað staðið við það.
En af því að hafísinn hefur verið viðfangsefni hjá mér undanfarið og var einnig viðfangsefni minnar fyrstu bloggfærslu þá er við hæfi að birta hér nýjustu myndina frá Cryosphere Today vefnum en þar má finna hinar fínustu myndir af hafísútbreiðslunni, eins og þessa sem sýnir stöðuna frá 21. september 2010.
19.9.2010 | 22:21
Háfíslágmark númer tvö
Þeir hjá Bandarísku hafísrannsóknarstofnuninni voru heldur fljótir á sér að lýsa því yfir að hafíslágmarki ársins hafi verið náð þann 10. september þegar útbreiðslan var komin niður í 4,76 milljón km2 og farin að aukast á ný dagana þar á eftir. En ísinn hefur sínar kenjar sem mönnum reynist stundum erfitt að ráða í. Síðustu daga hefur útbreiðsla íssins tekið nýja dýfu og er samkvæmt þessu línuriti komin nálægt lágmarki ársins 2008 sem var næst minnsta útbreiðsla íssins á eftir metárinu 2007.
Línuritið sem er frá NSIDC (Bandarísku hafísrannsóknarstofnuninni) sýnir samanburð við síðustu ár nema að ég hef bætt við (í algjöru óleyfi) nýjustu upplýsingum ásamt viðmiðunarlínum og tölum og virðist útbreiðslan nú vera nálægt 4,6 millj. km2.
Trúlega mun ferillinn ekki fara neðar en þetta í ár en það sem aðallega olli þessari lokadýfu voru sterkir vindar sem mynduðust vegna samspils hæðar við norðurpólinn og lægðar við Síberíustrendur sem sjást þarna á kortinu frá 16. september, en þar sem vindurinn blés frá opnu hafssvæði inn á ísbreiðuna hlaut ísinn að hrekjast undan og þéttast. Myndin er fengin af Wetterzentrale.de og enn er ég að bæta við upplýsingum (H og L). Nú mun allt vera með kyrrum kjörum þarna norðurfrá og Norður-Íshafið fær væntanlega frið til að frjósa saman á ný enda nýtur varla nokkurs sólarhita þarna lengur.
Í síðustu færslu fjallaði ég einnig um hafísinn og var þar með ýmsar vangaveltur um efasemdarmenn og áhyggjumenn sem má taka með hæfilegri alvöru. Þar nefndi ég líka að ég hefði haft smá trú á nýju lágmarki sem sem sagt hefur orðið raunin.
![]() |
Ísinn bráðnar óvenju hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.9.2010 | 22:41
Hafíslágmarkið 2010
Fyrir mig og aðra þá sem fylgjast með þróun hafísbreiðunnar á Norðurhveli er þessi tími ársins uppgjörstími því þetta er jú þegar hafísinn nær sínu árlega lágmarki. Bandaríska hafísrannsóknarstofnunin NSIDC auglýsti á dögunum að 10. september hafi lágmarki ársins verið náð og hafísbreiðan eftir það farin að aukast á ný. Frá upphafi gervihnattmælinga árið 1979 er þetta þriðja minnsta útbreiðsla hafíssins en minni útbreiðsla mældist árið 2008 og metárið 2007.
Hvað sem mönnum finnst um það hvort minnkandi hafís á norðurhveli sé eitthvað til að hafa áhyggjur af eða ekki er þetta mjög athyglisverð þróun sem mikil ástæða er til að fylgjast með. Hafísinn er oft nefndur sem mikilvægt tákn um hlýnun jarðar sem þýðir að menn túlka hafísslágmark hvers árs útfrá því hvað þeim finnst um hlýnun jarðar. Í loftslagsumræðunni skiptast menn gjarnan í efasemdarmenn og áhyggjumenn. Efasemdarmenn gleðjast ekkert sérstaklega þegar haldið á lofti fréttum um lélegt ástand hafíssins en hafa þó leiðinni engar sérstakar áhyggjur þótt ísinn minnki. Áhyggjumenn hafa hinsvegar ekkert á móti því að hafíssútbreiðslan dragist saman ef það verður til að opna augu almenning um alvarleg áhrif hnattrænnar hlýnunar, en hafa samt áhyggjur af minnkandi hafís. Þetta er auðvitað frekar athyglisvert en þarf þó ekki að vera mjög undarlegt.
Spár sem gerðar eru um hafíslágmark markast líka af viðhorfum manna til loftlagsbreytinga, efasemdarmenn spáðu flestir hafíslágmarki yfir 5 milljónum km2 á meðan áhyggjumenn spáðu gjarnan minna en 5 milljón km2. Niðurstaða upp á 4,76 samkvæmt NSIDC hlýtur því að vera tiltölulega hagstæð fyrir áhyggjumenn þótt auðvitað valdi hún þeim nokkrum áhyggjum. Einnig ætti ég sjálfur samkvæmt þessum kannski vafasömu fullyrðingum að teljast til áhyggjumanna enda spáði ég á loftslag.is í vor að lágmarkið yrði 4,5 milljón km2. Þegar þetta er skrifað hef ég reyndar ennþá smá trú á að lágmarkið gæti endað undir 4,76 án þess að ég hafi af því neinar sérstakar áhyggjur.
Þann 15. september s.l. leit hafísútbreiðslan út eins og sést til hægri en til samanburðar sýni ég meðalútbreiðsluna í september fyrir 10 árum. Eins og sjá má eru núna stór íslaus hafsvæði norður af Alaska og Síberíu og báðar siglingingaleiðirnar norður fyrir Síberíu og Kanada greiðfærar skipum ef varlega er farið. Þetta er allt annað ástand en var t.d. um og fyrir aldamót þegar í mesta lagi aðeins önnur leiðin náði að opnast í lok sumars.
Útbreiðsla hafíssins er auðvitað bara einn mælikvarði á heilbrigði ísbreiðunnar. Ísinn getur verið misjafnlega gisinn á milli ára. Í metlágmarkinu árið 2007 náðu vindar t.d að þjappa ísnum mikið saman og hrekja hann suður um sundið milli Grænlands og Svalbarða. Þetta hefur ekki gerst í sama mæli í sumar.
Hinn eini sanni mælikvarði hlýtur hins vegar að vera heildarrúmmál íssins þar sem þykktin á ísnum er tekin í dæmið. Það hefur hins vegar verið erfitt að meta þykkt íssins af nógu mikilli nákvæmni hingað til. Úr þessu verður bætt á næsta ári þegar upplýsingar fara að berast frá nýju gervitungli Gryosat-2 sem mælir þykkt íssins með mikilli nákvæmni. Við hafísaðdáendur getum vonandi fylgst með þeim mælingum jafnóðum á netinu.
Að lokum er hér mynd sem ég útbjó útfrá ljósmyndum sem nálgaðist á Arctic Mosaic síðunni hjá NASA og er frá 16 september. Breidd myndarinnar ætti að spanna um 1000 km en norðurpóllinn er þarna í hvíta svæðinu vinstra megin. Eins og sjá má er ísinn afskaplega lítilfjörlegur þarna lengst norður undir pólnum, stór opin svæði í bland við gisinn ís og kannski bara freistandi fyrir einhvern að skella sér í ískalt sjósund
15.9.2010 | 12:21
Risabyggingin í Mekka
Það er ekkert lát á stórhuga byggingarframkvæmdum í Asíu. Í hinni heilögu borg múslima, Mekka eru framkvæmdir langt komnar við eitt mikilfenglegasta stórhýsi sem nokkru sinni hefur risið. Staðsetningin er líka sérstök því húsið rís alveg við hliðina á sjálfri Stóru moskunni þangað sem múslímar fara í sínar pílagrímsferðir og ganga sjö hringi umhverfis Kaba hofið, eða hvað sem má kalla þessa litlu kassalaga svörtu byggingu sem mannfjöldinn gengur í kring um en þar á sjálfur Abraham að hafa reist byggingu utan um svarta steininn svokallaða og akkúrat á þeim stað trúa múslímar jafnvel að sjálfur Adam hafi upphaflega reist fyrstu byggingu veraldar.
Stórhýsið sem þarna rís núna samanstendur í raun af sjö turnum sem saman mynda eina heild og nefnist Abraj Al-Bait. Byggingin á að hýsa hótel af bestu sort auk íbúða og verslunarmiðstöðvar ásamt ýmsu fleiru fíneríi. Turnarnir eru misháir, sex þeirra eru uppá 42 til 48 hæðir en meginturninn, klukkuturninn, er 95 hæðir og minnir um margt á risavaxinn Big Ben. Á hverri hlið turnsins eru dýrindis klukkuskífur sem munu verða þær langstærstu í heimi en þar á ofan kemur 70 metra há turnspíra með gylltum hálfmána á toppnum. Heildarhæð þessa mannvirkis mun líklega enda í 601 metra sem gerir þetta mjög örugglega að næst hæsta húsi í heimi því þau háhýsi sem á eftir koma eru um 100 metrum lægri. Hæsta hús í heimi er eftir sem áður hinn 828 metra hái Burj Kalifa turn í Dúbæ. En þótt Abraj Al-Bait byggingin sé ekki hæst í heimi er hún samt talin sú stærsta sé tekið tillit til gólfflatar sem mun verða 1,5 milljón fermetrar enda getur þar farið ágætlega um 100 þúsund manns í einu.
Áætlað er húsið verði tilbúið á næsta ári og framkvæmdir eru langt komnar. Fimm hinna lægri turna eru fullkláraðir en á aðalturninn vantar bara spírurnar ofan á klukkuturninn.
Um smekklegheit þessara byggingar er ekki mikið hægt að segja nema að þetta mun seint verða tekið sem dæmi um fágaðan og látlausan nútímaarkitektúr. Byggingin minnir helst á fyrstu háhýsin sem risu nálægt Wall Street samankomin í einn hnapp en þess má geta að byggingaraðilinn er hið virta byggingarfyrirtæki BinLadin Group sem stofnað var árið 1931 af Sjeik Mohammed bin Laden.
10.9.2010 | 21:39
Steinn Odds sterka í Ármúlanum
Í borgarumhverfi okkar í dag má sumstaðar finna merkilega steina og aðra orginal smábletti sem sloppið hafa frá því að verða malbiki og byggingarframkvæmdum að bráð. Einn þessara staða er vel falinn inn af afgirtu bílastæði milli Ármúla og Lágmúla og tilheyrir lóð VÍS-hússins að Ármúla 3. Þessu komst ég að við lestur greinar eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson í tímaritinu Ský þá er ég flaug skýjum ofar í Fokker vél á dögunum. Grein þessi fjallaði um ýmsar sérstakar persónur sem settu svip sinn á bæinn á liðinni öld en meðal þeirra var Oddur sterki af Skaganum, eða Oddur Sigurgeirsson, sem var uppi á árunum 1879-1953. Það sem vakti helst áhuga minn í greininni er að þar er fjallað um myndarlegan stein sem Oddur þessi mun hafa rist nafn sitt á, skýrt og greinilega, á áðurnefndum stað í Ármúlanum. Mér fannst þetta ekki síður áhugavert vegna þess að ég tel mig þekkja nokkuð vel til Ármúlans sem er nálægt mínum uppeldisstöðvum í Háaleitishverfinu þaðan sem ýmsir könnunarleiðangrar voru farnir um nágrennið á sínum tíma, til dæmis til að útvega hráefni í kofabyggingar eða þess háttar.
Það var því ekki um annað að ræða en að hafa upp á þessum steini sem ég og gerði. Eftir að hafa fundið steininn þurfti ég að ganga næstum heilan hring umhverfis hann áður en ég fann áletrunina en þar stendur stórum og skýrum stöfum: Oddur Sigurgeirsson þar undir ritstjóri, síðan með óljósara letri Harðjaxls og loks ártalið 1927. Letrið er dálítið falið bak við gróður en af ummerkjum að dæma virðist eitthvað vera um mannaferðir þarna og jafnvel að einhverjir hafi leitað sér skjóls enda skagar ein hlið steinsins dálítið fram eins og hallandi veggur. Sennilega hefur Oddur sjálfur lagst til hvílu við steininn oftar en einu sinni, allavega var þetta ekki fyrir honum hvaða steinn sem er.
Eftir að hafa ritað á klöppina á sínum tíma sendi Oddur þessa tilkynningu í Alþýðublaðið sem sjá má hér og birtist 9. mars 1927. Greinilega hefur Oddi ekki orðið að þeirri ósk sinni að áletraða stykkinu úr klöppinni hafi verið komið fyrir að gröf hans sem er í Fossvogskirkjugarði og ekki veit ég til þess að einhver hafi rekist á hann á kvöldgöngu í seinni tíð.
Í sínu lifanda lífi átti Oddur þessi annars við ýmist mótlæti að etja, hann lenti í höfuðslysi sem barn sem háði honum ætíð eftir það. Hann þótti skrítinn til máls og var stundum strítt af börnum þó sjálfur væri hann barngóður. Hann var harðger sjómaður og verkamaður en þótti sopinn góður en seinni hluta ævinnar gat hann lítið sinnt líkamlegri vinnu. Hann leit þó stórt á sig og gaf meðal annars út tímaritið Harðjaxl og gat því titlað sig ritstjóra með sanni. Orðið Harðjaxl virðist samkvæmt tilkynningunni ekki hafa verið með í upphaflegu árituninni á steininn og sennilega hefur Oddur bætt því við síðar.
Eftirminnilegasta uppátæki hans var sennilega þegar hann dubbaði sig upp í klæðnað að hætti fornkappa, sjálfsagt með aðstoð einhverra grallara og heilsaði þannig upp á kónginn á Alþingishátíðinni 1930. Við það tækifæri var tekin mynd af þeim heiðursmönnum og einnig gefið út sérstakt litprentað kort af Oddi í fullum herklæðum með textanum: Oddur Sigurgeirsson fornmaður.
- - - - -
Nánar má lesa um steininn og Odd sterka á vefnum Ferlir: http://ferlir.is/?id=7832
auk áðurnefndrar greinar í tímaritinu SKÝ.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.9.2010 | 16:34
Hlýtt loft úr suðaustri
Hér að neðan er kort úr minni smiðju sem ég teiknaði fyrir hér fyrir bloggið fyrir löngu síðan og sýnir þessa hitavænlegu stöðu á einfaldari hátt.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.9.2010 | 10:19
Tónlistarhúsið 2006-2010
Einn af föstum árlegum dagskrárliðum á þessari bloggsíðu er að birta ljósmynd af tónlistarhúsinu séð ofan af Arnarhóli. Hverja mynd hef ég tekið um hádegi einhvern bjartviðrisdaginn síðustu dagana í ágúst nema ein sem var tekin 1. september. Myndatakan nær aftur til ársins 2006 þegar gamli Faxaskálinn stóð enn uppi en þá voru framkvæmdir á svæðinu nýhafnar.
Tónlistarhúsið hefur breytt mikið um svip frá því í fyrra því nú er glerísetning hafin og búið að raða upp hinum miklu gluggakubbum á suðurhlið hússins sem blasir við frá Arnarhóli. Það er síðan til marks um skrykkjótta byggingarsögu tónlistarhússins að allt þetta kubbaverk þarf að taka niður og raða saman upp á nýtt vegna smíðagalla. Þetta þarf að gerast svo að gluggaumgjörðin standist þau verstu óveður sem hér geta skollið á. Ekki væri gott ef dýrindis glerverkið sáldraðist um allan bæ í einhverju rokinu. Þetta vesen mun þó ekki kosta okkur skattborgarana neitt auka, því mistökin skrifast á kínversku undirverktakana og húsið mun eftir sem áður opna í maí á næsta ári. Þetta tefur þó frágang að utanverðu þannig að þegar fyrstu lúðrar hljóma næsta vor og hörpusláttur hefst í húsinu verður gluggauppsetningu ólokið. Húsið eins og það lýtur út í dag er því einskonar forsýning þess sem verður.
En hér er myndasyrpan:
1.9.2010 | 21:48
Sumarveðurgæði
Nú eru aðal-sumarmánuðirnir að baki og eins oft áður ættu flestir landsmenn að geta verið vel sáttir við sitt sumarveður. Nú er það svo að eftir því sem árunum sem maður upplifir fjölgar vilja liðin sumur gjarnan renna saman í minningunni og erfitt getur verið að muna og meta hvort eitt sumar hafi verið betra en annað. Sumarið 1986 fór ég að skrá niður veður daglega og get því borið saman einstök ár veðurfarslega séð. Þar að auki hef ég komið mér upp sérstöku einkunnakerfi til að meta veðurgæði. Það geri ég með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur samkvæmt því getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Þannig get ég gefið hverjum mánuði meðaleinkunn og svo líka hverju sumri einkunn. Þetta hef ég útskýrt áður, en sýnishorn af veðurskráningu má t.d. sjá hér.
Útfrá þessu veðureinkunnakerfi hef ég svo teiknað þessa mynd sem sýnir veðureinkunn síðustu 20 sumra í Reykjavík, eða árin 1991-2010. Þarna sést að sumarið í sumar fær einkunnina 5,13 sem er mjög góð einkunn og sú sama og árin 2004 og 2007 fengu. Bestu einkunnina fékk sumarið í fyrra 5,36. Lökustu sumrin þarna eru hinsvegar árin 1992 og 1995. Þau voru þó ekki nærri eins slæm og verstu rigningarsumrin í Reykjavík fyrir nokkrum áratugum.
Lýsing á sumrum:
Hér kemur mjög stuttaraleg lýsingu á öllum sumrum frá árinu 1991. Ekki alveg tæmandi lýsing, en aðallega er miðað við mitt heimapláss, Reykjavík.
1991 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.
1992 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá komst hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 Sumarið var þungbúið suðvestanlands framan af en rættist úr því seinni hlutann.
2007 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7 stig.
2009 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands og þá sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 Eitt hlýjasta sumar sem hefur komið í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst var með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.
- - - -
Útfrá þessari lýsingu og einnig myndinni má sjá það sem flestir ættu að geta verið sammála um að sumrin hafa almennt farið batnandi undanfarin ár í Reykjavík. Eitt er víst að hitinn hefur aukist, nokkur síðustu sumur hafa líka verið sólrík og svo hefur vindinn eitthvað lægt.
Veður | Breytt 2.9.2010 kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.8.2010 | 23:16
Veðurteppt Grænlandsferð
Ég lagði upp í mína fyrstu Grænlandsferð um miðja síðustu viku og varð sú ferð satt að segja heldur lengri en búist hafði verið við. Þetta var vinnutengt ferð til höfuðstaðarins Nuuk sem sem er á vesturströnd Grænlands álíka norðarlega og Reykjavík. Ferðin var góð og gagnleg sem slík. Miðvikudaginn 25. ágúst þegar við komum á staðinn var veðrið líka fínt og náttúran skartaði sínu fegursta. Það breyttist hinsvegar til hins verra strax daginn eftir.Þegar kom að heimför á föstudeginum og fólk mætt út á flugvöll varð öllum ljóst skilyrði til flugferða voru ekki upp á það besta, eða réttara sagt, vindurinn á flugvellinum var þvílíkur að maður var eiginlega fegnastur því að takast ekki sjálfur á loft, enda fór það svo að flugvélin sem átti að koma okkur heim náði aldrei að lenda. Daginn eftir, á laugardeginum, urðu vonir um flugferð aftur að engu þegar við fengum þær fréttir að ekkert yrði flogið þann dag á vegum Flugfélags Íslands. Á sunnudeginum var enn sami strekkingsvindurinn og rigning. Þrátt fyrir það voru farþegar boðaðir út á flugvöll, bókað í vél og farangur innritaður því aftur átti flugvél að vera á leiðinni. Allt kom þó fyrir ekki því aftur þurfti vélin frá að hverfa vegna hvassviðris á flugvellinum og var þá svona heldur farið að reyna á þolinmæði farþega. Það var svo ekki fyrr en á mánudeginum sem vindinn lægði fyrir alvöru og sem betur fer náðu Flugfélagsmenn að koma vél til Nuuk við góðan fögnuð strandaglópskra ferðalanga.
Maður komst vel að því þarna hvað veður getur sett strik í reikninginn þegar kemur að ferðalögum, og slæmt veður er auðvitað fylgifiskur þess að vera veðurtepptur. Því var ekki alveg hægt að njóta staðarins til fulls, en fyrir utan vindinn þá rigndi þarna nánast stöðugt frá fimmtudegi til mánudags vegna þrálátrar lægðar suðvesturundan landinu. Trúboðinn Hans Egede og stofnandi staðarins var heldur ekki mikið að hugsa flugsamgöngur á sínum tíma enda var hann uppi á 18. öld. Flugvöllurinn í Nuuk (Godthåb) er nefnilega einn af erfiðustu flugvöllum á Grænlandi en margir helstu flugvellir landsins eru betur staðsettir lengra inn í hinum stóru fjörðum sem þarna eru. Vegasamgöngur eru þar að auki engar á milli þéttbýlisstaðanna sem eru mjög dreifðir í þessu stóra landi. Grænland er samt merkilegt land og Grænlendingar merkileg þjóð og margt er þarna hægt að upplifa þegar betri aðstæður er í boði.
Langþráð flugvél lendir í Nuuk, mánudaginn 30 ágúst. Veðurathugunargræjur í forgrunni.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2010 | 16:43
Bloggmósaík
Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að kóngulær væru grimmlyndar skepnur og þakka því Guði fyrir að þær sem við höfum eru ekki stærri en raun ber vitni. Vonandi þarf þá Sérstakur Saksóknari ekki að endurnýja heimboðið seinna. Og nú birtir hann vefsíðu og vill koma sinni hlið að í umræðunni. Gaman væri að heyra frá einhverjum sem veit allt um hana. Að auki reikna ég með að bankarnir muni geta boðið hagstæðari lán til viðskiptalífsins og einstaklinga, en þeir gera í dag. Þá fyrst yrði líft fyrir mengun á heitum og stilltum dögum á þessum slóðum. En þrátt fyrir það eigum við að vera þakklát fyrir það mikla góðviðrissumar sem þegar er að baki. Nú verður feigum ekki forðað og kreppan er að skella á af fullum þunga þetta er ekki ágiskun heldur bláköld staðreynd sem ekki verður umflúin í þetta sinn! En nú er öldin önnur, mjólkurkýrin mjólkar ekki lengur, Orkuveita Reykjavikur er skuldum vafið fyrirtæki á barmi greiðslufalls. Vona launamenn almættisins taki nú höndum saman og höggvi af fúakvistina. Það er ákveðin rökleysa! Allir vita að þetta fólk var undir verndarvæng hinna vinstri grænu kommúnista, sem beinlínis hvöttu fólk áfram í ofbeldi sínu og yfirgangi. Eðlilega barst talið að núverandi ríkisstjórn og öðru sem viðkemur pólitíksu landslagi. Tökum okkur örstutta stund til að skoða hvað þarf að gera á Íslandi. Kannski verður útflutningur á heilbrigðisþjónustu okkar næsta auðlind á við fiskinn og orkuna? En þá kemur að spurningunni, hvaðan hefur trúleysinginn sitt siðferði? Hvaða réttlæting felst í því að notast við lögguvitleysinga til að lemja á saklausu fólki? Í tilefni þess verð ég með tilboð á merkingum á skólapeysum í næstu viku. Verð bara að segja það.
- - - -
Já, margt er nú skrafað í bloggheimum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)