Færsluflokkur: Menning og listir

Steinn Odds sterka í Ármúlanum

Oddssteinn

Í borgarumhverfi okkar í dag má sumstaðar finna merkilega steina og aðra orginal smábletti sem sloppið hafa frá því að verða malbiki og byggingarframkvæmdum að bráð. Einn þessara staða er vel falinn inn af afgirtu bílastæði milli Ármúla og Lágmúla og tilheyrir lóð VÍS-hússins að Ármúla 3. Þessu komst ég að við lestur greinar eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson í tímaritinu Ský þá er ég flaug skýjum ofar í Fokker vél á dögunum. Grein þessi fjallaði um ýmsar sérstakar persónur sem settu svip sinn á bæinn á liðinni öld en meðal þeirra var Oddur sterki af Skaganum, eða Oddur Sigurgeirsson, sem var uppi á árunum 1879-1953. Það sem vakti helst áhuga minn í greininni er að þar er fjallað um myndarlegan stein sem Oddur þessi mun hafa rist nafn sitt á, skýrt og greinilega, á áðurnefndum stað í Ármúlanum. Mér fannst þetta ekki síður áhugavert vegna þess að ég tel mig þekkja nokkuð vel til Ármúlans sem er nálægt mínum uppeldisstöðvum í Háaleitishverfinu þaðan sem ýmsir könnunarleiðangrar voru farnir um nágrennið á sínum tíma, til dæmis til að útvega hráefni í kofabyggingar eða þess háttar.

Oddur áritunÞað var því ekki um annað að ræða en að hafa upp á þessum steini sem ég og gerði. Eftir að hafa fundið steininn þurfti ég að ganga næstum heilan hring umhverfis hann áður en ég fann áletrunina en þar stendur stórum og skýrum stöfum: Oddur Sigurgeirsson þar undir ritstjóri, síðan með óljósara letri Harðjaxls og loks ártalið 1927. Letrið er dálítið falið bak við gróður en af ummerkjum að dæma virðist eitthvað vera um mannaferðir þarna og jafnvel að einhverjir hafi leitað sér skjóls enda skagar ein hlið steinsins dálítið fram eins og hallandi veggur. Sennilega hefur Oddur sjálfur lagst til hvílu við steininn oftar en einu sinni, allavega var þetta ekki fyrir honum hvaða steinn sem er.

Oddur tilkynningEftir að hafa ritað á klöppina á sínum tíma sendi Oddur þessa tilkynningu í Alþýðublaðið sem sjá má hér og birtist 9. mars 1927. Greinilega hefur Oddi ekki orðið að þeirri ósk sinni að áletraða stykkinu úr klöppinni hafi verið komið fyrir að gröf hans sem er í Fossvogskirkjugarði og ekki veit ég til þess að einhver hafi rekist á hann á kvöldgöngu í seinni tíð. 

Í sínu lifanda lífi átti Oddur þessi annars við ýmist mótlæti að etja, hann lenti í höfuðslysi sem barn sem háði honum ætíð eftir það. Hann þótti skrítinn til máls og var stundum strítt af börnum þó sjálfur væri hann barngóður. Hann var harðger sjómaður og verkamaður en þótti sopinn góður en seinni hluta ævinnar gat hann lítið sinnt líkamlegri vinnu. Hann leit þó stórt á sig og gaf meðal annars út tímaritið Harðjaxl og gat því titlað sig ritstjóra með sanni. Orðið Harðjaxl virðist samkvæmt tilkynningunni ekki hafa verið með í upphaflegu árituninni á steininn og sennilega hefur Oddur bætt því við síðar.

Eftirminnilegasta uppátæki hans var sennilega þegar hann dubbaði sig upp í klæðnað að hætti fornkappa, sjálfsagt með aðstoð einhverra grallara og heilsaði þannig upp á kónginn á Alþingishátíðinni 1930. Við það tækifæri var tekin mynd af þeim heiðursmönnum og einnig gefið út sérstakt litprentað kort af Oddi í fullum herklæðum með textanum: Oddur Sigurgeirsson fornmaður.

Oddur og konungur

 - - - - - 

Nánar má lesa um steininn og Odd sterka á vefnum Ferlir: http://ferlir.is/?id=7832

auk áðurnefndrar greinar í tímaritinu SKÝ.


Gotnesk letur

Áfram skal haldið með letursögu og nú er komið að því merkilega hliðarskrefi sem gotneska letrið er en það var einkennisletur síðmiðalda þótt það hafi víða verið notað áfram í prentverki næstu aldirnar. Á síðustu öldum miðalda leitaði menning hins kaþólska heims til hæstu hæða og sem allra næst sjálfu himnaríki. Hinn rómanski bogi sem áður hafði einkennt kirkjubyggingar fékk á sig odd sem teygði sig upp á við og úr varð hinn hvassi gotneski stíll. Á sama hátt snéru biblíuskrifarar Mið- og Norður-Evrópu við blaðinu, lögðu til hliðar hina rúnnuðu Karlungaskrift og tóku upp þetta háa og kantaða letur sem hefur verið kallað gotneskt letur. Þessi leturþróun var þó kannski ekki bara fagurfræðilegt tískufyrirbæri heldur líka praktískt því með gotnesku skriftinni var hægt að skrifa þéttar sem sparaði dýrmætt bókfell auk þess sem leturgerðin bauð upp á ýmsar styttingar með sameiningu einstakra stafa eins og sést í dæminu hér að neðan.

Gotnesk Textura

Mynd:Handskrifað textúr-letur í enskri Biblíu frá árinu 1407.
 

Gotneskt letur er stundum kallað öðrum nöfnum eins og t.d. brotaletur og blackletter á ensku. Gotneska heitið festist eiginlega við þessa leturgerð sem niðrandi uppnefni húmanískra Suður-Evrópumanna sem voru á annarri og klassískari línu og héldu áfram að þróa sitt lágstafaletur í þá átt sem við þekkjum í dag.

Gotneskt búturElsta og stífasta gerðin af gotnesku letri nefnist textúr og einkennist af jöfnum, lóðréttum strikum í grunninn og misbreiðum skástrikum eftir því hvernig þeim hallar gagnvart fjaðurpennanum. Bogadregnar línur eru nánast engar. Ef tekinn er bútur úr almennilegri textúr-skrift á réttum stað kemur randmynstrið og reglan í ljós.

GutenbergsbiblíaFrægasta og áhrifamesta notkun á gotneska textúr-letrinu er sjálf Gutenbergsbiblía frá því um 1450-60 sem er fyrsta og eitt fallegasta stórvirki prentlistarinnar. Þar var beitt þeirri byltingarkenndri nýjung að hver stafur var handgerður og steyptur í blý og stöfunum síðan raðað upp á hverja síðu fyrir sig. Gutenberg sjálfur vildi að Biblían væri sem líkust handskrifuðum bókum og því valdi hann að nota gotneska textúr-letrið. Þessi hugsun átti eftir að vera ríkjandi áfram í prentverki um nokkurt skeið.

Elstu íslensku handritin voru ekki rituð með gotneskri skrift heldur hinni eldri Karlungaskrift sem var líkari lágstafaskrift okkar tíma. Um 1400 voru gotnesku letrin hinsvegar nánast allsráðandi hér í handritagerð og síðar í prentverki. Hin þétta og hvassa gerð gotneska letursins - textúr - var þó ekki notuð á prentaðar bækur hér því komnar voru fram léttari afbrigði sem buðu upp á sveigða og mýkri stafi. Gotneska leturafbrigðið sem notuð var í Guðbrandsbiblíu nefnist fraktúr sem byggist bæði á beinum og sveigðum línum sem gerir letrið læsilegra, en verður þó um leið óreglulegra á að líta í samfelldum texta heldur en textúr.

Gudðbrandsbiblía letur

Mynd: Prentað fraktúr letur í Guðbrandsbiblíu frá árinu 1584.
 

Hinar léttari gerðir gotnesks leturs voru mjög lífseigar fram eftir öldum á vissum svæðum og þá sérstaklega í Norður-Evrópu. Á Íslandi héldu menn áfram að prenta sínar bækur með þessum leturgerðum fram á 19. öld þó að í Evrópu hafi verið komin fram nútímalegri leturgerðir. Lífseigust urðu þessi letur þó í Þýskalandi enda þóttu þetta lengst af vera þjóðleg letur. Nasistum þótti það einnig líka í fyrstu en skiptu svo rækilega um skoðun árið 1941 eftir að þeir fóru að tengja gotnesk letur við gyðinga, hvernig sem þeir fundu það út.

Í dag eru gotnesk letur nánast ekkert notuð í samfelldum texta nema í sérstökum tilfellum. Algengt er enn í dag að nota gotnesku letrin í blaðahausa virðulegra og íhaldssamra dagblaða. Nærtækast fyrir okkur er að benda á haus Morgunblaðsins sem byggist á hinu forna textúr-afbrigði. Hinsvegar má gjarnan sjá gotnesk letur á allt öðrum og hörkulegri vettvangi t.d. meðal þungarokkara og rappara svo eitthvað sé nefnt, en þá erum við kannski komin dálítið langt frá upphaflegu hugsun leturskrifara miðalda.

Dagblöð hausar

SnoopDog - Motorhead

 

- - - -

Eldri bloggfærslur mínar um letursöguna má finna hér:

TRAJAN leturgerðin 

Hið forneskjulega Únsíal letur 

Meðal heimilda sem ég notast við er ástæða til að nefna samantektina: Þættir úr letursögu eftir Þorstein Þorteinsson sem birtist í bókinni, Prent eflir mennt, í ritröðinni: Safn til iðnsögu Íslendinga.

 


Hvenær er listaverk listaverk?

Sólfar og turn

Það hefur oft reynst erfitt að finna eina skilgreiningu á því hvað sé list. Ýmist er talað um list útfrá einhverjum fagurfræðilegum gildum eða öðrum huglægum gildum sem eiga að sýna okkur tilveruna í nýju og óvæntu ljósi eða að vekja hjá okkur óræðar tilfinningar. Þannig er listrænt gildi verks háð persónulegri upplifun hvers og eins og því ómögulegt að allir geti komið sér saman um það hvenær list er raunverulegt list.

Svo má líka einfalda málið og segja að allt sem gert er í listrænum tilgangi sé list, óháð því hversu vel eða illa heppnað viðkomandi verk sé í huga áhorfandans. Í leiðinni verður þá að gera strangar kröfur til verksins að það sé upphaflega gert í listrænum tilgangi og standi sjálfstætt sem slíkt og ekkert annað. Sólfarið við Sæbrautina er til dæmis hreinræktað listaverk. Þó það hafi víðtækar skírskotanir þá er það ekkert annað en listaverk. Niðursuðudós getur líka verið listaverk, sé hún gerð í listrænum tilgangi eingöngu, jafnvel þótt hún sé í engu frábrugðin venjulegri niðursuðudós sem ætluð er til sölu í matvöruverslun.

Eiffel turninnEiffel-turninn var upphaflega byggður fyrir heimsýninguna í París árið 1889 en til stóð svo að rífa hann niður að nokkrum árum liðnum. Menn voru missáttir við þetta mannvirki sem sumum fannst vera forljótt járnavirki og gagnslaust í þokkabót. Ekki voru allir vissir um hvað Eiffel turninn væri, enda virtist hann ekki byggður í praktískum tilgangi sem gagnaðist samfélaginu. Þá sagði einhver snjall náungi að Eiffel turninn væri ekkert annað en listaverk, enda byggður sem slíkur og gæti því staðið sem listaverk um aldur og ævi. Eftir það hefur engum dottið í hug að rífa Eiffel turninn.

Einn flötur er á þessu máli til viðbótar. Hafi Eiffel turninn verið byggður sem gagnslaust mannvirki, hvað þá með byggingar sem hér hafa verið reistar á undanförnum árum – góðæristurnana? Háhýsið við Höfðatorg mætt flokka sem ágætis byggingarlist en er reyndar ekki alveg gagnslaust því einhver starfsemi fer þar fram á efri hæðunum. En ef hann stæði alveg tómur og væri þar með gagnslaus, mætti þá flokka hann sem sjálfstætt listaverk? Í rauninni ekki, enda var hann byggður sem skrifstofuhús sem er praktískt fyrirbæri og því alltof seint að skilgreina hann sem sjálftsætt listaverk. Ef bygging hússins hefði hinsvegar verið ákveðin með listrænan tilgang í huga eingöngu þá mætti vel kalla hann listaverk í dag.

Turnendi


Hið forneskjulega Únsíal letur

uncial

Það vestræna letur sem við notum nú á dögum skiptist í HÁSTAFLETUR  og lágstafaletur þar sem meginreglan er sú að nota lágstafina í öllu meginmáli en hástafina í upphafi setninga og í sérnöfnum. Þessa gömlu hefð má rekja aftur til skrifara sem uppi voru á dögum Karlamagnúsar um árið 800 eða jafnvel fyrr. Á dögum Rómverja var einungis notast við hástafaletur enda var þá ekki um neitt lágstafaletur að ræða. Þegar farið var að skrifa upp guðsorð í stórum stíl á fyrstu öldum kristninnar þróaðist þetta hástafaletur í átt til léttari skriftar sem einkenndist af meiri bogalínum en verið hafði áður þannig að fljótlegra varð að skrifa. Þessi þróun varð til þess að lágstafirnir urðu til, menn höfðu þó ekki gleymt hástöfunum sem þóttu hátíðlegri og voru því áfram notaðir í fyrirsagnir og önnur virðulegheit eða bara eins og við notum þá í dag.

Trajan/Omnia

Sú leturgerð sem var allsráðandi í Evrópu á tímabilinu 400-800 hefur verið kölluð Únsíal letur og ber það öll einkenni þess að vera einskonar millistig hástafa og lágstafa. Ólíkt hinu rómverka letri er hringformið þarna áberandi en hugsanlega má rekja það til fornrar gotneskrar skreytilistar sem byggði mjög á bogdregnum línum og fléttum. Til eru nokkrar nútímaútgáfur af Únsíölum (Uncial letters) og ber ein sú dæmigerðasta nafnið Omnia og er það sýnt hér ásamt hinu Rómverska hástafaletri. Sumir bókstafirnir hafa ekki breyst mikið en mesta þróunin hefur orðið á stöfum á borð við A, D, M og H. Annað sem hefur breyst er að sumir stafir teygja sig upp fyrir leturhæðina og aðrir ná niður fyrir og er það einmitt eitt einkenni lágstafana okkar í dag. Þetta letur er eins og aðrir Únsíalar einingis til sem hástafaletur, eða lágstafaletur eftir því hvernig á að skilgreina það.

BookOfKellsÚnsíal letur datt að mestu uppfyrir á 9. öld þegar nútímalegri Karlungaletur komu fram og síðar hin skrautlegu og köntuðu gotnesku letur sem enn má t.d. sjá á mörgum blaðahausum eins og á Morgunblaðinu. Únsíal letur héldu þó lengst velli á Írlandi enda er það einskonar þjóðarletur þeirra og nota Írar það óspart þegar þeir vilja minna á sinn forna menningararf.Irish

Á Írlandi var einmitt Book of Kells skrifuð en hún er talin meðal fegurstu bóka sem ritaðar hafa verið. Myndin hér til vinstri er úr þeirri bók en letrið þar flokkast sem hálf-únsíall sem er afbrigði af þessu letri. Þessi írska útgáfa er líka stundum kölluð eyjaskrift (insular script).

Það er ekki algengt að rekast á únsíal letur á prenti eða í umhverfi okkar í dag. Það er þó athyglisvert að í nútímalegu glerhýsunum við Höfðatorg er veitingastaður sem ber hið forneskjulega nafn Eldhrímnir. Leturgerðin á skiltinu er einmitt hreinræktaður únsíall sem þykir sjálfsagt vel við hæfi.

eldhrimnir


TRAJAN leturgerðin

Trajansúlan

Það stafróf sem við notum hér á vesturlöndum kallast Latneskt stafróf eða latneskt letur og er eins og margt annað, arfleifð frá hinu forna Rómaveldi. Allra frægasta dæmið um notkun Rómverja á latneska letrinu er að finna á undirstöðum Trajan-súlunnar sem kennd er við Trianus Rómarkeisara. Súlan sjálf er frá árinu 113 og er þakin mikilli myndasögu sem segir af velheppnuðum herleiðöngrum keisarans. Letrið sem höggvið er í undirstöðuna hefur orðið einskonar útgangspunktur í klassískri leturgerð til okkar daga. Útfærsla letursins er greinilega þaulhugsað og ber klassískri fagurfræði vitni.

Þarna má t.d. sjá þá nýjung þess tíma að öll lárétt strik eru grennri en þau lóðréttu og allar bogalínur eru misþykkar samkvæmt því. Önnur nýjung sem hefur orðið ódauðleg í gegnum aldirnar er lítið þverstrik á endum strika, en slík letur eru nú almennt kallað fótaletur upp á íslensku eða Serífur, samanber letur eins og Times og Garamond. Ástæðan fyrir því að misþykkar línur og þverstrik komu til er gjarnan talin vera sú að letrið hafi verið málað á steininn með flötum pensli áður en letrið var meitlað. Það var svo ekki fyrr en á síðustu öld sem komu fram hrein og bein letur í nútímastíl án þessara skreytiþátta. Það eru letur eins og Helvetica og Arial, oft kölluð steinskriftir eða Sans Serif letur.

Á tímum Rómverja var ekki um neina lágstafi að ræða en þeir áttu eftir að þróast með tímanum þegar farið var að skrifa handrit í stórum stíl enda hentar þetta letur ekki vel til hraðritunnar, hinsvegar hefur sú hefð lengi verið ríkjandi að nota hástafi í upphafi setninga.

Trajan letur
Nokkrar leturgerðir hafa verið teiknaðar sem líkja eftir letrinu á Trajan súlunni Rómversku. Það þekktasta af þeim var teiknað árið 1989 og ber einfaldlega heitið TRAJAN. Letrið hefur talsvert mikið verið notað þegar á að ná fram klassískum virðuleika og fínlegheitum enda er þetta auðvitað afar fallegt letur.

Stundum er þetta letur kallað bíómyndaletrið því það hefur verið sérlega vinsælt að nota það á kvikmyndatitlum. Einnig mætti líka kalla það bókarkápuletrið miðað við hvað það hefur verið vinsælt til slíks brúks hér á landi og ef einhver er með vegabréfið sitt uppivið þá er Trajan letrið þar allsráðandi. Eins og á tímum Rómverja þá er nútímaútgáfa Trajan letursins aðeins til í hástöfum en það takmarkar auðvitað notkun letursins í löngum textum. Miðað við hvað Trajan letrið hefur verið mikið notað undanfarin ár, er kannski komið því að það þurfi smá hvíld sem aðalletur á bókarkápum og kvikmyndatitlum. Þetta letur mun þó verða notað lengi áfram þegar leitað er eftir klassa eða virðuleik í grafískri hönnun. Frumlegt er það þó ekki enda er klassíkinni ekki ætlað vera frumleg.

Trajan-notkun


Íslenskt mál - heimsyfirráð eða dauði!

Nú er íslenskudagurinn og þá skal spáð í íslenskuna. Spáðu í mig, söng Megas á sínum tíma eins og frægt er og fyrir löngu orðið klassískt. Hversu sjálfsagt er það annars að syngja á íslensku? Hefði þessi söngur orðið eins sígildur ef hann hefði verið fluttur á ensku Think of me, then I will think of you? Hvað með Braggablús Magnúsar Eiríkssonar (Barrack blues) eða Stál og hníf Bubba Mortheins, (Steele and knive)?

Vinsælasta lagið á Rás2 um þessar mundir heitir Stay by You og er flutt af íslenskri hljómsveit sem heitir Hjaltalín. Þetta er svo sem ágætislag með ágætishljómsveit. Nafnið Hjaltalín minnir á þá tíma þegar fínar fjölskyldur tóku upp ættarnöfn til að hljóma meira „international“. Stay by you er líka mjög international nafn á lagi, þykir kannski ekki eins lummulegt eins og Stattu með þér upp á íslensku. Ansi er ég þó hræddur um að þetta lag muni fljótt gleymast og jafnvel hljómsveitin sjálf eins og hún leggur sig. Reyndar er lag Páls Óskars, Þú komst við hjartað í mér langvinsælasta lagið sem hljómsveitin Hjaltalín hefur flutt og það lag þeirra sem líklegast er til að lifa inn í framtíðina. Íslensk dægurlög sem flutt eru á ensku eiga nefnilega það til að gleymast fljótt og vel. Hver man til dæmis eftir lögunum með Change eða Rikshaw?

Það er svo sem ekkert óeðlilegt að hljómsveitir og söngvarar sem starfa aðallega erlendis syngi á einhverri erlensku. En þá eru þeir heldur ekkert að syngja fyrir okkur. Samt er það svo að þekktasta íslenska hljómsveitin erlendis, Sigurrós, hefur alltaf sungið heilmikið á íslensku og virðist það ekkert há þeim og ef eitthvað er þá skapar íslenskan þeim sérstöðu. Í mér syngur vitleysingur er eitt af þeirra nýjustu lögum. Stundum syngja þeir líka á sinni eigin „vonlensku“ sem enginn skilur.

Svo er bara að minnast á Sykurmolana en þau tóku upp slagorðið heimsyfirráð eða dauði sem er auðvitað í góðum íslenskum útrásaranda. Það má alveg minnast á að lögin sem þau upphaflega sigruðu heiminn með voru meira og minna fyrst samin á íslensku. Þar á meðal þeirra allra frægasta lag Afmæli sem hér fylgir á „Þú-túpunni“. Algerlega magnað lag og texti, og er vel við hæfi núna enda er þetta jú afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar. 

 

 

Hún á heima í húsinu þarna / Hún á heim fyrir utan / Grabblar í mold með fingrunum / og munninum, hún er fimm ára
Þræðir orma upp á bönd / Hefur köngulær í vasanum / Safnar fluguvængjum í krús / Skrúbbar hrossaflugur / og klemmir þær á snúru
Ahhh...
Hún á einn vin, hann býr á móti / þau hlusta á veðrið / Hann veit hve margar freknur hún er með / Hún klórar í skeggið hans
Hún málar þungar bækur / og límir þær saman / Þau sáu stóran krumma / Hann seig niður himininn / Hún snerti hann!
Ahhh...
Í dag er afmæli  / þau sjúga vindla / Hann ber blómakeðju / og hann saumar fugl / í nærbuxurnar hennar
Ahhh...
Þau sjúga vindla... / Þau liggja í baðkarinu... / Í dag er afmælisdagur ...
Tam, tam, tam-a-tam-a-tam...


Sundskýlan í Feneyjum

sundskýlan

Það hafa verið nokkrar umræður um framlag Íslands til Feneyjartvíæringsins í ár ekki síst eftir að listamaðurinn Þórður Grímsson steig fram og líkti þessu sjónarspili við nýju fötin keisarans, nú síðast í laugardagsblaði Moggans. Einnig kemur fram gagnrýni á kostnaðinn við þetta sýningarhald. Það þykir allavega mörgum frekar kyndugt að halda uppi listamanni í sex mánuði suður í Feneyjum þar sem hann málar reykjandi og drekkandi félaga sinn á speedo-sundskýlu og að vegsama þetta allt að auki sem einhverja ógurlega snilld.

Ég hef reyndar haft mínar efasemdir um ágæti Ragnars Kjartanssonar sem myndlistarmanns en miðað framlag hans til æðri lista er auðvelt að fá á tilfinninguna að hann sé annaðhvort ofmetinn kjáni eða gegnheill snillingur. Eftir að hafa velt þessu aðeins fyrir mér er ég hinsvegar búinn að átta mig á því að hann er nær því að vera en sannur snillingur heldur en hitt. 

Í Lesbókargein fyrir nokkrum vikum var t.d. haft eftir Ragnari að við Íslendingar værum bestir þegar við erum amatörar og við hefðum oft náð langt á þeim forsendum, þetta kæmi sér hinsvegar illa þegar um bankastarfsemi er að ræða. En það er eitthvað við þennan hæfileikasnauða amatörisma sem höfðar til mín. Ef Ragnar væri snilldarmálari þá gengi verkið ekki upp þarna í Feneyjum. Nýju fötin keisarans er kannski rétt skilgreining en ekki í neikvæðum skilningi því verkið er einmitt nýju fötin keisarans og á að vera það. Ég lít því á þennan gjörning í heild sinni sem upphafningu á hinu harmræna hæfileikaleysi þar sem ekkert nema ósigur í rómantískur anda mun blasa við í lokin. Staður og stund skipta þarna líka máli enda eiga Feneyjar sér mikla menningarsögu, þeir lögðu sin skerf til endurreisnarinnar með Feneyjarmálurunum og þarna er listamaðurinn staddur í 600 ára gömlum salarkynnum innan um alla myndlistarhefðina og málar eina mynd á dag með How to Paint bókina við höndina.

Með sundskýlugjörningnum í Feneyjum vaknar líka sú sígilda spurning hvað sé list og hvar eru mörkin á milli listar og hreinnar vitleysu. Mér finnst þetta óþarfa vangaveltur því það sem gert er í listrænum tilgangi hlýtur alltaf að vera list, sama hversu vitleysan virðist mikil. Það er heldur ekkert sem bannar hæfilega gamansemi í myndlist. List má vera alvarleg með háfleygum boðskap, en það er þó ekkert sem segir að svo eigi alltaf að vera. Fólk má auðvitað hafa sína persónulegu skoðun á því hversu merkilegt því finnist viðkomandi listaverk vera en bæði hin sterku neikvæðu og jákvæðu viðbrögð við sundskýlugjörningnum í Feneyjum ýtir undir þá skoðun mína að hér hafi vel tekist til. 

- - -

In THE END langar mig að bæta við hádramatískum endi kvikmyndarinnar Dauðinn í Feneyjum, sem gerð var eftir skáldsögu Thomas Mann, tónlistin er úr 5. sinfóníu Gustaf Mahler.  

Myndirnar með pistlinum eru úr grein Ragnar í New York Times:

http://www.nytimes.com/2009/06/04/arts/design/04icel.html


Veggjakrot og steinristur í Örfirisey

Örfirisey 01

Örfirisey er merkilegur staður og þangað lagði ég leið mína í landkönnunarferð einn góðviðrisdaginn núna í mánuðinum. Ég endaði þar á merkilegum slóðum sem ég hafði ekki komið á áður, það er að segja á bakvið olíutankana miklu sem þar eru. Það er þó greinilegt að einhverjir hafa stungið þarna niður fæti á undan mér og skilið eftir sig ummerki. Bæði er þarna mikið veggjakrot á útveggjum olíustöðvarinnar en einnig má finna þarna merkilegar steinristur í óspilltum sjávarklöppunum yst á eynni. Þessar steinristur þykja reyndar það merkilegar að þær eru skráðar sem Borgarminjar og er staðurinn merktur sem slíkur með litlu skilti.

Örfirisey kortÞessi norðvesturendi Örfiriseyjar er þó greinilega fáfarinn í dag, en helst eru það greinilega spreyjarar sem gera sér ferð þangað nú á dögum, en veggurinn meðfram olíubirgðastöðinni er víst einn af fáum stöðum í borginni þar sem listrænt ungviðið fær að iðka sína veggjakrotslist í friði og í fullum rétti. Sjálfsagt myndi mörgum finnast umhverfið þarna vera full harkalegt enda ekki beint rómantískur blær yfir myndmáli veggjakrotsins og ekki er olíustöðin með sínum stóru tönkum og óþef vel til þess fallin að auka mönnum andagift vegna fegurðar náttúrunnar.

Annað hefur verið uppi á teningnum í gamla daga þegar menn ristu stafina sína og tjáðu jafnvel ást sína með því að meitla hana í stein á kvöldgöngutúrum. Frá hernámsárunum má einnig sjá þarna nöfn bandarískra dáta en elstu og merkilegustu steinristurnar er öllu eldri, eða frá þeim tímum er kaupahéðnar stunduðu verslun þarna út í eyju.

Hér koma svo nokkrar myndir úr umræddum leiðangri sem var farinn síðdegis þann 17. maí 2009.

Örfirisey 02

Göngustígur á uppfyllingu endar hér.

Örfirisey 03

Vel merktur hvíldarstaður

Örfirisey 04

Ónafngreindur listamaður að störfum.

Örfirisey 05

Borgarminjar framundan

Örfirisey 06

Tankar og klappir. Þessi ysti oddi Örfiriseyjar heitir Reykjarnes og þar eru umræddar steinristur sem teljast nú til borgarminja.

Örfirisey 07

Elsta og fallegasta áletrunin. Sennilega er hún rituð af Hendrik Handsen sem var verslunarmaður í Örfirisey á dögum Kóngsverslunarinnar. Hendrik þessi hafði áður verið kaupmaður á Básendum en hraktist þaðan eftir sjávarflóðið 1799. (Skv. Árna Óla – Gamla Reykjavík)

 

Örfirisey 08

Ekki veit ég hvaða ástfangna par ritaði þetta né hvenær.

 


William Blake og myndin af Isaac Newton

Blake - Newton

Listasagan hefur að geyma ýmsa kynlega kvisti sem hafa farið sínar eigin leiðir og verið dálítið á skjön við tíðarandann hverju sinni. Þetta eru gjarnan listamenn sem njóta lítillar hylli í lifandi lífi en fá uppreisn æru löngu eftir sinn dag þegar þeirra tími er kominn. Einn af þeim sem þetta gæti átt við er enski myndlistamaðurinn og skáldið William Blake sem upp var á árunum 1757-1827 en hann gaf út við lítinn orðstýr miklar ljóðabækur sem hann prentaði og myndskreytti sjálfur í takmörkuðu upplagi.

Það sem gerði William Blake utanveltu meðal gáfumannasamfélagsins var eindregin andstaða hans við skynsemis- og vísindahyggjuna sem var allsráðandi á hans tímum. Einnig hafði hann sérstakar skoðanir í trúmálum þótt hann væri sjálfur sanntrúaður en framar öðru túlkaði hann veruleikann út frá sínu eigin hyggjuviti og hughrifum. Ein af hans frægari myndum sýnir mann í hálfgerðu guðalíki sem er niðursokkinn í mælingar, þetta mun vera Isaac Newton sem William Blake var ekki par hrifinn af, ekki frekar en af öðrum hálærðum vísindamönnum sem að hans áliti voru svo blindir í sinni vísindahyggju að þeir sáu ekki hinn raunverulega heim sem í kringum þá var, rétt eins og Newton þarna á þessari mynd.

Þessi togstreyta milli vísindalegrar skynsemishyggju og andlegrar skynjunar hefur oft komið upp í menningarsögunni og misjafnt hvort viðhorfið hefur betur hverju sinni. Hippahreyfingin og nýaldarhyggja eru dæmi um það síðarnefnda ásamt líka rómantísku stefnunni og spíritisma. Þótt vísindahyggja hafi leitt til almennra framfara held ég að það sé mikilvægt að viðurkenna að skynsemi og hæfileikum mannsins séu takmörk sett, eins og oft hefur komið í ljós enda getur ofurtrú á hæfileikum okkar stundum leitt til tómrar vitleysu.

Svo ég tali um mig sjálfan þá er ég yfrleitt talinn vera frekar jarðbundinn og hef litla trú allskonar handanheimum og því sem ekki er mælanlegt. Einnig get ég líka verið skipulagður, allavega á sumum sviðum, t.d. er ég búinn að ákveða hvað ég mun skrifa hérna á blogginu í næstu þremur færslum. Það verður þó ekkert gefið upp en ég get þó sagt að næst verður boðið upp á léttmeti í yfirþungavigt en með ljóðrænu ívafi. Þar á eftir mun ég svo halda áfram að mæla heiminn, jafn staurblindur og venjulega á samfélagið í kringum okkur.

 


Hvernig lítur íslenski fáninn út?

Ég ætla að halda áfram á þjóðlegum nótum en þó ekki alveg í sauðalitunum því nú er það okkar ástsæli þjóðfáni sem ég ætla að taka fyrir. Íslenska fánanum hefur talsvert verið flaggað undanfarið og ýmsir farnir að merkja sinn varning með fánanum til að undirstrika innlendan uppruna þess sem verið er að selja. Allt gott um það að segja nema hvað að mér hefur oft fundist vera dálítið kæruleysi ríkjandi varðandi það hvernig hann birtist. Litirnir í fánanum eru t.d. gjarnan mjög úr skorðum og hlutföllin oft bara einhvernvegin. Það eru til mjög skýrar reglur um hlutföll fánans sem auðvelt er að fylgja, en þegar kemur að litunum þá vandast málið og ekki óeðlilegt að ýmsar litaútgáfur komi fram.

fánalitirLitir

Þegar íslenski fáninn var upphaflega ákveðinn árið 1915 var lýsingin á litunum þannig að hann skuli vera heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi inn í hvíta krossinum. Það eru flestir sammála um það hvernig hárauður litur er og hvítur er jú alltaf bara hvítur, en hinsvegar er það þetta með heiðbláa litinn sem er erfiðara. Ef lýsingunni á bláa litnum væri fylgt af alvöru ætti blái liturinn að vera miklu ljósari en við eigum að venjast og fáninn að líta út einhvernvegin eins og sést hér efst til hliðar.

Hinsvegar hefur skapast sú hefð að nota dekkri bláan lit í staðinn fyrir þennan ljósbláa, eða bara svona „venjulegan“ bláan lit sem er hvorki dökkur né ljós. Eðalbláan mætti kannski kalla hann, en heiðblár er hann varla.

Á vef forsætisráðuneytisins eru upplýsingar um fánann og hann sýndur og mætti ætla að þar væri hinn eini sanni litur á ferðinni. Hinsvegar eru blái liturinn þar ekki lengur eðalblár heldur beinlínis dimmblár og heiðríkjan hvergi til staðar. Að vísu eru litir á tölvuskjáum alltaf misjafnir og því aldrei alveg marktækir. Hinsvegar er til skilgreining á litunum í kerfi sem nefnist Standard Colour of Textile, Dictionaire Internationale de la Couleur. Þar hefur heiðblái liturinn fengið númerið: SCOTDIC nr. 693009. Þetta litakerfi er mjög víðfeðmt en því miður virðist ekki vera hægt að kalla fram þennan lit í þeim forritum sem notuð er til mynd- og prentvinnslu. Fánalitirnir hafa hinsvegar verið skilgreindir í prentlitakerfum og þar er blái liturinn Pantone nr.287 og í CMYK: 100c+69m+11,5k. Fólk er kannski ekki miklu nær en ég get þó staðfest að þetta eru nokkuð dökkir litir eða svipaðir þeim dimmbláa sem sýndur er hér neðst til vinstri. Mig grunar reyndar að yfirfærsla staðallitarins yfir í prentliti hafi gefið þessa full dökku niðurstöðu.

Ljósari fáni í gamla daga?

Það er spurning hvort upphaflega hafi blái litur fánans verið talsvert ljósari en í dag eða nokkurnveginn heiðblár eins og hann á að vera samkvæmt uppskriftinni. Á gömlum svarthvítum myndum sem teknar voru fyrir 1944 virðist blái liturinn allavega hafa verið nokkuð ljós samanber þessa mynd sem tekin var af þessum staðföstu skátum árið 1928. Fleiri myndir, t.d. frá Alþingishátíðinni 1930, sýna bláa lit fánans með sama ljósgráa tóninum.

skátar 1928

 

fánahlutföll

 
Hlutföll fánans

Eins og ég nefndi eru til tölur sem taka af allan vafa um hlutföll fánans, en þær eru þannig talið lárétt frá stöng: 7-1-2-1-14, en lóðrétt meðfram stöng eru þau 7-1-2-1-7. Þannig er breidd fánans 18/25 af lengd hans samkvæmt fánalögum. Þessi hlutföll eru yfirleitt í góðu lagi á alvöru fánum sem blakta á fánastöngum. Hinsvegar er ekki annað hægt að segja en að talsvert kæruleysi sé til staðar hjá þeim sem nota fánann á ýmsum prentgripum eða jafnvel á litlum 17. júní-fánum sem seldir eru börnum. Oft er t.d. rauði krossinn allt of breiður miðað við hvíta flötinn eða báðir krossarnir of mjóir miðað við fánann í heild. Dæmi um þetta má sjá hér að neðan á nokkrum fánum sem urðu á (Lauga)vegi mínum í dag. 

 

Fánarmyndir1

 

 

 

Svona birtist fáninn víða á Laugaveginum. Báðar útgáfur eru fjarri réttum hlutföllum.

  
fánarmyndir 2

 

Tveir blaktandi fánar við verslanir. Báðir nokkuð réttir í hlutföllum nema að rauði krossinn í þeim er misbreiður miðað við hvíta krossinn. Sá til hægri þó sennilega réttur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband