Færsluflokkur: Menning og listir

Medúsa flekinn - þegar vonin vaknar

Medusa flekinn

Eitt af hádramatískustu verkum myndlistarsögunnar var afhjúpað í París árið 1819 en það var verkið Medúsa flekinn eftir Franska málarann Théodore Géricault. Málverkið er afar stórt eða heilir 7 metrar á breidd og vakti strax mikla athygli og aðdáun þegar það var sýnt, en jafnframt reiði hjá sumum. Hér segir frá umdeildum atburðum sem áttu sér stað í raun og veru eftir að freigátan Medúsa steytti á skeri undan ströndum Vestur-Afríku árið 1816 undir stjórn skipstjóra sem var yfirlýstur andstæðingur Napóleons og að mörgum talinn vanhæfur til að stýra skipi. Alls voru um 400 manns um borð en auk áhafnar var þarna meðal annars Landstjórinn í Senegal ásamt herliði sínu en förinni hafði verið heitið til Frakklands. Almennilegir björgunarbátar voru ekki til taks fyrir alla um borð og því þurfti fjöldi hinna lægra settu að sætta sig við að láta sig reka um hafið á illa búnum fleka. Eftir tveggja vikna ólýsanlegt harðræði var þeim fáu flekaverjum sem lifað höfðu hörmungarnar af, blessunarlega bjargað um borð í skip sem þarna kom að.

Svona hástemmdar örlagamyndir eru algengar í listasögunni en það sem gerði þessa mynd sérstaka á sínum tíma var að hér er um að ræða raunverulegt fólk af lægri stigum samfélagsins og má þar örugglega kenna áhrifa frá Frönsku byltingunni, en fram að þessu höfðu aðallega valdahetjur og persónur í guðatölu fengið að prýða svona mikilfengleg málverk á striga. Géricault kaus að sýna í mynd sinni það dramatíska augnablik þegar skipbrotsmenn sjá lífsbjörgina í miklum fjarska en geta ekki vitað hvort eftir þeim hafi verið tekið. Öll uppbygging myndarinnar er hugsuð til að auka á áhrifamátt hennar, mennirnir á flekanum mynda einskonar þríhyrning sem leitar upp til hægri þar sem hinir örmagna eru fremst, en efstur er sá sem veifar skipinu í fjarska út við sjóndeildarhring. Annar þríhyrningur hallast hinsvegar í hina áttina til vinstri og þar er þanið seglið sem beinir flekanum í öfuga átt þarna í ólgusjónum.

Hin veika von í miðri örvæntingunni er sem sagt umfjöllunarefni þessarar myndar. Hér er illa statt fólk út á reginhafi og ekkert nema björgun kemur til greina og við sem horfum á myndina getum auðvitað huggað okkur við að svo fór þarna að lokum.

 


Íshafið og hinn kaldi veruleiki

 

The PolarSea

 

Að þessu sinni ætla ég að rýna í málverk sem ég hef lengi haft dálæti á og hef reyndar birt áður í smærri útgáfu. Þetta er myndin Íshafið frá árinu 1824 (The Polar Sea / Das Eismeer) eftir Þýska málarann Caspar David Friedrich. Það er ýmislegt við þessa mynd sem gerir hana sérstaka bæði hvað varðar myndefni og kannski ekki síst hversu nútímaleg hún er miðað við hvenær hún er máluð. Við sjáum að þarna grilla í skutinn á seglskipi sem hefur lotið í lægra haldi fyrir ógurlegum hafís sem fyllir hafflötinn og brotnar upp í stóra oddhvassa hröngla. Það má vel skynja bæði þögnina og kuldann í þessari mynd sem gerir ósigur skipsins dramatískari þarna í norðurhjaranum. Þetta mun ekki vera mynd af ákveðnum atburði né heldur af einhverju ákveðnu skipi. Þetta er öllu frekar táknmynd sem ætluð er til að skapa hughrif hjá áhorfandanum og vekja fólk til umhugsunar um smæð mannsins gagnvart náttúrunni og þeim öflum sem hún býr yfir. Það má því segja að hér sé verið að myndgera ófullkomleika mannsins eða beinlínis ósigur mannsandans.

Þegar þessi mynd var máluð var rómantíska stefnan í hávegum í Evrópu. Þá var kannski ekki alveg sami skilningur á hugtakinu rómantík og er í dag en samt sem áður viss skyldleiki því í rómantíkinni felst alltaf eitthvað fráhvarf frá skynsemishyggju mannsins sem á þessum árum hafði mátt þola ákveðið skipbrot eftir Frönsku byltinguna og Napóleonsstríðin sem varð til þess að einveldi festi sig í sessi á ný. Í rómantíkinni er hin háleita fegurð náttúrunnar notuð sem einskonar táknmynd fyrir þær hættur og ógnþrungnu örlög sem við þurfum að lifa við. Skynsemi okkar eru nefnilega takmörk sett, enda erum við alltaf jafn óviðbúin þegar við stöndum frammi fyrir hinum kalda veruleika. Það gildir jafnt í dag sem og á fyrri öldum.


Tónlistarhúsið rís

Það er óhætt að segja að Tónlistarhúsið sem menn byggja nú af miklum móð við Austurbakkann sé farið að setja sinn svip á bæinn þessa dagana. Að vísu er það þó bara múrverk, stál og byggingarkranar sem blasa við borgarbúum en það er ekki fyrr en glerverkið hans Ólafs Elíassonar er komið á sinn stað að við getum farið að átta okkur á hvernig þetta dæmi mun líta út allt saman. Eitthvað var nú verið að tala um það í fréttum að Kínverjarnir sem eru að smíða glerhjúpinn hafi verið í smá basli með hann sem gæti valdið töfum, enda verkið víst óskaplega flókið og kalla þá Kínverjar ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Áætlað er að að þetta mikla tónlistarmusteri verði risið fyrir árslok 2009 og eins gott að vel muni takast til því þessi 14 milljarða króna framkvæmd mun verða eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur um langa framtíð. Sjálfur er ég nokkuð vongóður um að þetta geti orðið vel heppnað framtak allavega eftir þeim myndum sem birst hafa af væntanlegu útliti, þótt þær sólarlagsbirtu-kynningarmyndir sem arkitektar bjóða upp á séu svona full súrrealískar til að vera marktækar.

Eins og mín er von og vísa þá hef ég tekið myndir af framkvæmdum um þetta leiti síðustu þrjú árin eins og þær blasa við frá Arnarhóli. Þann 22. ágúst 2006 þegar fyrsta myndin var tekin voru framkvæmdir stutt komnar en það voru hinsvegar síðustu dagar gömlu ásjónunar því nokkrum dögum síðar var farið á fullt að rífa Faxaskála sem þarna stóð í öllu sínu veldi.

En þótt byggingu tónlistarhússins verður lokið á næsta ári, á svæðið í heild samt langt í land með að verða fullklárað eins og gryfjan stóra sem þarna er búið að grafa ber vitni um. Kannski maður taki það fyrir í næsta helgarpistli.
 

Tónlistarhús 2006

Tónlistarhús 2007

Tónlistarhús 2008


Gullinsnið - hið heilaga hlutfall

Þótt gullið hafi runnið okkur úr greipum í dag getum við samt glaðst yfir að koma heim með heilan silfursjóð frá Ólympíuleikunum. En ég ætla ég samt að fjalla um gull, reyndar meira svona huglægt gull eða hið dularfulla Gullinsnið - sem jafnvel er talið vera undirstaða allrar fagurfræði, hvorki meira né minna.

gullinsnid_teikning

Hið umrædda gullinsnið snýst um hlutfallið 1 á móti 1,618 (+fleiri aukastafir). Ferhyrndur flötur með hliðarlengdum í þessu hlutfalli er undirstaða gullinsniðs en slíkur ferhyrningur er fenginn með því að skipta rétthyrningi fyrst í tvennt, skálína dregin milli horna annars hlutans og sú lína síðan felld niður, en þannig fæst lengdin. Ef hæð upphaflega ferningsins er t.d 1 metri, er breidd nýja ferhyrningsins í gullinsniði þá 1,618 metrar.

Það er talið að forn-Grikkir hafi fyrstir spáð í gullinsnið en þeir vildu meina að rétthyrningur í gullinsniði væri einfaldlega fallegasti ferhyrningur sem völ væri á og þetta væri einnig fallegasta hlutfall milli tveggja stærða. Þeir notuðu þetta hlutfall óspart í sinni list og arkitektúr enda gullinsnið eitt undirstöðuatriðið í klassískri fagurfræði. Rómverjar tóku þetta svo upp síðar og svo endurreisnarlistamenn eins og Leonardo Da Vincy. Margir hafa jafnvel talið að þetta hlutfall sé líka til staðar í ríkum mæli í náttúrunni, stærðarhlutföll margra beina í mannslíkamanum er til dæmis nálægt 1 á móti 1,618. Þar má nefna beinin í handleggjum og fótleggjum og í hverjum fingri mannsins er stærðarhlutfall beinanna það sama 1 á móti 1,618 eða svo til.

Hér að neðan hef ég tekið saman nokkur dæmi úr ýmsum áttum þar sem gullinsnið kemur fyrir, meðal annars af nokkrum gömlum húsum í Reykjavík en það var einmitt í umræðum um gömul hús hér á síðunni um daginn, sem ég hafði orð á gullinsniði. Eins og sjá má er gullinsnið í fullu gildi enn í dag og sjálfsagt er það engin tilviljun að greiðslukort eða sígarettupakkar eru í gullinsniði. Svo er það alveg spurning hvort kýrin eigi hlutföllum heilags gullinsniðs fegurð sína að þakka og ekki má gleyma að kýr eru heilagar í sumum löndum.

 

gullinsnid 


Um staðsetningu Listaháskólans við Laugaveg

listahaskólinn frá HverfisgötuÉg endaði síðasta pistil á því að minnast á fyrirhugaða nýbyggingu Listaháskólans við Laugaveg en þennan pistil ætla ég að helga þeim áætlunum því eins og margir sem hafa tjáð sig um þetta mál er ég hreint ekki alveg sáttur með í hvað stefnir. Ég hafði reyndar efasemdir strax þegar tilkynnt var að Listaháskólinn hafði fengið þessa lóð í fyrr eftir makaskiptasamning sem gerður var milli borgarinnar og Samson Properties sem fékk í staðinn lóðina við Laugarnes, þar sem Listháskólinn er nú til húsa að hluta til.

Það var alltaf vitað að þessi skólabygging krefst mikilla húsakynna enda þarf þarna sali til að hýsa tónlistar- myndlistar, leiklistarkennslu o.fl. Vandamálið er því það að þessi bygging hvernig sem hún mun líta út verður alltaf stórhýsi sem mun þrengja sér inn á byggingarreit að takmarkaðri stærð og útkoman verður alltaf byggingarbákn sem er í engu samræmi við það umhverfi sem fyrir er á Laugaveginum. Það hefur verið vaxandi vilji að varðveita þetta umhverfi og götumynd, enda hafa verið uppi ýmis önnur áform um að koma upp stórhýsum við Laugaveginn í nafni svokallaðrar uppbyggingar á kostnað þess sem fyrir er og þá kennt um lóðabraski fjárfesta og verktaka sem hafa ekki annað en eigin gróða að markmiði. Það er því dálítið sérstakt að svona stórkarlaleg áform skuli nú vera fyrirhuguð í nafni listarinnar, því það er ekki síst fólk með listmenntun og listnemar sem hafa staðið fyrir verndun þess sem fengur er í og á undir högg að sækja. Sjálfsagt er það þó svo að listamenn vilja halda til sem næst miðbænum í hringiðu mannlífsins en ég get þó ekki ímyndað mér annað en að það veki upp blendnar tilfinningar meðal þeirra þegar nærvera þeirra skuli eiga sinn þátt í að skekkja þá götumynd og stemmningu sem Listaháskólin vill sækja í og vera hluti af.

Laugavegur_Skipholt

Mynd til vinstri: Húsin sem eiga að víkja við Laugaveginn. Mynd til hægri: Listaháskólinn við Skipholt.

Ég var sjálfur nemandi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1986-89 en þá var skólinn ekki orðinn sameinaður öðrum skólum sem allsherjar Listaháskóli. Húsnæðið var og er að hluta til við Skipholt og var stundum uppnefndur „Stiga- og handriðaskólinn“ enda húsnæðið svona upp og ofan, frekar hrátt á köflum sem reyndar hentar ágætlega þeim óhefluðu vinnubrögðum sem fylgir gjarnan myndlistariðkun. Hvernig það allt virkar í nýrri glæsibyggingu veit ég ekki. 

hampidjulodÉg get alveg séð fyrir mér að uppbygging Listaháskólans hefði getað verið áfram á sömu slóðum þarna rétt fyrir ofan Hlemmtorg. Nú er t.d. búið að rífa gömlu Hampiðjuhúsin þarna sem síðast hýstu listgjörningaapparatið Kling og Bank en sú lóð var einmitt í eigu Samsons, félags Björgúlfs Guðmundssonar. Hefði skólinn ekki getað verið á því svæði? Umhverfið þar í kring er allavega með þeim hætt að það getur ekki annað en batnað jafnvel þótt byggð verði stór fúnktíónalísk kassahús eins og fyrirhugað er að reisa við Laugaveg, í þeim tilgangi að bera gömlu húsin þar ofurliði nema þau eigi kannski öll að fara á endanum.

 


Antonio Gaudí og fagurfræði náttúrunnar

Gaudí

Þegar maður heimsækir Barcelóna sem ferðamaður og lítur á þær fjölmörgu minjagripaverslanir sem þar eru fer ekki milli mála hvað það er sem þykir túristavænast öðrum atriðum fremur, en það eru verk hönnuðarins og arkitektsins Antonio Gaudí sem bjó þar og starfaði á áratugunum um og eftir 1900. Það eru þó ekkert óskaplega margar byggingar sem hann lætur eftir sig en hinsvegar þykja verk hans svo sérstök að nánast allar hans byggingar eru í dag ekkert annað en fjölsóttir ferðamannastaðir eða söfn þar sem gert er út á verk listamannsins.

Frægasta verk hans og um leið eitt aðalkennileiti Barcelónaborgar er án efa kirkjubyggingin mikla La Sagrada Familia, sem hafist var handa við að byggja árið 1882, en sökum þess hve óskaplega stór hún er og flókin í smíðum sér ekki enn fyrir endann á þeirri byggingarvinnu. Þeir 8 turnar sem þegar eru risnir eru ekki annað en aukaturnar við hlið aðalturnana sem hafa ekki enn verið reistir, þar sem sá hæsti í miðjunni mun rísa í upp í 170 metra hæð. Það sem gerir Verk Antonio Gaudís svo sérstök eru hin óvenjulegu bogadregnu form og skreytilist allskonar sem er fengin úr náttúrunni sjálfri. Þarna eru engar beinar línur, öll form eru lífræn og jafnvel burðarvirki bygginganna eiga sér fyrirmyndir í náttúrunni. Það sem vakti fyrir Gaudí á sínum tíma var að þróa nýjan byggingarstíl sem átti að taka við af hinum reglufasta nýklassíska stíl sem hafði verið allráðandi í byggingarlist Evrópubúa og er uppruninn frá forn-Grikkjum og Rómverjum.

Þessi nýi stíll sem Gaudí þróaði í byggingarlist er náskyldur Art Nouveau stílnum sem fleiri listamenn og hönnuðir voru uppteknir við um aldamótin 1900. Hugmyndafræðin er í þá áttina að líta á manninn sem hluta af náttúrunni í stað þess að líta á að náttúran eigi að vera undirgefin manninum. Þetta þýddi þó ekki að allt ætti að vera í óskipulagðri óreiðu eða bara einhvernvegin, náttúran býr nefnilega yfir ströngum verkfræðilögmálum sem bæði virka og geta búið yfir mikilli fegurð. En fagurfræðin er þó ekki bara sótt til náttúrunnar, flest það sem var framandi og dularfullt þótti spennandi og því var skreytilistin oft sótt til annarra heimsálfa eins og Afríku. Þetta á sér líka hliðstæðu í dálætinu á hinu dulræna og forna sem einkenndi hugarheim manna um 1900, einskonar rómantísk tíska sem skýtur upp kollinum af og til í menningarsögunni, síðast árið 1968 þegar menn hlustuðu á gúrúa frá Indlandi, boðuðu afturhvarf til náttúrunnar og frið á jörð.

Tímabil hinnar náttúrutengdu fagurfræði sem Antonio Gaudí aðhylltist varð ekki langt. Í rauninni þóttu byggingar Gaudí vera allt of framandi og furðulegar á sínum tíma, ásamt því að vera afar flóknar í byggingu þar sem nánast hver steinn hafði sína eigin lögun og öll smáatriði voru með sínu lagi. Á sama tíma var líka að koma fram ný byggingaraðferð sem byggðist á stálgrindum og nýr stíll sem kallaðist funktionalismi þar sem allar línur voru beinar og öll horn 90 gráður. Sú stefna átti eftir að sigra heiminn og er enn ráðandi í byggingarlist dagsins í dag og kemur m.a. fram í verðlaunatillögu að nýjum húsakynnum Listaháskólans sem á að rísa á Laugavegi (þar er hugsanlega enn eitt skipulags- og menningarslysið í uppsiglingu sem mætti skoða betur).

Myndirnar sem fylgja hér að ofan eru fengnar úr dagatali 2009 sem er helgað Antonio Gaudí, gefið út af Triangle Postals. Ljósmyndarar: Pere Vivas og Ricard Pla.

 


Ekki enn búið að mála yfir myndina mína

Í hreinsunarátaki því sem borgaryfirvöld standa nú fyrir með orgelleikarann Jack Magnet í broddi fylkingar hefur margt veggjakrotið miðbænum þurft að víkja fyrir málningarrúllunni og kannski ekki vanþörf á. Sumum hefur þó brugðið í brún þegar metnaðarfull myndverk hafa allt í einu horfið undir gráa málninguna eins og um hvert annað næturkrot pörupilta hafi verið um að ræða. Þetta varð til þess að mér datt í hug að kíkja í Kolaportið, og þá meina ég Kolaportið hið eina og sanna, sem er bílageymsluhús við Seðlabankann og hýsti á sínum tíma markaðinn góða sem kenndur er við staðinn.

Árið 1990 á meðan markaðurinn var þarna enn starfræktur var ég á meðal þeirra 25 listamanna og teiknara af yngri kynslóðinni sem tóku þátt í að myndskreyta veggi bílastæðahússins. Staðið var að verkinu þannig að hver og einn fékk sína fermetra til að myndskreyta og gerði hver sína mynd eftir eigin höfði, án tillits til þess hvað sá næsti gerði. Ég ákvað að mála borgarlandslag, húsablokkir með beinum ákveðnum línum og gráa götu sem gul Volkswagen-bjalla í yfirstærð ók eftir í rólegheitum. Fyrirmyndin að bílnum var mín eigin glæsibifreið sem ég ók um götur borgarinnar, átta fyrstu ökuárin mín. Skemmst er frá því að segja að nú eftir næstum átján ár er verkið nánast sem nýmálað og hefur ekki enn orðið hreinsunarátakinu að bráð, enda væntanlega allt unnið með fullu samþykki yfirvalda.

Kolaportsmynd

Á meðan á gjörningnum stóð á sínum tíma heiðraði blaðamaður Þjóðviljans okkur með nærveru sinni ásamt ljósmyndara og þar komst ég þar svo sannarlega á blað ásamt stórri mynd. Umfjöllunin birtist svo í Þjóðviljanum þann 11. september árið 1990 og kannski er það bara tilviljun, en nákvæmlega 11 árum síðar varð New York-borg í heimsfréttunum þegar tvö stór farartæki komu aðvífandi og ollu þar talsverðum usla. En þar kom ég reyndar hvergi nærri.

kolaport_blad

 

 


Lesið í lógó – ekki er allt sem sýnist

Nú er komið að undraheimum grafískrar hönnunar. Þegar fyrirtæki láta hanna fyrir sig merki skiptir máli að útkoman endurspegli einkenni og karakter fyrirtækisins á sem smekklegastan hátt og þegar best tekst til má finna í merkjum og skrift fyrirtækja ýmislegt óvænt sem kemur í ljós við nánari skoðun. Lítum á dæmi.

fedex

Fyrst ber að nefna klassískt dæmi frá Ameríku. Hér er allt meðvitað en samt ekki mjög augljóst í fyrstu. Flutningsfyrirtækið Fedex notar eingöngu stafagerð til að einkenna sig. Kannski ekki mjög eftirminnilegt merki fyrr en maður sér hvítu píluna sem myndast þarna á milli tveggja stafa. Ég læt vera að benda á hvar hún er.

 

FLGroup

Svo er það merki FL Group sem er einfalt og stílhreint. Í bláum kassa eru stafirnir F og L, en L-inu hefur verið speglað svo það falli inní lausa plássið í F-inu þannig að stafirnir tveir pakkast saman í eina heild. Hversu margir skildu svo hafa tekið eftir því að í bláu línunum sem aðskilja stafina er sitjandi maður, að vísu höfuðlaus? Kannski flugmaður sem við sjáum á vinstri hlið með útréttar hendur eins og hann sé að stýra. FL-Group er að vísu ekki flugfélag en nafnið er vissulega dregið af Flugleiðum. Það hafa kannski ekki margir séð þennan flugmann og sjá kannski aldrei.

Á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi má sjá merki Vínbúðarinnar undir stóru Hagkaupsskilti. Vínbúðin er dæmi um það þegar myndmerkið er látið falla inní leturgerðina og mynda með henni eina heild. Hagkaup hinsvegar er dæmi um það þegar ekkert myndmerki er til staðar og skriftin ein látin duga sem merki. En bíðum við. Þegar skriftin í nafni Hagkaupa er skoðuð nánar þarna rétt fyrir ofan Vínbúðarmerkið sé ég ekki betur en að þarna séu falin vínglös sem myndast bæði í bókstöfunum H og A. Það er ekki annað að sjá en að þegar leturgerðin var ákveðin, hafi Hagkaupsmenn gert ráð fyrir því að versla með áfengi í framtíðinni. Skál fyrir því.

HagkaupVinbud


Var Jesú sólguð, frjósemisguð eða frelsari?

Nú er komið að stóru Jesuskrifunum. Ég skrifaði fyrir síðustu jól um vetrasólstöðurnar og velti aðeins fyrir hvort fæðing frelsarans tengdist endurkomu sólarinnar um jólin og spurði þessarar spurningar: Hver var hann í raun þessi Jesú sem fæðist um jólin á sama tíma og sólin og er fórnað um páska? Ég hafði reyndar eitthvað heyrt óljósar hugmyndir um að Jesúfræðin gætu verið talsvert flóknari heldur en frásagnir Biblíunnar gæfu til kynna og að finna mætti fleiri Jésúa í öðrum og eldri trúarbrögðum. Hugsanlegu er viss skyldleiki milli flestra trúarbragða sem upp hafa sprottið í gegnum árþúsundin meira og þau meira og minna samtengt rétt eins og menningin og tungumálið.

LjosHeimsinsSama dag og ég birti umræddu grein kom svo einmitt umfjöllun í Fréttablaðinu um þetta og var þar lagt útfrá myndinni Zeitgeist sem ég vissi ekki af þá en margir hafa séð á netinu en fyrsti hluti hennar er lagður undir þessi Jesúmál. Í nefndri mynd eru taldir upp ýmsir fornir guðir sem tengdust átrúnaði á sólina og því haldið fram Jesú hafi í raun verið sólguð og sagnir um hann séu meira og minna byggðar á fornum goðsögnum og fyrirmyndum sem finna má í ýmsum trúarbrögðum. Meðal þeirra sem nefndir eru til sögunnar eru: Hórus - sólguð Egypta, Krisna - Kristur Hindúa og Mítra - Guð Persa. Þessir heilögu guðir og ýmsir fleiri eiga margt sameiginlegt. Þeir fæðast allir um vetrasólhvörf, gjarnan meyfæðingu, eru guðssynir, ljós heimsins, frelsa menn frá illu, lækna sjúka og deyja að lokum fyrir syndir mannanna – sumir jafnvel krossfestir.
Og talandi um kross, þá er krossinn auðvitað tákn kristinnar trúar en á sér um leið samsvörun í heiðnum átrúnaði á sólina þar sem miðja hans táknar sólina en höfuðáttirnar eru svo útfrá henni. Í fornum myndum af Jesú var reyndar höfuð hans gjarnan sýnt á miðju krossins eins og sólguði sæmir - ljósi heimsins.

En svo eru það páskarnir. Þeir eru auðvitað eins og jólin, forn hátíð. Jesú kom einmitt til Jerúsalem til að halda upp á páskana, en var þar svikinn, handtekinn, krossfestur, dáinn og grafinn en reis svo upp á þriðja degi aftur upp frá dauðum. Páskana ber upp á þeim tíma þegar jafndægur eru að vori, eða því sem næst eins og fjallað er um í áðurnefndri Zeitgeist mynd. En í myndinni er hins vegar minni áhersla lögð á annan þátt páskahátíðarinnar, sem er nefnilega sá að páskarnir séu frjósemishátíð og sennilega ævaforn sem slík. Páskana ber upp á þann tíma þegar gróður jarðar fer að dafna eftir veturinn og það sem skiptir kannski meira máli hér, er að páskarnir eru sá tími þegar korninu er sáð í jörðu. Útsæðinu er fórnað, fyrir nýja uppskeru og því betri uppskeru eftir því sem guðirnir eru okkur hliðhollari. Á þeim örlagaríku páskum sem kristnir menn halda upp á, var sjálfum Jesú Guðssyni fórnað. Er þar kannski komin tilvísun í miklu eldri fórnarhátíðir um páska? Líta má svo á að eins og sáðkornið sem spíraði eða lifnaði við eftir að hafa legið í jörðinni í þrjá daga þá reis Jesú upp á þriðja degi „til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ eins og segir í trúarjátningunni. Svo má líka nefna að í bók fræðimannsins Einars Pálsonar er að finna frásögn um frjósemisguðinn Frey Njarðarson sem kemur úr ásatrúnni en þar er talað um að Njörður hafi fórnað sjálfum sér í syni sínum fyrir mannkynið og í myrkasta skammdeginu éta menn líkama hans og drekka blóðið, eða éta kornið og drekka ölið.

Þar hafa menn það, Jesú var maður eða goðsagnarvera sem átti sér marga eldri bræður frá mörgum samfélögum, sem voru sólarguðir og/eða frjósemisguðir. Jesú kristinna manna er hinsvegar samkvæmt Biblíunni ekki goðsagnavera, hann lifði og starfaði meðal fólksins, boðaði fyrirgefningu syndanna og frelsun mannanna. Það er í sjálfu sér ekkert sem sannar það Jesú Kristur hafi yfirleitt verið til, hvað þá að hann hafi verið eingetinn sonur guðs og risið upp frá dauðum. En þetta er auðvitað trúaratriði og verður hvorki sannað eða afsannað og eins og fellst í orðinu trú, þá er ekki um fullvissu að ræða heldur trú. 

- - - - - - 

Ég læt hér fylgja slóð á myndina Zeitgeist: http://www.zeitgeistmovie.com/main.htm. Eftir inngang að myndinni þá fjallar fyrsti hluti hennar um hugmyndina um Jesú sem sólarguð en annars virðist tilgangur hennar vera sá að fletta ofan af hlutunum eins og kristindómnum, en einnig um samsæriskenningar í sambandi við árásina á World Trade Center og svo kemur umfjöllun um peningakerfið í heiminum. 

Einnig bendi ég á grein á bloggsíðunni Greinasafn Sigursveins, en þar fékk ég fróðleik um Frey Njarðarson, en einnig er þar fjallað um tengsl fornra trúarbragða og frjósemisdýrkenda við hinn heilaga berserkjasvepp.


Landslagslýsing að hætti Þórbergs Þórðarsonar

suðursveit 

 „Landið fyrir vestan Breiðabólstaðarbæi var mjög ólíkt landinu fyrir austan þá. Fyrir vestan var það miklu breiðara og meira af tilbreytingum í því. Þar var miklu lengra frá fjalli til fjöru og Lónið breiðara. Það var vegna þess, að fyrir austan bæina lá fjallið til suðvesturs í sömu stefnu og ströndin. En fyrir vestan þá beygði fjallið til vesturs og fjaran meira til suðurs. Af því varð meira undirlendi og meira af punti, sem komst fyrir í landinu.

Þennan texta má finna í bókinni Um lönd og lýði, sem er önnur af fjórum Suðursveitabókum Þórbergs Þórðarsonar. Ásamt endurminningum frá uppvaxtarárum má þar finna ýtarlegar náttúru- og mannlífslýsingar frá heimahögum rithöfundarins sem fæddist á þessum degi fyrir 120 árum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband