Færsluflokkur: LETUR

Týpógrafískir knattspyrnumenn

Það má lengi velta sér upp úr nýafstöðnu heimsmeistaramóti í fótbolta þótt flestir séu eflaust nokkuð sáttir með að öll ósköpin séu liðin hjá. Knattspyrnan á sér margar hliðar, ekki síst bakhliðar. Þar komum við að einu þeirra atriða sem fangað hefur athygli mína, nefnilega leturhönnun aftan á búningum leikmanna, sem eins og annað verður að vera tipp topp. Nike stórveldið sér mörgum keppnisliðum fyrir búningum en til að gefa hverju liði meiri sérstöðu þá fær hvert landslið sína eigin leturgerð sem gjarnan er sérteiknuð af hinum færustu leturhönnuðum.

Búningar Letur

Stundum þykir reyndar við hæfi að nota gamalgróna fonta eins og í tilfelli frönsku búninganna sem státa af hinu gamla framúrstefnuletri AVANT GARDE enda hafa Fransmenn lengi gælt við ýmsar framúrstefnur. Leturgerð Bandaríska liðsins er undir greinilegum áhrifum frá köntuðum leturgerðum sem prýða búninga hafnarboltaleikmanna. Leturgúrúinn mikli Neville Brody mun hafa komið við sögu við hönnun ensku leturgerðarinnar og Sneijderefast ég ekki um að Rooney sé vel sáttur við það. Portúgalska letrið er líka stílhreint og nýstárlegt en mestu stælarnir eru í Hollenska letrinu sem býður upp á þann möguleika að samnýta í einu stafabili bókstafina I og J með því að lyfta I-inu upp svo ekki myndist dautt svæði milli bókstafana. Þetta vakti auðvitað sérstaka athygli mína í hvert sinn er hinn hollenski SNEIJDER snéri baki í myndavélarnar.

Gula spjaldið fyrir týpógrafíu
En svo er það Brasilía sem reyndar var upphaflega kveikjan að þessum pistli. Brasilíska letrið er sérteiknað fyrir heimsmeistaramótið og mun vera undir áhrifum af letrum sem mikið eru notuð í allskonar götuplakötum í Brasilíu. Hið fínasta letur verð ég að segja, sérstaklega tölustafirnir.

Silva SpjaldEn það er að mörgu að hyggja og misbrestir geta verið víða eins og Brasilíska liðið fékk að kenna á í síðustu leikjunum. Fyrirliðinn Thiago Silva var fjarri góðu gamni er lið hans steinlá fyrir Þjóðverjum 7-1 og aftur var hann spjaldaður í tapleiknum gegn Hollendingum. Ég veit ekki hvort hann hafi mikið velt sér upp úr leturmeðferðinni á sinni keppnistreyju en það gerði ég hins vegar.
Þegar nafnið SILVA er sett upp í hástöfum blasa við ákveðin vandamál því þar koma saman stafir sem falla einstaklega misvel hver að öðrum sé ekki brugðist við - sem mér sýnist ekki hafa verið gert. Eins og sést á myndinni standa bókstafirnir I og L mjög þétt saman á meðan stór og mikil bil eru sitt hvoru megin við V-ið sem sundra nafninu.

Upprunalega hefur hver bókstafur sitt kassalaga helgisvæði sem ræðst af lögun stafsins. L-ið hrindir þannig frá sér næsta staf vegna þverleggsins niðri. V-ið er því víðsfjarri L-inu ólíkt bókstafnum I þar sem ekkert skagar út. Einnig myndast stórt bil á milli V og A sem báðir eru duglegir við að hrinda hvor öðrum frá sér. Í heildina virðist þetta nafn SILVA vera alveg sérstaklega erfitt í hástöfum og því nauðsynlegt að laga bilin eins og grafískir hönnuðir hér á landi læra í fyrsta tíma hjá Gísla B. Í nútíma tölvusetningu gerist þetta þó gjarnan sjálfkrafa eins og tilfellið virðist vera á þessu bloggsvæði. Hér að neðan hef ég gert mína tilraun til að bjarga málum fyrir T. Silva og þegar það er búið fær nafnið og letrið að njóta sín. Ja, nema þetta eigi bara að vera svona sundurslitið, stælana vegna. Gula spjaldið fyrir týpógrafíu er alla vega viðeigandi í þessari leturbloggfærslu sem dulbúin er í fótboltabúning.

 Silva jafnað

Nánar um leturhönnun á NIKE heimsmeistarakeppnisbúningum:
http://www.designboom.com/design/nike-world-cup-fonts-07-01-2014

 


Meðvitaðar skekkjur í letri

Það getur stundum verið dálítill munur á því sem sýnist vera rétt og því sem er alveg rétt. Hlutir geta virst ójafnir í lögun af því að þeir eru jafnir og til að leiðrétta þá meintu ójöfnu eru þeir viljandi hafðir ójafnir. Best er bara að taka dæmi um bókstafinn minn: E. Sá bókstafur er ágætt dæmi um það sem ég er að reyna að koma orðum að.

E E

Þessi tvö E virðast kannski vera eins við fyrstu sýn en þau eru það þó ekki. Stafurinn til vinstri er eins jafn og hugsast getur en sá til hægri er það ekki. Í E-inu til hægri eru láréttu strikin mislöng. Neðsta strikið er örlítið lengra en það efsta, miðjustrikið er greinilega styst auk þess sem það situr aðeins ofan við miðju. Þykktirnar eru líka misjafnar, láréttu strikin er þynnri en það lóðrétta. Þetta er samt mjög venjulegt og dæmigert E og er úr hinu útbreidda Helvetica letri og svona er bókstafurinn teiknaður í nánast öllum leturgerðum. Jafni stafurinn til vinstri er hinsvegar ekki úr neinni leturgerð. Ég teiknaði hann bara upp í fljótheitum enda mjög einfalt að útbúa svona jafnan bókstaf í tölvu.

Af ýmsum ástæðum virkar Helvetica bókstafurinn til hægri stöðugri og þægilegri að horfa á enda búið að taka tillit til nokkurra atriða sem hafa áhrif á hvernig við skynjum form og hlutföll. Sjónrænt séð er betra hafa lóðrétta strikið sverara, eins og trjástofn sem heldur uppi léttari greinum. Neðri hlutinn skal vera meiri en sá efri en þar kemur líka við sögu sjónrænt burðarþol rétt eins og í snjókarli þar sem sjálfsagt þykir að léttari kúla hvíli á þyngri kúlu. Bókstafirnir B og S er eru ágæt dæmi um slíkt.
Það má skoða þetta með aðstoð hjálparlína. Að vísu sést ekki greinilega að neðsta strikið í E-inu sé lengst en það er það samt – munar nokkrum hársbreiddum.

B E S

Það má alveg fara langt aftur í tímann til að finna dæmi um svona sjónleiðréttingar. Meyjarhofið á Akrópólíshæð er klassískt dæmi um ýmsar skipulagðar bjaganir. Súlurnar sjálfar eru látnar bunga örlítið að neðanverðu svo þær virki traustari, án þess þó að það sjáist í fljótu bragði. Þeir kunnu þetta til forna og svona eiga allar súlur í fornklassískum stíl að vera.

Meyjarhofið

 


Um stafabil og lígatúra

Í texta, sem verður til við innslátt í tölvu er búið að huga að því að misbreiðir stafir þurfa mismikið pláss. Í lógóum, stórum fyrirsögnum, plakötum og fleiru þarf hið vökula auga þó oft að koma við sögu enda ekki sjálfgefið að öll stafabil séu sjálfkrafa eins og best verður á kosið. Sumum stöfum hentar ver en öðrum að lenda saman og á það einkum við um nokkra hástafi. Eitt slíkt dæmi er nærtækt okkur því að í nafninu ÍSLAND lenda saman stafirnir L og A þannig að á milli þeirra myndast heill flói sem nánast klýfur orðið í tvennt: ÍSL og AND. Þetta er reyndar mismikið vandamál eftir því hvaða leturgerð er valin. Ef við tökum hið algenga steinskriftarletur Helveticu þá er útkoman beint af skepnunni eins og þessi lengst til vinstri.
Ísland bil
Við þessu má bregðast með því að minnka bilið á milli L og A en einnig má stytta lárétta strikið í ellinu eða hreinlega að steypa stöfunum saman. Önnur leið er sú að auka bilið á milli annarra stafa til mótvægis eða slá á milli eins og það er kallað og mikið stundað þegar kemur að hástafaletri.

2011 bilÁrtalið 2011 er líka frekar slæmt en af einhverjum ástæðum er talan 1 óþarflega plássfrek í mörgum leturgerðum, eins og sést á þessum samanburði hér að ofan sem sýnir ártalið fyrir og eftir lagfæringu.

Lígatúrar
Það er eldgömul hefð úr ritlistinni að slá saman stöfum þegar það þykir fallegra. Bókstafurinn Æ hefur þannig orðið til en svona samsteypur (eða samlímingar) eru yfirleitt kallaðar Ligatures í vestrænum málum. Í prentverki erum við Íslendingar í seinni tíð farnir að sjá meira af svona samsteypum en áður, sérstaklega þegar lágstafa f er fyrir framan bókstafina i, j, l og t. Reyndar eru bókstafirnir f og t mjög samsteypanlegir við aðra stafi og sjálfa sig einnig (ff tt ft fi fj fl). Hér að neðan má sjá fræga staðhæfingu færða í letur með og án lígatúra:flatus lifirÁstæða þess að við hér á landi höfum farið á mis við áðurnefndar letursamsteypur er sú að úrval tákna í hverju letri hefur lengst af ráðist af takmörkum lyklaborðsins. Íslenska stafrófið er í lengra taginu og inniheldur séríslensku stafina: ð og þ. Þegar keyptar voru íslenskar útgáfur af letrum fyrir tölvusetningu var því hreinlega ekkert pláss fyrir algengustu lígatúrana: fi og fl.

Á seinni árum hefur komið fram ný gerð af letrum sem innihalda öll sérviskuleg letur vesturlanda og eru þ og ð auðvitað þar á meðal, en í hverju slíku letri er pláss fyrir um 256 tákn. Þessi letur heita OpenType letur og í staðin fyrir að kaupa sérútgáfu fyrir hvert tungumál dugar ein útgáfa fyrir öll lönd og ekkert vesen. Þarna er síðan pláss fyrir ýmsar samsteypur og krúsidúllur að auki. Í nýlegri hönnunarforritum er hægt að ráða hvort þessir lígatúrar koma sjálfkrafa fram eða ekki. Sumum finnst þeir vera framandi og vilja helst ekkert vita af þeim en almennt er hönnuðir hæstánægðir.

- - - - -

Hafi einhver áhuga í framhaldi af þessu að fá innsýn í störf grafískra hönnuða þá er hér einfaldur leikur sem snýst um stafabil: http://type.method.ac/


Verstu leturgerðirnar

Eins og gengur og gerist með flesta hluti þá njóta leturgerðir mismikillar virðingar ekki síst meðal þeirra sem fást mikið við letur. Þau letur sem njóta þess vafasama heiðurs að teljast meðal þeirra verstu eru þó ekki endilega slæm letur því sum þeirra hafa einfaldlega verið misnotuð eða ofnotuð og þá gjarnan við tækifæri sem hæfa ekki karaktereinkennum letursins. Tíðarandinn breytist líka stöðugt. Það sem eitt sinn þótti meiriháttar smart þykir í dag meiriháttar hallærislegt. Mörg letur hafa síðan einfaldlega komist í slæmudeildina með því að vera svo óheppin að fylgja stýrikerfi tölva og komist þannig í hendur fjölda notenda með misgott auga fyrir smekklegheitum

Letrin átta sem ég nefni hér að neðan eru gjarnan nefnd meðal verstu leturgerða nú á tímum. Hver og einn verður síðan að dæma fyrir sig hvort þau eigi það öll skilið. Mörg önnur letur gætu auðvitað átt heima þarna líka.

Verstuletur

Comic Sans er eiginlega frægasta versta letrið í dag. Það er svo illa liðið að hægt er að fá viðbætur í tölvur sem hreinsa það burt úr tölvunni og til er vefsíða sem heitir ban comic sans. Eins og nafn letursins gefur til kynna er það hugsað til notkunar í gríni hverskonar og þá helst í texta við skrípamyndir. Enginn sem vill láta taka sig alvarlega ætti því að nota þetta letur en því miður hafa margir flaskað á því.

Brush script var teiknað árið 1942. Það hefur talsvert verið notað á allskonar auglýsingaefni í gegnum tíðina en er nú algerlega komið úr móð. Þetta er ágætt dæmi um letur sem alls ekki má nota í hástöfum, ekki frekar en önnur hallandi skriftarletur. Samt sjást oft dæmi um slíka misnotkun.

Hobo hefur sjálfsagt verið elskað á hippaárunum en í dag elska margir að hata þennan font. Sveigðu línurnar eru í anda jugent stílsins frá aldamótunum 1900 en letrið var annars teiknað árið 1910. Hobo er ágætt þegar höfða á til barna og dýra en í öðrum tilfellum ættu menn að hugsa sig tvisvar um.

Marker Felt er helst nothæft þegar markmiðið er að gera eitthvað verulega ódýrt. Við erum því kannski að tala um brunaútsölu.

Zapf Changery er í sjálfu sér ekki slæmt letur í lágstöfum en er auðvitað algerlega bannað í hástöfum öðrum en upphafsstaf.

Cooper Black er mjög í anda 8. áratugarins en í dag ætti enginn að nota þennan font nema að vera mjög meðvitaður um hvað hann er að gera.

Mistral er mjög óformlegt skriftarletur. Það náði dálitlum vinsældum á 9. áratugnum þegar menn vildu poppa sig aðeins upp.

Arial kemur hér að lokum og er eina steinskriftarletrið í upptalningunni. Það hefur það helst á samviskunni að vera hannað sem skrifstofustaðgengill hins fræga Helvetica leturs án þess að ná elegans fyrirmyndarinnar.

- - - -

Bíladagar

 

 

 

Það má hér í lokin minna á þennan frábæra DVD-disk um Bíladaga á Akureyri. Þó ekki væri nema til þess að dást að Mistral letrinu.

 


Kassalaga letur

kassaletur

Í þessum leturpistli ætla ég að að fjalla um tvær nokkuð vinsælar og töffaralegar leturgerðir sem gjarna eru látnar standa fyrir staðfestu, völd, tækni og peninga, sem allt eru nokkuð karlmannleg gildi. Hér er um að ræða letrin Eurostile og Bank Gothic sem bæði voru teiknuð á síðustu öld. Galdurinn á bak við þessi letur er sá að í stað hringlaga forma í stöfum eins og O, G og C eru notuð rúnnuð kassalaga form. Sveigðar línur í stöfum eins og S og R eru einnig þvingaðar í þessa kassalögun þannig að útkoman er letur með sterkum einsleitum einkennum og nútímalegum blæ. Þessi letur eru ekki hugsuð sem lestrarletur í löngum textum en eru hinsvegar mikið notuð uppsláttarletur í kvikmyndaplakötum, bókarkápum, umbúðum, lógóum og þess háttar þar sem menn vilja umfram annað vera kúl en ekki mjög hip.

BankGothic

Bank Gothic er teiknað árið 1930 og er því nokkuð gamalt miðað hvað það er nútímalegt. Upphaflega var það bara teiknað sem hástafaletur en síðar bættust lágstafirnir við - þeir sjást að vísu mjög sjaldan. Tvö smáatriði einkenna þetta letur umfram önnur svipuð: Rúnnuðu hornin eru bara á ytra byrðinu sem þýðir að gatið í O-inu er alveg kassalaga. Lóðréttir strikendar í er skáskornir í stöfum eins og S, J og G, þetta sést betur í bold útgáfunni en í grennri regular gerðinni. 

Eurostile
Eurostile er öllu yngra eða frá árinu 1962. Rétt eins og Bank Gothic var það upphaflega hugsað sem hástafaletur en lágstafirnir bættust þó fljótlega við. Þetta er eitt af frægustu leturgerðum sem komu fram á seinni hluta 20. aldar og fellur vel að moderne hönnun. Eurostile fjölskyldan er nokkuð stór því til eru þunnar útgáfur og feitar, togaðar, þjappaðar og hallandi. Notkunarmöguleikarnir eru því miklir.

Það er auðvelt að finna dæmi þar sem þessi letur koma fyrir. Bank Gothic kom reyndar frekar lítið við sögu þar til grafíski geirinn tók það upp á sína arma undir lok 20. aldar. KB-banki / Kaupþing notaði t.d. Bank Gothic og kannski tilviljun að það var einnig notað í hrunmyndinni Maybe I should have. Science fiction geirinn keppist við að nota þessi letur í sínum kvikmyndaplakötum og bókarkápum. Eurostile er vinsælt hjá löggunni víða um heim og er t.d. áberandi á breskum löggubílum. Veðurfréttir Sjónvarpsins státa af Eurostile, sem er reyndar ekki mjög heppilegt því erfitt getur verið að greina á milli tölustafana 6, 8 og 9. Fleira mætti týna til og ekki endilega í sama dúr. Þeir sem eiga smábörn kannast sjálfsagt við Stoðmjólkina frá MS en þar er eingöngu notað Eurostile og Bank Gothic (hugsanlega á bloggarinn sjálfur þar einhvern hlut að máli)

EuroBank

 

- - - - -

Ég hef á þessu ári skrifað nokkra pistla um letur og rakið í stuttu máli sögu leturgerða á okkar menningarsvæði síðustu 2000 árin. Hér eru linkar á fyrri leturpistla:

TRAJAN leturgerðin

Hið forneskjulega Únsíal letur 

Gotnesk letur

Fornaletur og Garamond bókaletrið 

Frá Versölum til villta vestursins

Steinskriftin kemur til sögunnar 

Bara Helvetica 


Bara Helvetica

Helvetica
Allar leturgerðir hafa sinn karakter. Sum letur eru flippuð eða flúruð og önnur eru fáguð og virðuleg. Sum letur eru framúrstefnuleg á meðan önnur eru forn eða klassísk. Svo eru til letur sem eru svo hógvær að þau falla í fjöldann án þess að nokkur veiti þeim sérstaka athygli. Eitt þeirra er hið stílhreina letur Helvetica en það er svo venjulegt á að líta, að ósjálfrátt segja menn gjarnan bara Helvetica ef það ber á góma. Þó er það eitt dáðasta og mest notaða steinskriftarletur letur sem komið hefur fram.

Helvetica letrið er ættað frá Sviss og nefnt eftir fornu latnesku heiti landsins Confœderatio Helvetica. Hönnuður letursins Max Miedingar er að sjálfsögðu svissneskur en letrið kom upphaflega fram undir heitinu Neau Haas Grotesk árið 1957. Stundum er talað um „Svissneska skólann“ í grafískri hönnun en sá stíll einkennist af miklum hreinleika og formfestu og þykir mjög vitsmunalegur. Helvetican féll mjög vel að þessum hreina stíl enda hvert smáatriði þaulhugsað og vandlega frágengið þannig að næstum má tala um fullkomnun í formum.

Helvetica þykktirEn auðvitað hefur Helvetica sinn karakter. Þetta er steinskriftarletur eins og þau letur eru kölluð sem eru án þverenda en slík letur fóru ekki að vera algeng fyrr en eftir aldamótin 1900. Ef til vill má líta á Helveticu nú orðið sem grunnletur allra steinskriftarletra líkt og Times letrið er á meðal fótaletra. Helvetica er mjög læsilegt letur og er því mikið notað samfelldum texta og þykir hentugt í allskonar smáaletursútskýringar auk misskemmtilegra eyðublaðatexta. Helvetican nýtur sín þó vel í meiri stærðum þar sem hin stílhreina teikning í hverjum staf kemur vel fram. Það er enda ekki að ástæðulausu að Helvetica, og þá sérstaklega Bold útgáfan, er notuð í fjöldamörgum merkjum stórfyrirtækja um allan heim.
Helvetica dæmi
Oft hefur notkun Helveticu ekki þótt standa fyrir miklu dirfsku og frumlegheit í grafískri hönnun. Á hippaárunum þótti Helvetican til dæmis alltof stíf og leiðinleg og á níunda áratugnum var hún ekki nógu fríkuð og framúrstefnuleg. Á síðustu 10-15 árum hefur Helvetican hinsvegar fengið einskonar uppreisn æru á sama hátt og eðalhönnun sjötta áratugarins, ekki ósvipað og stólarnir hans Arne Jakobsen.

Til eru nokkur letur sem eru mjög svipuð Helveticu, t.d. Univers og skrifstofuletrið Arial. Ef einhver vill þekkja Helveticu frá þessum letrum og öðrum er ágætt að miða við nokkur atriði

  1. Hver stafaendi er skorinn beint lárétt eða lóðrétt. Þetta sést vel í bold útgáfunum.
  2. Skáleggurinn í stóra R er sveigður. (Atriði 1 og 2 eiga einnig við Univers)
  3. Í tölustafnum 1 myndast rétt horn þar sem litla strikið er.
  4. Bókstafurinn stóra G er með lóðrétt strik í endann auk lárétta striksins.
  5. Litla a í light og regular letrinu endar í greinilegu sveigðu skotti.

HelveticaUniversArial

- - - - - - 

Að lokum má svo nefna að Helvetica er meðal örfárra leturheita sem fallbeygjast í íslensku (Helvetica – um Helveticu – o.s.frv.) og er jafnvel notuð með greini eins og kemur fyrir hér í pistlinum.


Steinskriftin kemur til sögunnar

SansSerif

Það má skipta letri í ýmsa flokka eftir útliti, en þó má segja að þrír meginflokkar séu í boði: fótaletur, steinskrift og skriftarletur. Ef við undanskiljum skriftarletur þá datt fáum í hug fram að 20. öld í hug að sleppa þverendum í letri, það þótti bara ekki nógu fallegt. Fótalaus letur voru þó einstaka sinnum notuð í hástöfum, t.d. þegar letur var höggið í stein og því eru þau t.d. hér á landi kölluð steinskrift. Á 19. öld þegar þörfin jókst fyrir sterk og ákveðin letur í auglýsingaplakötum fór æ oftar að sjást fótalaus letur en þau voru þá oftast notuð í bland við aðrar skrautlegri og klassískari leturgerðir.

Fótalaus letur voru á 19. öld gjarnan kölluð Grotesque enda þótt þau vera klossuð og „grótesk“ í útliti, einnig voru þau stundum kölluð Gothic. Í dag eru letrin erlendis almennt kölluð Sans Serifs eða án þverenda og Serifs eru þá þau letur kölluð sem heita fótaletur upp á íslensku. Fyrsta steinskriftin sem teiknuð var fyrir prent og innihélt bæði lágstafi og hástafi kom fram árið 1832 og var einfaldlega kölluð Grotesque.

Akzidenz

Fyrstu steinskriftarletrin sem hinsvegar náðu almennilegri útbreiðslu voru teiknuð nálægt aldamótunum 1900. Af þeim er elst Akzidenz-Grotesk letrið sem kom fram 1898. Það er mjög nútímalegt og venjulegt að sjá og lýkist mjög þeim steinskriftarletrum sem margir þekkja sem Helveticu og Arial en þau hafa einmitt þessi elstu steinskriftarletur sem fyrirmynd. Þessi letur þykja gjarnan vera karakterlaus enda má segja að þau séu eins laus við stæla og hugsast getur, en það þarf þó ekki að vera neikvætt því stundum er einmitt þörf fyrir slíkt.

futura

Steinskriftarletrin fór ekki að njóta almennilegrar virðingar fyrr en hinn móderníski stíll kom til sögunnar á 3. og 4. áratug 19. aldar. Þar hafði kannski mest áhrif hinar framúrstefnulegu hugmyndir sem kenndar hafa verið við Bauhaus skólann í Þýskalandi. Þar dásömuðu menn hin hreinu form svo sem hring og ferning. Allt átti að vera hreint og beint og umfram allt laust við óþarfa skraut og prjál.
Útfrá þessum hugmyndum urðu til letur sem kalla má geómetríska steinskrift. Frægast þeirra er sjálfsagt Futura letrið og ber það líka nafn með rentu en það var hannað í Þýskalandi 1928. Það einkennist af því sem næst hreinum hringformum þar sem því er viðkomið. Futura er mjög algengt letur enn í dag og er til í ýmsum þykktum allt frá örfínu upp í ofurþykkt en auk eru samanþjappar útgáfur nokkuð algengar.

Underground

Annað letur mjög algengt frá þessum tíma er Gill Sans letrið frá árinu 1929. Það á reyndar uppruna sinn í eldra letri sem teiknað var árið 1913 fyrir neðanjarðarlestarkerfi Lundúna. Þar sáu menn einmitt þörfina fyrir einfalt letur sem hægt væri að lesa með hraði eða úr góðri fjarlægð. Líkt og í Futuru einkennist Gill Sans af hreinum hringformum í hástöfum eins og O og G en annars þykir Gill letrið falla undir flokk húmanískrar steinskriftar sem þýðir og formin eru mannlegri og ekki eins afdráttarlaus. Gill Sans er eitt af þessum letrum sem má finna víða í dag en það má þó segja að Skandínavar og Bretar hafi haft sérstakt dálæti á því.

Eiginlega má segja að með steinskriftinni hafi leturþróun náð vissum endapunkti þar sem ekki var hægt að ganga lengra í einföldun leturs án þess að það komi niður á læsileikanum. Það hefur þó aldrei orðið neitt lát á útkomu nýrra leturgerða þar sem tískan og tíðarandinn kallar sífellt á nýjungar. Þetta þarf því ekki að vera síðasti letursögupistillin. Fyrri leturpistla má finna hér á síðunni undir flokknum LETUR.


Frá Versölum til villta vestursins

Letursaga

Þau letur sem algengust eru í dag eiga sér mislanga sögu. Klassísk bókaletur eiga gjarnan sínar fyrirmyndir frá upphafsöldum prentlistarinnar þar sem stíllinn byggist á skrift með breiðpenna og því eru línur misþykkar eftir því hvernig strikunum hallar. Þverendar á endum leggjanna þóttu ómissandi fegurðarauki en notkun þeirra má að minnsta kosti rekja aftur til Rómverska hástafaletursins. Minniháttar stílþróun áttu sér alltaf stað en þegar auglýsingaletrin komu fram á 19. öldinni má segja að allt hafi fari úr böndunum.

roman-du-roiPrentletur Loðvíks 14
Árið 1692 var ákveðið að franska vísindaakademían skildi hanna nýtt og nútímalegt letur fyrir prentsmiðju konungs. Við þessa leturhönnun var ákveðið að taka ekki eins mikið mið af skriftarpennanum og áður hafði tíðkast enda engin þörf á því þar sem prentletur þurftu ekki að miða fagurfræðina við annmarka skriftarpennans. Hver stafur fékk sitt útlit eftir vísindalegum flatarmálsaðferðum og teiknaður útfrá neti sem samanstóð af 2304 ferningum. Þetta letur var aðeins ætlað til konunglegrar notkunar og harðbannað að stæla það á nokkurn hátt. Hinsvegar þótt það svo vel heppnað að leturhönnuðum héldu engin bönd enda var sem mönnum opnuðust nýjar víddir í bókaletri og vinsæl letur eins og Baskerville komu fram. Þessi letur eru stundum köllum milliantíkva og eru nútímalegri en eldri letur eins og Garamond. Helstu einkenni milliantíkvu eru aðallega tvenn: 

  1. Meiri munur á breidd láréttra og lóðréttra strika
  2. Mesta breidd á bogadregnum línum er ekki lengur hallandi

Samanburður á eldri-antíkvu (Garamond) og milliantíkvu (Baskerville): 

Gar_Bask

Baskerville letrið komfram um 1750 og er eitt af algengustu bókaletrum sem notuð eru í dag. Letrið er nefnt eftir skapara sínum John Baskerville sem var virtur enskur leturgrafari og prentari. Hann gerði ýmsar tilraunir til að þróa prentaðferðir en þær höfðu ekki breyst mikið frá dögum Gutenbergs. Ekki veitti heldur af ef prenttæknin átti að halda í við sífellt fínlegri letur. Bækur þær sem Baskerville átti heiðurinn af þóttu reyndar svo vel prentaðar, á svo hvítan og sléttan pappír og með svo skýru og fínlegu letri að sumir óttuðust lestur á bókum hans gætu haft slæm áhrif á sjónina.


Ditod þverstrikDidonar
Þær breytingar sem komu fram í letri Loðvíks 14 og síðar Baskerville voru eiginlega fullkomnaðar seint á 18. öld þegar franski leturgrafarinn Firmin Didot kom fram með afar fíngert og fágað letur sem nefnt er eftir honum og reyndar leturflokkurinn í heild, Dídonar. Helstu einkenni þessara leturgerða eru þeir sömu og í milliantíkvunni nema að þar er gengið lengra, róttækasta breytingin er hinsvegar að láréttir þverendarnir tengjast ekki háleggnum með bogalínum heldur mynda beint strik. Lóðréttir þverendar eins og á E og T tengdust þó áfram með boga.

Ditod Bodoni
Frægasta og mest notaða letur í þessari ætt kom fram undir sterkum áhrifum Didots. Það eru Bodoni letrið, nefnt eftir höfundi sínum hinum ítalska Giambattista Bodoni en það er oft talið með fegurstu letrum sem komið hafa fram og er til í mörgum útgáfum.

VogueBodoni letrið er ekki alveg eins fínlegt og Didot letrið og hentar betur sem bókaletur. Þessi letur, Bodoni og Didot ofl. eru víða notuð í dag en óvenju áberandi eru þau á snyrtivörum og tískublöðum fyrir konur enda mjög stílhrein og fögur.

Auglýsingaletrin koma fram
Á tímum iðnvæðingar og aukinnar sölumennsku þurfti ný og sterk letur til að grípa athyglina. Því tíðkaðist mjög að teygja letrið upp í hæstu hæðir eða fita úr öllu valdi og útkoman ekki alltaf sú smekklegasta. Bodoni Poster letrið er til dæmis til mjög feitt en einnig er til útgáfa sem er öll á háveginn – sú nefnist Bodoni Poster Compressed og hefur verið í mismikilli tísku í gegnum tíðina, nú síðast á 9. áratug síðustu aldar „eighties-áratugnum“. Þessi letur má ásamt fleirum sjá hér neðar.

Brátt fóru menn að ganga enn lengra í leturhönnun í þeim tilgangi að gera letur enn sterkari. Það leiddi til þess að nýr leturflokkur kom fram sem gjarnan kallast Egyptar. Einkenni þeirra er að allar þykktir letursins er sú sama en ekki misbreiðar eins og á eldri leturgerðum. Beinu þverendarnir halda sér áfram en eru eiginlega orðnir kassalaga. Þessi letur voru líka teygð og toguð í allar áttir og alltaf virtust geta komið fram feitari og öflugri útgáfur.

 Egyptar

Þegar letrið voru teygð urðu lárétt og lóðrétt strik gjarnan misbreið og því gátu þverendarnir orðið talsvert sverari en leggirnir. Stundum voru þverendarnir jafnvel togaðir upp sérstaklega og báru letrið nánast ofurliði. Þarna er komið þetta sígilda kúrekaletur og ber þess merki að letur voru orðin villtari en áður og langt frá þeim elegans sem einkennt höfðu fyrstu Dídónana.

Letur west

Allskonar skrautleg og flúruð auglýsingaletur voru þannig áberandi í lok 19. aldar í bland við ofurþykka leturhlemma. Smám saman urðu þó áberandi hin einföldustu letur af öllum einföldum. Það má sjá á myndinni hér að neðan. Skiltið er á verslun í New York. SAGA er annað tveggja orða sem íslenskan hefur lagt til alþjóðamála og er ritað með Bodoni Poster Compressed letrinu. Þar undir má sjá leturstíl þann sem varð ofaná á 20. öldinni - steinskrift. Það má taka fyrir í næsta leturpistli.

Saga–shoes

- - - - -

Helstu heimildir:
Þættir úr letursögu eftir Þorstein Þorsteinsson.
Type: The secret history of letters. eftir Simon Loxley.

Aðrar bloggfærslur um letur má finna hér á síðunni undir flokknum: LETUR
 

Fornaletur og Garamond bókaletrið

Claude Garamond

Áfram skal haldið með letursögu. Í þeim bókum sem við lesum í dag er nokkuð líklegt að meginmálsletrið sem þar er notað eigi sér fyrirmynd í þeim leturgerðum sem komu fram í frumbernsku prentlistarinnar á 15. og 16. öld. Með prenttækninni var hver stafur handskorinn og steyptur í blý sem aftur þýddi að ásýnd leturs í bókum var ekki lengur háð takmörkunum rithandarinnar og fjaðurpennans.

Eitt af fínustu og algengustu bókaletrum nútímans eru Garamond letrin sem eiga ættir að rekja til franska leturgerðarmeistarans Claude Garamond sem uppi var ca. 1480-1561 og er meðal dáðustu listamönnum á sínu sviði. Hann átti stóran þátt í að þróa áfram og fínisera hið svokallaða fornaletur (Littera antiqua) sem er heiti á því bókaletri sem að lokum varð ofaná í hinum vestræna heimi.

Fornaletur er annars helst notað til aðgreiningar frá gotneskum leturgerðum sem komu fram á síðmiðöldum og héldu víða velli langt fram eftir öldum. Fornaletur er eignað ítölskum húmanistum á 15. öld sem vildu endurvekja klassíska fagurfræði og menntir að hætti endurreisnarinnar. Fyrirmyndin af skriftarletri ítalskra handrita þess tíma var karlungaletrið frá því um 800 sem er eldra en gotneska letrið en hástafirnir voru af Rómverskri fyrirmynd. Þegar prentlistin barst til Ítalíu fóru þeir svo strax í að þróa þessar leturgerðir áfram og steypa í blý og útkoman voru leturgerðir sem mjög líkjast því bókaletri sem við notum enn í dag. 

Leturgerðir
Þegar hugsunarháttur í anda endurreisnar breiddist út um Evrópu jukust að sama skapi vinsældir fornaleturs og ýmsir leturgerðarmeistarar komu fram sem þróuðu fornaletrið áfram. Þá er ég aftur kominn að franska leturgrafaranum Claude Garamond. Fyrstu letur hans komu fram um 1530 og urðu fljótlega mjög útbreidd. Garamond letrin þykja vera fáguð og hafa yfir sér létt yfirbragð. Meðal nýjunga sem hann kom með voru skáletursútgáfur af hástöfum sem full þörf var á en fram að þessu hafði ekki tíðkast að blanda saman skáletri og beinu letrið í samfelldum texta.

Fótaletur
Algengt íslenskt heiti á fornaletri er annars fótaletur (serif fonts) og fjölmargar gerðir af þeim áttu eftir að koma fram t.d. Palatino og Times sem bæði eru mjög algeng í dag. Með nýjum leturgerðum fór Garamond letrið smám saman úr tísku þar til það var enduruppgötvað eiginlega fyrir misskilning. Árið 1825 fannst letursett sem ranglega var eignað Claude Garamond og var það fyrirmyndin af ýmsum seinni tíma Garamondum sem urðu vinsæl. Það var svo ekki fyrr en 100 árum síðar sem það uppgötvaðist að fyrirmyndin var 17. aldar verk leturgrafarans Jean Jannons. Sú útgáfa Garamondleturs sem mest er notað í dag var teiknuð árið 1989, það kallast Adobe Garamond og á að sjálfsögðu sína fyrirmynd frá meistaranum sjálfum.

 
Bókartexti

Dæmi um Garamond letur úr bókinni ÍSLANDSFÖRIN eftir Guðmund Andra Thorsson.

- - - - -

Helsta heimild: Þættir úr letursögu, eftir Þorstein Þorsteinsson. 

Eldri bloggfærslur í þessum flokki:

TRAJAN leturgerðin

Hið forneskjulega Únsíal letur

Gotnesk letur


Gotnesk letur

Áfram skal haldið með letursögu og nú er komið að því merkilega hliðarskrefi sem gotneska letrið er en það var einkennisletur síðmiðalda þótt það hafi víða verið notað áfram í prentverki næstu aldirnar. Á síðustu öldum miðalda leitaði menning hins kaþólska heims til hæstu hæða og sem allra næst sjálfu himnaríki. Hinn rómanski bogi sem áður hafði einkennt kirkjubyggingar fékk á sig odd sem teygði sig upp á við og úr varð hinn hvassi gotneski stíll. Á sama hátt snéru biblíuskrifarar Mið- og Norður-Evrópu við blaðinu, lögðu til hliðar hina rúnnuðu Karlungaskrift og tóku upp þetta háa og kantaða letur sem hefur verið kallað gotneskt letur. Þessi leturþróun var þó kannski ekki bara fagurfræðilegt tískufyrirbæri heldur líka praktískt því með gotnesku skriftinni var hægt að skrifa þéttar sem sparaði dýrmætt bókfell auk þess sem leturgerðin bauð upp á ýmsar styttingar með sameiningu einstakra stafa eins og sést í dæminu hér að neðan.

Gotnesk Textura

Mynd:Handskrifað textúr-letur í enskri Biblíu frá árinu 1407.
 

Gotneskt letur er stundum kallað öðrum nöfnum eins og t.d. brotaletur og blackletter á ensku. Gotneska heitið festist eiginlega við þessa leturgerð sem niðrandi uppnefni húmanískra Suður-Evrópumanna sem voru á annarri og klassískari línu og héldu áfram að þróa sitt lágstafaletur í þá átt sem við þekkjum í dag.

Gotneskt búturElsta og stífasta gerðin af gotnesku letri nefnist textúr og einkennist af jöfnum, lóðréttum strikum í grunninn og misbreiðum skástrikum eftir því hvernig þeim hallar gagnvart fjaðurpennanum. Bogadregnar línur eru nánast engar. Ef tekinn er bútur úr almennilegri textúr-skrift á réttum stað kemur randmynstrið og reglan í ljós.

GutenbergsbiblíaFrægasta og áhrifamesta notkun á gotneska textúr-letrinu er sjálf Gutenbergsbiblía frá því um 1450-60 sem er fyrsta og eitt fallegasta stórvirki prentlistarinnar. Þar var beitt þeirri byltingarkenndri nýjung að hver stafur var handgerður og steyptur í blý og stöfunum síðan raðað upp á hverja síðu fyrir sig. Gutenberg sjálfur vildi að Biblían væri sem líkust handskrifuðum bókum og því valdi hann að nota gotneska textúr-letrið. Þessi hugsun átti eftir að vera ríkjandi áfram í prentverki um nokkurt skeið.

Elstu íslensku handritin voru ekki rituð með gotneskri skrift heldur hinni eldri Karlungaskrift sem var líkari lágstafaskrift okkar tíma. Um 1400 voru gotnesku letrin hinsvegar nánast allsráðandi hér í handritagerð og síðar í prentverki. Hin þétta og hvassa gerð gotneska letursins - textúr - var þó ekki notuð á prentaðar bækur hér því komnar voru fram léttari afbrigði sem buðu upp á sveigða og mýkri stafi. Gotneska leturafbrigðið sem notuð var í Guðbrandsbiblíu nefnist fraktúr sem byggist bæði á beinum og sveigðum línum sem gerir letrið læsilegra, en verður þó um leið óreglulegra á að líta í samfelldum texta heldur en textúr.

Gudðbrandsbiblía letur

Mynd: Prentað fraktúr letur í Guðbrandsbiblíu frá árinu 1584.
 

Hinar léttari gerðir gotnesks leturs voru mjög lífseigar fram eftir öldum á vissum svæðum og þá sérstaklega í Norður-Evrópu. Á Íslandi héldu menn áfram að prenta sínar bækur með þessum leturgerðum fram á 19. öld þó að í Evrópu hafi verið komin fram nútímalegri leturgerðir. Lífseigust urðu þessi letur þó í Þýskalandi enda þóttu þetta lengst af vera þjóðleg letur. Nasistum þótti það einnig líka í fyrstu en skiptu svo rækilega um skoðun árið 1941 eftir að þeir fóru að tengja gotnesk letur við gyðinga, hvernig sem þeir fundu það út.

Í dag eru gotnesk letur nánast ekkert notuð í samfelldum texta nema í sérstökum tilfellum. Algengt er enn í dag að nota gotnesku letrin í blaðahausa virðulegra og íhaldssamra dagblaða. Nærtækast fyrir okkur er að benda á haus Morgunblaðsins sem byggist á hinu forna textúr-afbrigði. Hinsvegar má gjarnan sjá gotnesk letur á allt öðrum og hörkulegri vettvangi t.d. meðal þungarokkara og rappara svo eitthvað sé nefnt, en þá erum við kannski komin dálítið langt frá upphaflegu hugsun leturskrifara miðalda.

Dagblöð hausar

SnoopDog - Motorhead

 

- - - -

Eldri bloggfærslur mínar um letursöguna má finna hér:

TRAJAN leturgerðin 

Hið forneskjulega Únsíal letur 

Meðal heimilda sem ég notast við er ástæða til að nefna samantektina: Þættir úr letursögu eftir Þorstein Þorteinsson sem birtist í bókinni, Prent eflir mennt, í ritröðinni: Safn til iðnsögu Íslendinga.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband