3.3.2009 | 18:01
Er hlýnun á Íslandi hluti af náttúrulegri sveiflu?
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að það hefur verið hlýtt á Íslandi undanfarin ár sem og annarstaðar í heiminum. Núverandi hlýindi á Íslandi hófust í kringum árið 1995 eftir um það bil 30 ára kuldaskeið sem náði hámarki ca. 1980, en um og fyrir miðja síðustu öld var hinsvegar margrómað hlýindaskeið sem stóð í um 35 ár. Þessar nokkurra áratugalöngu sveiflur í hita hljóta að vekja upp vissar grunsemdir um að núverandi hlýindaskeið sé ekki endilega komið til að vera, heldur sé hluti af einhverju gangverki náttúrunnar sem við fáum engu stjórnað hvað sem líður þeirri hnattrænu hlýnun sem annars er í gangi.
Það eru vissulega ýmsar misþekktar sveiflur í náttúrunni sem ná yfir lengri og skemmri tíma en þar á meðal eru góðar vísbendingar um hafstraumakerfi Norður-Atlantshafsins sem nefnist Atlantic Multidecadal Oscillation (AMO). Þessi sveifla virðist tengjast því að mismikill kraftur er í hringstraumakerfi sjávar og er þá talað um jákvæðan og neikvæðar fasa sem skiptir um ham á nokkurra áratuga fresti séu hugmyndir varðandi þetta kerfi réttar. Þegar fasinn er jákvæður er ein afleiðingin sú að hlýrri sjór á greiðari leið með Golfstraumnum á okkar slóðir og alla leið upp í Norður-Íshaf og getur því einnig haft sín áhrif á þróun hafíssins þar. Ýmsir aðrir veðurþættir eru einnig tengdir þessari Atlantshafssveiflu eins og tíðni stórra fellibylja og sveiflur í úrkomu hér og þar í löndunum kringum Norður-Atlantshaf, fer þó ekki nánar út í það.
Á myndinni hér að neðan kemur fram það sem þessi færsla snýst annars um, en það er samband þessarar Atlantshafsveiflu við hitafar á Íslandi. Myndin sem í bakgrunni sýnir styrk AMO eins og hann hefur verið mældur eða áætlaður aftur til ársins 1856 og sjást þar vel hinir hlýju og köldu fasar sem koma fram á nokkurra áratuga fresti (mynd:Wikipedia). Rauða línan sýnir hinsvegar á einfaldaðan hátt hitaþróun á Íslandi og er þá miðað við hitann í Stykkishólmi þar sem búið er að jafna út öllum smærri hitasveiflum (teiknað eftir línuriti frá Veðurstofunni).
Þegar þessi línurit eru skoðuð svona saman er varla hægt að segja annað en að hitafar á Íslandi sé nokkuð tengt þeim sveiflum sem eiga sér stað í hafinu og þarf kannski ekkert að koma neinum á óvart. Þótt það komi ekki vel fram á hitalínuritinu þá urðu talsvert umskipti í veðri á Íslandi til hins betra á árunum eftir 1995 á sama tíma og AMO hrökk nokkuð ákveðið í hlýjan jákvæðan fasa. Hversu lengi þessi jákvæði fasi mun svo standa er tæplega vitað enda erfitt treysta á svona gangverk þegar svo margt annað spilar inn í. En þegar og ef kerfið fer í bakkgírinn hlýtur að mega álykta sem svo að því muni fylgja kólnandi veðurfar á landinu á ný, með öllu sem því fylgir, kannski eftir svona 10-20 ár. Það er hinsvegar spurning hvort það hugsanlega bakslag verði eins svalt og tímabilið 1965-1995 var hér á landi, því ef við trúum á að við lifum í hlýnandi heimi ættu áhrifin að verða þau að kuldatímabilin verða sífellt vægari og hlýju tímabilin að sama skapi hlýrri.
Allavega hlýtur að vera varasamt að líta á það hlýja tímabil sem við upplifum þessi árin sem eitthvað sem sé komið til að vera og það er kannski ennþá varasamara að álíta að hlýnun síðustu ára muni bara halda áfram eins og ekkert sé. Með þessu er ég þó ekkert endilega að geri lítið úr hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa, enda er það allt annað dæmi og stærri atburður bæði í tíma og rúmi.
- - - - - -
Til að gera grein fyrir því að Atlantic Multidecadal Oscillation er ekki bara minn eigin skáldskapur má lesa nánar um fyrirbærið hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Atlantic_Multidecadal_Oscillation og hér: http://www.intellicast.com/Community/Content.aspx?a=127
Einnig er sjálfsagt að vísa í grein á vef Veðurstofunnar um hitafar á Íslandi eftir 1800. Þar er að vísu ekkert talað um þessar AMO-sveiflur: http://www.vedur.is/loftslag/breytingar/fra1800/hitafar/
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2009 | 23:53
Ljúft er að láta sig dreyma
Óhætt er að segja að margt stórmennið hafi einkennt sjónvarpsdagskrána sunnudagskvöldið 10. október árið 1993 en þá voru mættir á skjáinn þeir Burt Reynolds, Leonard Bernstein að ógleymdum Árna Johnsen.
Ekki get ég þó sagt að ég muni sérstaklega eftir þessum þáttum en hinsvegar man ég vel eftir framhaldsþættinum sem var á dagskránni þetta sama kvöld sem hét á íslensku Ljúft er að láta sig dreyma eða Lipstick on Your Collar á frummálinu og voru skrifaðir af Dennis sáluga Potter, en hann gerði einnig handrit af öðrum góðum seríum á borð við Pennies from heaven og The Singing Detective. Ég veit reyndar ekki um marga sem sáu þessa þætti hvernig sem stendur á því, en þarna árið 1993 voru auðvitað þeir dagar liðnir að landsmenn settust fyrir framan sömu sjónvarpsdagsskrána eins og áður var.
Í þáttunum Lipstick on Your Collar segir af ungum manni sem gegnir herskildu sinni með störfum í bresku leyniþjónustunni sem rússneskuþýðandi og gerist sagan á þeim tíma þegar Súez-deilan stendur sem hæst árið 1956-57. Það er ýmislegt sem truflar huga unga mannsins, ekki síst örlaga- og draumadís þáttarins sem svo illa vill til að er einmitt trúlofuð liðsforingjanum illræmda. Rokkið og rólið er einnig ofarlega í huga piltsins og í einhæfri þýðingarvinnunni er ljúft að láta sig dreyma en þá lifna hinir alvarlegustu menn við og bresta í söng, í þykjustunni að vísu. Tónlistaratriðin er einmitt eitt aðaleinkenni þeirra þátta sem Dennis Potter skrifaði. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar með að fella söngatriði inn í kvikmyndir og sjónvarpsþætti en það hefur sjaldan verið gert betur en í þessum þáttum.
Hér á eftir kemur lítið atriði úr fyrsta þætti en þar má ásamt fleirum sjá aðalsöguhetjuna sem leikin er af Ivan McGregor, en lagið Little Bitty Pretty One sem þarna hljómar er flutt af Frankie Lymon. Þættirnir Ljúft er að láta sig dreyma eru annars sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.2.2009 | 12:21
Árlegt hafísslágmark á Suðurhveli
Á þessari síðu er hafísinn á heimskautunum eitt af umfjöllunarefnum. Ég hef þó fram að þessu ekki mikið skrifað um Suðurskautsísinn enda hefur þróunin þar ekki verið eins dramatísk eins og hér í norðri en ef eitthvað er hefur hafísinn frekar aukist án þess þó að hægt sé að tala um einhverja róttæka þróun í þá átt. Eins og venjulega á þessum árstíma er hafísinn í lágmarki þarna suðurfrá og á næstu vikum mun hafísinn fara að aukast á ný eftir því sem sólin lækkar þarna á lofti. Á suðurhvelinu er annars gríðarlega mikill munur á hafís eftir árstíðum, miklu meiri munur en á norðurhveli. Þegar vetur gengur í garð á suðurhveli vex ísinn hratt og örugglega án þess að nokkur meginlönd nái að hefta útbreiðsluna en sá mikli ís bráðnar svo að mestu leiti um sumarið. Helst er það austan megin við Antartíkuskagann sem ísinn heldur velli enda er hann þar í góðu skjóli fyrir ríkjandi vestanáttum.
Á myndunum hér að neðan sést vel munur á útbreiðslu hafíssins á suðurhveli milli árstíða, önnur sýnir útbreiðsluna síðastliðinn september en hin er frá 16. febrúar. Heldur minni hafís er að þessu sinni en á sama tíma í fyrra en virðist þó vera í meðallagi miðað við lágmörkin frá 1979. (Myndin er frá National Snow and Ice Data Center)
Á myndinni hér að neðan má sjá hinar miklu árstíðabundnu sveiflur í hafísnum á Suðurhveli frá árinu 1979. (Cryosphere Today)Eftir því sem spekingar og tölvulíkön segja er fullkomlega eðlilegt að hafísinn á Suðurhvelinu hafi ekki minnkað á sama hátt og á norðurslóðum. Suðurskautslandið er meginland umlukið úthöfum allan hringinn en vegna þessara miklu úthafa er þessi syðsti hluti væntanlega seinna til að bregðast við hlýnun jarðar. Mun minna af hlýju lofti berst líka til Suðurskautslandsins en til Norður-Íshafsins þar sem kaldir sjávarstraumar og vindar hringsóla um Suðuskautslandið allt árið og verja það fyrir mildara lofti. Því má líkja Suðurskautslandinu við risastórt hringtorg á botni jarðarinnar nema hvað umferðin gengur öfugt miðað við það sem við eigum að venjast.
- - - - -
Eftir nokkrar vikur má svo búast við hinu árlega hafísshámarki á Norðurhvelinu og um það mun ég einnig fjalla þegar þar að kemur, vonandi af einhverju viti, eða svo langt sem það nær.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2009 | 17:20
Stjarnfræðileg þrívíddarsýn
Nú gæti einhver haldið að ég sé endanlega orðinn stjörnuvitlaus og kannski með réttu en það sem ég ætla að taka fyrir núna er þrívíddarskynjun í æðra veldi og hefur að gera með takmarkanir okkar til að skynja órafjarlægðir himingeimsins þrívídd. Ég hef áður komið inn á það hvernig við notum okkar tvö augu til að skynja rými og fjarlægðir þegar um ræða okkar nánasta umhverfi en það byggist á því að augun okkar tvö sjá ekki umhverfið frá alveg sjónarhorni (sjá hér og hér). Sú misvísun hjálpar okkur einmitt til að sjá heiminn í þrívídd. En vegna þess að augun eru ekki fjær hvort öðru en raunin er þá dugar þessi þrívíddarskynjun skammt þegar fjarlægðir mælast í hundruðum metra hvað þá kílómetrum svo ekki sé talað um óravíddir geimsins.
Að vísu höfum við önnur ráð til að skynja mismunandi fjarlægðir eins og bara það að fjarlægir hlutir smækka fyrir augum okkar eftir því sem þeir eru fjarlægari eins og reglur um fjarvídd (perspective) segja til um og fjöll hverfa í blámóðu fjarskans í opnu landslagi (atmosphere perspective). En þegar við horfum til stjörnubjarts himins þá bregðast öll ráð til fjarlægðarskynjunar og við getum með engu móti skynjað hvaða stjörnur eru næstar okkur og hverjar fjarlægastar - þær sýnast ósköp einfaldlega vera jafn farlægar og gætu þess vegna allt eins verið göt á himnafestingunni eins og menn héldu í gamla daga.
Hvað þarf til að skynja fjarlægðina til tunglsins?
Tunglið er í um 400.000 kílómetra fjarlægð frá jörðu og þótt það sé miklu nær okkur en stjörnurnar eigum við ekki gott með að greina þann mun en til þess þyrfti bilið á milli augnanna okkar að vera miklu meira. 1% af fjarlægðinni til tunglsins ætti þó að duga eða um 4.000 kílómetrar sem er álíka og vegalengdin til Spánar. Ef svo óskaplegt bil væri á milli augnanna væri komin nægur mismunur á sjónarhorni augnanna til tunglsins og stjarnanna í baksýn að við gætum skynjað að tunglið er miklu nær okkur en stjörnurnar, sem sæjust þó áfram í einum fleti.
Þessu hef ég hér reynt að líkja eftir með myndunum tveimur hér að ofan, en til að skynja fjarvíddina þarf maður að beita þeirri brellu að sjá myndirnar tvöfalt með því að gera sig rangeygan og láta myndirnar falla saman þannig að þrjár myndir sjást í stað fjögurra en þrívíddaráhrifin birtast þá í miðmyndinni A+B. Þetta eiga allir að geta gert með smá þolinmæði nema þeir sem eru verulega sjónskertir eða blindir á öðru auga. (Ef einhver skynjar þetta samt ekki verður bara að hafa það)
Hvað með stjörnurnar?
Ef við ætlum að skynja stjörnuhimininn í þrívídd þurfum við miklu meira bil á milli augnanna en sem nemur þvermáli jarðar. Ef við hugsum bara um reikistjörnurnar til að byrja með þá mælast fjarlægðir til þeirra í tugum og hundruð milljónum kílómetra og til að skynja reikistjörnurnar í þrívídd má mæla með augnamillibili sem er á við sporbaug tunglsins um jörðina að stærð fyrir nálægustu reikistjörnurnar en talsvert meira fyrir þær fjarlægari.
Ef hugsum svo enn lengra, eða til þess aragrúa af fastastjörnum sem er á himninum þá er nálægasta fastastjarnan dvergstirnið Proxima Century í 4,2ljósára fjarlægð en annars eru fáar fastastjörnur í innan við 10ljósára fjarlægð. Við förum því ekki að skynja fastastjörnurnar í þrívídd fyrr en við bilið á milli augnanna er komið í vegalengdir sem mælast sem hlutar ljósárs. 1/10 af ljósári ætti t.d. að duga ágætlega fyrir nálægustu stjörnurnar eða um 946.052.840.488 kílómetrar á milli augna.
Eins og með tunglmyndina er hægt að sjá þessa stjörnumynd í þrívídd ef sömu sjónhverfingum er beitt. Ég tek þó fram að þetta eru engar ákveðnar stjörnur heldur teiknaði ég þetta upp til að gefa dálitla hugmynd um það sem við förum á mis í þrívíddarskynjun okkar á stjörnunum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.2.2009 | 18:18
Hvað finnst mér um Eurovisionlögin?
Enginn sem tekur sjálfan sig alvarlega getur tekið Eurovision-söngvakeppnina alvarlega, það er nokkurn veginn vitað. Þess vegna ætla ég hér af fullri alvöru að fjalla um lögin sem koma til greina sem framlag Íslands í keppnina í ár. Fyrir það fyrsta þá finnst mér lögin sem koma til greina nú nokkuð jöfn að gæðum og ómögulegt að segja hvað verður fyrir valinu. Gæði lagana eru þó yfirleitt ekki meiri en svo að ástæða sé til að óttast að við förum að vinna keppnina með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgir en þó er aldrei að vita. Hinsvegar sýnist mér ekkert lag vera þarna sem gæti orðið okkur til meiri ævarandi skammar á alþjóðavettvangi en orðið er. Eiginlega má bara segja að innanlandskeppnin nú í ár sé frekar litlaus í heildina - engir furðufuglar með gula hanska eða steraboltar sem lífga keppnina við eins og í fyrra, hvernig sem á því stendur.
Að þessu sögðu koma hér mínir óskeikulu sleggjudómar um lögin sem í boði eru. Röð lagana eru í stafrófsröð eftir heiti þeirra. Einnig er hægt að hlusta á þau með því að smella á titilinn.
1. Easy to fool
Höfundur: Torfi Ólafsson, Flytjendur: Arnar, Edgar, Sverrir og Ólafur
It´s hot under the west-coast sun, But cold up here in Maine segir í texta lagsins. Þó að veðurfregnir höfði yfirleitt til mín þá er helsta vandamálið hér að þetta er bara púra Amerískt kántrýlag og ágætt sem slíkt en satt að segja finnst mér svona þjóðlagatónlist frá öðrum heimsálfum varla eiga heima sem framlag Íslands í Eurovision. Mætti kannski senda þetta í Grand Ole Opry keppnina sem haldin er oft og reglulega í Nashville Tennessee.
2. Got no love
Höfundur: Örlygur Smári, Flytjendur Elektra.
Hér er búið að setja saman stelpuhljómsveit með hinum svokölluðu Hara-systrum sem eru víst raunverulegar systur en þær urðu í öðru sæti í X-faktor þáttunum sem ég annars þekki lítið til. Hér er sami lagahöfundur á ferð og samdi sigurlagið í fyrra This is my live sem mér fannst reyndar afar leiðinlegt lag. Þetta framlag er hins vegar mun betra fyrir minn smekk þótt þetta sé nokkuð hefðbundið pop-rokk, þó dálítið glyskennt með tilgerðarlegum smartheitum. Minnir dálítið á rússnesku platlesbíurnar í T.a.t.u. sem er svo sem allt í lagi. Örlygur Smári gæti hæglega átt sigurlagið annað árið í röð.
3. I think the world of you
Höfundur: Hallgrímur Óskarsson, Flytjandi: Jógvan Hansen.
Hér er annar þaulreyndur Eurovision höfundur sem átti t.d. lagið sem Birgitta söng um árið. Söngvarinn er sjálfur sigurveginn í áðurnefndri X-faktor keppni og nýtur sjálfsagt vinsælda út á það auk þess sem hann er dálítið þekktur meðal fiskveiðiþjóða norður-Atlantshafsins. Svo má ekki gleyma að hann er Færeyingur sem þykja vera sérlegir vinir okkar Íslendinga. Allt gerir þetta að verkum að lagið á ágæta möguleika á að sigra, nema hvað lagið er frekar óspennandi vakningarballaða með viðeigandi upphækkun í lokin: All around the world, it's gone crazy..., Virkar þó kannski vel í svona keppni.
4. Is it true
Höfundur: Óskar Páll Sveinsson, Flytjandi: Jóhanna Guðrún Jónsdóttir.
Enn einn gamalkunnur Eurovision höfundurinn mættur til leiks og nýtur hér fulltyngis barnastjörnunnar fyrrverandi Jóhönnu Guðrúnar, sem er greinilega ekki lítil lengur. Þótt svona músik sé ekkert mitt uppáhald er hér á ferðinni afskaplega fín og pottþétt ballaða sem gæti hæglega brætt hjörtu margra Evrópubúa. Jóhanna er líka hin glæsilegasta á sviðinu og syngur þetta vel og af miklu öryggi. Hugsanlega besta lagið í keppninni en ég er þó ekki viss um að það eigi mikla möguleika enda gæti barnastjörnustimpillinn háð söngkonunni.
5. Lygin ein
Höfundur: Albert G. Jónsson, Flytjandi: Kaja Halldórsdóttir
Hér byrjar ballið fyrir alvöru því hér stígur á svið aldeilis skutla sem syngur þéttan ljóðabálk á íslensku um glataðan gæja sem trítar svo sannarlega ekki vel. Lagið er ískalt teknó-diskó með stálhörðum takti en dálítið flatt, textinn gæti verið eftir Leoncie en atriðið er nokkuð vel skreytt með svartklæddum dansmeyjum. Það er einhver stafrænn 2000-stíll í þessu sem er ekki alveg í takt við tímann í dag lagið en gæti þó virkað í austur-Evrópu. Samt má alveg hafa gaman að þessu.
6. The kiss we never kissed
Höfundur: Heimir Sindrason, Flytjandi: Edgar Smári
Heimir Sindrason kemur hér með hugljúft lag af rólegra taginu. Dálítið í Johnny Logan stíl með væmnum teardrop in your eye texta sungið af ungum dægurlagasöngvara sem hefur sést áður í Eurovision undankeppni og er að auki einn af kúrekunum í laginu hans Torfa Ólafs. Sumum þykir þetta ef til vill voða huggulegt og vel heppnað en mér finnst hér ýmislegt ekki virka, sérstaklega söngurinn eða raddbeitingin sem fer í full mikla falsettu í erfiðustu köflunum. Ég held að við ættum ekkert að vera að hugsa um þetta lag.
7. Undir regnbogann
Höfundur: Hallgrímur Óskarsson, Flytjandi: Ingó
Annað lag eftir áðurnefndan Hallgrím en gjörólíkt. Ingó Veðurguð sem flutti Bahama-lagið í sumar er ekki meira en ágætur raulari, dugir þó til að koma þessu léttmeti frá sér. Trallalalalla eru skilaboð sem komast allstaðar til skila en annars er bara jákvætt að textinn sé á íslensku - saminn af sjálfum Eiríki Hauks. Stelpurnar í lúðrasveitarbúningunum með bumbutrommuna og túbuna eru náttúrulega ágætis skraut, lífga þetta við og undirstrika taktinn í laginu. Þær taka að vísu til sín mestu athyglina, einkum túbustelpan sem hefur sjálfsagt aldrei séð svona skrítið hljóðfæri áður og örugglega aldrei blásið í það.
8. Vornótt
Höfundur: Erla Gígja Þorvaldsdóttir, Flytjandi: Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm
Hér gerast undur og stórmerki. Ung stúlka syngur undurhugljúft lag ömmu sinnar um ástarfund í Skagfirskri vornótt þar sem fuglinn morgunferðar bíður. Hér má heyra hörpuslátt og englaraddir í bakgrunni sem hjálpa til við gera þetta að eftirlætislaginu mínu í keppninni. Þótt þetta muni sjálfsagt ekki gera stóra hluti í sjálfri Moskvu er þetta langeinlægasta lagið og það sannasta. Spurning hvort X-faktor kynslóðin skynji það. Kannski er ég bara farinn að eldast en þegar maður hefur hlustað á þetta lag finnst manni allt hitt vera hálfinnantómt og tilgerðarlegt. Eins og þessi dásamlega keppni annars er.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.2.2009 | 23:51
Furðuborgin Dubai
Sem einskonar framhald af síðustu færslu ætla ég að líta aðeins við í Dubai sem er eitt af Arabísku furstadæmunum og orðin fræg fyrir mikil undarlegheit og draumóraframkvæmdir sem eiga hvergi sinn líkan. Gervitunglamyndin hér að ofan er tekin í október 2006 og má sjá hinar frægu og gríðarstóru landfyllingar sem mynda einskonar pálmatré útfrá ströndinni en á þeim eiga að rísa glæsihýsi ýmiskonar. Skammt útfrá ströndinni má svo sjá eyjaklasann (The World) sem samanstendur af 300 smáeyjum sem mynda einskonar heimskort séð úr lofti. Þarna getur vel efnað fólk keypt sér íbúðarhús eða bara haft það gott í sumarleyfum.
Uppbyggingin í þessari borg hefur verið það mikil að fyrir þrjátíu árum hefði varla verið hægt að sjá nokkurt mannvirki svona úr lofti. Metnaður olíufurstana í Dubai virðist varla eiga sér nokkur takmörk og bjartsýni á framtíðina jafnvel meiri en við höfum kynnst hér á landi. Auðvitað eru þeir að reisa skýjakljúf sem er fyrir nokkru orðinn sá langhæsti í heiminum og nefnist Burj Dubai. Hæð turnsins var lengi vel mikið leyndarmál en nú þegar hann er nánast fullgerður kemur í ljós að hann er um 818 metrar og nær því hærra til himins en algengasta gönguleiðin á Esjuna og er þar að auki um 300 metrum hærri en aðrir hæstu skýjakljúfar heimsins. Uppbygging Dubai-borgar er þó bara rétt að byrja og nú þegar eru komnar áætlanir um byggingu enn hærri turns Al Burj og verður sá um 1200 metrar á hæð ef draumar rætast. Stærsti skemmtigarður heims er einnig að rísa í Dubai og nefnist Dubailand og verður bara helmingi stærri en DisneyWorld í Flórída, þarna á líka að verða stærsta verslunarmiðstöð í heimi og margir þekkja innanhúss-skíðabrekkuna sem opnuð var fyrir nokkrum árum.
Já það hefur greinilega ekki verið gert ráð fyrir neinni kreppu í Dubai. Að vísu er það ekki olíugróði framtíðarinnar sem rekur menn áfram þarna en olíutekjur hafa orðið sífellt minni hluti af heildartekjum furstadæmisins því öll áherslan hefur verið á uppbyggingu Dubai sem miðstöðvar viðskipta og ferðamennsku. Ef horft er útfrá reynslu okkar íslendinga má kannski vel ímynda sér hvað menn hugsa þarna í dag á þessum síðustu og verstu tímum.
Myndin hér að ofan er fengin af síðunni http://www.dubai-architecture.info/DUB-GAL1.htm þar sem kynnast má betur furðuverkum borgarinnar.
Efsta myndin er frá NASA - Earth Observatory. Turnmyndin er af vefnum www.GlassSteelandStone.com
Byggingar | Breytt 10.2.2009 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2009 | 13:12
Stórborgamynstur
Ég skrapp í dálitla heimsreisu nú á dögunum og var tilgangur ferðarinnar aðallega sá að skoða skipulag í hinum ýmsu borgum heimsins. Svona heimshornaflakk er mun auðveldara í dag en áður fyrr, þökk sé hinu stórskemmtilega google-maps en með hjálp þess getur maður setið á sama stað en verið samt að ferðast. Hér koma nokkur sýnishorn úr ferðinni þar sem sjá má hvernig mismunandi borgarlandslag nýtur sín úr lofti.
(Myndirnar birtast stærri ef smellt er á þær tvisvar)
París. Þarna má meðal annars sjá Sigurbogann og hvernig göturnar geisla út frá honum og öðrum torgum í allar áttir. Göturnar liggja sjaldnast hornrétt á hver aðra en samt er greinilega allt þaulskipulagt.
Barcelona. Stór hluti borgarinnar utan um elsta kjarnann er byggður með þessu reglulega reitaskipulagi.
Róm hin forna. Þarna í elsta hluta borgarinnar er byggt afar þétt. Aðalgötur er beinar en þær þrengri liðast einhvern veginn eins og þær hafa sjálfsagt gert frá fyrstu tíð. Hringlaga byggingin er Pantheon-hofið frá tímum Rómaveldis.
Hér er ég kominn til hinnar stríðshrjáðu Bagdad. Þetta er íbúðahverfið Sadr City, nefnt eftir shítaleiðtoganum Mohammad Sadeq al-Sadr en hét áður Saddam City. Hér ríkir greinilega mikil röð og regla úr lofti séð en kannski ekki eins mikil á jörðu niðri.
Ho Chi Minh. Hver þumlungur er gjörnýttur í þessari stærstu borg Víetnam en sjálfsagt er þetta ekki akkúrat staðurinn þar sem betri borgararnir búa. Í gegnum borgina rennur Saigon-fljót til sjávar en lengi vel var borgin nefnd eftir því fljóti.
Mexíkóborg. Hér er gott dæmi um risastórt fjöldaframleitt íbúðahverfi byggt fyrir sívaxandi fjölda aðkomufólks úr sveitum landsins. Þarna renna húsin saman í eitt en hver smáreitur inniheldur fjölda smáhýsa. Borgin er meðal þeirra allra stærstu í heimi með um 19 milljónir íbúa ef úthverfi eru talin með.
Brasilíuborg er afar sérstök borg en hún var reist frá grunni lengst inni í landi í anda módernískrar hugsunar og gerð að höfuðborg landsins árið 1960. Þótt þetta hafi verið draumaverkefni arkitekta og skipulagsfræðinga á sínum tíma er ekki víst að útkoman sé sú fullkomna nútímaborg sem stefnt var að.
Miami á Flórída er byggð á afar láglendu svæði og er meðalhæðin yfir sjávarmáli ekki nema um tveir metrar. Þarna má sjá eitt af einbýlishúsahverfum borgarinnar og er óhætt að segja að þéttri byggðinni sé mjög haganlega fyrir komið á þessum votlenda stað.
Að lokum er það svo bara Vesturbærinn í Reykjavík á sólríkum sumardegi. Þarna einhverstaðar neðarlega til vinstri á ég sjálfur heima sem aðfluttur vesturbæingur.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.2.2009 | 12:42
Veðurskráning fyrir janúar
Þeir sem þekkja mig eða mín skrif ættu að vita að ég er veðuráhugamaður umfram meðallag já, kannski bara nokkuð vel yfir meðallagi. Upphaf og endir þessa veðuráhuga er veðurdagbókin góða sem ég hef haldið síðan í júní 1986 og segir af veðri hvers dags í Reykjavík. Upphaflega var meiningin að skrá niður veðrið í eitt sumar en þar sem þetta reyndist skemmtilegra en ég átti von á er ég enn að, og nú að loknum janúarmánuði hef ég alls skráð 278 mánuði og með því að beita ýmsum ráðum í gegnum tíðina vantar ekki inn einn einasta dag.
Hver mánuður er skráður á eina blaðsíðu og allt handskrifað. Þetta er gert á nokkuð staðlaðan hátt en skráningarformið hefur haldist óbreytt frá upphafi. Í skráningunum reyni ég að lýsa nokkurskonar meðalveðri hvers dags en ekki veðrinu á ákveðnum tímapunkti. Nokkrum sinnum hef ég vitnað í þessar skráningar mínar en nú er stóra stundin runnin upp því hér sýni ég í fyrsta skipti hvernig ég skrái heilan mánuð.
Svo ég lýsi þessu aðeins þá er dagsetningin í fyrsta dálki en svo kemur veðurlýsing sem sýnir sólskin, skýjafar og úrkomu. Næst er það vindstyrkur og vindátt. Síðan kemur hitinn yfir daginn og tákn um það hvort dagurinn sé kaldur (kassi), hlýr (hringur) eða nálægt meðallagi (þríhyrningur). Næst kemur loftvog á miðnætti svo jörð á miðnætti: auð jörð, hvít eða blaut. Í aftasta dálki er veðursfarsleg einkunn sem gefin er eftir ákveðnu kerfi á skalanum 0-8 stig útfrá veðurþáttunum fjórum: sól, úrkoma vindur og hiti. Neðst á síðunni eru svo nokkrar samantektir.
Þótt ýmislegt hafi gengið á í þjóðfélaginu núna í janúar var veðrið yfirleitt með rólegasta móti eins og þarna sést. Þetta var hlýr mánuður í Reykjavík, meðalhitinn yfir daginn samkvæmt þessum skráningum er 2,2°C en samkvæmt opinberum tölum var hitinn 1,8°C, en þar er um sólarhringsmeðalhita að ræða. Fyrri hluti mánaðarins var sérstaklega hlýr og nokkuð úrkomusamur síðan tók við tímabil með óvenjusamfelldum lágum loftþrýstingi og svo frekar köldu veðri undir lokin. Meðaleinkunnin 4,5 er nokkuð góð útkoma fyrir janúar en meðaleinkunn fyrir janúar frá 1986 hjá mér er annars um 4,2 stig.
Veður | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2009 | 21:51
Onedin skipafélagið
Í eldgamladaga þegar ekki var búið að finna upp litasjónvarp eða vídeótæki hér á landi, safnaðist fólk fyrir framan sjónvarpstækin sín eftir kvöldmat ef ekki var fimmtudagur og horfði á dagskrána sem þar var í boði. Nokkurn veginn mátti fullyrða að fólkið í næsta húsi eða í næstu íbúð væri einnig að horfa á sjónvarpið og á sömu myndina enda bara ein sjónvarpsstöð í loftinu og þótti alveg feikinóg. Þetta átti ekki síst við þegar fínir breskir framhaldsþættir voru á dagskrá eins og Onedin skipafélagið sem voru sýndir í mörg ár á áttunda áratugnum og sögðu frá skipstjóranum James Onedin sem gerði út skipafélag sitt frá hafnarborginni Liverpool. Sjálfur horfði ég oft á þessa þætti og þá aðallega vegna stóru seglskipana sem léku stórt hlutverk í þáttunum og voru sjálfsagt fyrirmyndin af öllum þeim seglskipamyndum sem ég teiknaði um 10-12 ára aldurinn. Einnig höfðu þættirnir úrslitaáhrif á það hvaða enska fótboltalið varð fyrir valinu til að halda með um ókomin ár.
Þættirnir um Onedin skipafélagið er kannski ekki aðalmálið í dag, en þetta er hinsvegar sjónvarpsnostalgía mánaðarins nýr dagskrárliður á þessari síðu og í fullum litum að þessu sinni. Hér má sjá upphaf allra fyrsta þáttarins. Upphafstónlistin sem setti svo sterkan svip á þættina er eftir hinn rússneska Aram Khachaturian og er úr balletverkinu Spartacus.
Sjónvarp | Breytt 1.2.2009 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.1.2009 | 21:52
Austurvallarmyndir

Jón Sigurðsson, mótmælandi nr.1 og sjálftæðishetja þjóðarinnar stendur ávallt stoltur á stalli sínum. Styttan er gerð af Einari Jónssyni árið 1911 og var upphaflega afhjúpuð við Stjórnarráðið þar sem hún stóð til ársins 1931 en þá var hún flutt á Austurvöll. Þar hafði áður staðið stytta af Bertel Thorvaldsen myndhöggvara.

Alþingishúsið er hlaðið úr grágrýti sem er sú bergtegund sem höfuðborgin stendur á. Grágrýti er annars einkennandi fyrir það berg er rann sem hraun á hlýskeiðum á milli ísalda og er því allt að 3ja milljóna ára gamalt. Alþingishúsið sjálft er þó ekki svo gamalt en það var reist árið 1881.

Pósthússtræti 9 hefur lengi verið talið stílbrot í húsaröðinni en það var byggt á 6. áratugnum þegar modernisminn var allsráðandi í byggingarstíl. Á seinni árum er það þó farið að njóta meiri virðingar á hjá sumum enda er þetta sígilt dæmi um ákveðið tímabil í byggingarsögunni.
23.1.2009 | 21:43
Um bókina Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar
Núna rétt fyrir jólin kom út bók sem ástæða er til að minna á en hún heitir Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar og er eftir veðurfarsfræðinginn Halldór Björnsson sem starfar á Veðurstofu Íslands. Þrátt fyrir að þetta sé hin þarfasta bók um eldheitt málefni hefur hún ekki fengið mikla umfjöllun, enda hefur fólk um ýmislegt annað að hugsa þessa dagana. Hún fór þó ekkert fram hjá mér enda hef ég sjálfur blandað mér í loftslagsumræðuna stöku sinnum á þessum vettvangi og skrifað eins og sá sem þykist hafa eitthvað vit á málum.
Það sem er í bókinni
Bókin hefst á mjög ýtarlegum útskýringum á eðlisfræðinni að baki gróðurhúsaáhrifunum og varmabúskap jarðar. Saga kenningarinnar er rakin og svo eru flækjur sem gera spár um framtíðina óvissa útskýrðar, en þar er um ræða þætti sem ýmist hafa dempandi eða magnandi áhrif ef hlýnun á sér stað. Síðan er farið yfir loftslagsspá 21. aldar þar sem fjórða úttekt IPCC kemur mikið við sögu, afleiðingar hlýnunar eru metnar, Kyoto bókunin er rædd og síðast en ekki síst er umfjöllun um aðgerðir og 2°C markið, sem er talið hámark þeirrar hlýnunar sem má eiga sér stað ef ekki á að koma til hættulegrar röskunar.
Í svona efnismikilli bók er auðvitað margt sem maður var ekki með á hreinu áður. Ég hef til dæmis ekki áður lesið jafn góðar útskýringar á eðli gróðurhúsaáhrifa, sem eru í raun ekki beint gróðurhúsaáhrif heldur áhrif-endurgeislunar-innrauðs-ljóss en án þeirra áhrifa væri hitastig jarðar um 30° lægra en það er nú. Það er líka athyglisvert hvað þetta eru í raun gömul fræði en einn sá fyrsti til að benda á hættuna af auknu útstreymi C02 var Svíinn Arrhenius sem fékk Nóbelsverðlaun árið 1904. Samkvæmt hans mati átti að geta hlýnað á jörðinni um 5-6°C ef styrkur CO2 í lofti myndi tvöfaldast. Með aukinni vitneskju og endalausa útreikninga áætla menn í dag að afleiðingar tvöföldunar CO2 séu á bilinu 2,04,5°C. Óvissan er þó talin meiri á efri mörkunum.
Það sem er ekki í bókinni
Í ljósi umræðunnar þá er athyglisvert að í umræddri bók er eiginlega hvergi fjallað um sólvirkni. Að vísu er bent á það sem staðreynd að kólnað hafi í heiðhvolfinu á sama tíma og hlýnað hefur í veðrahvolfinu en það á einmitt að vera í samræmi við aukin gróðurhúsaáhrif, þ.e. hlýnunin hefur ekki komið utanfrá. Það hefði samt alveg mátt taka þátt sólarinnar fyrir, en til eru vísindamenn sem spá beinlínis minniháttar-ísöld á næstu áratugum vegna minni virkni sólar.
Einnig saknaði ég umfjöllunar um áratuga-hitasveiflurnar í Kyrrahafinu (PDO) og Norður-Atlantshafinu (AMO) en sveiflur í þeim virðast ráða miklu um þróun hitafars og jafnvel ástand Norðurheimskautsíssins. Einnig er lítið fjallað um El Niño og La Niño áhrifin. Þó nokkuð er þó fjallað um stóra færibandið og ýmislegt annað varðandi þátt sjávarins.
Hættuleg framtíð eða hvað?
Ef ekkert róttækt verður gert til að hamla gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum er sagt að mikil hætta steðji að lífsskilyrðum þeirra milljarða manna sem byggja jörðina, bókin styður það sjónarmið og færir vissulega rök fyrir því. En þótt engin dómsdagsspá hafi verið eins vel undirbyggð með vísindalegum rökum eru ekki allir sannfærðir. Kannski eru einhverjir náttúrulegir þættir vanmetnir í öllu dæminu sem gætu virkað á móti þeirri hlýnun sem spáð er. Ég held þó að kenningin um hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa sé þess eðlis að hún þoli talsverð áföll, því jafnvel þótt ekkert hlýni á jörðinni næstu einn eða tvo áratugi þarf kenningin ekki að falla enda er um langtímahlýnun að ræða sem leggst ofan á aðrar hitasveflur af náttúreulegum orsökum. Hinsvegar gæti tímabundin stöðnun á hlýnun eða jafnvel kólnun, hæglega afvegaleitt umræðuna að ósekju og vakið upp ástæðulausan ótta um yfirvofandi ísöld.
- - - -
Að lokum er hér splunkunýtt línurit frá NASA Goddard Institute for Space Studies (GISS) sem sýnir hitaþróun jarðar frá árinu 1880.
Vísindi og fræði | Breytt 24.1.2009 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.1.2009 | 20:21
Stóra planið um fjármálamiðstöðina Ísland
Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda, vegna þess mannauðs sem í landinu býr og vegna mikils og góðs stöðugleika, hvort sem er í efnahaglegu eða stjórnmálalegu tilliti.
Kannski er ekki alltaf sanngjarnt að rifja upp gömul ummæli sem sögðu voru við allt aðrar aðstæður en ríkja í dag, en orðin hér að ofan mælti Halldór Ásgrímsson á Viðskiptaþingi í febrúar árið 2005. Samanber þessi orð fer ekkert á milli mála að Halldór eins og aðrir stjórnmálamenn bera hag þjóðarinnar fyrst og fremst fyrir brjósti í öllum sínum orðum og gerðum. Grunnurinn að hagsæld íslendinga og öflugu velferðarkerfi átti að vera öflugt alþjóðlegt fjármálalíf hér á landi sem átti að þróast í þeim hagstæðu skilyrðum sem stjórnvöld ætluðu að skapa með víðsýni og áræðni. Þetta var STÓRA PLANIÐ. Hér í fjármálaparadísinni miðri áttu síðan að rísa stórhýsi og stoltar menningarbyggingar fjármagnaðar af kaupahéðnum en hraðbrautir áttu síðan að liggja um sund og göng til ört stækkandi úthverfanna þar sem almenningur bjó í sínum myntkörfulánuðum smáhöllum. Fallvötn og jarðorku landsins átti svo að virkja til að afla orku fyrir stóriðjur sem áttu að tryggja blómlegt mannlíf á landsbyggðinni.
Því miður eða sem betur fer var Stóra planið aðeins of stórt fyrir okkar litlu og hjartfólgnu eyju, nema vera skildi að stjórnmálamennirnir hafi verið of stórir fyrir okkur.
- - - - - -
NEÐANMÁLS: Orð Halldórs eru fengin af bloggsíðu Björns Inga Hrafnssonar (sjá Hér) en þar má finna ræðu Halldórs um Fjármálamiðstöðina. Umrædda bloggsíðu Björns fann ég hinsvegar í gegnum bloggpistil Egils Helgasonar frá 16. janúar.
16.1.2009 | 11:54
Af lægðum og geðlægðum
Eins og ástandið er í dag er orðið erfitt að halda uppi bloggsíðu sem fjallar um eitthvað annað en peninga og pólitík. Eðlilega smitar ástandið útfrá sér og litar alla umræðu enda er það nánast siðferðisleg skilda hvers manns í dag að vera ýmist reiður, hræddur eða þunglyndur.
En þá að efni pistilsins sem að þessu sinni fjallar um veðursálfræði. Stundum heyrir maður fólk segja óháð öllu bankahruni að það hljóti að vera einhver lægð á leiðinn eða kannski lægð yfir landinu og tengir fólk það þá við einhverskonar þyngsli sem liggja í loftinu sem hefur áhrif á líkamlegt ástand eða geðslag. Þannig eiga veðurfarslegar lægðir að bera ábyrgð á allskonar skrokkverkjum, letiköstum og jafnvel tímabundnu þunglyndi.
Það er auðvitað ágætt að kenna utanaðkomandi aðstæðum um skort á eigin vellíðan og varpa ábyrgðinni yfir á það sem við fáum ekki stjórnað. En hvað með svona veðurlægðir, ætli það sé eitthvað til í þessari tengingu milli loftþrýstings og líkamlegs ástands? Veðurfarsleg lægð myndast samkvæmt fræðunum þegar hlýr loftmassi mætir kaldara lofti og þar sem heita loftið er léttara í sér skrúfast það yfir það kalda svo úr verður hringuppstreymi í kringum miðju sem við köllum lægðarmiðju. Þetta uppstreymi lofts þýðir að loftvogir mæla LÉTTARA loft enda hefur loftþrýstingur á svæðinu LÆKKAÐ. Þetta er öfugt við það sem gerist með hæðarsvæði því þá á sér stað niðurstreymi lofts með hærri loftþrýstingi.
En það sem ég vildi segja með þessu er það er varla er hægt að tengja veðurfarslegar lægðir við einhver þyngsli í lofti. Kannski er það bara orðið LÆGÐ sem ruglar fólk í ríminu eins og um sé að ræða geðlægð eða ládeyðu. Kannski mun fólki líða betur ef lægðir væru kallaðar uppstreymi eða jafnvel upplyfting sem hljómar mun betur og er alveg jafn lýsandi á þessu veðurfyrirbæri.
Þegar þetta er skrifað er loftþrýstingur hér í Reykjavík ekki nema 970 hPa en á næstu dögum mun mikið lægðarsvæði hringsóla kringum Ísland og má þá búast við að loftþrýstingur falli enn meir, okkur öllum til mikillar upplyftingar.
Myndin sem fylgir greininni er MODIS gervitunglamynd, en hún var tekin þann 4. september árið 2003 og sýnir myndarlegan lægðarhvirfil suðvestur af landinu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2009 | 23:38
Bókmenntaspjall
Ég er yfirleitt ekki mikill lestrarhestur en hef samt ánægju af lestri góðra bóka, eins og við flest sem teljumst til þessarar miklu bókmenntaþjóðar. Eins og vanalega á þessum tíma ársins er ég að lesa mig í gegnum þær bækur sem mér hafa hlotnast sem jólagjafir og gengur lesturinn frekar hægt, meðal annars vegna tímafrekra eigin skrifa hér á þessum vettvangi.
Mér datt í hug að setja upp lista með þeim 10 íslensku bókum sem mér finnst eftirminnilegri en aðrar af einhverjum ástæðum, eftir jafnmarga höfunda. Þetta eru auðvitað bara bækur sem ég hef lesið sjálfur þannig að ýmsar merkisbókmenntir verða sjálfsagt útundan. Margar bókanna eru fyrstu bækur höfundar eða frá því snemma á rithöfundarferli þeirra. Kannski er það tilviljun, en þarf þó alls ekki að vera. Hér eru bækurnar, nefndar í stafrófsröð:
1. Brekkukotsannáll - Halldór Laxness (1957)
Satt að segja hef ég ekki lesið margar bækur Laxness frá upphafi til enda en þrátt fyrir mikla stílsnilld vantar kannski í bækur hans framvindu eins og algengt er með íslenskar bækur. Brekkukotsannáll hef ég hinsvegar lesið oftar en einu sinni enda er hún algert konfekt, þar sem heimspekingnum og kotbóndanum Birni í Brekkukoti er stillt upp við hliðina á heimssöngvaranum og oflátungnum Garðari Hólm. (stutt er síðan ég skrifaði um Björn í Brekkukoti, sjá hér)
2. Góðir Íslendingar - Huldar Breiðfjörð (1998)
Þessi bók vakta talsverða athygli þegar hún kom út árið 1998 en þessi vegabók er raunsæ lýsing á framandi dreifbýli landsins að vetrarlagi séð með augum borgarbarnsins úr 101. Sjálfur á ég sjaldan erindi til hinna fjarlægari landshluta en kynni mín af landsbyggðinni eru aðallega bundin við ferðalög að sumarlagi.
3. Í Suðursveit - Þórbergur Þórðarson (1956-1958, 1974)
Það er ljóst á lestri þessum að Þórbergur hefur strax í æsku verið sérlundaður snillingur. Einhverstaðar stendur skrifað að enginn verður samur eftir að hafa leið Suðursveitabækur Þórbergs og hvað mig varðar þá fannst mér ég vera orðinn áttræður að lestri loknum og finnst það stundum enn. (hér á ég einnig eldri bloggfærslu tileinkaðri Þórbergi og þessari bók)
4. Kaldaljós - Vigdís Grímsdóttir (1987)
Þótt ég sé frekar jarðbundinn svona yfirleitt fannst mér eitthvað seiðmagnað við þessa sögu á sínum tíma en hún segir frá myndlistarnema sem er mótaður af örlagaríku snjóflóði í heimaplássi sínu í bernsku. Dulrænir hæfilekar koma þarna við sögu.
5. Hvíldardagar - Bragi Ólafsson (1999)
Ég hef lesið allar bækurnar hans Braga en þessi fyrsta finnst mér vera einskonar lykilbók að því sem hann skrifar. Hér segir frá því hvernig ætlaðir hvíldardagar sögupersónunnar snúast upp í andhverfu sína án þess í rauninni að nokkurt gerist í bókinni. Þessi bók er bara gegnheil snilld.
6. Leiðin til Rómar - Pétur Gunnarsson (2002)
Önnur bók Péturs í röð sem hann kallar Skáldsaga Íslands. Þetta er þó eiginleg ekki skáldsaga heldur einskonar sagnfræðileg frásögn og vangaveltur með skýrskotunum til nútímans. Hér er meðal annars horfið til 14. aldar þegar menn byggðu risaguðshús á Skálholti úr timbri. Manni líður alltaf vel að lesa texta Péturs Gunnarssonar.
7. Leitin að landinu fagra - Guðbergur Bergsson (1985)
Súrrealísk furðusaga í stíl Guðbergs en vissulega ekki ekki með hans þekktari verkum en þarna segir frá sjóleiðangri fólks sem leitar að draumalandinu þar sem kartöflur eiga að vaxa í snjó. Ýmsir skrítnir heimar koma þarna við sögu sem eru ekki allir sem þeir eru séðir og kannski var leitað langt yfir skammt allan tíman. Af þeim fáu bókum sem ég hef lesið eftir Guðberg finnst mér þessi alltaf eftirminnilegust.
8. Riddarar hringstigans - Einar Már Guðmundsson (1995)
Fyrsta bók Einars Más og fjallar um strákamenningu í nýbyggðu borgarhverfi en þar geta leynst ýmsar óvæntar hættur fyrir stráka í riddaraleik. Þetta er ekki flókin saga en skiptist afgerandi í fyrri og seinni hluta og er því eiginlega tvær sögur. Þarna kannast maður við ýmislegt frá fyrri tíð
9. Þar sem Djöflaeyjan rís - Einar Kárason (1983)
Þessi bók skaut Einari Kára verðskuldað upp á stjörnuhimininn þegar hún kom út árið 1983. Minnti mig dálítið á bókina Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marces sem skrifaði stíl sem kenndur er við töfraraunsæi með slatta af gráglettni í bland. Annars byggir Djöflaeyjan á raunverulegum atburðum eftirstríðsáranna, sennilega frá hinum svokallaða Kamp Knox á Melunum skammt frá þar sem ég bý í dag.
10. Þetta er allt að koma - Hallgrímur Helgason (1994)
Síðust en ekki síst í þessari upptalningu. Þetta er ein af góðu bókunum hans Hallgríms en þær eru nokkuð misgóðar. Þarna er mikill orðavaðall í gangi á mörgum blaðsíðum og dugar ekki minna þegar lýsa á ævi hinnar efnilegu Ragnheiðar Birnu sem hefði örugglega slegið í gegn ef ekki hefði vantað það sem til þess þarf.
- - - - -
Fyrir utan þessar bækur eru svo auðvitað ýmsar erlendar bækur sem eru eftirminnilegar og svo ýmsar fræðibækur eins og bók Halldórs Björnssonar, Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar, sem ég las nýlega af miklum ákafa og mætti taka hana fyrir við tækifæri. Nú er hins vegar í lestri bókin Rökkurbýsnir eftir Sjón og lofar hún góðu, en ég geri ráð fyrir að klára hana í mánuðinum. Þar á eftir verður það sennilega bókin Auðnin eftir Yrsu Sigurðardóttur og ef vel gengur með lesturinn klára ég hana fyrir páska.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2009 | 17:56
Hvað verður á boðstólnum í næstu kosningum?
Kosningar eru krafan fólksins í dag enda er tiltrú meirihluta almennings á sitjandi stjórnvöldum horfin út í veður og vind. Ef kosið verður fljótlega er forvitnilegt að spá í hvaða stjórnmálalega landslag kæmi út úr þeim kosningum og hverskonar ríkisstjórn muni þá hugsanlega taka við. Verkefni næstu ríkisstjórnar væri væntanlega að skapa þetta algóða samfélag sem sumir kalla hið Nýja Ísland þar sem réttlætið og kærleikurinn mun að sjálfsögðu ríkja að eilífu. Allt gott um það að segja. En eins og venjan er þá eru ekki allir sammála að leiðinni til draumalandsins en þar ber auðvitað hæst deilan um aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru. Þetta er í raun það stór spurning að það hlýtur að vera ómögulegt að mynda ríkisstjórn sem er ekki samtaka í því máli.
Ef kæmi til kosninga er í fyrsta lagi nokkuð líklegt að ný framboð komi fram sem byggjast á óánægju með sitjandi stjórnmálamenn - framboð sem vel gætu halað inn einhver atkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn er svo í meiri hættu en áður að klofna í herðar niður vegna ESB-málsins ef til kosninga kæmi og því skiljanlegt að Alþingiskosningar séu ekki á óskalista þeirra. Allt stefnir síðan í tvö Framsóknarættuð framboð með mismunandi áherslu til ESB mála.
Hér má svo sjá þá flokka sem hugsanlega gætu boðið fram í næstu Alþingiskosningum og væntanlega afstöðu þeirra til ESB.
- Sjálfstæðisflokkur(1) sem er hlynntur inngöngu í ESB.
- Sjálfstæðisflokkur(2) sem er andvígur inngöngu í ESB.
- Samfylking, sem styður inngöngu í ESB.
- Vinstri grænir sem eru andvígir inngöngu í ESB.
- Framsóknarflokkur sem er hlynntur inngöngu í ESB.
- Þjóðlegur Framsóknarflokkur sem er andvígur inngöngu í ESB.
- Frjálslyndi flokkurinn sem er andvígur inngöngu í ESB.
- Kratabandalag (Aðdáendur Þorvaldar Gylfa) sem styður inngöngu í ESB.
- Reiðir og róttækir (Einar Már & Co) sem er andvígt inngöngu í ESB.
- Lýðræðishreyfingin (Ástþór og Stormsker), spurning með ESB.
Þarna eru allt í allt 10 flokkar og erfitt að sjá einhvern sem gæti fengið afgerandi stuðning. Það er auðvitað ekkert víst að svona margir flokkar komi fram og ólíklegt að svona margir flokkar muni ná mönnum inná þing, en ef við skiptum þessu niður í fylkingar með og á móti ESB þá gæti þær litið svona út:
Með ESB aðild: Sjálfstæðisflokkur(1), Samfylking, Framsóknarflokkur og Kratabandalag (+lýðræðishreyfing Ástþórs?)
Gegn ESB aðild: Sjálfstæðisflokkur(2), Vinstri grænir, Þjóðlegur Framsóknarflokkur, Frjálslyndi flokkurinn og Reiðir og róttækir. (+Lýðræðishreyfing Ástþórs?)
Af þessum tveimur kostum finnst mér mun líklegra að flokkar fylgjandi ESB nái saman enda pólitískur skyldleiki þeirra mun meiri heldur en hinnar fylkingarinnar þar sem eru flokkar sem eru ýmist lengst til vinstri eða hægri í pólitíkinni. Þannig tel ég mig geta komist að þeirri niðurstöðu að kosningar leiði annaðhvort til að þess að Evrópusinnaðir flokkar komist til valda eða þá að einhverskonar stjórnarkreppa taki við. Það er samt alltaf gott ef lýðræðið fær að njóta sín en hætt er þó við að um eitthvað offramboð verða að ræða að þessu sinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)