31.12.2007 | 10:24
Bloggannáll 2007
Ég ætla að nota þessa síðustu færslu ársins til þess að taka saman það sem ég sjálfur hef skrifað á þessum vettvangi. Eins og sést er hér mikið bloggað um veðrið og loftslagsmálin og ýmislegt tengt náttúrufarinu, en hinsvegar hef ég lítið blandað mér í ýmislegt dægurþras sem einkennt hefur umræðuna oft á tíðum. Ég byrjaði reyndar að blogga frekar seint á árinu þannig að þetta er ekkert óskaplega langt yfirlit en þegar ég skoða þetta sjálfur finnst mér samt mesta furða hvað ég hef komist yfir að skrifa. En svona lítur þetta annars út:
21. sept. Bloggarar misskilja frétt. Fyrsta bloggfærslan. Hér sá ég mig knúinn til að byrja að blogga þegar ég sá hvernig þessi frétt um að vetrarhafísinn væri farinn að myndast á ný olli misskilningi bloggara og þá sérstaklega þeirra sem finna Al Gore allt til foráttu.
23. sept. Meira af hafísslóðum. Hér spekúleraði ég aðeins meira í stöðu hafíssins á norðurslóðum og hafísslágmarkið í haust og birti mynd af hafísbreiðunni.
26. sept. Hvað ætli íslendingum finnist um loftslagsbreytingar? Fjallað um könnun sem BBC World Service lét gera um hvað fólki víðs vegar um heim finnist um loftslagsbreytingar. Þar voru Íslendingar því miður ekki með.
27. sept. Bush vildi umfram allt fara í gott stríð. Stutt skrif út frá frétt Mbl um Saddam Hussein og spáð í einlægan stríðsvilja George Bush.
2. okt. Álftanesflugvöllur. Mitt innlegg í umræðuna um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, en á Álftanesi er stórt óbyggt svæði þar sem vel má koma fyrir flugvelli. Mynd fylgir.
6. okt. Snjókomulægð á gervitunglamynd. Hér sýni ég og fjalla um Modis-gervitunglamynd sem sýnir lægðarmiðju fyrir norðaustan land og hvernig hún veldur fyrsta alvöru vetrarveðrinu norðanlands.
7. okt. Klofajökull og loftslagsmálin. Vangaveltur um hinn dularfulla Klofajökul sem nú heitir Vatnajökull og einnig ýmsar vangaveltur um loftslag og jökla á Íslandi. Síðan kem ég að minni sýn á loftslagsmálin almennt.
10. okt. Um ljós og óljós. Skrifað í tilefni þess að kveikt var á friðarsúlunni og fer svo út í ljós, ljósleysi og síðan hugmynd um manngert rafmagnsleysi, borgarbúum til skemmtunar.
15. okt. Stærsta eyjan í vatni á eyju í vatni á eyju er fundin. Já hvar skildi hún nú vera?
16. okt. Mont Blanc hækkar. Stutt skrif vegna fréttar mbl um hvernig Mont Blanc hækkar vegna aukinna hlýinda.
24. okt. Hvar verður næsta eldgos á Íslandi? Er gos á næsta leiti við Upptyppinga eða verður næsta gos annarstaðar og þá hvar helst? Mitt mat á stöðunni.
24. okt. Má kenna hlýnandi loftslagi um skógareldana? Varpaði þessari spurningu fram vegna skógareldana í Kaliforníu. Vissi þó að margir vilja ekki heyra á svona lagað minnst.
28. okt. Hitafar á vetrum. Hér birti ég mynd sem sýnir hitafar síðustu 20 vetra samkvæmt mínum eigin athugunum og upplýsi þar með alþjóð um veðurskráningar mínar.
29. okt. Ekki bara elstu kerlingarnar ... Örstutt innlegg vegna fréttar Mbl að fundist hafi 400 ára kúskel við Ísland.
29. okt. Fellur úrkomumetið? Þarna leit út fyrir að úrkomumet októbermánaðar í Reykjavík gæti fallið.
31. okt. Spár um bráðnun hafíssins sífellt dramatískari. Vegna fréttar Mbl um bráðnun hafíssins.
5. nóv. Vandræðaþjóðin Kúrdar. Nú gerast Kúrdar ágengir við Tyrki sem vilja stuðning USA í baráttunni gegn þeim. Á George Bush nú að snúa við þeim baki sem hann vildi áður verja?
7. nóv. Bjartari framtíð og hlýnandi loftslag? Enn fjalla ég um loftslagsmál. Hér er skrifað út frá grein á vefnum NASA Earth Observatory um hnattrænar hitamælingar og áhrif agnarmengunar á hitafar jarðar.
8. nóv. Umtalsverð vitleysa. Mitt mat á mati umhverfisstofnunar um að heildaráhrif Bitruvirkjunnar séu ekki umtalsverð.
10. nóv. Spáð í norðurljósin. Um það hvers vegna lítið hafi sést til norðurljósa og bent á vef sem birtir spár um norðurljós.
12. nóv. Hvað með vindorkuna? Hér er velt vöngum yfir vindorku og fjallað um nýja gerð túrbínuvindmylla.
16. nóv. Allt er í heiminum hverfullt. Til heiðurs Jónasi Hallgrímssyni á degi íslenskrar tungu.
17. nóv. Staðreyndir um staðreyndir. Vegna fréttar Mbl um nýja samantekt vísindanefndar sameinuðu þjóðanna. Skrifaði þetta eins og oft áður til að vega upp á móti skrifum efasemdarmanna um hlýnun af mannavöldum.
18. nóv. Horft til Esjunnar. Til heiðurs Esjunni sem endar á gönguferð á Esjuna. Myndaalbúm úr þeirri ferð fylgir.
19. nóv. Snjór síðustu 20 árin. Mikið bloggað þessa daga. En hver vill ekki sjá á einni mynd hvenær snjór hefur þakið jörð höfuðborgarinnar síðustu 20 ár? Hér hef ég útbúið þannig mynd útfrá eigin athugunum. (Föst síða)
22. nóv. Ísinn mættur á svæðið. Þarna var hafísinn orðinn nærgöngull við ísland og því kemur hér enn einn hafíspistillinn.
25. nóv. Þannig gæti Lækjargata 2 litið út. Um það hvernig ég vil sjá húsið að Lækjargötu 2 endurbyggt eftir brunann í vor. Sjón er sögu ríkari á hér vel við.
28. nóv. Landsynningi og útsynningi gerð skil. Hér er mikil lexía um veðurfræði þar sem þessi orð eru útskýrð fyrir landslýð. Einnig er fjallað um skil og fárast yfir að skilum séu gerð lítil skil í veðurfréttum.
1. des. Veðurfréttir. Stutt yfirlit yfir veðrið í nóvember, einkunnagjöf mánaðarins og aðeins um horfurnar til ársloka.
6. des. Um eldvirkni á Reykjanesskaga. Þarna er fjallað um helstu eldstöðvarnar á Reykjanesskaga og fjallað um hvað gerðist þarna á fyrstu öldum eftir landnám. Einnig velti ég vöngum yfir afleiðingum þess ef eldvirkni tekur sig upp á ný, sem gæti alveg gerst á næstunni.
9. des. Göngustígur við Eiðsgranda. Pistill í tilefni af því að eina ferðina enn hefur þurft að gera við göngustíginn þarna vegna sjávargangs.
11. des. Um Hverfisgötuna. Er Hverfisgatan falleg gata eða ekki? Hér er heilmikil ljósmyndasería sem gæti fengið marga til að sjá götuna í nýju ljósi.
13. des. Af desemberóveðrum. Mikið gekk á í veðrinu um þetta leyti en hér er þó aðallega verið að rifja upp hvað gerðist í desember 2006 sem var ekki síður merkilegt.
14. des. Þrumu-útsynningur. Skrifað í tilefni þess að sást til eldinga SV-lands.
18. des. Valdabarátta heita og kalda loftsins. Enn ein veðurfærslan og nú um harða baráttu heitra og kaldra loftmassa hér við land.
22. des. Vetrarsólstöður, sólin og jólin. Er það tilviljun að sólin sest bakvið Keili við vetrarsólstöður séð frá Reykjavík? Í goðadýrkun ásatrúarinnar gegndi sólin miklu hlutverki, og ýmsir viðmiðunarpunktar í landslagi voru notaðir sem sólaralmanak. Á kristin trú sér sömu fornu rætur og önnur trúarbrögð þar sem vetrarsólstöður tákna fæðingu nýs frelsara?
24. des. Jólatunglið yfir Esjunni. Skrifað um jólatunglið sem skartaði sínu fegursta yfir Esjunni og miðbænum á Þorláksmessu.
25. des. Appelsínugul jól á vefmyndavél. Í hríðarveðri á jóladag urðu jólin appelsínugul á vefmyndavél Veðurstofunnar.
28. des. Hlýjasti áratugurinn. Fyrsti áratugur þessarar aldar stefnir í að verða sá hlýjasti í Reykjavík frá upphafi mælinga. Hér er dálítið fjallað um þessi hlýindi og súlurit sýnir samanburðinn við fyrri áratugi.
Þannig lítur þetta út lesendur góðir, síðasta bloggfærslan er svo náttúrulega þessi sjálf. Ég þakka öll innlit og ábendingar. Þótt traffíkinn á síðunni hafi aldrei verið gríðarleg og verður það sjálfsagt ekki þá mun ég halda þessu áfram um sinn, allavega meðan hægt er að gera eitthvað veður útaf hlutunum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.